Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ríki maðurinn og Lasarus

Ríki maðurinn og Lasarus

Kafli 88

Ríki maðurinn og Lasarus

JESÚS hefur verið að tala við lærisveina sína um rétta notkun efnislegra auðæfa, og hann hefur útskýrt að við getum ekki verið þjónar mammóns og samtímis þjónað Guði. Farísearnir hlusta líka á og gera gys að Jesú enda fégjarnir. Hann segir þeim þá: „Þér eruð þeir, sem réttlætið sjálfa yður í augum manna, en Guð þekkir hjörtu yðar. Því það, sem hátt er að dómi manna, er viðurstyggð í augum Guðs.“

Nú er kominn tími til að hagur þeirra sem eru ríkir að veraldlegum gæðum, pólitískum völdum og trúarlegum áhrifum snúist við. Nú verða þeir auðmýktir, en hinir upphafnir sem viðurkenna andlega þörf sína. Jesús bendir á slík umskipti þegar hann segir við faríseana:

„Lögmálið og spámennirnir ná fram til Jóhannesar [skírara]. Þaðan í frá er flutt fagnaðarerindi Guðs ríkis, og hver maður vill ryðjast þar inn. En það er auðveldara, að himinn og jörð líði undir lok, en einn stafkrókur lögmálsins falli úr gildi.“

Fræðimennirnir og farísearnir þykjast halda Móselögmálið og eru stoltir af. Þú manst að þegar Jesús vann það kraftaverk að veita blindum manni í Jerúsalem sjónina gortuðu þeir: „Vér erum lærisveinar Móse. Vér vitum, að Guð talaði við Móse.“ En nú hefur Móselögmálið uppfyllt þann tilgang sinn að leiða auðmjúka menn til hins útnefnda konungs Guðs, Jesú Krists. Frá því að Jóhannes hóf þjónustu sína hafa alls konar menn lagt sig fram um að verða þegnar Guðsríkis, einkum auðmjúkir og fátækir.

Nú eru Móselögin að uppfyllast svo að bráðlega verður ekki lengur skylt að halda þau. Lögmálið leyfir hjónaskilnað fyrir ýmsar sakir en nú segir Jesús: „Hver sem skilur við konu sína og gengur að eiga aðra, drýgir hór, og hver sem gengur að eiga konu, sem skilin er við mann, drýgir hór.“ Þessi yfirlýsing hlýtur að fara í taugarnar á faríseunum, einkum af því að þeir leyfa skilnað fyrir alls konar sakir.

Jesús heldur áfram að tala við faríseana og segir dæmisögu um tvo menn og aðstæður þeirra sem gerbreytast. Áttarðu þig á hverja mennirnir tákna og hvað breyttar aðstæður þeirra merkja?

„Einu sinni var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði,“ segir Jesús. „En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. Feginn vildi hann seðja sig á því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans.“

Ríki maðurinn táknar hér trúarleiðtoga Gyðinga, bæði farísea, saddúkea og æðstuprestana. Þeir eru ríkir að andlegum sérréttindum og tækifærum og haga sér eins og ríki maðurinn í dæmisögunni. Purpuralitu klæðin tákna forréttindastöðu þeirra og hvíta línið réttlætið sem þeir telja sig hafa.

Þessi drambsami hópur, sem ríki maðurinn táknar, fyrirlítur fátækan almenninginn og kallar hann ‛am ha’aʹrets eða fólk jarðarinnar. Betlarinn Lasarus táknar því fólkið sem trúarleiðtogarnir neita um holla, andlega næringu og sérréttindi. Eins og Lasarus er hlaðinn kaunum líta þeir niður á almenning sem andlega sjúkan og óverðugan að umgangast aðra en hunda. En Lasarusarhópinn hungrar og þyrstir í andlega næringu og bíður því við dyrnar eftir hverjum þeim fátæklegu molum andlegrar fæðu sem kunna að falla af borði ríka mannsins.

Jesús lýsir nú breytingu sem verður á stöðu ríka mannsins og Lasarusar. Hvaða breyting er það og hvað táknar hún?

Staða ríka mannsins og Lasarusar breytist

Ríki maðurinn táknar trúarleiðtogana sem njóta andlegra forréttinda og tækifæra, og Lasarus táknar almenning sem hungrar í andlega næringu. Jesús heldur nú sögunni áfram og lýsir algerum umskiptum sem verða á stöðu mannanna tveggja.

