Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Umdeildur maður

Umdeildur maður

Kafli 41

Umdeildur maður

SKÖMMU eftir að Jesús var gestur í húsi Símonar leggur hann upp í aðra prédikunarferð um Galíleu. Á fyrri ferð sinni um svæðið voru fyrstu lærisveinar hans, þeir Pétur, Andrés, Jakob og Jóhannes, með honum. Núna eru postularnir 12 og nokkrar konur með í för. Þeirra á meðal eru þær María Magdalena, Súsanna og Jóhanna sem er kona ráðsmanns Heródesar konungs.

Því meir sem Jesús hraðar þjónustu sinni þeim mun umdeildari verður hann. Maður haldinn illum anda, sem er auk þess blindur og mállaus, er færður til hans. Mannfjöldinn er furðu lostinn þegar Jesús læknar manninn þannig að hann losnar undan yfirráðum illa andans og getur bæði talað og séð. Menn segja hver við annan: „Hann er þó ekki sonur Davíðs?“

Slíkur er mannfjöldinn umhverfis húsið, þar sem Jesús dvelst, að hann og lærisveinarnir geta ekki einu sinni matast. Auk þeirra sem halda að hann sé kannski hinn fyrirheitni „sonur Davíðs“ þá eru þangað komnir fræðimenn og farísear alla leið frá Jerúsalem til að gera hann tortryggilegan. Þegar ættingjar Jesú frétta af öllu uppnáminu kringum hann koma þeir til að sækja hann. Hvers vegna?

Enn sem komið er trúa bræður Jesú ekki að hann sé sonur Guðs. Það er líka svo ólíkt þeim Jesú, sem þeir þekktu þegar hann var að alast upp í Nasaret, að valda slíku uppnámi og deilum. Þeir halda því að Jesús sé ekki heill á geðsmunum. Þeir hugsa með sér að hann sé genginn af vitinu og hyggjast taka hann burt með valdi.

Eftir sem áður er ljóst að Jesús hefur læknað manninn sem haldinn var illa andanum. Fræðimennirnir og farísearnir vita að þeir geta ekki þrætt fyrir það. Þeir reyna því að gera Jesú tortryggilegan með því að segja fólkinu: „Þessi rekur ekki út illa anda nema með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda.“

Jesús veit hvað fræðimennirnir og farísearnir eru að hugsa, kallar á þá og segir: „Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hver sú borg eða heimili, sem er sjálfu sér sundurþykkt, fær ekki staðist. Ef Satan rekur Satan út, er hann sjálfum sér sundurþykkur. Hvernig fær ríki hans þá staðist?“

Þetta eru óhrekjandi rök! Farísearnir halda því fram að menn úr þeirra hópi hafi rekið út illa anda þannig að Jesús spyr: „Ef ég rek illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út?“ Með öðrum orðum mætti alveg eins saka þá um hið sama og þeir saka Jesú um. Síðan segir Jesús: „En ef ég rek illu andana út með Guðs anda, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.“

Vald hans til að reka út illa anda er sönnun þess að hann sé Satan máttugri. Hann bregður upp líkingu: „Hvernig fær nokkur brotist inn í hús hins sterka og rænt föngum hans, nema hann bindi áður hinn sterka, þá getur hann rænt hús hans. Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.“ Farísearnir eru greinilega á móti Jesú og sýna sig þar með handbendi Satans. Þeir eru að dreifa Ísraelsmönnum burt frá honum.

Þar af leiðandi varar Jesús þessa illu andstæðinga við því að ‚guðlast gegn andanum verði ekki fyrirgefið.‘ Hann skýrir það nánar: „Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem mælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda.“ Fræðimennirnir og farísearnir hafa drýgt þessa ófyrirgefanlegu synd með því að eigna Satan undraverk sem eru greinilega unnin af heilögum anda Guðs. Matteus 12:22-32; Markús 3:19-30; Lúkas 8:1-3; Jóhannes 7:5.

▪ Í hverju er önnur ferð Jesú um Galíleu ólík þeirri fyrstu?

▪ Hvers vegna reyna ættingjar Jesú að taka hann?

▪ Hvernig reyna farísearnir að gera kraftaverk Jesú tortryggileg og hvernig hrekur Jesús rök þeirra?

▪ Hvað eru þessir farísear sekir um og hvers vegna?