Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sauðabyrgin og hirðirinn

Sauðabyrgin og hirðirinn

Kafli 80

Sauðabyrgin og hirðirinn

JESÚS er kominn til Jerúsalem til að halda vígsluhátíðina eða hanukka en hún var haldin til minningar um endurvígslu musteris Jehóva. Um 200 árum áður, árið 168 f.o.t., hernam Antíokos fjórði Epífanes Jerúsalem og vanhelgaði musterið og altarið. Þrem árum síðar náðu Gyðingar borginni á ný og musterið var endurvígt. Þaðan í frá var haldin árleg minningarhátíð um endurvígsluna.

Vígsluhátíðin er haldin 25. kislev sem samsvarar síðari hluta nóvember og fyrri hluta desember samkvæmt okkar tímatali. Það eru því aðeins ríflega hundrað dagar fram til hinna örlagaríku páska árið 33. Kalt er í veðri á þessum árstíma svo að Jóhannes postuli segir kominn „vetur.“

Jesús segir nú dæmisögu þar sem hann nefnir þrjú sauðabyrgi og hlutverk sitt sem góða hirðisins. Fyrsta sauðabyrgið, sem hann talar um, er sú skipan sem var samkvæmt lagasáttmála Móse. Lögmálið var eins og veggur umhverfis Gyðinga og hélt þeim aðgreindum frá spillandi hátterni þeirra þjóða sem ekki áttu aðild að þessum sérstaka sáttmála við Guð. Jesús segir: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem kemur ekki um dyrnar inn í sauðabyrgið, heldur fer yfir annars staðar, hann er þjófur og ræningi, en sá sem kemur inn um dyrnar, er hirðir sauðanna.“

Aðrir höfðu komið og sagst vera Messías eða Kristur, en þeir voru ekki hinn sanni hirðir sem Jesús talar um í framhaldinu: „Dyravörðurinn lýkur upp fyrir honum, og sauðirnir heyra raust hans, og hann kallar á sína sauði með nafni og leiðir þá út. . . . En ókunnugum fylgja þeir ekki, heldur flýja frá honum, því þeir þekkja ekki raust ókunnugra.“

„Dyravörðurinn“ í fyrsta sauðabyrginu var Jóhannes skírari. Hann ‚lauk upp‘ fyrir Jesú með því að benda þessum táknrænu sauðum, sem hann skyldi leiða í haga, á hann. Sauðunum, sem Jesús kallar með nafni og leiðir út, er að lokum hleypt inn í annað sauðabyrgi eins og hann útskýrir: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ég er dyr sauðanna,“ það er að segja dyr nýja sauðabyrgisins. Þegar Jesús gerir nýja sáttmálann við lærisveina sína og úthellir heilögum anda yfir þá af himni á næstu hvítasunnu er þeim hleypt inn í þetta nýja sauðabyrgi.

Jesús útskýrir hlutverk sitt nánar: „Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn um mig, mun frelsast, og hann mun ganga inn og út og finna haga. . . . Ég er kominn til þess, að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð. . . . Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig, eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina.“

Það er stutt síðan Jesús hughreysti fylgjendur sína og sagði: „Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið.“ Þessi litla hjörð, sem verður að lokum 144.000 manns, gengur inn í þetta nýja eða annað sauðabyrgi. En Jesús heldur áfram: „Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.“

Þar eð hinir ‚aðrir sauðir‘ eru „ekki úr þessu sauðabyrgi“ hlýtur þriðja sauðabyrgið að vera til. Sauðirnir í tveim síðastnefndu sauðabyrgjunum eiga sér ólíkt hlutskipti. ‚Litla hjörðin‘ í öðru sauðabyrginu á að stjórna með Kristi á himnum en hinir ‚aðrir sauðir‘ í hinu sauðabyrginu munu lifa í paradís á jörð. En þótt sauðabyrgin séu tvö eru sauðirnir ekki öfundsjúkir hver út í annan, og þeim finnst sér ekki skipt sundur því að þeir verða „ein hjörð,“ eins og Jesús segir, undir umsjón ‚eins hirðis.‘

Góði hirðirinn, Jesús Kristur, gefur líf sitt fúslega fyrir sauðina í báðum byrgjunum. ‚Ég legg það sjálfur í sölurnar,‘ segir hann. „Ég hef vald til að leggja það í sölurnar og vald til að taka það aftur. Þessa skipan fékk ég frá föður mínum.“ Þegar Jesús segir þetta verður ágreiningur meðal Gyðinga.

Margir áheyrenda hans segja: „Hann hefur illan anda og er genginn af vitinu. Hvað eruð þér að hlusta á hann?“ Aðrir segja: „Þessi orð mælir enginn sá, sem hefur illan anda.“ Síðan bæta þeir við: „Mundi illur andi geta opnað augu blindra?“ og hugsa þá eflaust til þess er Jesús opnaði augu manns sem fæddist blindur. Jóhannes 10:1-22; 9:1-7; Lúkas 12:32; Opinberunarbókin 14:1, 3; 21:3, 4; Sálmur 37:29.

▪ Hvers vegna er vígsluhátíðin haldin og hvenær?

▪ Hvert er fyrsta sauðabyrgið og hver er dyravörðurinn?

▪ Hvernig lýkur dyravörðurinn upp fyrir hirðinum og hvert er sauðunum svo hleypt?

▪ Hverjir eru í hinum tveim sauðabyrgjum góða hirðisins og hve margar verða hjarðirnar?