Gerið óskir ykkar kunnar Guði
Gerið óskir ykkar kunnar Guði
„Gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 4:6.
1. Við hvern fáum við að eiga samskipti og af hverju er það svo sérstakt?
HVERS konar viðbrögð ætli þú fengir ef þú bæðir um áheyrn hjá æðsta ráðamanni í landinu? Ef til vill fengir þú kurteislegt svar frá skrifstofu hans en það er frekar ólíklegt að þú fengir að tala við valdhafann sjálfan. En öðru máli gegnir um æðsta valdhafa veraldar, Jehóva Guð, Drottin alheims. Við höfum aðgang að honum hvar sem við erum stödd og hvenær sem við viljum. Bænir okkar ná alltaf til hans ef þær eru honum velþóknanlegar. (Orðskviðirnir 15:29) Það er stórkostlegt! Ættum við ekki að meta þetta mikils og biðja reglulega til Guðs „sem heyrir bænir“ manna? — Sálmur 65:3.
2. Hvað er nauðsynlegt til að bænir okkar séu Guði þóknanlegar?
2 En sumum kann að vera spurn hvers konar bænir Guð heyri. Biblían tekur fram mikilvæga forsendu fyrir því að bænir okkar séu honum þóknanlegar þar sem hún segir: „Án trúar er ógerlegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ (Hebreabréfið 11:6) Eins og fram kom í greininni á undan er nauðsynlegt að trúa til að geta gengið fram fyrir Guð. Hann heyrir bænir þeirra sem leita til hans en þeir þurfa að gera það í trú, einlægni og með réttu hugarfari, og verk þeirra þurfa að vera Guði að skapi.
3. (a) Hvers eðlis geta bænir okkar verið, samanber bænir þjóna Guðs forðum daga? (b) Hvers konar bænir er hægt að biðja?
3 Páll postuli hvatti trúbræður sína: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.“ (Filippíbréfið 4:6, 7) Í Biblíunni segir frá fjölda dæma um fólk sem bar áhyggjur sínar upp við Guð í bæn. Nefna má Hönnu, Elía, Hiskía og Daníel. (1. Samúelsbók 2:1-10; 1. Konungabók 18:36, 37; 2. Konungabók 19:15-19; Daníel 9:3-21) Við ættum að fara að dæmi þeirra. Við sjáum enn fremur af orðum Páls að bænir geta verið margs konar. Hann nefnir þakkargjörð en það er bæn þar sem við þökkum Guði fyrir það sem hann gerir fyrir okkur. Og ekki er óeðlilegt að við lofum hann samhliða því. Með beiðni er átt við auðmjúka og innilega bón. Og við getum tjáð honum óskir okkar og beðið hann um eitthvað ákveðið. (Lúkas 11:2, 3) Faðirinn á himnum hlustar fúslega á bænir af þessu tagi.
4. Af hverju eigum við að bera óskir okkar upp við Guð í bæn fyrst honum er fullkunnugt um þarfir okkar?
4 Nú kann einhver að spyrja hvort Jehóva sé ekki fullkunnugt um allar þarfir okkar. Jú, vissulega. (Matteus 6:8, 32) Af hverju vill hann þá að við leitum til sín og berum fram óskir okkar? Lítum á dæmi: Verslunareigandi ákveður að gefa sumum af viðskiptavinum sínum gjöf. Til að fá gjöfina verða viðskiptavinirnir hins vegar að fara í verslunina og biðja um hana. Þeir sem vilja ekki leggja það á sig sýna að þeir meta boðið ekki mikils. Ef við segjum Jehóva ekki frá óskum okkar í bæn myndum við á sama hátt láta í ljós að við kynnum ekki að meta það sem hann lætur í té. „Biðjið, og þér munuð öðlast,“ sagði Jesús. (Jóhannes 16:24) Þannig sýnum við að við treystum á Guð.
Hvernig eigum við að ganga fram fyrir Guð?
5. Af hverju eigum við að biðja í nafni Jesú?
5 Jehóva setur hvorki margar né stífar reglur um það hvernig eigi að biðja. Við þurfum engu að síður að læra hvernig við eigum að ganga fram fyrir Guð, eins og því er lýst í Biblíunni. Jesús sagði fylgjendum sínum til dæmis: „Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður.“ (Jóhannes 16:23) Við eigum sem sagt að biðja í nafni Jesú en með því látum við í ljós að við viðurkennum að það sé aðeins fyrir milligöngu hans sem Guð veitir mannkyninu blessun sína.
