Styður þú drottinvald Jehóva?
Styður þú drottinvald Jehóva?
„Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn!“ — SÁLMUR 96:10.
1, 2. (a) Hvaða stórviðburður átti sér stað nálægt október árið 29? (b) Hvað þýddi þessi atburður fyrir Jesú?
NÁLÆGT október árið 29 gerðist stórviðburður sem á sér engan sinn líka hér á jörð. Guðspjallaritarinn Matteus skýrir svo frá: „Þegar Jesús hafði verið skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir, og [Jóhannes skírari] sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir [Jesú]. Og rödd kom af himnum: ,Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.‘“ Þetta er einn af fáum atburðum sem allir fjórir guðspjallaritararnir segja frá. — Matteus 3:16, 17; Markús 1:9-11; Lúkas 3:21, 22; Jóhannes 1:32-34.
2 Með því að úthella heilögum anda yfir Jesú á sýnilegan hátt var sýnt fram á að hann væri hinn smurði, en það er merking orðanna Messías og Kristur. (Jóhannes 1:33) Fyrirheitna ,sæðið‘ var loksins komið fram! Frammi fyrir Jóhannesi skírara stóð sá sem Satan átti að merja hælinn á, sá sem átti síðan að merja höfuð þessa erkióvinar Jehóva sem stóð á móti drottinvaldi hans. (1. Mósebók 3:15) Þaðan í frá vissi Jesús mætavel að hann yrði að leitast við að framfylgja fyrirætlun Jehóva varðandi drottinvald sitt og ríki.
3. Hvernig bjó Jesús sig undir það hlutverk að styðja drottinvald Jehóva?
3 Til að búa sig undir verkefni sitt „sneri [Jesús] aftur frá Jórdan, fullur af heilögum anda. Leiddi andinn hann um óbyggðina“ um 40 daga skeið. (Lúkas 4:1; Markús 1:12) Þar gafst Jesú tími til að hugleiða vel deilumálið um drottinvald Guðs sem Satan hafði vakið upp, og þá lífsstefnu sem hann þurfti að taka til að styðja alvald Guðs. Þessi deila varðar allar skynsemigæddar sköpunarverur Guðs á himni og jörð. Við ættum því að hugleiða trúfesti Jesú og kanna hvað við þurfum að gera til að sýna að við styðjum líka drottinvald Jehóva. — Jobsbók 1:6-12; 2:2-6.
Deilan um drottinvald Guðs í brennidepli
4. Hvað gerði Satan sem sýndi að deilan um drottinvald Guðs var í brennidepli?
4 Að sjálfsögðu fór ekkert af því sem lýst er hér á undan fram hjá Satan. Hann beið ekki boðanna og réðst á aðalsæði ,konu‘ Guðs. (1. Mósebók 3:15) Hann freistaði Jesú þrisvar og stakk upp á því við hann að gera það sem virtist sjálfum honum í hag í stað þess sem faðir hans vildi að hann gerði. Deilan um drottinvald Guðs var ekki síst í brennidepli í þriðju freistingunni. Satan sýndi þá Jesú „öll ríki heims og dýrð þeirra“ og sagði síðan óskammfeilinn: „Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ Jesús vissi fullvel að Satan djöfullinn réð yfir ,öllum ríkjum heims‘ og svar hans sýnir ótvírætt hvaða afstöðu hann tók í deilumálinu um alheimsvaldið: „Vík brott, Satan! Ritað er: ,Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.‘“ — Matteus 4:8-10.
5. Hvaða krefjandi verkefni fékk Jesús?
5 Jesús sýndi með lífsstefnu sinni að það var æðsta markmið hans í lífinu að styðja drottinvald Jehóva. Hann vissi mætavel að hann yrði að vera trúr uns hann dæi fyrir hendi Satans til að sanna rétt Guðs til að fara með alvaldið. Því hafði verið lýst þannig í spádóminum að hællinn á ,sæði‘ konunnar yrði marinn. (Matteus 16:21; 17:12) Hann þurfti einnig að boða að Guð myndi nota ríki sitt til að sigra uppreisnarsegginn Satan og koma á friði um allan alheim. (Matteus 6:9, 10) Hvernig fór Jesús að því að gera þessu krefjandi verkefni skil?
