Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Skorti Jóhannes trú?

Skorti Jóhannes trú?

Kafli 38

Skorti Jóhannes trú?

JÓHANNES skírari hefur setið í fangelsi í hér um bil ár þegar hann fréttir að Jesús hafi reist son ekkjunnar í Nain upp frá dauðum. En hann vill heyra hvað Jesús sjálfur segir um þýðingu þessa, þannig að hann sendir tvo lærisveina sína til að spyrja hann: „Ert þú sá, sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?“

Spurningin kann að þykja undarleg, einkum þegar haft er í huga að Jóhannes sá anda Guðs stíga niður yfir Jesú og heyrði rödd Guðs lýsa velþóknun á Jesú þegar hann skírði hann nálega tveim árum áður. Einhver gæti haldið að Jóhannes væri orðinn veikur í trúnni. En svo er ekki. Jesús hefði ekki farið jafnlofsamlegum orðum um Jóhannes og hann gerði við þetta tækifæri ef Jóhannes hefði verið farinn að efast. Hvers vegna spyr hann þá um þetta?

Kannski vill Jóhannes bara fá staðfestingu frá Jesú á því að hann sé Messías. Það væri mjög styrkjandi fyrir Jóhannes sem er að veslast upp í fangelsinu. En greinilega er meira fólgið í spurningunni. Hann vill augljóslega fá að vita hvort einhver annar eigi eftir að koma fram, eins konar arftaki sem ljúki við að uppfylla allt sem spáð var að Messías myndi áorka.

Samkvæmt spádómum Biblíunnar, sem Jóhannes þekkir, á Guðs smurði að vera konungur, frelsari. En Jóhannes situr enn í fangelsi mörgum mánuðum eftir skírn Jesú. Jóhannes er því greinilega að spyrja Jesú: ‚Ert þú virkilega sá sem á að stofnsetja sýnilegt ríki Guðs, eða er einhver annar, einhver arftaki sem við eigum að bíða eftir að uppfylli alla hina stórkostlegu spádóma um dýrð Messíasar?‘

Í stað þess að segja lærisveinum Jóhannesar beint: ‚Auðvitað er ég sá sem koma átti!‘ tekur hann að lækna marga af alls konar sjúkdómum og kvillum. Síðan segir hann lærisveinunum: „Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þið hafið séð og heyrt: Blindir fá sýn, haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi.“

Með öðrum orðum liggur kannski í spurningu Jóhannesar viss von um að Jesús geri meira en hann er að gera, og ef til vill að hann frelsi Jóhannes úr fangelsinu. En Jesús segir Jóhannesi að búast ekki við meiru en kraftaverkunum sem hann er að vinna.

Þegar lærisveinar Jóhannesar fara snýr Jesús sér að mannfjöldanum og segir að Jóhannes sé ‚sendiboðinn‘ sem Jehóva spáði um í Malakí 3:1 og einnig spámaðurinn Elía sem spáð er um í Malakí 4:5, 6. Þannig lofar hann Jóhannes og gerir hann jafnan sérhverjum spámanni sem uppi var fyrrum og segir: „Sannlega segi ég yður: Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes skírari. En hinn minnsti í himnaríki er honum meiri. Frá dögum Jóhannesar skírara og til þessa er ríki himnanna ofríki beitt.“

Jesús sýnir hér fram á að Jóhannes verði ekki í himnaríki því að hinn minnsti í himnaríki sé honum meiri. Jóhannes undirbjó veginn fyrir Jesú Krist en deyr áður en Jesús innsiglar sáttmálann eða samninginn um að lærisveinar hans verði meðstjórnendur hans í ríkinu. Þess vegna segir Jesús að Jóhannes verði ekki í himnaríki. Hann verður jarðneskur þegn Guðsríkis. Lúkas 7:18-30; Matteus 11:2-15.

▪ Hvers vegna spyr Jóhannes hvort Jesús sé sá sem koma skuli eða hvort vænta beri annars?

▪ Hvaða spádóma segir Jesús að Jóhannes hafi uppfyllt?

▪ Af hverju verður Jóhannes skírari ekki á himnum með Jesú?