Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Margir lærisveinar hætta að fylgja Jesú

Margir lærisveinar hætta að fylgja Jesú

Kafli 55

Margir lærisveinar hætta að fylgja Jesú

Í SAMKUNDUHÚSI einu í Kapernaum talar Jesús um sjálfan sig sem hið sanna brauð af himni. Ræða hans er greinilega framhald af því sem hann sagði fólkinu þegar það fann hann eftir komuna frá austurströnd Galíleuvatns, en þar hafði það borðað brauð og fisk sem hann lét í té með kraftaverki.

Jesús heldur áfram og segir: „Brauðið, sem ég mun gefa, er hold mitt, heiminum til lífs.“ Aðeins tveim árum áður, vorið 30, hafði hann sagt Nikódemusi að Guð elskaði heiminn svo heitt að hann hefði gefið son sinn sem frelsara. Jesús er því að sýna fram á að hver sá maður geti öðlast eilíft líf sem borði hold hans í táknrænum skilningi með því að trúa á fórnina sem hann færir bráðlega.

En fólkið hneykslast á orðum Jesú og spyr: „Hvernig getur þessi maður gefið oss hold sitt að eta?“ Jesús vill koma áheyrendum sínum í skilning um að þeir eigi að borða hold hans í táknrænni merkingu. Til að leggja áherslu á það segir hann nokkuð sem er enn hneykslanlegra sé það skilið bókstaflega:

„Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans, hafið þér ekki lífið í yður. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, hefur eilíft líf, og ég reisi hann upp á efsta degi. Hold mitt er sönn fæða, og blóð mitt er sannur drykkur. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, er í mér og ég í honum.“

Kenningar Jesú væru vissulega mjög fráhrindandi ef hann væri að hvetja til mannáts. En hann er auðvitað ekki að tala um að borða hold og drekka blóð í bókstaflegri merkingu. Hann er einfaldlega að leggja áherslu á að allir, sem fái eilíft líf, verði að iðka trú á fórnina sem hann á að færa þegar hann leggur fullkominn mannslíkama sinn í sölurnar og úthellir lífsblóði sínu. En margir af lærisveinum hans reyna ekki einu sinni að skilja hvað hann á við og andmæla: „Þung er þessi ræða. Hver getur hlustað á hana?“

Jesús veit að margir lærisveina hans eru óánægðir vegna orða hans og segir: „Hneykslar þetta yður? En ef þér sæjuð Mannssoninn stíga upp þangað, sem hann áður var? . . . Orðin, sem ég hef talað til yðar, þau eru andi og þau eru líf. En meðal yðar eru nokkrir, sem ekki trúa.“

Jesús bætir við: „Vegna þess sagði ég við yður: Enginn getur komið til mín, nema faðirinn veiti honum það.“ Eftir þetta fara margir af lærisveinum hans og hætta að fylgja honum. Jesús snýr sér þá að postulunum tólf og spyr: „Ætlið þér að fara líka?“

Pétur svarar: „Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs, og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs.“ Þetta er falleg hollustujátning, jafnvel þótt Pétur og hinir postularnir hafi kannski ekki skilið alveg það sem Jesús var að kenna.

Jesús gleðst yfir svari Péturs en segir þó: „Hef ég eigi sjálfur útvalið yður tólf? Þó er einn yðar djöfull.“ Hann er að tala um Júdas Ískaríot. Hugsanlegt er að Jesús hafi komið auga á ‚upphafið‘ að rangri stefnu Júdasar um þetta leyti.

Jesús er nýbúinn að valda fólki vonbrigðum með því að leyfa því ekki að gera sig að konungi, og það hugsar kannski með sér: ‚Hvernig getur þessi maður verið Messías fyrst hann vill ekki taka sér þá stöðu sem Messíasi ber?‘ Þetta hefur líka verið fólki ofarlega í huga. Jóhannes 6:51-71; 3:16.

▪ Fyrir hverja gefur Jesús hold sitt og hvernig ‚eta þeir hold hans‘?

▪ Hvað annað segir Jesús sem hneykslar fólk en hvað er hann að leggja áherslu á?

▪ Hver eru viðbrögð Péturs þegar margir hætta að fylgja Jesú?