Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ráðleggingar til Mörtu og leiðbeiningar um bænina

Ráðleggingar til Mörtu og leiðbeiningar um bænina

Kafli 74

Ráðleggingar til Mörtu og leiðbeiningar um bænina

MEÐAN Jesús er að prédika í Júdeu kemur hann í þorpið Betaníu. Þar búa þær Marta, María og Lasarus bróðir þeirra. Ef til vill hefur Jesús hitt þau fyrr á þjónustu sinni og er nú þegar náinn vinur þeirra. Hvað sem því líður kemur hann á heimili Mörtu og er tekið með virktum.

Mörtu er mikið í mun að gera sem best við Jesú. Það er ekki lítill heiður að hafa hinn fyrirheitna Messías í heimsókn! Hún leggur sig því alla fram við að framreiða dýrindismáltíð og huga að öðru því sem gert getur dvöl Jesú ánægjulega og þægilega.

María systir Mörtu sest hins vegar við fætur Jesú og hlustar á hann. Að stundu liðinni kemur Marta til hans og segir: „Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.“

En Jesús vill ekki segja neitt slíkt við Maríu heldur minnir Mörtu á að hún megi ekki gera sér of miklar áhyggjur af matföngum. „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt,“ áminnir Jesús vingjarnlega. Hann er að segja að það sé óþarfi að eyða miklum tíma í að matbúa marga rétti. Fáeinir eða jafnvel einn nægir.

Mörtu gengur aðeins gott til; hún vill vera góður gestgjafi. En með öllum áhyggjum sínum af matföngunum missir hún af tækifærinu til að fá persónulega fræðslu frá sjálfum syni Guðs! Jesús segir því: „María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“

Við annað tækifæri biður lærisveinn nokkur Jesú: „Herra, kenn þú oss að biðja, eins og Jóhannes kenndi lærisveinum sínum.“ Vera má að þessi lærisveinn hafi ekki verið viðstaddur um hálfu öðru ári áður þegar Jesús kenndi fyrirmyndarbænina í fjallræðunni. Jesús endurtekur því leiðbeiningar sínar en bætir við dæmisögu til að leggja áherslu á hve nauðsynlegt sé að vera þolgóður í bæninni.

„Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: ‚Vinur, lánaðu mér þrjú brauð, því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.‘ Mundi hinn þá svara inni: ‚Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð‘? Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.“

Með þessari samlíkingu er Jesús ekki að gefa í skyn að Jehóva Guð sé ófús að svara bænum eins og vinurinn í sögunni. Hann er að sýna fram á að fyrst ófúsi vinurinn láti undan þrábeiðni hins þá hljóti ástríkur faðir okkar á himnum að vera miklu fúsari til þess! Jesús heldur því áfram: „Ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.“

Jesús bendir síðan á hvernig ófullkomnir, syndugir feður á jörðinni komi fram: „Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn, eða sporðdreka, ef hann biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ Jesús hvetur svo sannarlega til þolgæðis og þrautseigju í bæninni. Lúkas 10:38–11:13.

▪ Af hverju leggur Marta sig alla fram þegar Jesús kemur í heimsókn?

▪ Hvað gerir María og hvers vegna hrósar Jesús henni en ekki Mörtu?

▪ Hvers vegna endurtekur Jesús leiðbeiningar sínar um bænina?

▪ Hvernig sýnir Jesús fram á að það sé nauðsynlegt að vera þolgóður í bæninni?