Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sýndu trú þína með lífsstefnu þinni

Sýndu trú þína með lífsstefnu þinni

Sýndu trú þína með lífsstefnu þinni

„Trúin [er] dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 2:17.

1. Af hverju gáfu frumkristnir menn bæði gaum að trú og verkum?

 FRUMKRISTNIR menn almennt sýndu trú sína með góðu líferni. Lærisveinninn Jakob hvatti alla kristna menn: „Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess.“ Hann bætti við: „Eins og líkaminn er dauður án anda, eins er og trúin dauð án verka.“ (Jakobsbréfið 1:22; 2:26) Um 35 árum eftir að hann skrifaði þessi orð sýndu margir kristnir menn enn þá trú sína með viðeigandi verkum. En það átti því miður ekki við um alla. Jesús hrósaði söfnuðinum í Smýrnu en við söfnuðinn í Sardes sagði hann: „Ég þekki verkin þín, að þú lifir að nafninu, en ert dauður.“ — Opinberunarbókin 2:8-11; 3:1.

2. Að hverju ættu kristnir menn að spyrja sig í sambandi við trú sína?

2 Þess vegna hvatti Jesús söfnuðinn í Sardes — og þar með alla þá sem myndu seinna lesa orð hans — til að sýna kærleikann sem þeir höfðu í fyrstu til sannleikans og halda sér andlega vakandi. (Opinberunarbókin 3:2, 3) Hver og einn getur spurt sjálfan sig: „Hvað sýna verk mín? Sýni ég að ég geri mitt besta til að vitna um trú mína í öllu sem ég geri, jafnvel á sviðum sem tengjast ekki beint boðunarstarfinu eða safnaðarsamkomum?“ (Lúkas 16:10) Við gætum fjallað um ýmis svið lífsins en nú munum við aðeins taka eitt fyrir: Boð og veislur, þar með taldar brúðkaupsveislur.

Fámenn boð og veislur

3. Hvað segir Biblían um það að sækja boð og veislur?

3 Flestum finnst okkur gaman að vera boðið í ánægjulega veislu með trúsystkinum. Jehóva er ‚hinn sæli Guð‘ og vill að þjónar sínir séu glaðir. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) Hann lét Salómon skrá þessi sannleiksorð í Biblíuna: „Fyrir því lofaði ég gleðina, því að ekkert betra er til fyrir manninn undir sólinni en að eta og drekka og vera glaður. Og það fylgi honum í striti hans um ævidagana.“ (Prédikarinn 3:1, 4, 13; 8:15) Við getum notið slíkrar gleði í fjölskylduboði eða í öðrum fámennum samkvæmum hjá trúsystkinum. — Jobsbók 1:4, 5, 18; Lúkas 10:38-42; 14:12-14.

4. Að hverju ættu þeir að gæta sem skipuleggja veislur?

4 Ef þú ætlar að halda slíka veislu og ert ábyrgur fyrir henni ættirðu að hugsa vandlega um það hvernig þú skipuleggur hana jafnvel þótt þú sért aðeins að bjóða nokkrum trúsystkinum heim til að borða saman og spjalla í rólegheitum. (Rómverjabréfið 12:13) Þú verður að gæta þess að „allt fari sómasamlega fram og með reglu“ og endurspegli ‚spekina sem að ofan er‘. (1. Korintubréf 14:40; Jakobsbréfið 3:17) Páll postuli skrifaði: „Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar. Verið [engum] til ásteytingar.“ (1. Korintubréf 10:31, 32) Að hverju þarf sérstaklega að gæta? Ef þú hugsar um það fyrir fram getur það tryggt að allt sem þú og gestir þínir geri sýni trú ykkar í verki. — Rómverjabréfið 12:2.

Hvernig verður veislan?

5. Af hverju ættu gestgjafar að velta því vandlega fyrir sér hvort þeir bjóði upp á áfenga drykki eða spili tónlist?

5 Margir gestgjafar hafa þurft að ákveða hvort þeir ætli að bjóða upp á áfenga drykki. Áfengi er ekki nauðsynlegt til að veislan verði ánægjuleg. Eins og þú manst mettaði Jesús mikinn mannfjölda, sem kom til hans, með aðeins fimm brauðum og tveimur fiskum. Í frásögunni segir ekki að hann hafi útvegað vín fyrir kraftaverk þótt við vitum að hann hefði getað gert það. (Matteus 14:14-21) Ef þú ákveður að bjóða upp á áfengi skaltu stilla magninu í hóf og tryggja að fyrir þá sem vilja sé einnig boðið upp á óáfenga drykki sem eru jafn frambærilegir og hinir. (1. Tímóteusarbréf 3:2, 3, 8; 5:23; 1. Pétursbréf 4:3) Gættu þess að engum finnist hann tilneyddur að drekka eitthvað sem gæti ‚bitið eins og höggormur‘. (Orðskviðirnir 23:29-32) En hvað um tónlist og söng? Ef tónlist er spiluð í veislunni er mikilvægt að velja lögin vandlega og taka mið af takti og textum. (Kólossubréfið 3:8; Jakobsbréfið 1:21) Margir kristnir menn hafa komist að því að það stuðlar að góðu andrúmslofti að spila geisladiskana Kingdom Melodies eða syngja ríkissöngvana. (Efesusbréfið 5:19, 20) Og að sjálfsögðu þarftu að fylgjast reglulega með því hvað tónlistin er hátt stillt svo að hún bæli ekki niður ánægjulegar samræður eða trufli nágrannana. — Matteus 7:12.

