Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Líkjum eftir kennaranum mikla

Líkjum eftir kennaranum mikla

Líkjum eftir kennaranum mikla

„Gætið . . . að, hvernig þér heyrið.“ — LÚKAS 8:18.

1, 2. Af hverju ættum við að gefa gaum að samskiptum Jesú við aðra meðan hann þjónaði hér á jörð?

 JESÚS KRISTUR var mikill kennari og ötull að gera fólk að lærisveinum. Hann sagði fylgjendum sínum: „Gætið . . . að, hvernig þér heyrið.“ (Lúkas 8:16-18) Þessi meginregla á erindi til þín sem boðbera fagnaðarerindisins. Ef þú gefur gaum að kennslunni, sem þjónar Guðs fá, ferðu líka eftir henni og verður skilvirkur boðberi Guðsríkis. Þú heyrir auðvitað ekki rödd Jesú í bókstaflegri merkingu en þú getur hins vegar lesið í Biblíunni hvað hann sagði og gerði. Hvað kemur þar fram um samskipti Jesú við aðra meðan hann þjónaði hér á jörð?

2 Jesús var afburðaprédikari fagnaðarerindisins og sérlega fær að kenna öðrum sannleika Biblíunnar. (Lúkas 8:1; Jóhannes 8:28) Til að gera fólk að lærisveinum þarf bæði að prédika og kenna. Sumum vottum finnst hins vegar erfitt að kenna fólki á áhrifaríkan hátt þó að þeir séu mjög færir í að prédika. Prédikun er fólgin í því að flytja öðrum boðskap en til að fræða fólk um Jehóva og fyrirætlun hans er yfirleitt nauðsynlegt að mynda tengsl við það. (Matteus 28:19, 20) Við getum gert það með því að líkja eftir Jesú Kristi sem var mikill kennari og duglegur að gera fólk að lærisveinum. — Jóhannes 13:13.

3. Hvaða áhrif geturðu haft á boðunar- og kennslustarf þitt með því að líkja eftir Jesú?

3 Með því að líkja eftir kennsluaðferðum Jesú ferðu eftir hvatningu Páls postula: „Umgangist viturlega þá, sem fyrir utan eru, og notið hverja stundina. Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni.“ (Kólossubréfið 4:5, 6) Það kostar vinnu að líkja eftir kennsluaðferðum Jesú en það gerir þig hins vegar að færum kennara af því að það hjálpar þér að „svara hverjum manni“ í samræmi við þarfir hans.

Jesús hvatti aðra til að tjá sig

4. Hvað sýnir að Jesús hlustaði gaumgæfilega á aðra?

4 Allt frá barnæsku hafði Jesús vanið sig á að hlusta á fólk og hvetja það til að tjá sjónarmið sín. Sem dæmi má nefna að þegar hann var 12 ára fundu foreldrar hans hann mitt á meðal lærifeðranna í musterinu þar sem hann „hlýddi á þá og spurði þá“. (Lúkas 2:46) Jesús fór ekki í musterið til að flíka þekkingu sinni og gera lítið úr lærifeðrunum. Hann fór þangað til að hlusta en spurði líka spurninga. Ein ástæðan fyrir því að hann hlaut „náð hjá Guði og mönnum“ kann að hafa verið sú að hann var vanur að hlusta gaumgæfilega á aðra. — Lúkas 2:52.

5, 6. Hvernig vitum við að Jesús hlustaði á þá sem hann kenndi?

5 Jesús hélt áfram að hlusta á fólk eftir að hann var skírður og smurður sem Messías. Hann varð ekki svo upptekinn af því sem hann kenndi að hann gleymdi þeim sem komu til að heyra hann tala. Oft gerði hann málhlé, spurði áheyrendur hvað þeim fyndist og hlustaði á svör þeirra. (Matteus 16:13-15) Tökum dæmi. Eftir að Lasarus dó sagði hann Mörtu, systur hans: „Hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.“ Síðan spurði hann hana: „Trúir þú þessu?“ Og hann hlustaði örugglega þegar Marta svaraði: „Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur.“ (Jóhannes 11:26, 27) Það hlýtur að hafa verið ánægjulegt fyrir Jesú að heyra Mörtu tjá trú sína með þessum hætti.

6 Þegar margir af lærisveinunum yfirgáfu Jesú vildi hann heyra hvernig postularnir hugsuðu. Hann spurði því: „Ætlið þér að fara líka?“ Símon Pétur svaraði: „Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs, og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs.“ (Jóhannes 6:66-69) Orð Péturs hljóta að hafa glatt Jesú innilega. Það er sömuleiðis ánægjulegt fyrir þig að heyra biblíunemanda tjá trú sína á viðlíka hátt.

