Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sorg ekkjunnar breytist í gleði

Sorg ekkjunnar breytist í gleði

Kafli 37

Sorg ekkjunnar breytist í gleði

SKÖMMU eftir að Jesús læknar þjón liðsforingjans heldur hann til borgarinnar Nain sem er ríflega 30 kílómetra suðvestur af Kapernaum. Lærisveinarnir og mikill mannfjöldi fylgir honum. Degi er sennilega tekið að halla þegar þeir koma að útjaðri Nain. Þar ganga þeir fram á líkfylgd. Verið er að bera lík ungs manns út úr borginni til greftrunar.

Móðirin á sérstaklega bágt vegna þess að hún er ekkja og þetta var einkasonur hennar. Þegar maðurinn hennar dó gat hún huggað sig við að hún ætti son. Vonir hennar, langanir og markmið voru bundin honum. En nú á hún engan að sér til hughreystingar. Buguð af sorg gengur hún ásamt borgarbúum til greftrunarstaðarins.

Þegar Jesús kemur auga á þessa sorgbitnu konu finnur hann sárlega til með henni. Hann segir því við hana, blíðlega en þó með traustvekjandi festu: „Grát þú eigi!“ Orð hans og framkoma grípur athygli mannfjöldans. Burðarmennirnir staðnæmast því þegar hann gengur fram og snertir líkbörurnar. Allir eru eflaust að hugsa með sér hvað hann ætli að gera.

Þeir sem fylgja Jesú hafa vissulega séð hann lækna marga á undraverðan hátt af sjúkdómum. En þeir munu aldrei hafa séð hann reisa mann upp frá dauðum. Getur hann það? Jesús ávarpar líkið og segir: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ Og maðurinn sest upp! Hann fer að tala og Jesús gefur hann móður hans.

Þegar fólkið sér að ungi maðurinn er virkilega lifandi segir það hvert við annað: „Spámaður mikill er risinn upp meðal vor.“ Aðrir segja: „Guð hefur vitjað lýðs síns.“ Fréttirnar af þessu undraverki breiðast eins og eldur í sinu út um alla Júdeu og allt nágrennið.

Jóhannes skírari situr enn í fangelsi og hann vill fá að vita meira um þau verk sem Jesús er að vinna. Lærisveinar Jóhannesar segja honum frá þessum kraftaverkum. Hvernig bregst hann við? Lúkas 7:11-18.

▪ Hvað er að gerast þegar Jesús nálgast Nain?

▪ Hvaða áhrif hefur það á Jesú sem hann sér og hvað gerir hann?

▪ Hver eru viðbrögð fólks við kraftaverki Jesú?