„En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn. Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans.“

Þar eð ríki maðurinn og Lasarus eru ekki bókstaflegir menn heldur tákna hópa manna, er rökrétt að dauði þeirra sé líka táknrænn. Hvað táknar hann?

Jesús er rétt áður búinn að benda á breyttar aðstæður með því að segja að ‚lögmálið og spámennirnir hafi náð fram til Jóhannesar skírara en þaðan í frá sé flutt fagnaðarerindi Guðs ríkis.‘ Það er því með prédikun Jóhannesar og Jesú Krists sem bæði ríki maðurinn og Lasarus deyja fyrri aðstæðum sínum.

Hinn auðmjúki, iðrunarfulli Lasarusarhópur deyr illum, andlegum kjörum sínum og öðlast velvild Guðs. Áður hafði hann sóst eftir því litla sem féll af andlegu borði trúarleiðtoganna, en nú fullnægja andleg sannindi frá Jesú þörfum hans. Hann er því fluttur í faðm eða hylli hins meiri Abrahams, Jehóva Guðs.

Hópurinn, sem ríki maðurinn táknar, hefur hins vegar bakað sér vanþóknun Guðs fyrir að neita þrákelknislega að taka við boðskapnum um Guðsríki sem Jesús kennir. Þar með deyr hann gagnvart þeirri velþóknunarstöðu sem hann virtist njóta. Meira að segja er því svo lýst að hann líði táknrænar kvalir. Taktu eftir orðum ríka mannsins:

„Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga.“ Hinn eldheiti dómsboðskapur Guðs, sem lærisveinar Jesú flytja, kvelur þá sem tilheyra hópi ríka mannsins. Þeir vilja að lærisveinarnir hætti að boða þennan boðskap svo að kvöl þeirra linni.

En „Abraham sagði: ‚Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst. Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor.‘“

Þessi algeru umskipti á stöðu Lasarusarhópsins og hópsins, sem ríki maðurinn táknar, eru réttlát og viðeigandi. Umskiptin fullkomnast fáeinum mánuðum síðar á hvítasunnunni árið 33 þegar gamli lagasáttmálinn víkur fyrir nýja sáttmálanum. Þá verður deginum ljósara að lærisveinarnir, ekki farísearnir og aðrir trúarleiðtogar, njóta hylli Guðs. Hið ‚mikla djúp‘ milli ríka mannsins táknræna og lærisveina Jesú táknar því óbreytanlegan og réttlátan dóm Guðs.

Ríki maðurinn biður nú ‚föður Abraham‘ að ‚senda Lasarus í hús föður síns því hann eigi fimm bræður.‘ Ríki maðurinn viðurkennir þannig að hann eigi nánara samband við annan föður sem er raunar Satan djöfullinn. Hann biður um að Lasarus útvatni dóm Guðs svo að „fimm bræður“ hans eða trúarlegir bandamenn lendi ekki líka á ‚þessum kvalastað.‘

„En Abraham segir: ‚Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim.‘“ Já, til að umflýja kvöl þurfa ‚bræðurnir fimm‘ aðeins að hlýða ritum Móse og spámannanna sem benda á að Jesús sé Messías, og gerast síðan lærisveinar hans. En ríki maðurinn mótmælir: „Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu, mundu þeir gjöra iðrun.“

En honum er sagt: „Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum.“ Guð gefur ekki sérstök tákn eða vinnur sérstök kraftaverk til að sannfæra fólk. Það verður að lesa Ritninguna og fara eftir henni til að öðlast hylli hans. Lúkas 16:14-31; Jóhannes 9:28, 29; Matteus 19:3-9; Galatabréfið 3:24; Kólossubréfið 2:14; Jóhannes 8:44.

▪ Af hverju hlýtur dauði ríka mannsins og Lasarusar að vera táknrænn og hvað táknar hann?

▪ Hvaða breytingar segir Jesús hafa átt sér stað með þjónustu Jóhannesar?

▪ Hvað er numið úr gildi eftir dauða Jesú og hvaða áhrif hefur það á hjónaskilnaði?

▪ Hverja tákna ríki maðurinn og Lasarus í dæmisögu Jesú?

▪ Hvað er það sem kvelur ríka manninn og hvað biður hann um til að lina kvöl sína?

▪ Hvað táknar ‚djúpið mikla‘?

▪ Hver er raunverulegur faðir ríka mannsins og hverja tákna bræður hans fimm?