Jesús hlustaði með virðingu

7. Hvers vegna tóku margir Samverjar trú á Jesú?

7 Önnur ástæða fyrir því að Jesús var duglegur að gera fólk að lærisveinum var sú að hann lét sér annt um fólk og hlustaði á það með virðingu. Einu sinni vitnaði hann til dæmis fyrir samverskri konu við Jakobsbrunninn í Síkar. Jesús talaði ekki bara sjálfur heldur hlustaði líka á það sem konan hafði til málanna að leggja. Meðan hann hlustaði á hana tók hann eftir áhuga hennar á því að tilbiðja Guð og sagði henni að Guð væri að leita að þeim sem vildu tilbiðja hann í anda og sannleika. Hann sýndi konunni virðingu og umhyggju og í kjölfarið sagði hún öðrum frá honum. Árangurinn varð sá að „margir Samverjar úr þessari borg trúðu á hann vegna orða konunnar“. — Jóhannes 4:5-29, 39-42.

8. Hvernig geturðu nýtt þér það í boðunarstarfinu að fólk hefur yfirleitt gaman af að segja álit sitt?

8 Fólk hefur yfirleitt gaman af að segja álit sitt á ýmsu. Aþenubúar til forna höfðu ánægju af að tjá skoðanir sínar og heyra eitthvað nýtt. Það var kveikjan að áhrifamikilli ræðu Páls postula á Aresarhæð í Aþenu. (Postulasagan 17:18-34) Þú gætir hugsanlega hafið samræður við húsráðanda með því að segja: „Ég bankaði upp á hjá þér af því að mig langar til að heyra hvaða álit þú hefur á [ákveðnu máli].“ Hlustaðu síðan á það sem viðmælandinn segir og bættu einhverju við eða spyrðu hann nánar út í það. Síðan geturðu sýnt honum vinsamlega hvað Biblían segir um málið.

Jesús vissi hvað hann átti að segja

9. Hvað gerði Jesús áður en hann lauk upp ritningunum fyrir Kleófasi og félaga hans?

9 Jesú var aldrei orða vant. Hann kunni ekki aðeins að hlusta heldur vissi hann oft hvernig fólk hugsaði og vissi því nákvæmlega hvað hann átti að segja. (Matteus 9:4; 12:22-30; Lúkas 9:46, 47) Tökum dæmi. Skömmu eftir að Jesús var reistur upp frá dauðum voru tveir af lærisveinum hans á leið frá Jerúsalem til Emmaus. Í guðspjallinu segir: „Þá bar svo við, er þeir voru að tala saman og ræða þetta, að Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim. En augu þeirra voru svo haldin, að þeir þekktu hann ekki. Og hann sagði við þá: ,Hvað er það, sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?‘ Þeir námu staðar, daprir í bragði, og annar þeirra, Kleófas að nafni, sagði við hann: ,Þú ert víst sá eini aðkomumaður í Jerúsalem, sem veist ekki, hvað þar hefur gjörst þessa dagana.‘ Hann spurði: ,Hvað þá?‘“ Kennarinn mikli hlustaði á þá segja frá hvernig Jesús frá Nasaret hafði kennt fólki, unnið kraftaverk og verið tekinn af lífi. Og nú sögðu sumir að hann væri upprisinn frá dauðum. Jesús leyfði þeim Kleófasi og félaga hans að tjá sig. Síðan sagði hann þeim það sem þeir þurftu að vita og „lauk upp fyrir [þeim] ritningunum“. — Lúkas 24:13-27, 32.

10. Hvernig geturðu kynnst trúarskoðunum þeirra sem þú hittir í boðunarstarfinu?

10 Þú hefur kannski ekki hugmynd um trúarskoðanir viðmælanda þíns. Þú gætir kannað málið með því að segja að þér finnist gaman að heyra hvernig fólk hugsi um bænir. Síðan gætirðu spurt: „Heldurðu að einhver hlusti á bænir manna?“ Svarið getur sagt þér margt um sjónarmið og trúaruppeldi viðmælandans. Ef hann er trúarlega sinnaður gætirðu ef til vill lært meira um trúarskoðanir hans með því að spyrja: „Heldurðu að Guð heyri allar bænir eða heldurðu að hann neiti að hlusta á sumar þeirra?“ Spurningar sem þessar geta komið af stað þægilegum umræðum. Þegar tímabært er að sýna ritningarstað í Biblíunni skaltu gæta þess að gera það með háttvísi og láta það ekki virka eins og árás á skoðanir viðmælandans. Ef hann hefur ánægju af samtalinu er hann eflaust fús til að hitta þig aftur. En segjum að hann spyrji spurningar sem þú getur ekki svarað. Þá geturðu kynnt þér málið og heimsótt hann aftur og gefið honum rök fyrir von þinni. En gerðu það „með hógværð og virðingu“. — 1. Pétursbréf 3:15, 16.

