Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Morð í afmælisveislu

Morð í afmælisveislu

Kafli 51

Morð í afmælisveislu

ÞEGAR Jesús hefur leiðbeint postulum sínum sendir hann þá tvo og tvo út á starfssvæðið. Líklegt er að bræðurnir Pétur og Andrés starfi saman, bræðurnir Jakob og Jóhannes, og svo þeir Filippus og Bartólómeus, Tómas og Matteus, Jakob og Taddeus og svo Símon og Júdas Ískaríot. Þessir boðberar flytja fagnaðarerindið um ríkið og lækna með kraftaverkum hvar sem þeir eru á ferð.

Jóhannes skírari er enn í fangelsi og hefur setið þar í næstum tvö ár. Þú manst kannski að Jóhannes hafði lýst opinberlega yfir að það væri rangt af Heródesi Antípasi að taka sér Heródías, konu Filippusar bróður síns, fyrir eiginkonu. Heródes Antípas sagðist fylgja Móselögunum þannig að Jóhannes hafði réttilega afhjúpað þetta siðlausa samband. Heródes lét því varpa Jóhannesi í fangelsi, ef til vill að áeggjan Heródíasar.

Heródes Antípas veit að Jóhannes er réttlátur maður og hlustar gjarnan á hann, en hefur ekki hugmynd um hvað hann á að gera við hann. Heródías hatar Jóhannes aftur á móti og reynir að fá hann drepinn. Loks fær hún tækifærið sem hún hefur beðið eftir.

Skömmu fyrir páska árið 32 heldur Heródes mikla veislu í tilefni af afmæli sínu. Þar eru saman komnir æðstu embættismenn hans og hershöfðingjar ásamt fyrirmönnum Galíleu. Er líður á kvöld er Salóme, hin unga dóttir Heródíasar sem hún átti með fyrri eiginmanni sínum Filippusi, send inn til að dansa fyrir gesti. Karlmennirnir eru heillaðir af frammistöðu hennar.

Heródes er hinn ánægðasti með Salóme. „Bið mig hvers þú vilt, og mun ég veita þér,“ segir hann. Hann sver henni meira að segja: „Hvað sem þú biður um, það mun ég veita þér, allt að helmingi ríkis míns.“

Salóme ráðfærir sig við móður sína áður en hún svarar. „Um hvað á ég að biðja?“ spyr hún.

Loksins kemur tækifærið! „Höfuð Jóhannesar skírara,“ svarar Heródías hiklaust.

Salóme skundar aftur til Heródesar og biður: „Gef mér þegar á fati höfuð Jóhannesar skírara.“

Heródes er miður sín. En gestirnir heyrðu hann sverja eiðinn og honum finnst hann verða að halda hann, jafnvel þótt hann þurfi að myrða saklausan mann. Böðull er þegar í stað sendur í fangelsið með fyrirmæli um að vinna þetta voðaverk. Skömmu síðar kemur hann aftur með höfuð Jóhannesar á fati og afhendir það Salóme en hún færir það móður sinni. Þegar lærisveinar Jóhannesar frétta hvað gerst hefur sækja þeir lík hans og greftra og segja síðan Jesú frá.

Síðar, þegar Heródes fréttir að Jesús sé að lækna fólk og reka út illa anda, verður hann hræddur því að hann óttast að Jesús sé Jóhannes upprisinn frá dauðum. Hann fýsir mjög að sjá Jesú, ekki til að heyra hann prédika heldur til að fá staðfest hvort ótti sinn sé á rökum reistur eða ekki. Matteus 10:1-5; 11:1; 14:1-12; Markús 6:14-29; Lúkas 9:7-9.

▪ Af hverju situr Jóhannes í fangelsi og hvers vegna vill Heródes ekki lífláta hann?

▪ Hvernig tekst Heródías loks að fá Jóhannes drepinn?

▪ Hvers vegna fýsir Heródes að sjá Jesú eftir dauða Jóhannesar?