Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Trú og guðsótti veitir hugrekki

Trú og guðsótti veitir hugrekki

Trú og guðsótti veitir hugrekki

„Ver þú hughraustur og öruggur . . . Drottinn Guð þinn er með þér.“ — JÓSÚABÓK 1:9.

1, 2. (a) Hve miklar líkur virtust vera á því að Ísraelsmenn gætu sigrað Kanaaníta? (b) Um hvað var Jósúa fullvissaður?

 ÁRIÐ 1473 f.Kr. voru Ísraelsmenn reiðubúnir að ganga inn í fyrirheitna landið. Móse vissi að fram undan voru ýmsir erfiðleikar og aðvaraði þjóðina: „Þú fer nú í dag yfir Jórdan til þess að leggja undir þig þjóðir, sem eru stærri og voldugri en þú ert, stórar borgir og víggirtar hátt í loft upp, stórt og hávaxið fólk, Anakítana, sem þú . . . hefir sjálfur heyrt sagt um: ‚Hver fær staðist fyrir Anaks sonum?‘“ (5. Mósebók 9:1, 2) Já, þessir risavöxnu stríðsmenn voru víðfrægir. Auk þess voru sumar hersveitir Kanaaníta vel útbúnar með hestum og vögnum sem höfðu eggjárn á hjólunum. — Dómarabókin 4:13.

2 Ísraelsmenn voru hins vegar fyrrverandi þrælar og höfðu búið í eyðimörkinni í 40 ár. Frá mannlegum sjónarhóli virtust því ekki miklar líkur á að þeir gætu sigrað. En Móse hafði sterka trú og ‚sá‘ að Jehóva leiddi þá. (Hebreabréfið 11:27) Móse sagði við þjóðina: „Drottinn Guð þinn, er fyrir þér fer . . . mun eyða þeim og leggja þær að velli fyrir augliti þínu.“ (5. Mósebók 9:3; Sálmur 33:16, 17) Eftir dauða Móse fullvissaði Jehóva Jósúa um stuðning sinn og sagði: „Rís þú nú upp og far yfir ána Jórdan með allan þennan lýð, inn í landið, sem ég gef þeim, Ísraelsmönnum. Enginn mun standast fyrir þér alla ævidaga þína. Svo sem ég var með Móse, svo mun ég og með þér vera.“ — Jósúabók 1:2, 5.

3. Hvað varð Jósúa að gera til að öðlast trú og hugrekki?

3 Jósúa varð að lesa og hugleiða orð Guðs og lifa í samræmi við það til að fá stuðning og leiðsögn frá Guði. „Þá munt þú gæfu hljóta á vegum þínum og breyta viturlega,“ sagði Jehóva. „Hefi ég ekki boðið þér: Ver þú hughraustur og öruggur? Lát eigi hugfallast og óttast eigi, því að Drottinn Guð þinn er með þér í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur.“ (Jósúabók 1:8, 9) Jósúa vegnaði vel og var hughraustur og öruggur því að hann hlustaði á Guð. Flestir af hans kynslóð hlustuðu hins vegar ekki. Þess vegna farnaðist þeim ekki vel og þeir dóu í eyðimörkinni.

Trúlaus þjóð sem skorti hugrekki

4, 5. (a) Hver var munurinn á viðhorfi njósnaranna tíu og Jósúa og Kalebs? (b) Hvaða áhrif hafði trúarskortur fólksins á Jehóva?

4 Fjörutíu árum áður, þegar Ísraelsmenn nálguðust Kanaanland í fyrsta skipti, sendi Móse 12 njósnara inn í landið. Tíu þeirra voru óttaslegnir þegar þeir komu til baka. „Allt fólkið, sem vér sáum þar, eru risavaxnir menn,“ sögðu þeir. „Vér sáum þar risa, Anakssonu, sem eru risa ættar, og vér vorum í augum sjálfra vor sem engisprettur.“ Var „allt fólkið“ risavaxið, ekki aðeins Anakítarnir? Nei. Og voru Anakítarnir afkomendur risana sem voru uppi fyrir flóðið? Að sjálfsögðu ekki. En vegna þessara ýkjusagna greip um sig mikill ótti í búðunum. Fólkið vildi jafnvel snúa aftur til Egyptalands þar sem það hafði verið í þrælkun. — 4. Mósebók 13:31–14:4.

