Hvernig á að nálgast Guð sem „heyrir bænir“?
Hvernig á að nálgast Guð sem „heyrir bænir“?
„Þú sem heyrir bænir, til þín kemur allt hold.“ — SÁLMUR 65:3.
1. Hvað skilur milli mannsins og annarra sköpunarvera jarðar og hvaða möguleika hefur það í för með sér?
AF ÖLLUM lífverum jarðar eru það aðeins mennirnir sem eru færir um að tilbiðja skaparann. Aðeins mennirnir hafa meðvitund um andlegar þarfir og finna að þeir þurfa að fullnægja þeim. Við eigum því þann einstæða möguleika að geta átt persónulegt samband við föður okkar á himnum.
2. Hvernig spillti syndin sambandi mannsins við skaparann?
2 Guð gerði manninn þannig úr garði að hann gæti átt tjáskipti við sig. Adam og Eva voru sköpuð syndlaus. Þau gátu því leitað til Guðs rétt eins og barn kemur að máli við föður sinn. En syndin svipti manninn þessari stórfenglegu gjöf. Adam og Eva óhlýðnuðust Guði og misstu hið nána samband sem þau höfðu átt við hann. (1. Mósebók 3:8-13, 17-24) Þýðir það að ófullkomnir afkomendur Adams eigi ekki kost á því lengur að eiga tjáskipti við Guð? Nei, Jehóva leyfir þeim enn þá að eiga samband við sig en því aðeins að þeir fullnægi ákveðnum skilyrðum. Hvaða skilyrði eru það?
Hvaða skilyrði setur Guð?
3. Hvernig eiga syndugir menn að ganga fram fyrir Guð og hvaða frásaga sýnir það vel?
3 Atvik tengt tveim af sonum Adams varpar ljósi á þær kröfur sem Guð gerir til ófullkominna manna sem vilja leita til hans í bæn. Kain og Abel reyndu báðir að nálgast Guð með því að færa honum fórnir. Fórn Abels var Guði þóknanleg en fórn Kains ekki. (1. Mósebók 4:3-5) Í hverju lá munurinn? Í Hebreabréfinu 11:4 segir: „Fyrir trú bar Abel fram fyrir Guð betri fórn en Kain, og fyrir trú fékk hann þann vitnisburð, að hann væri réttlátur.“ Það er því ljóst að trú er forsenda þess að við eigum aðgang að Guði. Önnur forsenda kemur fram í orðum Jehóva við Kain: „Ef þú gjörir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur.“ Já, Kain hefði átt aðgang að Guði ef hann hefði gert rétt. En Kain hunsaði ráðleggingar Guðs, myrti Abel og varð landflótta flakkari upp frá því. (1. Mósebók 4:7-12) Það kom því snemma fram í sögu mannsins að nauðsynlegt væri að gera rétt og ganga fram fyrir Guð í trú.
4. Hvað þurfum við að viðurkenna til að geta gengið fram fyrir Guð?
4 Ef við viljum ganga fram fyrir Guð verðum við að viðurkenna að við séum syndug. Allir menn eru syndugir og syndin stendur í vegi fyrir því að menn geti beðið til Guðs. Jeremía spámaður skrifaði um Ísrael: „Vér höfum syndgað . . . þú hefir hulið þig í skýi, svo að engin bæn kemst í gegn.“ (Harmljóðin 3:42, 44) Engu að síður hefur Guð alla tíð verið fús til að heyra bænir þeirra sem halda boð hans, hafa rétt hjartalag og ganga fram fyrir hann í trú. (Sálmur 119:145) Könnum nánar hvaða fólk þetta var og hvað læra má af bænum þess.
5, 6. Hvað má læra af bænum Abrahams?
5 Abraham var einn þessara manna. Ljóst er að Guð heyrði bænir hans því að Guð kallaði hann ‚ástvin sinn‘. (Jesaja 41:8) Hvað má læra af bænum Abrahams? Þessi trúi ættfaðir spurði Jehóva hvort hann myndi eignast erfingja og sagði: „Hvað ætlar þú að gefa mér? Ég fer héðan barnlaus.“ (1. Mósebók 15:2, 3; 17:18) Við annað tækifæri lýsti hann áhyggjum sínum af því hverjir myndu bjargast þegar Guð fullnægði dómi á óguðlegum mönnum í Sódómu og Gómorru. (1. Mósebók 18:23-33) Abraham bað einnig fyrir öðrum. (1. Mósebók 20:7, 17) Og líkt og hjá Abel voru samskipti hans við Guð stundum fólgin í því að færa fórn. — 1. Mósebók 22:9-14.
