Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Miskunnarferð til Júdeu

Miskunnarferð til Júdeu

Kafli 89

Miskunnarferð til Júdeu

Á VÍGSLUHÁTÍÐINNI í Jerúsalem, nokkrum vikum áður, höfðu Gyðingar reynt að drepa Jesú. Hann hélt því norður á bóginn. að því er virðist á svæði skammt frá Galíleuvatni.

Nú er hann aftur á suðurleið til Jerúsalem og hefur prédikað á leiðinni í þorpunum í Pereu, héraði austan við Jórdan. Eftir að hafa sagt dæmisöguna um ríka manninn og Lasarus minnir hann lærisveinana á margt sem hann hafði áður kennt í Galíleu.

Hann segir til dæmis að það sé betra „að hafa mylnustein um hálsinn og vera varpað í hafið“ en að tæla einn af „smælingjum“ Guðs til falls. Hann leggur líka áherslu á hve mikilvægt sé að fyrirgefa og segir: „Þótt [bróðir þinn] misgjöri við þig sjö sinnum á dag og snúi sjö sinnum aftur til þín og segi: ‚Ég iðrast,‘ þá skalt þú fyrirgefa honum.“

Þegar lærisveinarnir biðja: „Auk oss trú!“ svarar Jesús: „Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn, gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: ‚Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum,‘ og það mundi hlýða yður.“ Jafnvel örlítil trú getur áorkað miklu.

Nú lýsir Jesús aðstæðum úr daglega lífinu sem sýna hvernig þjónn hins alvalda Guðs á að hugsa: „Hafi einhver yðar þjón, er plægir eða hirðir fénað, segir hann þá við hann, þegar hann kemur inn af akri: ‚Kom þegar og set þig til borðs‘? Segir hann ekki fremur við hann: ‚Bú þú mér kvöldverð, gyrð þig og þjóna mér, meðan ég et og drekk, síðan getur þú etið og drukkið.‘ Og er hann þakklátur þjóni sínum fyrir að gjöra það, sem boðið var? Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gjört allt, sem yður var boðið: ‚Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra.‘“ Þjónar Guðs ættu því aldrei að láta sér finnast að þeir séu að gera Guði greiða með því að þjóna honum. Þeir ættu alltaf að hafa hugfast að það eru sérréttindi að tilbiðja hann og þjóna honum sem trúir heimilismenn.

Nú ber sendiboða að garði, líklega stuttu eftir að Jesús segir þessa dæmisögu. Hann er sendur af Maríu og Mörtu, systrum Lasarusar, sem búa í Betaníu í Júdeu. „Herra, sá sem þú elskar, er sjúkur,“ segir sendiboðinn.

Jesús svarar: „Þessi sótt er ekki banvæn, heldur Guði til dýrðar, að Guðs sonur vegsamist hennar vegna.“ Jesús er um kyrrt í tvo daga en segir þá við lærisveinana: „Förum aftur til Júdeu.“ En þeir segja við hann: „Rabbí, nýlega voru Gyðingar að því komnir að grýta þig, og þú ætlar þangað aftur?“

„Eru ekki stundir dagsins tólf?“ spyr Jesús þá. „Sá sem gengur um að degi, hrasar ekki, því hann sér ljós þessa heims. En sá sem gengur um að nóttu, hrasar, því hann hefur ekki ljósið í sér.“

Jesús á greinilega við að „stundir dagsins,“ eða sá tími sem Guð hefur úthlutað honum til þjónustu á jörð, séu enn ekki liðnar og að enginn geti unnið honum mein fyrr en þá. Hann þarf að nota til fullnustu það sem eftir lifir ‚dags‘ því að síðan kemur ‚nótt‘ þegar óvinir hans ráða honum bana.

Hann bætir við: „Lasarus, vinur vor, er sofnaður. En nú fer ég að vekja hann.“

Lærisveinarnir halda greinilega að Lasarus sofi eðlilegum svefni og að það sé batamerki. Þess vegna svara þeir: „Herra, ef hann er sofnaður, batnar honum.“

Þá segir Jesús þeim berum orðum: „Lasarus er dáinn, og yðar vegna fagna ég því, að ég var þar ekki, til þess að þér skuluð trúa. En förum nú til hans.“

Tómasi er ljóst að það getur kostað Jesú lífið að fara til Júdeu, en hann vill styðja hann og hvetur því hina lærisveinana: „Vér skulum fara líka til að deyja með honum.“ Þeir setja sig því í lífshættu með því að fara með Jesú í þessa miskunnarferð til Júdeu. Lúkas 13:22; 17:1-10; Jóhannes 10:22, 31, 40-42; 11:1-16.

▪ Hvar hefur Jesús prédikað upp á síðkastið?

▪ Hvað endurtekur Jesús og hvað sýnir hann fram á með því að benda á aðstæður úr daglega lífinu?

▪ Hvaða fréttir fær Jesús og hvað á hann við með „degi“ og ‚nóttu‘?

▪ Hvað á Tómas við þegar hann segir: ‚Við skulum fara til að deyja með honum‘?