Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Viturlegur undirbúningur fyrir framtíðina

Viturlegur undirbúningur fyrir framtíðina

Kafli 87

Viturlegur undirbúningur fyrir framtíðina

JESÚS er nýbúinn að segja dæmisöguna um glataða soninn. Hópur manna hefur hlýtt á hann, þeirra á meðal lærisveinar hans, óheiðarlegir tollheimtumenn og aðrir þekktir syndarar og svo fræðimenn og farísear. Nú ávarpar hann lærisveina sína og segir dæmisögu um ríkan mann sem fengið hefur slæmar fréttir af ráðsmanni sínum.

Að sögn Jesú kallar ríki maðurinn ráðsmanninn fyrir sig og segist ætla að reka hann úr starfi. „Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni?“ segir ráðsmaðurinn við sjálfan sig. „Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni.“

Hvað ætlast ráðsmaðurinn fyrir? Hann kallar til sín skuldunauta húsbónda síns. „Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum?“ spyr hann.

Sá fyrsti svarar: „Hundrað kvartil viðsmjörs.“

„Tak þú skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu,“ segir ráðsmaðurinn.

„Hvað skuldar þú?“ spyr hann annan.

Hann svarar: „Hundrað tunnur hveitis.“

„Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu.“

Ráðsmaðurinn hefur heimild til að lækka skuldir manna við húsbónda sinn því að hann fer enn með fjármál hans. Með því að lækka skuldirnar er hann að afla sér vináttu þeirra sem geta endurgoldið honum greiðann þegar hann missir vinnuna.

Húsbóndinn dáist að ráðsmanninum þegar hann fréttir hvað hann hefur gert. Hann meira að segja ‚hrósar rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega.‘ Svo bætir Jesús við: „Börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins.“

Jesús segir nú lærisveinunum hvað þeir geti lært af dæmisögunni: „Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.“

Jesús er ekki að hrósa ráðsmanninum fyrir ranglæti hans heldur fyrir framsýni hans og kænsku. Oft eru „börn þessa heims“ slungin í meðferð peninga eða nota aðstöðu sína til að afla sér vina sem geta endurgoldið greiðasemi þeirra. Þjónar Guðs, „börn ljóssins,“ þurfa líka að nota efnislegar eigur sínar, hinn „rangláta mammón,“ viturlega sér til gagns.

En eins og Jesús segir ættu þeir að nota þessar efnislegu eigur til að afla sér vina sem geta tekið við þeim „í eilífar tjaldbúðir.“ Fyrir litlu hjörðina eru þessar tjaldbúðir á himnum, en fyrir hina „aðra sauði“ eru þær í paradís á jörð. Nú eru það aðeins Jehóva Guð og sonur hans sem geta tekið við mönnum í þessar tjaldbúðir, þannig að við ættum að leggja okkur fram um að rækta vináttuböndin við þá með því að nota hverja þá ‚ranglátu‘ fjármuni, sem við höfum, til stuðnings Guðsríki. Þá verður eilíf framtíð okkar tryggð þegar efnislega auðnum sleppir eða hann eyðist, eins og hann gerir örugglega.

Jesús heldur áfram og segir að þeir sem séu trúir í meðferð efnislegra hluta eða þess smæsta, verði líka trúir í því sem mikilvægara er. „Ef þér reynist ekki trúir í hinum rangláta mammón,“ bætir hann við, „hver trúir yður þá fyrir sönnum auði [það er að segja andlegum hagsmunum Guðsríkis]? Og ef þér reynist ekki trúir í því sem annars er [hagsmunum Guðsríkis sem Guð treystir þjónum sínum fyrir], hver gefur yður þá það, sem yðar er [launin sem eru líf í eilífum tjaldbúðum]?“

Við getum hreinlega ekki verið sannir þjónar Guðs og jafnframt verið þrælar hins rangláta mammóns eins og Jesús segir: „Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ Lúkas 15:1, 2; 16:1-13; Jóhannes 10:16.

▪ Hvernig aflar ráðsmaðurinn í dæmisögu Jesú sér vina sem geta hjálpað honum síðar?

▪ Hver er hinn ‚rangláti mammón‘ og hvernig getum við notað hann til að afla okkur vina?

▪ Hverjir geta tekið við okkur í „eilífar tjaldbúðir“ og hverjar eru þessar tjaldbúðir?