6 Við öll þessi tækifæri talaði Abraham hiklaust við Jehóva. En þótt hann talaði af djörfung var hann engu að síður auðmjúkur gagnvart skapara sínum. Tökum eftir virðingunni í orðum hans í 1. Mósebók 18:27: „Æ, ég hefi dirfst að tala við Drottin, þótt ég sé duft eitt og aska.“ Þetta er gott hugarfar til eftirbreytni.
7. Hvað gerðu ættfeðurnir að bænarefni?
7 Ættfeður gerðu ýmiss konar mál að bænarefni og Jehóva bænheyrði þá. Jakob gaf honum heit í bæn. Eftir að hafa beðið um stuðning Guðs hét Jakob honum: „Ég skal færa þér tíundir af öllu, sem þú gefur mér.“ (1. Mósebók 28:20-22) Síðar, þegar Jakob var í þann mund að hitta bróður sinn, bað hann Jehóva að vernda sig og sagði: „Frelsa mig undan valdi bróður míns, undan valdi Esaú, því að ég óttast hann.“ (1. Mósebók 32:9-12) Ættfaðirinn Job bað fyrir fjölskyldu sinni og færði Jehóva fórnir fyrir hönd hennar. Þegar þrír félagar Jobs syndguðu með orðum sínum bað hann fyrir þeim og „Drottinn lét að bæn Jobs“. (Jobsbók 1:5; 42:7-9) Af þessum frásögum sjáum við dæmi um það hvers konar mál við getum lagt fyrir Jehóva í bæn. Þær sýna jafnframt að Jehóva er tilbúinn til að heyra bænir þeirra sem ganga fram fyrir hann á réttan hátt.
Skilyrði sett í lagasáttmálanum
8. Hvernig voru mál borin upp við Jehóva fyrir hönd þjóðarinnar meðan lagasáttmálinn var í gildi?
8 Jehóva gaf Ísraelsmönnum lagasáttmálann eftir að hann frelsaði þá frá Egyptalandi. Í lögmálinu var tiltekið hvernig ætti að ganga fram fyrir Guð fyrir milligöngu útnefndrar prestastéttar. Sumir levítar fengu það verkefni að vera prestar þjóðarinnar. Þegar upp komu mál sem vörðuðu alla þjóðina lagði fulltrúi hennar — stundum konungur eða spámaður — málið fyrir Guð í bæn. (1. Samúelsbók 8:21, 22; 14:36-41; Jeremía 42:1-3) Salómon konungur gekk til dæmis fram fyrir Guð í innilegri bæn þegar musterið var vígt. Jehóva gaf til kynna að hann hefði orðið við bæn Salómons með því að fylla musterið dýrð sinni. Hann sagði: „Eyru mín [skulu vera] gaumgæfin gagnvart bæn þeirri, er fram er borin á þessum stað.“ — 2. Kroníkubók 6:12–7:3, 15.
9. Hvað var nauðsynlegt að gera til að hægt væri að ganga fram fyrir Jehóva í helgidóminum?
9 Í lögmálinu, sem Ísrael var gefið, var sett ákveðið skilyrði fyrir því að hægt væri að ganga fram fyrir Jehóva í helgidóminum á velþóknanlegan hátt. Hvaða skilyrði var það? Kvölds og morgna átti æðstipresturinn að brenna ilmreykelsi fyrir Jehóva, auk dýrafórnanna sem færðar voru. Síðar veittu undirprestar einnig þessa þjónustu, nema á friðþægingardeginum. Jehóva myndi ekki hafa velþóknun á þjónustu prestanna nema þeir sýndu honum þennan virðingarvott. — 2. Mósebók 30:7, 8; 2. Kroníkubók 13:11.
10, 11. Hvernig sjáum við að Jehóva heyrði bænir einstaklinga?
