Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lasarus reistur upp frá dauðum

Lasarus reistur upp frá dauðum

Kafli 91

Lasarus reistur upp frá dauðum

NÚ ERU Jesús og þeir sem með honum eru komnir að gröf Lasarusar sem er raunar grafhellir með steini fyrir. „Takið steininn frá!“ segir Jesús.

Marta andmælir því hún skilur ekki enn hvað Jesús hyggst fyrir. „Herra, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag,“ segir hún.

En Jesús spyr: „Sagði ég þér ekki: ‚Ef þú trúir, munt þú sjá dýrð Guðs‘?“

Steinninn er þá tekinn frá. Jesús horfir til himins og biður: „Faðir, ég þakka þér, að þú hefur bænheyrt mig. Ég vissi að sönnu, að þú heyrir mig ávallt, en ég sagði þetta vegna mannfjöldans, sem stendur hér umhverfis, til þess að þeir trúi, að þú hafir sent mig.“ Jesús biður í allra áheyrn svo að fólk viti að það sem hann er í þann mund að gera er unnið með mætti Guðs. Síðan hrópar hann hárri röddu: „Lasarus, kom út!“

Og Lasarus kemur út. Hendur hans og fætur eru enn bundnir líkblæjum og dúkur um andlit hans. „Leysið hann og látið hann fara,“ segir Jesús.

Margir Gyðingar, sem eru komnir til að hugga Maríu og Mörtu, taka trú á Jesú þegar þeir sjá kraftaverkið. Aðrir fara hins vegar til að segja faríseunum hvað gerst hafi. Æðstuprestarnir og farísearnir kalla þegar í stað saman æðstaráðið, hæstarétt Gyðinga.

Í æðstaráðinu situr æðstipresturinn Kaífas, farísear, saddúkear, höfuðprestar (nefndir æðstuprestarnir í íslensku biblíunni) og fyrrverandi æðstuprestar. Þeir kvarta: „Hvað eigum vér að gjöra? Þessi maður gjörir mörg tákn. Ef vér leyfum honum að halda svo áfram, munu allir trúa á hann, og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm vorn og þjóð.“

Trúarleiðtogarnir viðurkenna að vísu að Jesús ‚geri mörg tákn,‘ en samt hugsa þeir ekki um annað en völd sín og stöðu. Upprisa Lasarusar er sérstaklega mikið áfall fyrir saddúkeana því að þeir trúa ekki á upprisuna.

Kaífas, sem er ef til vill saddúkei, tekur nú til máls og segir: „Þér vitið ekkert og hugsið ekkert um það, að yður er betra, að einn maður deyi fyrir lýðinn, en að öll þjóðin tortímist.“

Það er Guð sem lætur Kaífas segja þetta því að Jóhannes postuli skrifaði síðar: „Þetta sagði [Kaífas] ekki af sjálfum sér.“ Það sem Kaífas átti við var að Jesús skyldi drepinn til að koma í veg fyrir að hann græfi meira undan völdum þeirra og áhrifum. En að sögn Jóhannesar ‚spáði Kaífas því að Jesús mundi deyja, ekki fyrir þjóðina eina heldur og til að safna saman börnum Guðs.‘ Og vissulega er það tilgangur Guðs að sonur hans deyi sem lausnargjald fyrir alla.

Kaífasi tekst nú að fá æðstaráðið til að leggja á ráðin um að drepa Jesú. En Jesús fer burt af svæðinu. Vera má að Nikódemus, sem á sæti í æðstaráðinu og er honum vinveittur, hafi gert honum viðvart. Jóhannes 11:38-54.

▪ Af hverju biðst Jesús fyrir í allra áheyrn áður en hann reisir Lasarus upp frá dauðum?

▪ Hver eru viðbrögð þeirra sem verða vitni að upprisunni?

▪ Hvernig kemur vonska æðstaráðsmanna fram?

▪ Hvað hafði Kaífas í hyggju en hverju lét Guð hann spá?