Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Nánari leiðbeiningar frá Jesú

Nánari leiðbeiningar frá Jesú

Kafli 63

Nánari leiðbeiningar frá Jesú

MEÐAN Jesús og postularnir eru í húsinu í Kapernaum er rætt um fleira en deilu postulanna um það hver sé þeirra mestur. Þeir ræða um atburð sem kann einnig að hafa gerst á heimleiðinni til Kapernaum þegar Jesús var ekki sjálfur nærstaddur. Jóhannes postuli segir svo frá: „Vér sáum mann reka út illa anda í þínu nafni, og vildum vér varna honum þess, af því að hann fylgdi oss ekki.“

Jóhannes virðist líta svo á að postularnir hafi einkarétt á því að lækna. Honum finnst maðurinn alls ekki hafa leyfi til að vinna kraftaverk fyrst hann er ekki einn af hópnum.

Jesús áminnir hins vegar: „Varnið honum þess ekki, því að enginn er sá, að hann gjöri kraftaverk í mínu nafni og geti þegar á eftir talað illa um mig. Sá sem er ekki á móti oss, er með oss. Hver sem gefur yður bikar vatns að drekka, vegna þess að þér eruð Krists, sannlega segi ég yður, hann mun alls ekki missa af launum sínum.“

Þessi maður þurfti ekki að ferðast bókstaflega með Jesú til að vera hans megin. Kristni söfnuðurinn var enn ekki stofnaður, þannig að hann tilheyrði ekki endilega einhverjum öðrum söfnuði þótt hann væri ekki einn af hópnum. Maðurinn trúði virkilega á nafn Jesú og tókst þar af leiðandi að reka út illa anda. Það sem hann gerði var umbunarvert og Jesús bendir á að hann missi ekki af launum sínum fyrir það.

En hvað nú ef orð eða framkoma postulanna hneykslaði manninn? Það væri háalvarlegt mál. Jesús segir: „Hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem trúa, væri betra að vera varpað í hafið með mylnustein um hálsinn.“

Jesús segir að fylgjendur hans eigi að losa sig við hvaðeina sem geti orðið þeim að falli, þótt það sé þeim jafnkært og hönd, fótur eða auga. Það er betra að komast inn í Guðsríki án slíkra verðmæta en að halda í þau og verða kastað í Gehenna (logandi sorphaug í grennd við Jerúsalem) sem táknar eilífa tortímingu.

Jesús heldur áfram í varnaðartón: „Varist að forsmá nokkurn þessara smælingja. Ég segi yður, að englar þeirra á himnum sjá jafnan auglit míns himneska föður.“ Síðan tekur hann dæmi til að lýsa því hve dýrmætir þessir ‚smælingjar‘ séu. Hann segir frá manni sem á hundrað sauði en týnir einum. Hann skilur hina 99 eftir til að leita þess týnda, og þegar hann finnur hann gleðst hann meira yfir honum en hinum 99. „Þannig er það eigi vilji yðar himneska föður, að nokkur þessara smælingja glatist,“ segir Jesús.

Jesús er ef til vill að hugsa um deilu postulanna þegar hann hvetur þá: „Hafið salt í sjálfum yður, og haldið frið yðar á milli.“ Daufur matur bragðast betur ef hann er saltaður. Það er auðveldara að meðtaka orð manns ef þau eru söltuð táknrænu salti. Að hafa slíkt salt í sér stuðlar að friði.

Mannlegur ófullkomleiki veldur stundum alvarlegu ósætti. Jesús gefur einnig leiðbeiningar um hvernig skuli útkljá það. „Ef bróðir þinn syndgar gegn þér, skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli,“ segir Jesús. „Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn.“ Láti hann sér ekki segjast „skaltu taka með þér einn eða tvo, að ‚hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna,‘“ ráðleggur Jesús.

Síðasta úrræðið er að leggja málið fyrir ‚söfnuðinn,‘ það er að segja ábyrga umsjónarmenn safnaðarins sem geta fellt dóm. Ef syndarinn hlítir ekki úrskurði þeirra, „þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður,“ segir Jesús.

Þegar umsjónarmennirnir taka slíka ákvörðun þurfa þeir að halda sér fast við leiðbeiningar orðs Jehóva. Ef þeir komast að raun um að einhver er sekur og verðskuldar refsingu er dómurinn þegar ‚bundinn á himni.‘ Og það sem þeir ‚leysa á jörðu,‘ það er að segja þegar þeir komast að raun um sakleysi manns, hefur þegar verið „leyst á himni.“ „Hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra,“ segir Jesús og á þá við slík dómsmál. Matteus 18:6-20; Markús 9:38-50; Lúkas 9:49, 50.

▪ Af hverju var ekki nauðsynlegt að vera í för með Jesú á hans dögum?

▪ Hve alvarlegt mál er það að hneyksla smælingja og hvernig lýsir Jesús með dæmi hve dýrmætir þeir séu?

▪ Hver er sennilega kveikjan að hvatningu Jesú til postulanna um að hafa salt í sjálfum sér?

▪ Hvað merkir það að ‚binda‘ og ‚leysa‘?