10 Var aðeins hægt að ganga fram fyrir Guð fyrir milligöngu sérstakra fulltrúa? Nei, við sjáum af Biblíunni að Jehóva hlustaði fúslega á persónulegar bænir þjóna sinna í Ísrael til forna. Þegar Salómon fór með bæn við vígslu musterisins bað hann til Jehóva: „Ef þá einhver maður af öllum lýð þínum Ísrael ber fram einhverja bæn eða grátbeiðni . . . og fórnar höndum til þessa húss, þá heyr þú það frá himnum.“ (2. Kroníkubók 6:29, 30) Lúkas segir frá því að fólksfjöldinn hafi verið „fyrir utan á bæn“ þegar Sakaría, faðir Jóhannesar skírara, gekk inn í helgidóminn til að færa reykelsisfórn. Þetta fólk var ekki af prestaætt. Það var greinilega orðinn siður fólks að safnast saman fyrir utan helgidóminn og vera á bæn meðan reykelsi var borið fyrir Jehóva á gullaltarinu. — Lúkas 1:8-10.
11 Jehóva hlustaði því fúslega á bænir þeirra sem komu fram fyrir hönd þjóðarinnar í heild og eins hlustaði hann á bænir einstaklinga, svo framarlega sem menn gengu fram fyrir hann á viðeigandi hátt. Þótt lagasáttmálinn sé ekki lengur í gildi getum við engu að síður lært margt um bænir af því hvernig Ísraelsmenn fortíðar gengu fram fyrir Guð.
Eftir komu Krists
12. Hvaða fyrirkomulagi hefur Jehóva komið á til að kristnir menn geti gengið fram fyrir sig?
12 Eftir komu Krists er ekki lengur þörf fyrir bókstaflegt musteri og presta sem þjóna fyrir hönd allra tilbiðjenda Guðs. Ekki er þörf á musteri sem við getum snúið okkur til þegar við biðjum til hans. Engu að síður hefur Jehóva ákveðið fyrirkomulag til þess að við getum gengið fram fyrir sig. Hvað er það? Þegar Kristur var smurður og skipaður æðstiprestur árið 29 tók til starfa andlegt musteri. a Þetta andlega musteri er hið nýja fyrirkomulag til að tilbiðja Jehóva á grundvelli friðþægingarfórnar Jesú Krists. — Hebreabréfið 9:11, 12.
13. Bentu á hliðstæðu með andlega musterinu og musterinu í Jerúsalem hvað varðar bænina.
13 Margir þættir andlega musterisins eiga sér tákn eða fyrirmyndir í musterinu í Jerúsalem. Þetta gildir meðal annars um bænina. (Hebreabréfið 9:1-10) Hvað var til dæmis táknað með reykelsinu sem var borið fram kvölds og morgna á reykelsisaltarinu í hinu heilaga í musterinu? Samkvæmt Opinberunarbókinni táknar reykelsið „bænir hinna heilögu“. (Opinberunarbókin 5:8; 8:3, 4) Davíð var innblásið að skrifa: „Bæn mín sé fram borin sem reykelsisfórn fyrir auglit þitt.“ (Sálmur 141:2) Ilmreykelsið er því viðeigandi tákn um lofgerð kristinna manna og bænir sem Jehóva heyrir. — 1. Þessaloníkubréf 3:10.
14, 15. (a) Í hvaða stöðu eru andasmurðir kristnir menn? (b) Hvað segir Biblían um stöðu ‚annarra sauða‘?
14 Hverjir mega ganga fram fyrir Guð í andlega musterinu? Í musterinu til forna fengu prestar og levítar að þjóna í innri forgarðinum en aðeins prestarnir máttu ganga inn í hið heilaga. Andasmurðir kristnir menn með himneska von eru í sérstakri andlegri stöðu sem innri forgarðurinn og hið heilaga táknar en það gerir þeim kleift að biðja til Guðs og lofa hann.
15 Hvað um „aðra sauði“ sem hafa jarðneska von? (Jóhannes 10:16) Jesaja spámaður tók fram að „á hinum síðustu dögum“ myndi fólk af mörgum þjóðum koma og tilbiðja Jehóva. (Jesaja 2:2, 3) Hann sagði enn fremur að ‚útlendingar‘ myndu ganga Jehóva á hönd og Jehóva kvaðst vera fús til að taka við þeim. Hann sagði: „Þá mun ég . . . gleðja þá í bænahúsi mínu.“ (Jesaja 56:6, 7) Í Opinberunarbókinni 7:9-15 eru gefnar nánari upplýsingar. Þar segir frá ‚miklum múgi‘ af „alls kyns fólki“ sem safnast saman til að tilbiðja Guð og biðja til hans „dag og nótt“ í ytri forgarði andlega musterisins. Það er einstaklega traustvekjandi að vita að allir þjónar Guðs nú á tímum geti gengið óhindrað fram fyrir hann í trausti þess að hann hlýði á bænir þeirra.