5 Tveir af njósnurunum, Jósúa og Kaleb, vildu hins vegar ólmir komast inn í fyrirheitna landið. Kanaanítarnir „eru brauð vort“, sögðu þeir. „Vikin er frá þeim vörn þeirra, en Drottinn er með oss! Hræðist þá eigi!“ (4. Mósebók 14:9) Voru Jósúa og Kaleb óhóflega bjartsýnir? Nei, alls ekki. Þeir höfðu, ásamt allri þjóðinni, séð Jehóva auðmýkja hina voldugu Egypta og guði þeirra með plágunum tíu. Síðan sáu þeir Jehóva drekkja faraó og her hans í Rauðahafinu. (Sálmur 136:15) Njósnararnir tíu og þeir sem hlustuðu á þá höfðu greinilega enga ástæðu til að verða svona óttaslegnir. Jehóva sárnaði þetta mjög og sagði: „Hversu lengi mun þessi þjóð halda áfram að fyrirlíta mig, og hversu lengi munu þeir vantreysta mér, þrátt fyrir öll þau tákn, sem ég hefi gjört meðal þeirra?“ — 4. Mósebók 14:11.

6. Hvaða tengsl eru á milli trúar og hugrekkis og hvernig sannast það á okkar dögum?

6 Jehóva benti strax á rót vandans. Hugleysi fólksins var merki um trúarskort. Já, trú og hugrekki eru svo nátengd að Jóhannes postuli skrifaði um kristna söfnuðinn og andlegan hernað hans: „Trú vor, hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn.“ (1. Jóhannesarbréf 5:4) Sex milljónir votta Jehóva, ungir sem aldnir og sterkir sem veikbyggðir, boða núna fagnaðarerindið um ríkið um allan heim vegna þess að þeir hafa trú eins og Jósúa og Kaleb. Enginn óvinur hefur getað þaggað niður í þessum hugrakka og mikla her. — Rómverjabréfið 8:31.

„Skjótum oss ekki undan“

7. Hvað merkir það að ‚skjóta sér undan‘?

7 Þjónar Jehóva nú á dögum boða fagnaðarerindið af hugrekki því að þeir hafa sama hugarfar og Páll postuli sem skrifaði: „Vér skjótum oss ekki undan og glötumst, heldur trúum vér og frelsumst.“ (Hebreabréfið 10:39) Þegar Páll talar um að ‚skjóta sér undan‘ merkir það ekki að finna fyrir smá ótta af og til. Margir trúfastir þjónar Jehóva hafa stundum orðið smeykir. (1. Samúelsbók 21:12; 1. Konungabók 19:1-4) Biblíuorðabók segir öllu heldur að þessi orð merki að „draga sig í hlé, hörfa“ og „hirða ekki um að halda sig við sannleikann“. Hún bætir við að orðasambandið, sem þýtt er ‚að skjóta sér undan‘, gæti verið myndlíking sem dregin er af því að „lækka seglin og hægja á ferðinni“ í þjónustu Guðs. Þeir sem hafa sterka trú láta sér auðvitað ekki detta í hug að „hægja á ferðinni“ þegar erfiðleikar koma upp, hvort sem um er að ræða ofsóknir, slæma heilsu eða eitthvað annað. Þess í stað sækja þeir fram í þjónustu Jehóva því að þeir vita að honum er innilega annt um þá og hann þekkir takmörk þeirra. (Sálmur 55:23; 103:14) Hefur þú þess konar trú?

