Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sigurreið Krists inn í Jerúsalem

Sigurreið Krists inn í Jerúsalem

Kafli 102

Sigurreið Krists inn í Jerúsalem

MORGUNINN eftir, sunnudaginn 9. nísan, fer Jesús frá Betaníu ásamt lærisveinunum yfir um Olíufjallið í átt til Jerúsalem. Eftir skamma ferð koma þeir til Betfage sem stendur á Olíufjallinu. Jesús segir tveim af lærisveinunum:

„Farið í þorpið hér framundan ykkur, og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: ‚Herrann þarf þeirra við,‘ og mun hann jafnskjótt senda þau.“

Í fyrstu gera lærisveinarnir sér ekki grein fyrir því að þessi fyrirmæli komi uppfyllingu biblíuspádómanna við en síðar rennur það upp fyrir þeim. Spámaðurinn Sakaría sagði fyrir að fyrirheitinn konungur Guðs myndi ríða inn í Jerúsalem á asna eða „ungum ösnufola.“ Salómon konungur hafði einnig riðið þannig á ösnufola til smurningar sinnar.

Þegar lærisveinarnir koma til Betfage og taka folann og ösnuna spyrja nokkrir sem stóðu þar hjá: „Hvers vegna eruð þið að leysa folann?“ Þegar þeim er sagt að dýrin séu handa herranum leyfa þeir lærisveinunum að fara með þau til Jesú. Lærisveinarnir leggja yfirhafnir sínar á ösnuna og folann en Jesús stígur á bak folanum.

Fjöldi fólks þyrpist að þegar Jesús ríður til Jerúsalem. Flestir breiða yfirhafnir sínar á veginn en aðrir höggva lim af trjánum og strá á veginn. „Blessaður sé sá sem kemur, konungurinn, í nafni [Jehóva],“ hrópa þeir. „Friður á himni og dýrð í upphæðum!“

Nokkrir farísear meðal mannfjöldans komast í uppnám vegna þessa og segja í kvörtunartón við Jesú: „Meistari, hasta þú á lærisveina þína.“ En Jesús svarar: „Ég segi yður, ef þeir þegja, munu steinarnir hrópa.“

Þegar Jesús nálgast Jerúsalem virðir hann hana fyrir sér og grætur yfir henni og segir: „Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi, hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum.“ Jerúsalem þarf að gjalda þrjósku sinnar og óhlýðni eins og Jesús segir:

„Óvinir þínir [Rómverjar undir stjórn Títusar hershöfðingja] munu gjöra virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín, sem í þér eru, og ekki láta standa stein yfir steini í þér.“ Þessi eyðing Jerúsalem, sem Jesús spáir, á sér stað 37 árum síðar, árið 70.

Aðeins fáeinum vikum áður höfðu margir meðal mannfjöldans séð Jesú reisa Lasarus upp frá dauðum. Núna segja þeir öðrum frá þessu kraftaverki þannig að Jerúsalem er öll í uppnámi þegar hann kemur þangað. „Hver er hann?“ spyrja menn og fólkið svarar: „Það er spámaðurinn Jesús frá Nasaret í Galíleu.“ Þegar farísearnir sjá hvað fram fer mögla þeir yfir því að sér verði ekkert ágengt og segja: „Allur heimurinn eltir hann.“

Jesús fer í musterið að kenna eins og hann er vanur þegar hann kemur til Jerúsalem. Blindir og haltir koma til hans þar og hann læknar þá. Æðstuprestarnir og fræðimennirnir reiðast þegar þeir sjá dásemdarverkin sem Jesús er að gera og heyra börnin hrópa í musterinu: „Hósanna syni Davíðs!“ „Heyrir þú, hvað þau segja?“ spyrja þeir gramir.

„Já,“ svarar Jesús, „hafið þér aldrei lesið þetta: ‚Af barna munni og brjóstmylkinga býrðu þér lof?‘“

Jesús heldur áfram að kenna og virðir fyrir sér allt sem er í musterinu. Degi er tekið að halla og hann snýr aftur til Betaníu ásamt þeim tólf, um þriggja kílómetra leið. Hann er þar um nóttina, sennilega á heimili Lasarusar vinar síns. Matteus 21:1-11, 14-17; Markús 11:1-11; Lúkas 19:29-44; Jóhannes 12:12-19; Sakaría 9:9.

▪ Hvenær og hvernig kemur Jesús inn í Jerúsalem eins og konungur?

▪ Hve mikilvægt er að mannfjöldinn lofi Jesú?

▪ Hvernig er Jesú innanbrjósts þegar hann virðir Jerúsalem fyrir sér og hvaða spádóm ber hann fram?

▪ Hvað gerist þegar Jesús fer í musterið?