6. Í hvers konar stellingu þurfum við að vera þegar við biðjum?
6 Í hvers konar stellingu eigum við að vera þegar við biðjum? Biblían lýsir engri sérstakri stellingu sem sé nauðsynleg til að fá bænheyrslu. (1. Konungabók 8:22; Nehemíabók 8:6; Markús 11:25; Lúkas 22:41) Það sem máli skiptir er að biðja til Guðs í einlægni og með réttu hugarfari. — Jóel 2:12, 13.
7. (a) Hvað merkir „amen“? (b) Hvernig er viðeigandi að nota það í bænum?
7 Hvernig ber að nota orðið „amen“? Af Biblíunni má sjá að það er að jafnaði við hæfi að ljúka bæn með því að segja „amen“, ekki síst þegar við biðjum í áheyrn annarra. (Sálmur 72:19; 89:53) Grunnmerking hebreska orðsins ʼamenʹ er „vissulega“. Í biblíuorðabók McClintocks og Strongs, Cyclopedia, segir að „amen“ í lok bænar merki að maður „staðfesti það sem á undan var sagt og biðji um að það rætist“. Með því að ljúka bæn með einlægu „amen“ látum við í ljós að okkur sé mjög annt um það sem við sögðum. Þegar kristinn maður fer með bæn fyrir hönd safnaðarins og lýkur bæninni með „amen“ geta áheyrendur einnig sagt „amen“, annaðhvort í hljóði eða upphátt, til að láta í ljós að þeir séu hjartanlega sammála bæninni. — 1. Korintubréf 14:16.
8. Hvernig getum við líkt eftir Jakobi eða Abraham í bænum okkar og hvað myndum við sýna þar með?
8 Stundum gefur Guð okkur tækifæri til að sýna hve annt okkur sé um það sem við biðjum um. Ef til vill þurfum við að líkja eftir ættföðurnum Jakob sem glímdi heila nótt við engil til að hljóta blessun. (1. Mósebók 32:24-26) Stundum geta aðstæður verið þannig að við þurfum að gera eins og Abraham sem bað margsinnis fyrir Lot og öðru réttlátu fólki sem hugsanlega fyrirfyndist í Sódómu. (1. Mósebók 18:22-33) Við getum sömuleiðis ákallað Jehóva vegna ýmissa mála sem eru okkur kær og höfðað til réttlætis hans, kærleika og miskunnar.
Um hvað megum við biðja?
9. Hvað ætti að ganga fyrir í bænum okkar?
9 Við munum eftir að Páll sagði: „Gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði.“ (Filippíbréfið ) Í einkabænum okkar getum við rætt um nánast hvaðeina sem snertir líf okkar. Hagsmunir Jehóva ættu þó að ganga fyrir. Daníel er góð fyrirmynd um það. Þegar Ísraelsmenn þurftu að taka út refsingu fyrir syndir sínar sárbændi hann Jehóva um að sýna miskunn og sagði: „Tef eigi, fyrir sjálfs þín sakir, Guð minn, því að eftir þínu nafni er borg þín nefnd og lýður þinn!“ ( 4:6Daníel 9:15-19) Vitna bænir okkar líka um að okkur sé efst í huga að nafn Jehóva helgist og vilji hans nái fram að ganga?
10. Hvernig vitum við að það er viðeigandi að gera persónuleg mál að bænarefni?
10 Engu að síður er fyllilega við hæfi að ræða í bænum okkar um mál sem snerta okkur sjálf. Við getum til dæmis beðið Jehóva að veita okkur dýpri trúarskilning líkt og sálmaritarinn gerði. Hann bað: „Veit mér skyn, að ég megi halda lögmál þitt og varðveita það af öllu hjarta.“ (Sálmur 119:33, 34; Kólossubréfið 1:9, 10) Jesús bar fram „bænir og auðmjúk andvörp fyrir þann, sem megnaði að frelsa hann frá dauða“. (Hebreabréfið 5:7) Þannig sýndi hann fram á að það væri viðeigandi að biðja um styrk frá Guði andspænis hættum og prófraunum. Þegar Jesús kenndi lærisveinunum að biðja nefndi hann ýmis persónuleg mál svo sem að fyrirgefa og fá daglegt viðurværi.
