Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Stormurinn hlýðir honum

Stormurinn hlýðir honum

Kafli 44

Stormurinn hlýðir honum

JESÚS hefur átt annasaman dag. Hann hefur meðal annars kennt mannfjöldanum á ströndinni og síðan útskýrt dæmisögurnar einslega fyrir lærisveinunum. Þegar kvöldar segir hann: „Förum yfir um!“

Á austurströnd Galíleuvatns er svæði sem kallast Dekapólis, dregið af gríska orðinu deʹka sem merkir „tíu“ og poʹlis sem merkir „borg.“ Borgirnar í Dekapólis eru miðstöð grískrar menningar þótt eflaust búi líka margir Gyðingar þar. En Jesús starfar sáralítið á því svæði. Jafnvel núna er hann hindraður í að staldra lengi við eins og við munum sjá.

Lærisveinarnir flytja Jesú yfir vatnið á báti þegar hann biður þá. En þeir komast ekki óséðir burt og innan skamms eru nokkrir bátar lagðir af stað á eftir þeim. Þetta er ekki löng leið. Galíleuvatn er ekki nema 21 kílómetra langt og 12 kílómetra breitt þar sem breiðast er.

Jesús er þreyttur eins og við er að búast. Skömmu eftir að þeir ýta úr vör leggur hann sig í skutnum með kodda undir höfðinu og steinsofnar. Nokkrir postulanna eru reyndir sjómenn og hafa stundað fiskveiðar lengi á Galíleuvatni. Þeir stjórna því bátnum.

En ferðin reynist ekki auðveld. Vatnið, sem er í hér um bil 210 metra hæð undir sjávarmáli, er heitara en loftið yfir fjöllunum umhverfis þannig að sterkir vindar af fjöllunum valda stundum skyndilegu hvassviðri á vatninu. Og nú skellur á stormhrina. Innan skamms er öldugangurinn svo mikill að það gefur á bátinn og við liggur að hann fyllist. En Jesús sefur sem fastast!

Þessir reyndu sjómenn gera allt hvað þeir geta til að stýra bátnum. Eflaust er þetta ekki í fyrsta sinn sem þeir sigla í stormi. En nú eru þeir að niðurlotum komnir. Þeir óttast um líf sitt og vekja Jesú. ‚Meistari, stendur þér á sama? Við erum að sökkva!‘ hrópa þeir. ‚Bjargaðu okkur, við drukknum!‘

Jesús vaknar og skipar vindi og vatni: „Þegi þú, haf hljótt um þig!“ Og það gerir stillilogn og öldurnar lægir. Hann snýr sér að lærisveinunum og spyr: ‚Hví eruð þið hræddir? Hafið þið enn enga trú?‘

Mikill ótti grípur lærisveinana. ‚Hver er þessi maður eiginlega?‘ spyrja þeir hver annan, ‚því að hann skipar bæði vatni og vindum og hvort tveggja hlýðir honum.‘

Jesús er gríðarlega máttugur! Það er mjög hughreystandi að vita að konungur okkar skuli ráða yfir náttúruöflunum. Þegar hann í Guðsríki beinir athygli sinni að fullu að jörðinni mun mönnum ekki lengur standa ógn af náttúruöflunum.

Einhvern tíma eftir að storminn lægir ná Jesús og lærisveinar hans landi við vatnið austanvert, heilu og höldnu. Kannski sluppu hinir bátarnir við illviðrið og komust heilir heim. Markús 4:35–5:1; Matteus 8:18, 23-27; Lúkas 8:22-26.

▪ Hvað og hvar er Dekapólis?

▪ Hvaða aðstæður valda stundum hvassviðri á Galíleuvatni?

▪ Hvað gera lærisveinarnir þegar siglingakunnáttan hrekkur ekki lengur til?