„Guðs ríki í nánd“
6. Hvernig kunngerði Jesús að Guð muni nota ríki sitt til að „brjóta niður verk djöfulsins“?
6 Fyrst fór Jesús „til Galíleu og prédikaði fagnaðarerindi Guðs og sagði: ,Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd.‘“ (Markús 1:14, 15) Hann sagði: „Mér ber . . . að flytja . . . fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur.“ (Lúkas 4:18-21, 43) Hann fór um landið þvert og endilangt, „prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki“. (Lúkas 8:1) Hann vann einnig fjölda kraftaverka — mettaði mannfjöldann, hamdi náttúruöflin, læknaði sjúka og vakti upp dána. Með því að vinna þessi kraftaverk sannaði Jesús að Guð getur þurrkað út allt það tjón og allar þær þjáningar sem uppreisnin í Eden olli og ,brotið niður verk djöfulsins‘. — 1. Jóhannesarbréf 3:8.
7. Hvað fól Jesús fylgjendum sínum að gera og með hvaða árangri?
7 Til að láta boða fagnaðarerindið um ríki Guðs sem víðast safnaði hann að sér hópi dyggra fylgjenda og þjálfaði þá til verksins. Fyrst kallaði hann saman postulana 12 og „sendi þá að boða Guðs ríki“. (Lúkas 9:1, 2) Síðan sendi hann út 70 að auki og fól þeim að boða: „Guðs ríki er komið í nánd við yður.“ (Lúkas 10:1, 8, 9) Þegar þessir lærisveinar sneru aftur til hans og greindu honum frá þeim árangri sem þeir hefðu náð í boðunarstarfinu sagði hann: „Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu.“ — Lúkas 10:17, 18.
8. Hvað sýndi Jesús greinilega með lífsstefnu sinni?
8 Jesús var óþreytandi við að vitna um Guðsríki og lét ekkert tækifæri ónotað. Hann starfaði þrotlaust dag og nótt og neitaði sér jafnvel um sjálfsögð lífsþægindi. „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla,“ sagði hann. (Lúkas 9:58; Markús 6:31; Jóhannes 4:31-34) Skömmu áður en hann dó sagði hann Pontíusi Pílatusi djarfmannlega: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ (Jóhannes 18:37) Jesús sýndi með lífsstefnu sinni að hann kom ekki einungis til að vera mikill kennari eða kraftaverkamaður, eða jafnvel fórnfús frelsari, heldur til að styðja vilja Jehóva Guðs og vitna um að hann láti vilja sinn ná fram að ganga fyrir atbeina Guðsríkis. — Jóhannes 14:6.
„Það er fullkomnað“
9. Hvernig tókst Satan að lokum að merja hæl ,sæðis‘ konu Guðs?
9 Óvinur Guðs, Satan djöfullinn, var ekki beinlínis ánægður með það sem Jesús gerði í tengslum við ríki Guðs. Hann reyndi æ ofan í æ að þagga niður í ,sæði‘ konu Guðs og notaði til þess jarðneskt ,sæði‘ sitt, bæði pólitískt og trúarlegt. Jesús var skotspónn Satans og handbenda hans allt frá fæðingu til dauða. Vorið 33 var tíminn kominn til að Mannssonurinn yrði seldur í hendur óvinarins og hæll hans marinn. (Matteus 20:18, 19; Lúkas 18:31-33) Guðspjöllin lýsa greinilega hvernig Satan ráðskaðist með fólk — Júdas Ískaríot, æðstuprestana, fræðimennina, faríseana og Rómverja — til að fá Jesú dæmdan og tekinn af lífi með kvalafullum hætti á aftökustaur. — Postulasagan 2:22, 23.
10. Hverju áorkaði Jesús öðru fremur með því að deyja á aftökustaurnum?
10 Hvað dettur þér í hug þegar þú hugsar um Jesú deyjandi hægum og kvalafullum dauða á aftökustaurnum? Þú hugsar ef til vill um lausnarfórnina sem hann færði með óeigingirni í þágu syndugra manna. (Matteus 20:28; Jóhannes 15:13) Kannski dáist þú að hinum mikla kærleika sem Jehóva sýndi með því að færa þessa fórn. (Jóhannes 3:16) Vera má að þér sé innanbrjósts eins og rómverska herforingjanum sem fann sig knúinn til að segja: „Sannarlega var þessi maður sonur Guðs.“ (Matteus 27:54) Allt eru þetta eðlileg viðbrögð. Síðustu orð Jesú á aftökustaurnum voru hins vegar: „Það er fullkomnað.“ (Jóhannes 19:30) Hvað var fullkomnað? Jesús afrekaði vissulega margt með lífi sínu og dauða en kom hann ekki fyrst og fremst til jarðar í þeim tilgangi að útkljá deilumálið um drottinvald Jehóva? Og var því ekki spáð að Satan myndi reyna hann til hins ýtrasta og þar með yrði nafn Jehóva hreinsað af öllum áburði? (Jesaja 53:3-7) Það var mikil ábyrgð sem hvíldi á Jesú í hlutverki ,sæðisins‘ en hann reis undir henni að öllu leyti. Hann fullkomnaði það sem hann átti að gera.