11. Hvernig getur bænin hjálpað okkur að falla ekki í freistni?
11 Eftirfarandi beiðni er að finna í faðirvorinu: „Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá hinum vonda.“ (Matteus 6:9-13, neðanmáls) Síðar hvatti Jesús: „Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni.“ (Matteus 26:41) Það er mikilvægt að biðja þegar við lendum í prófraunum. Ef til vill er reynt að freista okkar í vinnunni eða skólanum til að sniðganga meginreglur Biblíunnar. Fólk utan safnaðarins býður okkur kannski að taka þátt í einhverju vafasömu, eða við erum beðin að gera eitthvað sem gengur í berhögg við meginreglur Biblíunnar. Þá er gott að fylgja ráðum Jesú og fara með bæn, bæði fyrir fram og einnig þegar freistinguna ber að garði. Við getum beðið Guð að hjálpa okkur þannig að við föllum ekki í freistni.
12. Hvaða erfiðleikar geta verið okkur hvöt til að biðja og hvers megum við vænta af Jehóva?
12 Ýmiss konar streita og áhyggjur hvíla á þjónum Guðs nú á dögum. Tilfinningalegt álag og veikindi leggjast þungt á marga. Ofbeldið umhverfis okkur bætir ekki úr skák. Efnahagserfiðleikar gera mörgum erfitt fyrir að draga fram lífið. Er ekki hughreystandi að vita að Jehóva skuli hlusta á þjóna sína þegar þeir bera þessi mál upp við hann? Í Sálmi 102:18 segir um Jehóva: „Hann snýr sér að bæn hinna nöktu og fyrirlítur eigi bæn þeirra.“
13. (a) Hvaða persónulegu mál er viðeigandi að ræða við Jehóva í bæn? (b) Nefndu dæmi um slíka bæn.
13 Sannleikurinn er sá að það er viðeigandi að nefna í bænum sínum hvaðeina sem hefur áhrif á þjónustuna við Jehóva eða sambandið við hann. (1. Jóhannesarbréf 5:14) Ef þú þarft að taka ákvörðun varðandi hjónaband eða atvinnu eða vilt gera meira í þjónustunni við Jehóva skaltu óhikað leggja það fyrir hann og biðja hann að leiðbeina þér. Unga konu á Filippseyjum langaði til að þjóna Jehóva í fullu starfi. En hana vantaði vinnu til að framfleyta sér. „Einn laugardag ræddi ég sérstaklega um það í bæn hvort ég gæti gerst brautryðjandi,“ segir hún. „Síðar sama dag var ég í boðunarstarfinu og bauð unglingsstúlku bók. Stúlkan sagði þá upp úr þurru: ‚Þú ættir að koma við í skólanum mínum strax á mánudagsmorgun.‘ ‚Af hverju?‘ spurði ég. Hún sagði þá að þar væri laust starf sem þyrfti að ráða í sem allra fyrst. Ég mætti á staðinn og var ráðin umsvifalaust. Þetta gerðist allt svo hratt.“ Margir vottar Jehóva víðsvegar um heim gætu sagt svipaða sögu. Hikaðu ekki við að leggja einlægar óskir þínar fyrir Guð í bæn.
Ef við höfum syndgað
14, 15. (a) Af hverju ættum við ekki að veigra okkur við að biðja þótt við höfum syndgað? (b) Hvað annað getur verið hjálp til að ná sér á strik eftir að maður hefur syndgað?
14 Hvernig getur bænin hjálpað þeim sem hafa syndgað? Sumir blygðast sín svo eftir að hafa syndgað að þeir veigra sér við að biðja til Jehóva. En það er ekki skynsamlegt. Lýsum því með dæmi: Flugmenn vita að ef þeir villast geta þeir leitað aðstoðar flugumferðarstjóra. En segjum nú að flugmaður skammist sín svo mikið fyrir að villast að hann hiki við að hafa samband við flugstjórn. Það gæti endað með ósköpum. Sá sem hefur syndgað gæti unnið sjálfum sér enn meiri skaða með því að leita ekki til Jehóva í bæn. Við ættum ekki að hætta að tala við Jehóva þó að við höfum syndgað og blygðumst okkar fyrir. Reyndar hvetur hann þá sem hefur orðið alvarlega á að biðja til sín. Jesaja spámaður hvatti syndara síns tíma til að ákalla Jehóva „því að hann fyrirgefur ríkulega“. (Jesaja 55:6, 7) En fyrst gætum við þurft að ‚blíðka‘ hann með því að mýkja hjarta okkar, hætta að syndga og iðrast í einlægni. — Sálmur 119:58; Daníel 9:13.