8, 9. (a) Hvernig styrkti Jehóva trú frumkristinna manna? (b) Hvað getum við gert til að styrkja trúna?

8 Einu sinni fannst postulunum sig skorta trú og báðu því Jesú: „Auk oss trú!“ (Lúkas 17:5) Einlægri bæn þeirra var svarað og þá sérstaklega á hvítasunnunni árið 33. Þá fengu þeir heilagan anda eins og þeim hafði verið lofað og dýpri skilning á orði Guðs og fyrirætlun. (Jóhannes 14:26; Postulasagan 2:1-4) Trú þeirra styrktist og þeir hófust handa við að prédika af kappi. Þrátt fyrir mótlæti varð það til þess að fagnaðarerindið var prédikað „fyrir öllu, sem skapað er undir himninum“. — Kólossubréfið 1:23; Postulasagan 1:8; 28:22.

9 Við verðum líka að lesa og hugleiða Ritninguna og biðja um heilagan anda til að styrkja trúna og sækja fram í boðunarstarfinu. Ef við festum sannleika Guðs í huga okkar og hjarta, eins og Jósúa, Kaleb og lærisveinarnir á fyrstu öld gerðu, veitir trúin okkur það hugrekki sem við þurfum til að vera þolgóð og sigra í andlegum hernaði okkar. — Rómverjabréfið 10:17.

Ekki nóg að viðurkenna tilvist Guðs

10. Hvað er fólgið í sannri trú?

10 Eins og við sjáum af fordæmi ráðvandra manna fortíðar er ekki nóg að viðurkenna tilvist Guðs til að öðlast trú sem veitir okkur hugrekki og staðfestu. (Jakobsbréfið 2:19) Við verðum að kynnast Jehóva sem persónu og treysta honum skilyrðislaust. (Sálmur 78:5-8; Orðskviðirnir 3:5, 6) Við verðum að trúa því af öllu hjarta að það sé okkur fyrir bestu að fylgja lögum Guðs og meginreglum. (Jesaja 48:17, 18) Og við verðum að treysta því fyllilega að Jehóva standi við öll loforð sín og „umbuni þeim, er hans leita“. — Hebreabréfið 11:1, 6; Jesaja 55:11.

11. Hvaða blessun hlutu Jósúa og Kaleb vegna trúfesti sinnar og hugrekkis?

11 Slík trú staðnar ekki. Hún vex þegar við heimfærum sannleikann á líf okkar og ‚finnum‘ hvernig það gagnast okkur, og einnig þegar við ‚sjáum‘ hvernig bænum okkar er svarað og skynjum handleiðslu Jehóva á öðrum sviðum lífsins. (Sálmur 34:9; 1. Jóhannesarbréf 5:14, 15) Við getum verið viss um að trú Jósúa og Kalebs styrktist þegar þeir fundu fyrir gæsku Guðs. (Jósúabók 23:14) Þeir lifðu til dæmis af 40 ára eyðimerkurgönguna eins og Guð hafði lofað þeim. (4. Mósebók 14:27-30; 32:11, 12) Þeir fengu líka að taka þátt í því þegar Ísraelsmenn lögðu Kanaanland undir sig, en það tók sex ár. Þar að auki lifðu þeir vel og lengi og hlutu jafnvel sinn eigin erfðahlut. Já, Jehóva umbunar þeim sem þjóna honum af trúfesti og hugrekki. — Jósúabók 14:6, 9-14; 19:49, 50; 24:29.

12. Hvernig gerir Jehóva orð sitt „meira öllu öðru“?

12 Ástúðleg umhyggja Jehóva í garð Jósúa og Kalebs minnir okkur á orð sálmaritarans: „Þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.“ (Sálmur 138:2) Þegar Jehóva lofar einhverju og leggur nafn sitt við verður uppfyllingin ‚meiri öllu öðru‘, það er að segja stórfenglegri en við getum gert okkur í hugarlund. (Efesusbréfið 3:20) Já, Jehóva bregst aldrei þeim sem „gleðjast yfir“ honum. — Sálmur 37:3, 4.