11. Hvernig uppfyllir Jesús að fullu spádóminn í Eden?
11 Vegna trúfesti sinnar og hollustu var Jesús reistur upp frá dauðum, þó ekki sem maður heldur sem ,lífgandi andi‘. (1. Korintubréf 15:45; 1. Pétursbréf 3:18) Jehóva hafði lofað dýrlegum syni sínum: „Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér.“ (Sálmur 110:1) ,Óvinirnir‘ eru aðalsökudólgurinn Satan og allir sem mynda ,sæði‘ hans. Jesús Kristur er konungur Messíasarríkis Jehóva og gengur sem slíkur fram fyrir skjöldu og útrýmir öllum uppreisnarseggjum á himni og jörð. (Opinberunarbókin 12:7-9; 19:11-16; 20:1-3, 10) Þá hefur spádómurinn í 1. Mósebók 3:15 ræst að fullu og hið sama er að segja um bænina sem Jesús kenndi fylgjendum sínum: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — Matteus 6:10; Filippíbréfið 2:8-11.
Fyrirmynd til eftirbreytni
12, 13. (a) Hvernig bregst fólk við fagnaðarerindinu um ríkið? (b) Hvað þurfum við að hugleiða ef við viljum feta í fótspor Jesú?
12 Fagnaðarerindið um ríkið er nú prédikað víða um lönd eins og Jesús spáði. (Matteus 24:14) Milljónir manna hafa vígt Jehóva líf sitt. Þeir bíða þess með óþreyju að hljóta þá blessun sem Guðsríki hefur í för með sér. Þeir hlakka til þess að lifa að eilífu við frið og öryggi í paradís á jörð og hafa yndi af því að segja öðrum frá von sinni. (Sálmur 37:11; 2. Pétursbréf 3:13) Ert þú einn þeirra sem boða ríki Guðs? Ef svo er áttu hrós skilið. En það er önnur hlið á málinu sem við þurfum að hugleiða, hvert og eitt.
13 Pétur postuli skrifaði: „Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ (1. Pétursbréf 2:21) Við tökum eftir að Pétur minnist ekki á brennandi áhuga Jesú á að boða fagnaðarerindið eða færni hans sem kennara heldur á þjáningar hans. Pétur hafði séð með eigin augum hve Jesús var fús til að þjást til að styðja drottinvald Jehóva og sanna Satan lygara. Hvernig getum við þá fetað í fótspor Jesú? Við þurfum að spyrja okkur: Hve mikið er ég fús til að þjást til að styðja og heiðra drottinvald Jehóva? Sýni ég með líferni mínu og boðunarstarfi að það er mér fyrir mestu að styðja drottinvald Jehóva? — Kólossubréfið 3:17.
14, 15. (a) Hvernig brást Jesús við þegar reynt var að leiða hann afvega og hvers vegna? (b) Hvað þurfum við að hafa í huga öllum stundum? (Sjá einnig rammann „Stöndum með Jehóva“.)
14 Við stöndum frammi fyrir prófraunum og þurfum að taka ákvarðanir, smáar og stórar, á hverjum degi. Hvað ætti að ráða viðbrögðum okkar og ákvörðunum? Hvað gerum við til dæmis þegar okkar er freistað til að gera eitthvað sem myndi stofna sambandi okkar við Guð í hættu? Hvernig brást Jesús við þegar Pétur hvatti hann til að hlífa sér? „Vík frá mér, Satan,“ svaraði Jesús, „þú hugsar ekki um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er.“ (Matteus 16:21-23) Líkjum við eftir Jesú þegar okkur er boðin stöðu- eða launahækkun sem kæmi niður á andlegri velferð okkar? Jesús flýtti sér burt þegar hann gerði sér grein fyrir að þeir sem sáu hann vinna kraftaverk ætluðu að „taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi“. — Jóhannes 6:15.