15 Ef við höfum syndgað getur bænin einnig hjálpað á annan hátt. Lærisveinninn Jakob segir um mann sem þarfnast andlegrar styrkingar: „Þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu . . . biðjast fyrir yfir honum . . . og Drottinn mun reisa hann á fætur.“ (Jakobsbréfið 5:14, 15) Já, við ættum að játa syndir okkar fyrir Jehóva í bæn en við getum einnig beðið öldungana að biðja fyrir okkur. Það er góð hjálp til að ná sér aftur á strik.
Bænheyrsla
16, 17. (a) Hvernig bænheyrir Guð fólk? (b) Hvaða dæmi sýna að bænin og boðunarstarfið eru nátengd?
16 Hvernig svarar Guð bænum? Stundum er svarið augljóst og kemur fljótt. (2. Konungabók 20:1-6) Í öðrum tilvikum er svarið ekki eins augljóst og það virðist vera bið á því. Eins og sjá má af dæmisögu Jesú um ekkjuna sem leitaði mörgum sinnum til dómarans getur stundum verið nauðsynlegt að biðja margsinnis til Jehóva út af einhverju máli. (Lúkas 18:1-8) Við getum hins vegar treyst að þegar við biðjum í samræmi við vilja Jehóva mun hann aldrei svara: „Gjör mér ekki ónæði.“ — Lúkas 11:5-9.
17 Þjónar Jehóva hafa oft orðið vitni að því að bænum sé svarað, til dæmis í boðunarstarfi sínu meðal almennings. Tveir vottar voru að dreifa biblíuritum á afskekktu svæði á Filippseyjum. Þeir hittu konu sem þáði af þeim smárit. Henni vöknaði um augu og hún sagði: „Í gærkvöldi bað ég Guð að senda einhvern til mín til að fræða mig um Biblíuna og ég held að nú hafi ég verið bænheyrð.“ Skömmu síðar fór konan að sækja samkomur í ríkissalnum. Vottur annars staðar í Suðaustur-Asíu var hikandi við að boða trúna í húsi einu með öryggisíbúðum. Hann bað þá til Jehóva, tók í sig kjark og gekk inn í húsið. Hann bankaði og ung kona kom til dyra. Þegar hann sagði henni til hvers hann væri kominn brast hún í grát. Hún sagðist hafa verið að leita að vottum Jehóva og hefði beðið Guð að hjálpa sér að finna þá. Bróðirinn var meira en fús til að koma henni í samband við söfnuð Votta Jehóva á staðnum.
18. (a) Hvernig ættum við að bregðast við bænheyrslu Guðs? (b) Hverju getum við treyst ef við biðjum hvenær sem færi gefst?
18 Bænin er sannarlega dýrmæt. Jehóva er reiðubúinn að hlusta og veita okkur það sem við biðjum um. (Jesaja 30:18, 19) En við þurfum að hafa augun opin fyrir því hvernig hann bænheyrir okkur. Hann gerir það ekki alltaf með þeim hætti sem við búumst við. En þegar við finnum fyrir handleiðslu Jehóva megum við ekki gleyma að þakka honum fyrir og lofa hann. (1. Þessaloníkubréf 5:18) Og höfum alltaf í huga hvatningu Páls postula: „Gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.“ Já, notum hvert tækifæri til að tala við Guð í bæn. Þá finnum við greinilega fyrir því sem Páll bendir á í framhaldinu varðandi bænir og bænheyrslu: „Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar.“ — Filippíbréfið 4:6, 7.
Geturðu svarað?
• Hvers eðlis geta bænir okkar verið?
• Hvernig ættum við að biðja?
• Um hvað getum við rætt í bænum okkar?
• Hvaða hlutverki gegnir bænin ef við höfum syndgað?
[Spurningar]
[Myndir á blaðsíðu 9]
Innileg bæn hjálpar okkur að falla ekki í freistni.
[Myndir á blaðsíðu 11]
Við tjáum Guði þakkir okkar, áhyggjur og óskir í bæn.