Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Sjáið manninn!“

„Sjáið manninn!“

Kafli 123

„Sjáið manninn!

PÍLATUSI er ljóst að Jesús er saklaus og er snortinn af framkomu hans. Hann reynir því aðra leið til að láta hann lausan. „Þér eruð vanir því, að ég gefi yður einn mann lausan á páskunum,“ segir hann mannfjöldanum.

Í haldi er alræmdur morðingi sem Barabbas heitir, og Pílatus spyr: „Hvorn viljið þér, að ég gefi yður lausan, Barabbas eða Jesú, sem kallast Kristur?“

Það er að undirlagi æðstuprestanna sem æstur múgurinn biður um að fá Barabbas lausan en Jesú tekinn af lífi. Pílatus gefst ekki upp heldur spyr aftur: „Hvorn þeirra tveggja viljið þér, að ég gefi yður lausan?“

„Barabbas,“ hrópar múgurinn.

„Hvað á ég þá að gjöra við Jesú, sem kallast Kristur?“ spyr Pílatus vonleysislega.

Allur fjöldinn æpir þá einum rómi: „Staurfestu hann!“ „Staurfestu! Staurfestu hann!“

Pílatus veit að þeir eru að heimta að saklaus maður sé líflátinn, svo að hann reynir að höfða til þeirra og spyr: „Hvað illt hefur þá þessi maður gjört? Enga dauðasök hef ég fundið hjá honum. Ætla ég því að hirta hann og láta hann lausan.“

Allt kemur fyrir ekki. Æstur múgurinn æpir að áeggjan trúarleiðtoganna: „Staurfestu hann!“ Prestarnir hafa æst múginn svo að hann þyrstir í blóð. Og hugsa sér, fyrir aðeins fimm dögum hafði sumt af þessu fólki sennilega fagnað Jesú sem konungi er hann kom til Jerúsalem. Lærisveinar Jesú hafa hljótt um sig og láta lítið á sér bera, ef þeir eru á annað borð nærstaddir.

Pílatus sér nú að hann fær ekkert að gert heldur færast ólætin í aukana. Hann tekur því vatn, þvær hendur sínar frammi fyrir fólkinu og segir: „Sýkn er ég af blóði þessa manns! Svarið þér sjálfir fyrir!“ Og fólkið svarar: „Komi blóð hans yfir oss og yfir börn vor!“

Pílatus vill heldur gera fólkinu til hæfis en gera það sem rétt er, svo að hann verður við kröfum þeirra og lætur Barabbas lausan. Hann lætur síðan fletta Jesú klæðum og húðstrýkja. Þetta var engin venjuleg húðstrýking. Tímaritið The Journal of the American Medical Association lýsir húðstrýkingum Rómverja svo:

„Yfirleitt var notuð stutt svipa með nokkrum einföldum eða fléttuðum leðurreimum. Reimarnar voru mislangar og litlar járnkúlur eða hvöss kindabein fest í þær með nokkru millibili. . . . Þegar rómverskur hermaður sló fórnarlambið margsinnis í bakið af öllu afli ollu járnkúlurnar djúpu mari og leðurreimarnar og kindabeinin skárust inn í húðina og húðbeðinn. Smám saman skárust svipuólarnar inn í vöðvana og skildu eftir sig tægjur af blæðandi holdi.“

Eftir þessa kvalafullu húðstrýkingu er farið með Jesú inn í höll landshöfðingjans og öll hersveitin kölluð saman. Þar svívirða hermennirnir Jesú áfram með því að flétta kórónu úr þyrnum og þrýsta henni á höfuð honum. Þeir stinga reyrsprota í hægri hönd hans og klæða hann í purpurakápu eins og konungar báru. Síðan hæða þeir hann og segja: „Sæll þú, konungur Gyðinga!“ Og þeir hrækja á hann og slá hann í andlitið. Þeir taka stífan reyrsprotann úr hendi hans, slá hann í höfuðið og reka hvassa þyrnana í niðurlægjandi ‚kórónunni‘ enn lengra inn í hársvörðinn.

Hin undraverða reisn Jesú og styrkur í öllum þessum misþyrmingum hefur slík áhrif á Pílatus að hann reynir enn einu sinni að láta hann lausan. „Nú leiði ég hann út til yðar, svo að þér skiljið, að ég finn enga sök hjá honum,“ segir hann múgnum. Ef til vill ímyndar hann sér að hjörtu manna mýkist við að sjá Jesú svona kvalinn. Jesús stendur frammi fyrir miskunnarlausum skrílnum með þyrnikórónuna og í purpurakápunni. Það blæðir úr andliti hans og hann er augljóslega sárkvalinn. Pílatus hrópar: „Sjáið manninn!“

Þarna stendur mesta stórmenni mannkynssögunnar, mesta mikilmenni sem lifað hefur! Hann er marinn og illa leikinn en sýnir af sér þögla reisn og ró sem jafnvel Pílatus verður að viðurkenna, því að orð hans virðast lýsa bæði virðingu og vorkunn. Jóhannes 18:39–19:5; Matteus 27:15-17, 20-30, vers 22, 23 samkvæmt NW; Markús 15:6-19; Lúkas 23:18-25, vers 21 samkvæmt NW.

▪ Hvernig reynir Pílatus að láta Jesú lausan?

▪ Hvernig reynir Pílatus að firra sig ábyrgð?

▪ Lýstu húðstrýkingu.

▪ Hvernig er Jesús hæddur eftir húðstrýkinguna?

▪ Hvernig reynir Pílatus einu sinni enn að láta Jesú lausan?