15 Af hverju var Jesús svona einbeittur og ákveðinn í þessum tilfellum og öðrum? Af því að hann vissi vel að meira var í húfi en hagsmunir eða öryggi hans sjálfs. Hann vildi gera vilja föður síns og styðja drottinvald hans hvað sem það kostaði. (Matteus 26:50-54) Við þurfum að líkja eftir honum. Ef við höfum ekki skýrt í huga öllum stundum um hvað deilan snýst er alltaf hætta á að við látum undan eða gerum ekki rétt. Hvers vegna? Vegna þess að annars gætum við hæglega látið Satan blekkja okkur því að hann er snillingur í að klæða hið ranga í aðlaðandi búning eins og hann gerði þegar hann freistaði Evu. — 2. Korintubréf 11:14; 1. Tímóteusarbréf 2:14.
16. Hvert ætti að vera aðalmarkmið okkar þegar við boðum trúna?
16 Þegar við boðum trúna reynum við að ræða við fólk um það sem liggur því á hjarta og sýna því svör Biblíunnar. Þetta er áhrifarík leið til að vekja áhuga þess á að kynna sér efni hennar. En aðalmarkmið okkar er ekki aðeins að fræða fólk um Biblíuna eða þá blessun sem ríki Guðs hefur í för með sér. Við verðum að vekja fólk til vitundar um deiluna um drottinvald Guðs. Vill fólk tileinka sér sannkristna trú, taka „kross sinn“ og þjást vegna Guðsríkis? (Markús 8:34) Er það tilbúið að slást í hóp þeirra sem styðja drottinvald Jehóva og eiga þátt í að sanna að Satan sé lygari og rógberi? (Orðskviðirnir 27:11) Við höfum það ánægjulega verkefni að hjálpa sjálfum okkur og öðrum að gera það. — 1. Tímóteusarbréf 4:16.
Þegar Guð verður „allt í öllu“
17, 18. Hvers fáum við að njóta ef við sýnum að við styðjum drottinvald Jehóva?
17 Við gerum okkar ýtrasta núna til að sýna með hegðun okkar og þjónustu að við styðjum drottinvald Jehóva, og við hlökkum til þess dags þegar Jesús Kristur „selur ríkið Guði föður í hendur“. Hvenær gerist það? Páll postuli svarar: „Er hann hefur að engu gjört sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft. Því að honum ber að ríkja, uns hann leggur alla fjendurna undir fætur hans. . . . Þá mun og sonurinn sjálfur leggja sig undir þann, er lagði alla hluti undir hann, til þess að Guð sé allt í öllu.“ — 1. Korintubréf 15:24, 25, 28.
18 Hugsaðu þér hve unaðslegt það verður þegar Jehóva Guð verður „allt í öllu“! Ríki hans hefur þá lokið verkefni sínu. Öllum sem standa á móti drottinvaldi Jehóva hefur verið útrýmt. Friður og regla er komin á út um allan alheim. Öll sköpunin mun þá syngja eins og sálmaskáldið: „Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, . . . Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn!“ — Sálmur 96:8, 10.
Geturðu svarað?
• Hvernig hafði Jesús deiluna um drottinvald Guðs í brennidepli?
• Hverju áorkaði Jesús öðru fremur með þjónustu sinni og dauða?
• Hvernig getum við líkt eftir fordæmi Jesú og sýnt að við styðjum drottinvald Jehóva?
[Spurningar]
[Mynd á bls. 21]
STÖNDUM MEÐ JEHÓVA
Þegar kristnir menn lenda í erfiðum prófraunum er gott fyrir þá að hafa skýrt í huga af hverju þeir verða fyrir þeim. Það vita margir bræður í Kóreu og víðar.
Vottur, sem sat í fangelsi á dögum Sovétstjórnarinnar fyrrverandi, segir: „Það sem hjálpaði okkur að halda út var skýr skilningur á deilunni sem kom upp í Eden — deilunni um rétt Guðs til að stjórna. . . . Við vissum að við höfðum tækifæri til að standa með stjórn Jehóva. . . . Það styrkti okkur og hjálpaði okkur að vera ráðvandir.“
Annar vottur lýsir hvað hjálpaði honum og öðrum vottum sem voru sendir í vinnubúðir. „Jehóva studdi okkur,“ segir hann. „Við héldum andlegri vöku okkar þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Við vorum sífellt að uppörva hver annan með því að minna á að við hefðum tekið afstöðu með Jehóva í deildunni um alvald hans.“
[Mynd á bls. 18]
Hvernig studdi Jesús drottinvald Jehóva þegar Satan freistaði hans?
[Mynd á bls. 20]
Hvað ávannst með dauða Jesú?