Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Uppspretta hamingjunnar

Uppspretta hamingjunnar

Kafli 75

Uppspretta hamingjunnar

JESÚS vann mörg kraftaverk meðan boðun hans í Galíleu stóð yfir, og nú gerir hann slíkt hið sama í Júdeu. Til dæmis rekur hann illan anda út af mállausum manni. Mannfjöldinn er forviða en gagnrýnendur hans koma með sömu mótbárur og í Galíleu. „Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana,“ fullyrða þeir. Aðrir vilja sjá frekari merki þess að Jesús sé sá sem hann segist vera og reyna að freista hans með því að biðja um tákn af himni.

Jesús veit hvað gagnrýnendur hans eru að hugsa og svarar þeim á sama hátt og hann gerði í Galíleu. Hann bendir á að sundrað ríki hljóti að falla. „Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist?“ spyr hann. Hann bendir á hve hættulega aðstöðu þessir gagnrýnendur setji sig í og segir: „Ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.“

Sjónarvottarnir að kraftaverkum Jesú ættu að bregðast við þeim á sama hátt og þeir sem sáu Móse vinna kraftaverk öldum áður. Þeir hrópuðu: „Þetta er Guðs fingur.“ Það var líka ‚fingur Guðs‘ sem ritaði boðorðin tíu á steintöflur. Og ‚fingur Guðs‘ — heilagur andi hans eða starfskraftur — gerir Jesú kleift að reka út illa anda og lækna sjúka. Ríki Guðs er því sannarlega komið yfir þessa gagnrýnendur því að Jesús, tilnefndur konungur þess, er mitt á meðal þeirra.

Jesús bendir síðan á að sú staðreynd að hann sé fær um að reka út illa anda sé merki þess að hann sé Satan yfirsterkari, líkt og sterkur maður sem yfirbugar alvopnaðan mann er gætir hallar sinnar. Hann endurtekur líka dæmisöguna sem hann sagði í Galíleu um óhreinan anda. Andinn fer út af manni, en þegar hann fyllir ekki tómið með því sem gott er snýr andinn aftur og tekur með sér sjö aðra þannig að maðurinn er verr settur en áður.

Kona í mannfjöldanum, sem hlustar á Jesú kenna, hrópar nú hátt: „Sæll er sá kviður, er þig bar, og þau brjóst, er þú mylktir.“ Það er skiljanlegt að konan skuli segja þetta því að sérhver Gyðingakona þráir að vera móðir spámanns, sér í lagi Messíasar. Hún heldur greinilega að María hljóti að vera sérstaklega hamingjusöm fyrst hún er móðir Jesú.

En Jesús leiðréttir konuna og bendir henni á uppsprettu sannrar hamingju: „Já, að vísu! Sælir eru þeir, sem heyra guðsorð og gæta þess.“ Jesús gaf aldrei í skyn að María móðir hans skyldi heiðruð sérstaklega, heldur benti á að sönn hamingja sé fólgin í því að vera trúfastur þjónn Guðs en byggist ekki á einhverjum sérstökum ættartengslum eða afrekum.

Jesús ávítar Júdeumenn fyrir að biðja um tákn af himni, líkt og hann ávítaði Galíleubúa. Hann segir þeim að þeir fái ekkert annað tákn en Jónasartáknið. Jónas varð tákn bæði með því að vera þrjá daga í kviði fisksins og með djarflegri prédikun sinni sem varð til þess að Nínívemenn iðruðust. En Jesús bendir á að ‚hér sé meira en Jónas.‘ Drottningin í Saba dáðist að visku Salómons „og hér er meira en Salómon,“ segir Jesús.

Jesús bendir á að þegar maður kveiki ljós setji hann það ekki í felur eða undir mæliker heldur á ljósastiku svo að fólk sjái það. Kannski er hann að gefa í skyn að kennsla hans og kraftaverk í augsýn þessara þrjósku manna meðal áheyrenda séu sambærileg við að kveikja ljós og fela. Augu slíkra manna eru ekki heil svo að þau sjái skýrt, þannig að kraftaverk hans ná ekki tilætluðum árangri.

Jesús er nýbúinn að reka út illan anda og veita mállausum manni málið á ný. Það ætti að hvetja fólk með heil augu til að lofa þetta undraverk og boða fagnaðarerindið! En gagnrýnendurnir gera það ekki. Jesús segir því: „Gæt því þess, að ljósið í þér sé ekki myrkur. Sé því líkami þinn allur bjartur og hvergi myrkur í honum, verður hann allur í birtu, eins og þegar lampi lýsir á þig með loga sínum.“ Lúkas 11:14-36, vers 28 samkvæmt Biblíunni 1859; 2. Mósebók 8:18, 19; 31:18; Matteus 12:22, 28.

▪ Hvernig bregst fólk við þegar Jesús læknar manninn?

▪ Hvað er ‚fingur Guðs‘ og hvernig var Guðsríki komið yfir áheyrendur Jesú?

▪ Hver er uppspretta sannrar hamingju?

▪ Hvernig er hægt að hafa heilt auga?