Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurður um föstuhald

Spurður um föstuhald

Kafli 28

Spurður um föstuhald

NÆSTUM ár er liðið síðan Jesús sótti páskahátíðina árið 30. Jóhannes skírari hefur setið í fangelsi í nokkra mánuði. Jóhannes vildi að lærisveinar sínir fylgdu Kristi en þeir hafa ekki allir gert það.

Nú koma sumir þessara lærisveina Jóhannesar til Jesú og spyrja: „Hví föstum vér og farísear, en þínir lærisveinar fasta ekki?“ Það er trúarsiður hjá faríseunum að fasta tvisvar í viku. Og lærisveinar Jóhannesar fylgja kannski svipaðri venju. Ef til vill fasta þeir líka til að láta í ljós sorg sína vegna þess að Jóhannes situr í fangelsi og undrast að lærisveinar Jesú skuli ekki harma með þeim.

Jesús svarar: „Hvort geta brúðkaupsgestir verið hryggir, meðan brúðguminn er hjá þeim? En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn. Þá munu þeir fasta.“

Lærisveinar Jóhannesar áttu að muna að hann hafði talað um Jesú sem brúðgumann. Meðan Jesús er á sjónarsviðinu áleit Jóhannes ekki viðeigandi að fasta og lærisveinar Jesú eru sama sinnis. Síðar, þegar Jesús deyr, syrgja lærisveinar hans og fasta. En þegar hann rís upp frá dauðum og stígur upp til himna hafa þeir ekki ástæðu framar til að syrgja og fasta.

Síðan segir Jesús þessa líkingu: „Enginn lætur bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rífur bótin út frá sér og verður af verri rifa. Ekki láta menn heldur nýtt vín á gamla belgi, því þá springa belgirnir, og vínið fer niður, en belgirnir ónýtast. Menn láta nýtt vín á nýja belgi.“ Hvað eiga þessar líkingar skylt við föstuhald?

Jesús er að sýna lærisveinum Jóhannesar skírara fram á að enginn eigi að ætlast til að fylgjendur hans haldi hina gömlu siði gyðingdómsins, svo sem helgisiðaföstur. Hann kom ekki til að lappa upp á og viðhalda gömlu, gatslitnu tilbeiðslukerfi sem átti að leggja niður innan skamms. Kristnin yrði ekki aðlöguð gyðingdómi samtíðarinnar með mannasetningum hans. Hún átti ekki að vera ný bót á gamla flík eða nýtt vín á gömlum belg. Matteus 9:14-17; Markús 2:18-22; Lúkas 5:33-39; Jóhannes 3:27-29.

▪ Hverjir stunda föstuhald og í hvaða tilgangi?

▪ Af hverju fasta lærisveinar Jesú ekki meðan hann er hjá þeim, og hvers vegna hverfur allt tilefni til föstuhalds skömmu eftir dauða hans?

▪ Hvaða líkingar kemur Jesús með og hvað merkja þær?