Maður sem var „Guði þóknanlegur“

13, 14. Af hverju þurfti Enok að sýna trú og hugrekki?

13 Við getum lært mikið um trú og hugrekki með því að skoða fordæmi Enoks sem var þjónn Jehóva fyrir daga kristninnar. Áður en Enok byrjaði að spá vissi hann sennilega að það myndi reyna á trú hans og hugrekki. Af hverju vissi hann það? Af því að í Eden hafði Jehóva sagt að fjandskapur myndi verða milli þjóna Guðs og þjóna Satans. (1. Mósebók 3:15) Enok vissi líka að þessi fjandskapur hefði komið fram snemma í sögu mannsins þegar Kain myrti Abel, bróður sinn. Adam, faðir þeirra, lifði meira að segja í 310 ár eftir að Enok fæddist. — 1. Mósebók 5:3-18.

14 En þrátt fyrir þessa vitneskju gekk Enok hugrakkur „með Guði“ og fordæmdi „þau hörðu orð“ sem fólkið talaði gegn Guði. (1. Mósebók 5:22; Júdasarbréfið 14, 15) Enok var óhræddur og tók einarða afstöðu með sannri tilbeiðslu en um leið eignaðist hann marga óvini og stofnaði lífi sínu í hættu. En Jehóva hlífði spámanni sínum við sársaukafullum dauða. Eftir að Enok fékk að vita „að hann hefði verið Guði þóknanlegur“ nam Guð hann burt úr landi lifenda, kannski á meðan hann var í spámannlegu leiðsluástandi. — Hebreabréfið 11:5, 13; 1. Mósebók 5:24.

15. Hvernig er Enok góð fyrirmynd fyrir þjóna Guðs nú á dögum?

15 Eftir að Páll er búinn að nefna að Enok hafi verið burt numinn heldur hann áfram að leggja áherslu á mikilvægi trúar. Hann segir: „En án trúar er ógerlegt að þóknast [Guði].“ (Hebreabréfið 11:6) Já, trú Enoks gaf honum hugrekki til að ganga með Guði og flytja dómsboðskap hans í óguðlegum heimi. Enok er okkur góð fyrirmynd. Við höfum svipað verk að vinna í heimi sem er andsnúinn sannri tilbeiðslu og fullur af illsku. — Sálmur 92:8; Matteus 24:14; Opinberunarbókin 12:17.

Guðsótti veitir hugrekki

16, 17. Hver var Óbadía og í hvaða stöðu var hann?

16 Auk trúar er annar eiginleiki sem veitir okkur hugrekki, en það er lotningarfullur ótti við Guð. Við skulum skoða gott dæmi um guðhræddan mann sem var uppi á dögum Elía spámanns og Akabs konungs í norðurríkinu Ísrael. Í stjórnartíð Akabs var Baalsdýrkunin í norðurríkinu í algleymingi. „Við borð Jesebelar“, konu Akabs, átu meira að segja 450 Baalsspámenn og 400 Aséruspámenn. — 1. Konungabók 16:30-33; 18:19.

17 Jesebel var miskunnarlaus óvinur Jehóva sem reyndi að útrýma sannri guðsdýrkun úr landinu. Hún myrti suma spámenn Jehóva og reyndi jafnvel að drepa Elía, en hann komst undan með því að flýja yfir Jórdanána eftir að hafa fengið bendingu frá Guði. (1. Konungabók 17:1-3; 18:13) Þú getur rétt ímyndað þér hve erfitt það hlýtur að hafa verið að halda á lofti sannri tilbeiðslu í norðurríkinu á þeim tíma. Og hvað þá ef maður vann í sjálfri konungshöllinni? Hinn guðhræddi Óbadía a var einmitt í þessari stöðu en hann var þjónn við hirð Akabs. — 1. Konungabók 18:3.