6. Hvernig getur gestgjafi látið umræðuefni og annað skemmtiefni í veislum sýna að trú hans er lifandi?

6 Í kristnum boðum eða veislum er hægt að ræða um ýmis mál, lesa upp ákveðið efni eða segja áhugaverðar frásögur. Ef samræðurnar leiðast út á óæskilegar brautir getur gestgjafinn skipt kurteisislega um umræðuefni. Hann ætti líka að gæta þess að einhver einn einoki ekki samræðurnar. Ef hann sér slíkt þróast gæti hann háttvíslega dregið aðra inn í samræðurnar með því að hvetja unga fólkið til að tjá sig eða brydda upp á umræðuefni sem fleiri geta tekið þátt í. Þá munu ungir jafnt sem aldnir hafa gaman af umræðunum. Ef þú stýrir málum af skynsemi og háttvísi sjá gestirnir að trú þín er lifandi og snertir öll svið lífs þíns.

Brúðkaup og brúðkaupsveislur

7. Að hverju þarf að huga vandlega við undirbúning fyrir brúðkaup og brúðkaupsveislur?

7 Kristin brúðkaup veita okkur sérstaka ástæðu til að gleðjast. Þjónar Guðs til forna, þar á meðal Jesús og lærisveinarnir, tóku fúslega þátt í gleðilegum viðburðum sem þessum og veislum sem fylgdu í kjölfarið. (1. Mósebók 29:21, 22; Jóhannes 2:1, 2) Undanfarið hefur hins vegar komið í ljós að fólk verður að leggja sig sérstaklega fram þegar það skipuleggur brúðkaupsveislur til að veislan beri vott um skynsemi og góða dómgreind. En þetta er samt eðlilegur hluti af lífinu sem veitir kristnum mönnum tækifæri til að sýna trú í verki.

8, 9. Hvernig vitna sum brúðkaup um það sem fram kemur í 1. Jóhannesarbréfi 2:16, 17?

8 Margir sem þekkja ekki meginreglur Biblíunnar eða stendur á sama um þær líta svo á að brúðkaup veiti þeim tækifæri til að fara út í öfgar eða að þá séu öfgar leyfilegar. Í evrópsku tímariti sagði nýgift kona um „konunglegt“ brúðkaup sitt: ‚Við komum í skrautvagni sem var dreginn af fjórum hestum. Þar á eftir fylgdu 12 minni hestakerrur og hestvagn með hljómsveit sem lék tónlist. Síðan borðuðum við glæsilega máltíð og úrvals tónlist var leikin — þetta var stórkostlegt. Ég var drottning í einn dag eins og ég hafði óskað mér.‘

9 Þótt siðvenjur séu breytilegar eftir löndum undirstrikar þetta viðhorf það sem Jóhannes postuli skrifaði: „Allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum.“ Gætirðu ímyndað þér að þroskuð kristin brúðhjón myndu vilja halda „konunglegt“ brúðkaup og íburðamikla veislu með ævintýrablæ? Þau ættu öllu heldur að hafa í huga að „sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu“. — 1. Jóhannesarbréf 2:16, 17.

10. (a) Af hverju er nauðsynlegt að skipuleggja brúðkaupið af skynsemi og raunsæi? (b) Hvers þarf að gæta þegar verið er að ákveða hverjum eigi að bjóða?

10 Kristin brúðhjón ættu að vera skynsöm og raunsæ og þar getur Biblían komið að gagni. Þótt brúðkaupsdagurinn sé mikilvægur vita þau að hann markar aðeins upphaf hjónabands tveggja kristinna einstaklinga sem hafa eilíft líf fyrir augum. Þeim ber ekki skylda til að halda fjölmenna brúðkaupsveislu. En ef þau kjósa að halda veislu ættu þau að reikna kostnaðinn og ákveða hvernig hún eigi að vera. (Lúkas 14:28) Í kristnu hjónabandi þeirra verður eiginmaðurinn höfuð fjölskyldunnar eins og Biblían mælir fyrir um. (1. Korintubréf 11:3; Efesusbréfið 5:22, 23) Brúðguminn ber því höfuðábyrgðina á brúðkaupsveislunni. Að sjálfsögðu ráðfærir hann sig við tilvonandi eiginkonu sína um mál eins og hverjum þau vilja bjóða eða geta boðið í veisluna. Ef til vill er hvorki mögulegt né raunhæft að bjóða öllum vinum þeirra og ættingjum og því þarf kannski að gæta hófs þegar sumar ákvarðanir eru teknar. Brúðhjónin ættu að geta treyst því að ef þau sjá sér ekki fært að bjóða einhverjum trúsystkinum sínum muni þau skilja það og ekki móðgast. — Prédikarinn 7:9.