Jesús kenndi verðugum

11. Hvernig geturðu fundið þá sem eru þess verðugir að fá kennslu?

11 Jesús var fullkominn og gat séð hverjir voru þess verðugir að fá kennslu. Það er miklu erfiðara fyrir okkur að finna þá sem ,hneigjast til eilífs lífs‘. (Postulasagan 13:48, NW) Hið sama var að segja um postulana. Jesús sagði við þá: „Hvar sem þér komið í borg eða þorp, spyrjist þá fyrir um, hver þar sé verðugur.“ (Matteus 10:11) Þú þarft, eins og postularnir, að leita að fólki sem er fúst til að hlusta og láta kenna sér sannleika Biblíunnar. Þú getur fundið verðuga með því að hlusta vel á alla sem þú talar við og gefa gaum að viðhorfum hvers og eins.

12. Hvernig geturðu haldið áfram að hjálpa áhugasömum einstaklingi?

12 Eftir að hafa kvatt mann, sem sýnir svolítinn áhuga á fagnaðarerindinu, ættirðu að halda áfram að hugleiða hvaða biblíusannindi hann þurfi að heyra. Ef þú skrifar minnispunkta eftir að hafa rætt við einhvern um fagnaðarerindið auðveldar það þér að halda áfram að kenna honum sannleika Biblíunnar. Þegar þú heimsækir hann aftur þarftu að hlusta vel til að glöggva þig betur á trú hans, skoðunum eða aðstæðum.

13. Hvernig geturðu glöggvað þig á skoðunum fólks á Biblíunni?

13 Hvernig geturðu hvatt fólk til að tjá sig um afstöðu sína til Biblíunnar? Sums staðar virkar vel að spyrja: „Finnst þér erfitt að skilja Biblíuna?“ Svarið segir oft mikið um afstöðu viðmælandans til trúmála. Eins væri hægt að lesa ritningarstað og spyrja: „Hvað finnst þér um þetta?“ Líkt og Jesús geturðu áorkað heilmiklu í boðunarstarfinu með því að spyrja viðeigandi spurninga. Rétt er þó að sýna vissa aðgát.

Jesús kunni að beita spurningum

14. Hvernig geturðu sýnt áhuga á skoðunum annarra en hvað þarftu að varast?

14 Sýndu áhuga á skoðunum annarra án þess að gera þá vandræðalega. Líktu eftir aðferð Jesú. Hann var nærgætinn. Hann yfirheyrði ekki fólk heldur spurði spurninga sem vöktu það til umhugsunar. Hann hlustaði vingjarnlega og var uppörvandi svo að einlægu fólki leið vel í návist hans. (Matteus 11:28) Alls konar fólk átti auðvelt með að koma að máli við hann og bera upp það sem því lá á hjarta. (Markús 1:40; 5:35, 36; 10:13, 17, 46, 47) Þú mátt ekki yfirheyra fólk ef þú vilt að það sé ófeimið að segja þér hvað því finnst um Biblíuna og kenningar hennar.

15, 16. Hvernig geturðu bryddað upp á samræðum um trúmál?

15 Auk þess að beita spurningum geturðu hvatt til samræðna með því að segja eitthvað áhugavekjandi og hlusta síðan á álit viðmælandans. Lítum á dæmi. Jesús sagði Nikódemusi: „Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju.“ (Jóhannes 3:3) Þess orð vöktu slíka forvitni hjá Nikódemusi að hann gat ekki annað en spurt Jesú nánar út í málið og hlustað síðan á svar hans. (Jóhannes 3:4-20) Kannski geturðu komið af stað samræðum með svipuðum hætti.

