Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Postularnir valdir

Postularnir valdir

Kafli 34

Postularnir valdir

NÚ ER um hálft annað ár liðið síðan Jóhannes skírari kynnti Jesú sem lamb Guðs og Jesús hóf þjónustu sína meðal almennings. Þeir Andrés, Símon Pétur, Jóhannes og kannski Jakob (bróðir Jóhannesar) gerðust þá fyrstu lærisveinar hans, og eins Filippus og Natanael (einnig kallaður Bartólómeus). Smám saman hafa margir fleiri bæst í hópinn.

Jesús er nú tilbúinn að velja postula sína. Þeir skulu vera nánustu starfsfélagar hans og fá sérstaka þjálfun. En áður en hann velur þá fer hann upp á fjall og er þar alla nóttina á bæn þar sem hann biður líklega um visku og blessun Guðs. Þegar dagur rennur kallar hann til sín lærisveinana og velur tólf úr þeirra hópi. Þeir eru þó eftir sem áður nemendur hans og kallast því enn lærisveinar.

Sex þeirra, sem Jesús velur, eru nefndir hér á undan og voru fyrstu lærisveinar hans. Matteus, sem Jesús kallaði frá tollbúðinni, er einnig valinn. Hinir fimm eru Júdas (líka nefndur Taddeus), Júdas Ískaríot, Símon vandlætari, Tómas og Jakob Alfeusson. Jakob þessi er einnig nefndur Jakob yngri eða litli, kannski af því að hann er lágvaxnari eða yngri en hinn postulinn sem heitir Jakob.

Þegar hér er komið sögu hafa þessir tólf verið með Jesú um tíma og hann þekkir þá vel. Margir þeirra eru reyndar skyldir honum. Jesús og bræðurnir Jakob og Jóhannes eru að öllum líkindum systrasynir. Og sennilega var Alfeus bróðir Jósefs, stjúpföður Jesú. Jakob postuli, sonur Alfeusar, og Jesús eru þá bræðrasynir.

Jesús á auðvitað ekki í minnstu vandræðum með að muna nöfn postula sinna. En manst þú þau? Þú þarft bara að muna að tveir hétu Símon, tveir Jakob og tveir Júdas, og að Símon átti bróður sem hét Andrés og Jakob bróður sem hét Jóhannes. Þannig manstu nöfnin á átta postulum. Hinir fjórir voru tollheimtumaður (Matteus), einn sem síðar efaðist (Tómas), einn sem var undir tré þegar hann var kallaður (Natanael) og svo Filippus vinur hans.

Ellefu af postulunum eru frá Galíleu, heimahéraði Jesú. Natanael er frá Kana, Filippus, Pétur og Andrés eru upphaflega frá Betsaídu en Pétur og Andrés fluttust síðar til Kapernaum þar sem Matteus virðist hafa búið. Jakob og Jóhannes voru fiskimenn og bjuggu líklega einnig í Kapernaum eða nágrenni. Júdas Ískaríot, sem síðar sveik Jesú, virðist hafa verið eini postulinn frá Júdeu. Markús 3:13-19; Lúkas 6:12-16.

▪ Hvaða postular kunna að hafa verið skyldir Jesú?

▪ Hvað heita postular Jesú og hvernig geturðu munað nöfnin?

▪ Hvaðan eru postularnir?