„Veislustjóri“

11. Hvaða hlutverki gegnir „veislustjóri“ í brúðkaupsveislu?

11 Ef brúðhjónin ákveða að halda brúðkaupsveislu hvernig geta þau þá gengið úr skugga um að þetta verði virðuleg stund? Vottar Jehóva hafa um áratuga skeið séð skynsemina í því að fylgja dæmi úr brúðkaupinu sem Jesús sótti í Kana. Þar var „veislustjóri“ sem hefur örugglega verið ábyrgur trúbróðir. (Jóhannes 2:9, 10) Skynsamur brúðgumi mun á sama hátt velja andlega þroskaðan trúbróður til að sinna þessu mikilvæga hlutverki. Þegar veislustjórinn hefur fengið upplýsingar um óskir og smekk brúðgumans getur hann sinnt ákveðnum verkum bæði fyrir veisluna og meðan á henni stendur.

12. Hvað verður brúðguminn að hafa í huga ef boðið er upp á áfengi?

12 Í samræmi við það sem fram kom í 5. grein ákveða sum brúðhjón að hafa ekki áfengi í veislunni til að ofneysla þess setji ekki blett á þessa ánægjulegu stund. (Rómverjabréfið 13:13; 1. Korintubréf 5:11) En ef þau bjóða upp á áfengi ætti brúðguminn að sjá til þess að hófs sé gætt. Í brúðkaupinu, sem Jesús sótti í Kana, var áfengi haft um hönd og hann útvegaði meira að segja gæðavín. Athygli vekur að veislustjórinn í brúðkaupinu sagði: „Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara, er menn gjörast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“ (Jóhannes 2:10) Jesús ýtti að sjálfsögðu ekki undir drykkjuskap því að hann hafði andstyggð á öllu slíku. (Lúkas 12:45, 46) Þegar veislustjórinn lét í ljós undrun sína á gæðum vínsins kom skýrt fram að hann þekkti dæmi þess að veislugestir hefðu orðið ölvaðir. (Postulasagan 2:15; 1. Þessaloníkubréf 5:7) Brúðguminn og ábyrgi bróðirinn, sem hann hefur valið til að vera veislustjóri, ættu því að gæta þess að allir viðstaddir fylgi orðunum: „Drekkið yður ekki drukkna af víni, það leiðir aðeins til spillingar.“ — Efesusbréfið 5:18; Orðskviðirnir 20:1; Hósea 4:11.

13. Hvað verða brúðhjónin að hafa í huga ef tónlist verður spiluð í veislunni og hvers vegna?

13 Ef leika á tónlist verður, eins og í öðrum veislum, að huga að því hve hátt hún er stillt svo að auðvelt sé að tala saman. Safnaðaröldungur nokkur sagði: „Þegar líður á kvöldið og samræðurnar verða fjörugri og fólk fer kannski að dansa er tónlistin stundum hækkuð. Tónlistin, sem var svo þægileg í byrjun, getur þá orðið of hávær og hindrað samræður. Í brúðkaupsveislum hefur fólk tækifæri til að njóta ánægjulegs félagsskapar við aðra. Það væri sorglegt ef hávær tónlist spillti þessu tækifæri.“ Brúðguminn og veislustjórinn verða að bera ábyrgð á þessu í stað þess að láta tónlistarmennina, hvort sem þeir eru atvinnumenn eða ekki, ráða því hvaða tónlist er leikin og hve hátt. Páll skrifaði: „Hvað sem þér gjörið í orði eða verki, gjörið það allt í nafni Drottins Jesú.“ (Kólossubréfið 3:17) Munu gestirnir hugsa með sér að veislunni lokinni að tónlistin hafi borið vitni um að brúðhjónin hafi gert allt í nafni Jesú? Þannig ætti það að vera.

14. Hvað ætti þjónum Guðs að vera minnisstætt í lok brúðkaups?

14 Já, vel skipulagt brúðkaup getur verið mjög eftirminnilegt. Adam og Edyta, sem hafa verið gift í 30 ár, sögðu þetta um brúðkaup nokkurt: „Maður fann að þarna voru þjónar Guðs saman komnir. Sungnir voru söngvar Jehóva til lofs og á dagskránni voru líka önnur vel heppnuð skemmtiatriði. Dans og tónlist voru ekki aðalatriðið. Veislan var skemmtileg og uppbyggjandi og allt fór fram í samræmi við meginreglur Biblíunnar.“ Brúðhjón geta greinilega gert margt til að sýna trú sína í verki.

