Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leiddur fyrir Annas og Kaífas

Leiddur fyrir Annas og Kaífas

Kafli 119

Leiddur fyrir Annas og Kaífas

JESÚS er leiddur bundinn eins og ótíndur glæpamaður fyrir hinn áhrifamikla Annas sem var æðstiprestur þegar Jesús, 12 ára gamall, gerði rabbínakennarana í musterinu forviða. Nokkrir synir Annasar þjónuðu síðar sem æðstuprestar og núna gegnir Kaífas, tengdasonur hans, embættinu.

Sennilega er farið fyrst með Jesú heim til Annasar vegna þess hve lengi Annas hefur gegnt stóru hlutverki í trúarlífi Gyðinga. Þessi viðkoma hjá Annasi gefur Kaífasi æðstapresti ráðrúm til að kalla saman æðstaráðið, sem er hæstiréttur Gyðinga og skipað 71 manni, og til að finna ljúgvotta.

Annas prestur spyr Jesú um lærisveina hans og kenningu, en Jesús svarar: „Ég hef talað opinskátt í áheyrn heimsins. Ég hef ætíð kennt í samkundunni og í helgidóminum, þar sem allir Gyðingar safnast saman, en í leynum hef ég ekkert talað. Hví spyr þú mig? Spyrðu þá, sem heyrt hafa, hvað ég hef við þá talað. Þeir vita hvað ég hef sagt.“

Varðmaður, sem stendur hjá Jesú, rekur honum þá löðrung og spyr: „Svarar þú æðsta prestinum svona?“

„Hafi ég illa mælt, þá sanna þú, að svo hafi verið, en hafi ég rétt að mæla, hví slær þú mig?“ svarar Jesús. Eftir þessi orðaskipti sendir Annas Jesú bundinn til Kaífasar.

Nú eru allir höfuðprestarnir, öldungarnir og fræðimennirnir, já, allt æðstaráðið að tínast saman, að öllum líkindum á heimili Kaífasar. Það er skýrt brot á lögum Gyðinga að rétta í máli manns á páskanótt en það hindrar trúarleiðtogana ekki í vonskuverki sínu.

Mörgum vikum áður, þegar Jesús reisti Lasarus upp frá dauðum, hafði æðstaráðið sameinast um að dæma Jesú til dauða. Og aðeins tveir dagar eru síðan trúarleiðtogarnir réðu ráðum sínum um að handsama Jesú með svikum til að taka hann af lífi. Hugsaðu þér — það var búið að dæma Jesú fyrirfram, áður en hann var leiddur fyrir rétt!

Nú er reynt að finna menn til að bera ljúgvitni sem byggja megi á sakamál gegn Jesú en engir finnast sem ber saman í framburði sínum. Loks koma tveir sem staðhæfa: „Vér heyrðum hann segja: ‚Ég mun brjóta niður musteri þetta, sem með höndum er gjört, og reisa annað á þrem dögum, sem ekki er með höndum gjört.‘“

„Svarar þú því engu, sem þessir vitna gegn þér?“ spyr Kaífas. En Jesús þegir. Æðstaráðinu til háðungar kemur vitnunum ekki einu sinni saman um þessa falskæru. Æðstipresturinn breytir því um aðferð.

Kaífas veit hve viðkvæmir Gyðingar eru fyrir því ef einhver segist vera sonur Guðs. Tvívegis áður höfðu þeir í fljótfærni kallað Jesú dauðasekan guðlastara. Í annað skiptið ímynduðu þeir sér ranglega að hann hafi sagst vera jafn Guði. Nú segir Kaífas með slægð: „Ég særi þig við lifandi Guð, segðu oss: Ertu Kristur, sonur Guðs?“

Hvað sem Gyðingar halda er Jesús í raun og veru sonur Guðs. Ef hann þegði mætti túlka það svo að hann væri að neita því að hann sé Kristur. Hann svarar því hugrakkur: „Ég er sá, og þér munuð sjá Mannssoninn sitja til hægri handar máttarins og koma í skýjum himins.“

Þá rífur Kaífas klæði sín með tilþrifum og hrópar: „Hann guðlastar, hvað þurfum vér nú framar votta við? Þér heyrðuð guðlastið. Hvað líst yður?“

„Hann er dauðasekur,“ lýsir æðstaráðið yfir. Síðan taka menn að hæðast að honum og svívirða hann. Þeir slá hann í andlitið og hrækja framan í hann. Aðrir hylja andlit hans, slá hann með hnefum og segja hæðnislega: „Spáðu nú, Kristur, hver var að slá þig?“ Þessi svívirða og lögleysa á sér stað við næturréttarhöldin. Matteus 26:57-68; 26:3, 4; Markús 14:53-65; Lúkas 22:54, 63-65; Jóhannes 18:13-24; 11:45-53; 10:31-39; 5:16-18.

▪ Hvert er fyrst farið með Jesú og hvað gerist þar?

▪ Hvert er síðan farið með Jesú og í hvaða tilgangi?

▪ Hvernig tekst Kaífasi að fá æðstaráðið til að lýsa Jesú dauðasekan?

▪ Hvaða svívirða og lögleysa á sér stað við réttarhöldin?