Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Liðsforingi sýnir mikla trú

Liðsforingi sýnir mikla trú

Kafli 36

Liðsforingi sýnir mikla trú

ÞJÓNUSTA Jesú meðal fólks er næstum hálfnuð þegar hann flytur fjallræðuna. Hann á nú aðeins eitt ár og níu mánuði eftir til að ljúka starfi sínu á jörð.

Jesús kemur nú til Kapernaum sem er eins konar starfsbækistöð hans. Þar koma öldungar Gyðinga að máli við hann og biðja hann nokkurs. Þeir eru sendir af hundraðshöfðingja eða liðsforingja í rómverska hernum sem ekki er Gyðingur.

Liðsforingi þessi á þjón sem hann metur mjög mikils og þjónninn er að deyja úr alvarlegum sjúkdómi. Maðurinn vill að Jesús lækni þjón sinn. Gyðingar sárbæna Jesú fyrir hönd liðsforingjans: „Verður er hann þess, að þú veitir honum þetta, því að hann elskar þjóð vora, og hann hefur reist samkunduna handa oss.“

Jesús fer með mönnunum án þess að hika. En þegar þeir nálgast heimili liðsforingjans sendir hann vini til móts við Jesú og lætur segja honum: „Ómaka þig ekki, herra, því að ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt. Þess vegna hef ég ekki heldur talið sjálfan mig verðan þess að koma til þín.“

Þetta ber vott um mikla auðmýkt af hálfu liðsforingja sem er vanur að skipa öðrum fyrir. En hann er sennilega líka að hugsa um Jesú og gerir sér ljóst að samkvæmt venju má Gyðingur ekki eiga félagslegt samneyti við menn af öðrum þjóðum. Jafnvel Pétur sagði: „Þér vitið, að Gyðingi er bannað að eiga samneyti við annarrar þjóðar mann eða koma til hans.“

Liðsforinginn vill ekki að Jesús þurfi að líða fyrir að brjóta þessa siðvenju og lætur því vini sína biðja hann: „Mæl þú eitt orð, og mun sveinn minn heill verða. Því að sjálfur er ég maður, sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum, og ég segi við einn: ‚Far þú,‘ og hann fer, og við annan: ‚Kom þú,‘ og hann kemur, og við þjón minn: ‚Gjör þetta,‘ og hann gjörir það.“

Jesús undrast er hann heyrir þetta. „Sannlega segi ég yður, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael,“ segir hann. Eftir að hafa læknað þjón liðsforingjans notar Jesús tækifærið til að segja frá því hvernig trúaðir menn, sem ekki eru Gyðingar, öðlist blessun sem trúlausir Gyðingar hafni.

„Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki, en synir ríkisins munu út reknir í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.“

„Synir ríkisins . . . reknir í ystu myrkur“ eru bókstaflegir Gyðingar sem stóð fyrst til boða að verða meðstjórnendur Krists en þáðu það ekki. Abraham, Ísak og Jakob tákna guðsríkisfyrirkomulagið. Jesús er því að segja að mönnum af þjóðunum verði boðið að sitja við himneskt borð, ef svo má segja, „í himnaríki.“ Lúkas 7:1-10; Matteus 8:5-13; Postulasagan 10:28.

▪ Hvað biðja Gyðingar um í þágu heiðins liðsforingja?

▪ Hvað kann að skýra hvers vegna liðsforinginn býður Jesú ekki að ganga í hús sitt?

▪ Hvað á Jesús við með lokaorðum sínum?