Brúðargjafir

15. Hvaða meginreglur Biblíunnar getum við haft til hliðsjónar í sambandi við brúðargjafir?

15 Í mörgum löndum er algengt að vinir og ættingjar gefi brúðhjónunum gjafir. Hvað ættum við að hafa í huga ef við viljum gefa slíka gjöf? Gott er að muna eftir því sem Jóhannes postuli sagði um „auðæfa-oflæti“. Hann tengdi það ekki við kristna menn sem sýna trú í verki heldur ‚heiminn sem fyrirferst‘. (1. Jóhannesarbréf 2:16, 17) Ættu brúðhjónin, í ljósi innblásinna orða Jóhannesar, að taka fram hver gaf hvaða gjöf? Kristnir menn í Makedóníu og Akkeu gengust fyrir samskotum handa trúsystkinum sínum í Jerúsalem en ekkert bendir til þess að nöfn þeirra hafi verið gefin upp. (Rómverjabréfið 15:26) Margir, sem gefa brúðargjafir, vilja síður láta nafns síns getið til að draga ekki athygli að sjálfum sér. Í þessu sambandi er gott að rifja upp leiðbeiningar Jesú í Matteusi 6:1-4.

16. Hvernig geta brúðhjón varast að særa aðra þegar þau taka upp brúðargjafirnar?

16 Ef brúðhjónin tilgreina hver gaf hvaða gjöf gæti það vakið upp samkeppnisanda og meting um hvaða gjöf sé flottust eða dýrust. Því gæta skynsöm brúðhjón þess að tilkynna ekki nöfn þeirra sem gáfu þeim gjafir. Ef nöfnin væru lesin upp gæti það gert þá vandræðalega sem höfðu kannski ekki efni á að gefa gjöf. (Galatabréfið 5:26, NW; 6:10) Það er hins vegar ekkert athugavert við það að brúðhjónin viti hver gaf hvað. Þau gætu til dæmis séð það á kortum sem fylgja gjöfunum en eru ekki lesin upp í áheyrn allra. Þegar við kaupum, gefum eða fáum brúðargjafir veitir það okkur öllum tækifæri til að sýna að trúin hefur áhrif á verk okkar, jafnvel í persónulegum málum sem þessum. a

17. Hvert ætti markmið kristinna manna að vera í sambandi við trú og verk?

17 Að sjálfsögðu birtist trú okkar ekki aðeins í því að lifa siðferðilega hreinu lífi, sækja safnaðarsamkomur og taka þátt í boðunarstarfinu. Við ættum hvert og eitt að hafa lifandi trú sem hefur áhrif á allt sem við gerum. Já, við getum sýnt trúna með góðum verkum á öllum sviðum lífsins, líka á þeim sviðum sem rædd hafa verið hér á undan. — Opinberunarbókin 3:2.

18. Hvernig má heimfæra orðin í Jóhannesi 13:17 upp á kristin brúðkaup og veislur?

18 Þegar Jesús hafði gefið trúföstum postulum sínum gott fordæmi, með því að vinna það lítilmótlega verk að þvo fætur þeirra, sagði hann: „Þér vitið þetta, og þér eruð sælir, ef þér breytið eftir því.“ (Jóhannes 13:4-17) Í okkar samfélagi er ef til vill hvorki þörf á né hefð fyrir því að þvo fætur annarra, til dæmis gesta á heimili okkar. En eins og rætt hefur verið í þessari grein getum við látið trú okkar í ljós á ýmsum sviðum lífsins með því að sýna kærleika og tillitsemi, þar á meðal í tengslum við veislur og brúðkaup. Við gerum það hvort sem við erum að ganga í hjónaband eða erum gestir í brúðkaupi eða brúðkaupsveislu kristinna manna sem vilja sýna trú sína í verki.

[Neðanmáls]

a Finna má frekari leiðbeiningar um brúðkaup og brúðkaupsveislur í greininni „Increase the Joy and Dignity of Your Wedding Day“ í Varðturninum á ensku 15. október 2006, bls. 28.

Hvert er svarið?

Hvernig geturðu sýnt trú þína

• þegar þú skipuleggur veislu?

• þegar þú skipuleggur brúðkaup eða brúðkaupsveislu?

• þegar þú gefur eða færð brúðargjafir?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 30]

Látum ‚spekina sem að ofan er‘ leiðbeina okkur þegar við bjóðum til okkar gestum, jafnvel þótt þeir séu ekki margir.