Hvers konar bænir heyrir Guð?
16. Hvað getum við lært af bænum frumkristinna manna?
16 Frumkristnir menn voru bænræknir. Hvers konar mál gerðu þeir að bænarefni? Safnaðaröldungar báðu um leiðsögn til að velja menn til ábyrgðarstarfa í söfnuðinum. (Postulasagan 1:24, 25; 6:5, 6) Epafras bað fyrir trúsystkinum sínum. (Kólossubréfið 4:12) Söfnuðurinn í Jerúsalem bað fyrir Pétri þegar hann var í fangelsi. (Postulasagan 12:5) Frumkristnir menn báðu Guð að gefa sér djörfung þegar þeir urðu fyrir andstöðu. Þeir báðu: „Drottinn, lít á hótanir þeirra og veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt.“ (Postulasagan 4:23-30) Lærisveinninn Jakob hvatti kristna menn til að biðja Guð að gefa sér visku í prófraunum. (Jakobsbréfið 1:5) Talar þú um mál af þessu tagi í bænum þínum til Jehóva?
17. Hvernig þurfum við að biðja til að Jehóva heyri bænir okkar?
17 Guð heyrir ekki allar bænir. Hvernig getum við þá beðið í þeirri vissu að hann hlýði á bænir okkar? Trúir þjónar Guðs forðum daga gengu fram fyrir hann í fullri einlægni og með réttu hugarfari. Þeir sýndu trú sem birtist í góðum verkum. Við getum treyst að Jehóva heyri bænir þeirra sem ganga fram fyrir hann með sama hætti núna.
18. Hvaða skilyrði þurfa kristnir menn að uppfylla til að Jehóva heyri bænir þeirra?
18 Nauðsynlegt er að uppfylla enn eitt skilyrði. Páll postuli gaf skýringu á því og sagði: „Fyrir hann eigum vér . . . aðgang til föðurins í einum anda.“ Um hvern var Páll að tala þegar hann sagði „fyrir hann“? Hann var að tala um Jesú Krist. (Efesusbréfið 2:13, 18) Það er eingöngu fyrir milligöngu Jesú sem við eigum óheftan aðgang að Jehóva. — Jóhannes 14:6; 15:16; 16:23, 24.
19. (a) Hvenær hafði Jehóva andstyggð á reykelsisfórnum Ísraelsmanna? (b) Hvernig getum við tryggt að bænir okkar séu eins og reykelsisilmur fyrir Jehóva?
19 Reykelsið, sem ísraelskir prestar báru fram, táknaði þóknanlegar bænir trúfastra þjóna Guðs eins og fram hefur komið. En stundum hafði Jehóva andstyggð á reykelsisfórnum Ísraelsmanna. Það gerðist til dæmis þegar þeir brenndu reykelsi í musterinu en dýrkuðu samtímis skurðgoð. (Esekíel 8:10, 11) Jehóva hefur sömuleiðis andstyggð á bænum þeirra sem segjast þjóna honum en stunda samt eitthvað sem stríðir gegn lögum hans. (Orðskviðirnir 15:8) Við skulum því halda áfram að lifa hreinu lífi á öllum sviðum svo að bænir okkar verði eins og reykelsisilmur fyrir Guði. Hann hefur yndi af því að hlýða á bænir þeirra sem ganga á réttlátum vegum hans. (Jóhannes 9:31) En ýmsum spurningum er ósvarað enn. Hvernig eigum við að biðja? Um hvað getum við beðið? Og hvernig bænheyrir Guð okkur? Þessum spurningum og fleirum er svarað í næstu grein.
[Neðanmáls]
a Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. maí 2001, bls. 27.
Geturðu svarað?
• Hvernig geta ófullkomnir menn gengið fram fyrir Guð á þóknanlegan hátt?
• Hvernig getum við líkt eftir ættfeðrunum í bænum okkar?
• Hvað lærum við af bænum frumkristinna manna?
• Hvenær eru bænir okkar eins og reykelsisilmur fyrir Guði?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 3]
Af hverju viðurkenndi Guð fórn Abels en ekki fórn Kains?
[Mynd á blaðsíðu 4]
‚Ég er duft eitt og aska.‘
[Mynd á blaðsíðu 5]
„Ég skal færa þér tíundir af öllu.“
[Mynd á blaðsíðu 6]
Eru bænir þínar eins og reykelsisilmur fyrir Jehóva?