16 Mörg ný trúfélög hafa skotið upp kollinum og það er umræðuefni fólks til dæmis í Afríku, Austur-Evrópu og Rómönsku-Ameríku. Þar um slóðir er oft hægt að brydda upp á samræðum með því að segja: „Það veldur mér áhyggjum að það skuli vera til svona mörg trúarbrögð. Í náinni framtíð vonast ég hins vegar til þess að sjá fólk af öllum þjóðum sameinast um eina trú. Myndirðu vilja sjá það gerast?“ Stundum er hægt að fá fólk til að láta skoðun sína í ljós með því að segja sjálfur eitthvað óvænt um von sína. Og það er auðveldara að svara spurningum þegar gefnir eru tveir svarmöguleikar. (Matteus 17:25) Eftir að viðmælandinn hefur tjáð sig um spurninguna skaltu svara henni sjálfur með einum eða tveim ritningarstöðum. (Jesaja 11:9; Sefanía 3:9) Með því að taka eftir viðbrögðum viðmælandans og hlusta vel á hann geturðu ef til vill fundið út hvað þú eigir að ræða um næst þegar þú bankar upp á hjá honum.

Jesús hlustaði á börn

17. Hvað sýnir að Jesús lét sér annt um börn?

17 Jesús lét sér ekki aðeins annt um fullorðna heldur einnig um börn. Hann þekkti leiki þeirra og vissi hvað þau sögðu sín á meðal. Stundum bauð hann börnum að koma til sín. (Lúkas 7:31, 32; 18:15-17) Fjöldi barna var meðal mannfjöldans sem safnaðist saman til að hlusta á Jesú. Þegar börn lofuðu Messías háum rómi gaf hann því gaum og benti á að það hefði verið sagt fyrir í Ritningunni. (Matteus 14:21; 15:38; 21:15, 16) Mörg börn gerast lærisveinar Jesú nú á tímum. Hvernig geturðu hjálpað þeim?

18, 19. Hvernig geturðu hjálpað börnum þínum að vera lærisveinar Jesú?

18 Til að hjálpa börnum þínum að vera lærisveinar Jesú þarftu að hlusta á þau. Þú þarft að vita hvaða hugmyndir þau hafa sem gætu stangast á við sjónarmið Jehóva. Hvað sem barnið segir er því yfirleitt best að fyrstu viðbrögð þín séu jákvæð, jafnvel þó að það útheimti sjálfstjórn. Síðan geturðu notað viðeigandi ritningarstaði til að sýna barninu fram á hvernig Jehóva lítur á málin.

19 Spurningar eru góðar og gildar. En börnum finnst ekki gaman að láta yfirheyra sig, ekkert frekar en fullorðnum. Í stað þess að leggja það á barnið að svara mörgum erfiðum spurningum gætirðu kannski sagt eitthvað stuttlega um sjálfan þig. Ef við á gætirðu sagt að þú hafir einu sinni hugsað á ákveðinn hátt og útskýrt af hverju. Síðan gætirðu spurt: „Hugsar þú líka svona?“ Viðbrögð barnsins geta orðið kveikja að góðum og hvetjandi umræðum með biblíulegu ívafi.

Höldum áfram að líkja eftir kennaranum mikla

20, 21. Af hverju ættirðu að hlusta vel þegar þú boðar fagnaðarerindið og kennir fólki?

20 Hvort sem þú ert að ræða einhver mál við barnið þitt eða einhvern annan er mikilvægt að hlusta vel. Það er merki um kærleika. Með því að hlusta sýnirðu auðmýkt og lítillæti og þú sýnir þeim sem talar virðingu og tillitssemi. Og auðvitað þarftu að taka vel eftir því sem hann segir.

21 Hlustaðu vel á húsráðendur þegar þú ert í boðunarstarfinu. Ef þú tekur vel eftir því sem þeir segja áttarðu þig sennilega á því hvaða sannindi Biblíunnar höfða sérstaklega til þeirra. Reyndu síðan að hjálpa þeim með því að beita hinum ýmsu kennsluaðferðum Jesú. Ef þú líkir eftir kennaranum mikla máttu treysta að þú hljótir mikla gleði að launum.

Hvert er svarið?

• Hvernig hvatti Jesús fólk til að tjá skoðanir sínar?

• Af hverju hlustaði Jesús á þá sem hann kenndi?

• Hvernig er hægt að beita spurningum í boðunarstarfinu?

• Hvernig er hægt að hjálpa börnum að verða lærisveinar Jesú?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 10]

Það er mikilvægt að hlusta á fólk úti í boðunarstarfinu.

[Mynd á bls. 12]

Við líkjum eftir Jesú þegar við hjálpum börnum að verða lærisveinar hans.