Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Minningarhátíðin

Minningarhátíðin

Kafli 114

Minningarhátíðin

EFTIR að Jesús þvær fætur postulanna vitnar hann í Sálm 41:10 og segir: „Sá sem etur brauð mitt, lyftir hæli sínum móti mér.“ Síðan verður honum mjög þungt um hjarta og hann segir: „Einn af yður mun svíkja mig.“

Postularnir verða hryggir við og segja við hann einn af öðrum: „Ekki er það ég?“ Jafnvel Júdas Ískaríot tekur undir. Jóhannes, sem liggur næstur Jesú við borðið, hallar sér að brjósti hans og spyr: „Herra, hver er það?“

„Það er einn þeirra tólf. Hann dýfir í sama fat og ég,“ svarar Jesús. „Mannssonurinn fer að sönnu héðan, svo sem um hann er ritað, en vei þeim manni, sem því veldur, að Mannssonurinn verður framseldur. Betra væri þeim manni að hafa aldrei fæðst.“ Eftir þetta fer Satan aftur í Júdas og notfærir sér að hann er orðinn illur í hjarta sér og hefur opnað það fyrir honum. Síðar um kvöldið kallar Jesús Júdas réttilega ‚son glötunarinnar.‘

Jesús segir nú Júdasi: „Það sem þú gjörir, það gjör þú skjótt!“ Enginn hinna postulanna veit hvað Jesús á við. Þar eð Júdas sér um sameiginlegan sjóð þeirra halda sumir að Jesús hafi sagt við hann: „Kauptu það, sem vér þurfum til hátíðarinnar“ eða að hann skyldi gefa eitthvað fátækum.

Eftir að Júdas er farinn stofnar Jesús til algerlega nýrrar hátíðar með trúföstu postulunum. Hann tekur brauð, fer með þakkarbæn, brýtur það, gefur þeim og segir: „Takið og etið.“ Síðan segir hann til skýringar: „Þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu.“

Þegar allir hafa borðað af brauðinu tekur Jesús vínbikar, líklega fjórða bikarinn sem notaður var við páskamáltíðina. Hann fer aftur með þakkarbæn, biður þá að drekka af honum og segir: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt.“

Þetta er því minningarhátíð um dauða Jesú. Hún skal haldin 14. nísan ár hvert til minningar um hann eins og hann segir. Hún minnir þátttakendur á hvað Jesús og himneskur faðir hans hafa gert til að opna mannkyninu leið til að komast undan fordæmingu dauðans. Hjá Gyðingum, sem gerast fylgjendur Jesú, kemur hátíðin í stað páskanna.

Nýi sáttmálinn er fullgiltur með úthelltu blóði Jesú og kemur í stað gamla lagasáttmálans. Jesús Kristur annast milligöngu hans milli tveggja aðila — Jehóva Guðs og 144.000 andagetinna kristinna manna. Auk þess að veita syndafyrirgefningu býður sáttmálinn upp á að mynduð sé himnesk þjóð konunga og presta. Matteus 26:21-29; Markús 14:18-25; Lúkas 22:19-23; Jóhannes 13:18-30; 17:12; 1. Korintubréf 5:7.

▪ Hvaða biblíuspádóm um einn af lærisveinum sínum vitnar Jesús í og hvernig heimfærir hann spádóminn?

▪ Af hverju verða postularnir mjög hryggir og um hvað spyrja þeir allir?

▪ Hvað segir Jesús Júdasi að gera en hvernig túlka hinir postularnir fyrirmæli hans?

▪ Til hvaða hátíðar stofnar Jesús eftir að Júdas er farinn og hvaða tilgangi þjónar hún?

▪ Milli hverra er nýi sáttmálinn gerður og hverju áorkar hann?