Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Pétur afneitar Jesú

Pétur afneitar Jesú

Kafli 120

Pétur afneitar Jesú

PÉTUR og Jóhannes höfðu yfirgefið Jesú í Getsemanegarðinum og flúið óttaslegnir ásamt hinum postulunum en snúa svo við. Ef til vill draga þeir Jesú uppi þegar farið er með hann til Annasar. Þegar Annas sendir hann til Kaífasar æðstaprests fylgja Pétur og Jóhannes álengdar. Þeir óttast greinilega um líf sitt en hafa jafnframt miklar áhyggjur af því hvað verði um herra þeirra.

Jóhannesi tekst að komast inn í hallargarð Kaífasar því að hann er kunnugur æðstaprestinum. Pétur bíður fyrir utan. Skömmu síðar kemur Jóhannes aftur og talar við þernu, sem gætir dyranna, og Pétri er hleypt inn fyrir.

Það er orðið kalt og húsþjónar og varðmenn æðstaprestsins hafa kveikt kolaeld. Pétur færir sig nær til að orna sér meðan hann bíður niðurstöðu réttarhaldanna yfir Jesú. Í bjarmanum frá eldinum sér þernan, sem hleypti Pétri inn, betur framan í hann. „Þú varst líka með Jesú frá Galíleu,“ hrópar hún.

Pétri bregður að hún skuli bera kennsl á hann og neitar því svo að allir heyra að hann þekki Jesú. „Ekki veit ég né skil, hvað þú ert að fara,“ segir hann.

Pétur gengur út í fordyrið og þar sér önnur þerna hann og segir við nærstadda: „Þessi var með Jesú frá Nasaret.“ Aftur neitar Pétur og sver þess eið að hann þekki manninn ekki.

Hann dokar við í hallargarðinum og reynir að láta sem minnst á sér bera. Kannski er það þá, áður en birtir af degi, sem hani galar og honum bregður við. En réttarhöldin yfir Jesú fara trúlega fram á efri hæð hússins sem snýr að hallargarðinum. Pétur og aðrir sem bíða fyrir neðan sjá eflaust hin ýmsu vitni koma og fara.

Um klukkustund er liðin síðan síðast var bent á að Pétur hefði verið með Jesú. Nú koma margir nærstaddra til hans og segja: „Víst ertu líka einn af þeim, enda segir málfæri þitt til þín.“ Einn þeirra er ættingi Malkusar sem Pétur hjó eyrað af. „Sá ég þig ekki í grasgarðinum með honum?“ spyr hann.

Pétur sver og sárt við leggur að hann þekki ekki manninn. Honum er svo mikið í mun að sannfæra fólkið um að því skjátlist að hann formælir sjálfum sér, það er að segja kallar yfir sig bölvun sé hann ekki að segja satt.

Um leið og Pétur afneitar Jesú í þriðja sinn galar hani. Jesús, sem er greinilega kominn út á svalirnar yfir hallargarðinum, snýr sér við á sama augnabliki og lítur á hann. Þá minnist Pétur þess sem Jesús sagði í loftsalnum fyrir aðeins nokkrum klukkustundum: „Áður en hani galar, muntu þrisvar afneita mér.“ Niðurbrotinn vegna syndar sinnar gengur Pétur út og grætur beisklega.

Hvernig gat þetta gerst? Hvernig gat Pétur afneitað herra sínum þrisvar í röð eftir að hafa verið svona sannfærður um andlegan styrk sinn? Eflaust komu atburðir kvöldsins Pétri að óvörum. Sannleikanum hefur verið rangsnúið og Jesús uppmálaður sem versti glæpamaður. Rétt er talið rangt og saklaus maður sekur. Pétur kiknar undan öllu álaginu og missir jafnvægið. Skyndilega bregst honum hollustan, sem er honum eiginleg, og hann lamast af ótta við menn. Megi það aldrei henda okkur! Matteus 26:57, 58, 69-75; Markús 14:30, 53, 54, 66-72; Lúkas 22:54-62; Jóhannes 18:15-18, 25-27.

▪ Hvernig komast Pétur og Jóhannes inn í hallargarð æðstaprestsins?

▪ Hvað á sér stað í húsinu meðan Pétur og Jóhannes eru í hallargarðinum?

▪ Hve oft galar hani og hve oft neitar Pétur því að hann þekki Krist?

▪ Hvað merkir það að Pétur sverji og formæli sér?

▪ Hvað fær Pétur til að afneita Jesú?