Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Upprisuvonin

Upprisuvonin

Kafli 90

Upprisuvonin

JESÚS er loksins kominn að útjaðri Betaníu, þorps um þrjá kílómetra frá Jerúsalem. Aðeins fáeinir dagar eru liðnir frá dauða Lasarusar og greftrun. Systur hans, María og Marta, syrgja hann enn og margir eru komnir á heimili þeirra til að hugga þær.

Einhver segir Mörtu frá því að Jesús sé á leiðinni. Hún flýtir sér þá að heiman til móts við hann, af því er virðist án þess að láta systur sína vita. Þegar hún hittir Jesú endurtekur hún það sem þær systurnar hljóta að hafa sagt margsinnis undanfarna fjóra daga: „Ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn.“

En Marta er vongóð og gefur í skyn að Jesús geti enn þá gert eitthvað fyrir bróður hennar. „Nú veit ég, að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um,“ segir hún.

„Bróðir þinn mun upp rísa,“ lofar Jesús.

Mörtu skilst að Jesús sé að tala um jarðneska upprisu framtíðarinnar sem Abraham og aðrir þjónar Guðs hlökkuðu einnig til. Hún svarar því: „Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“

En Jesús veitir henni von um tafarlausa lausn og segir: „Ég er upprisan og lífið.“ Hann minnir hana á að Guð hafi gefið honum vald yfir dauðanum: „Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.“

Jesús er ekki að gefa í skyn við Mörtu að trúfastir samtíðarmenn hans deyi aldrei. Hann er að benda á að það geti veitt mönnum eilíft líf að iðka trú á hann. Flestir öðlast eilíft líf við upprisu á efsta degi en aðrir trúfastir menn lifa af endalok þessa heimskerfis á jörðinni, og orð Jesú rætast mjög bókstaflega á þeim. Þeir munu aldrei að eilífu deyja! Eftir að Jesús hefur sagt þessi ótrúlegu orð spyr hann Mörtu: „Trúir þú þessu?“

„Já, herra,“ svarar hún. „Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“

Marta hraðar sér heim til að sækja systur sína og segir henni einslega: „Meistarinn er hér og vill finna þig.“ María yfirgefur húsið þegar í stað. Þegar aðrir sjá hana fara elta þeir hana í þeirri trú að hún ætli til grafarinnar.

María fellur grátandi til fóta Jesú þegar hún hittir hann. „Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn,“ segir hún. Jesús er djúpt snortinn þegar hann sér að María og mannfjöldinn, sem fylgir henni, grætur. „Hvar hafið þér lagt hann?“ spyr hann.

„Herra, kom þú og sjá,“ svarar fólkið.

Nú fer Jesús líka að gráta og Gyðingarnir segja: „Sjá, hversu hann hefur elskað hann!“

Það rifjast nú upp fyrir sumum að nokkrum mánuðum áður, á laufskálahátíðinni, hafði Jesús læknað ungan mann sem fæddist blindur, og þeir spyrja: „Gat ekki sá maður, sem opnaði augu hins blinda, einnig varnað því, að þessi maður dæi?“ Jóhannes 5:21; 6:40; 9:1-7; 11:17-37.

▪ Hvenær kemur Jesús loks til Betaníu og hvað hefur þá gerst?

▪ Hvers vegna trúir Marta á upprisu?

▪ Hvaða áhrif hefur dauði Lasarusar á Jesú?