18. Af hverju var Óbadía einstaklega duglegur tilbiðjandi Jehóva?

18 Óbadía hefur eflaust verið bæði kænn og varfærinn í tilbeiðslu sinni á Jehóva. En hann vék samt aldrei frá sannri tilbeiðslu. Í 1. Konungabók 18:3 segir: „Óbadía óttaðist Drottin mjög.“ Já, hann var einstaklega guðhræddur maður. Þessi heilnæmi ótti veitti honum mikið hugrekki eins og kom skýrt í ljós strax eftir að Jesebel myrti spámenn Jehóva.

19. Hvernig sýndi Óbadía mikið hugrekki?

19 Við lesum: „Þá er Jesebel útrýmdi spámönnum Drottins, [tók Óbadía] hundrað spámenn og fal þá, sína fimmtíu menn í hvorum helli, og birgði þá upp með brauði og vatni.“ (1. Konungabók 18:4) Eins og þú getur ímyndað þér var mjög hættulegt að fæða hundrað menn á laun. Óbadía þurfti bæði að gæta þess að Akab og Jesebel kæmust ekki að þessu og koma í veg fyrir að hinir 850 falsspámenn, sem voru oft í höllinni, myndu grípa hann glóðvolgan. Auk þess hefðu margir falsdýrkendur í landinu, allt frá bændum til konungsfólks, eflaust gripið hvaða tækifæri sem er til að koma upp um Óbadía og öðlast hylli konungshjónanna. En þrátt fyrir þetta sýndi Óbadía hugrekki og sinnti spámönnum Jehóva beint fyrir framan nefið á skurðgoðadýrkendunum. Já, guðsótti getur sannarlega verið mjög áhrifamikill.

20. Hvernig varð guðsóttinn Óbadía til góðs og hvað getum við lært af fordæmi hans?

20 Þar sem Óbadía var guðhræddur og hugrakkur verndaði Jehóva hann greinilega gegn óvinum hans. Í Orðskviðunum 29:25 segir: „Ótti við menn leiðir í snöru, en þeim er borgið, sem treystir Drottni.“ Óbadía var ekki ofurmannlegur. Hann var hræddur um að hann yrði gómaður og drepinn. Okkur myndi örugglega líða eins ef við værum í hans sporum. (1. Konungabók 18:7-9, 12) En guðsóttinn veitti honum hugrekki til að sigrast á allri náungahræðslu sem hann kann að hafa fundið fyrir. Óbadía er okkur öllum góð fyrirmynd, sérstaklega þeim sem eiga á hættu að vera hnepptir í fangelsi eða jafnvel vera teknir af lífi ef þeir þjóna Jehóva. (Matteus 24:9) Já, við skulum öll leggja okkur fram um að þjóna Jehóva „með lotningu og ótta“. — Hebreabréfið 12:28.

21. Um hvað verður rætt í næstu grein?

21 Trú og guðsótti eru ekki einu eiginleikarnir sem veita okkur hugrekki. Kærleikurinn getur haft enn sterkari áhrif. „Ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar,“ skrifaði Páll. (2. Tímóteusarbréf 1:7) Í næstu grein sjáum við hvernig kærleikurinn getur hjálpað okkur að þjóna Jehóva af hugrekki núna á þessum síðustu og verstu tímum. — 2. Tímóteusarbréf 3:1.

[Neðanmáls]

a Hér er ekki átt við Óbadía spámann.

Geturðu svarað?

• Hvað veitti Jósúa og Kaleb hugrekki?

• Hvað er fólgið í sannri trú?

• Af hverju gat Enok flutt dómsboðskap Guðs óttalaust?

• Hvernig stuðlar guðsótti að hugrekki?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 12, 13]

Jehóva sagði við Jósúa: „Ver þú hughraustur og öruggur.“

[Mynd á blaðsíðu 15]

Enok flutti boðskap Guðs af hugrekki.