Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Engin vopn verða sigurvænleg

Engin vopn verða sigurvænleg

Engin vopn verða sigurvænleg

„Engin vopn, sem smíðuð verða móti þér, skulu verða sigurvænleg.“ — JESAJA 54:17.

1, 2. Hvernig eru Vottar Jehóva í Albaníu dæmi um að Jehóva stendur við loforð sitt í Jesaja 54:17?

 Í LITLU og fjöllóttu landi bjó hugrakkur hópur kristinna manna við miklar ofsóknir áratugum saman. Stjórn kommúnista gerði ítrekaðar tilraunir til að stöðva starfsemi hans. En hún hafði ekki erindi sem erfiði þrátt fyrir pyndingar, vinnubúðir og fjölmiðlaárásir. Hvaða hópur var þetta? Þetta voru Vottar Jehóva í Albaníu í Suðaustur-Evrópu. Þótt það hafi verið afar erfitt fyrir þá að halda samkomur og boða trúna er áratugalöng þrautseigja þeirra til lofs og heiðurs fyrir kristna trú og nafn Jehóva. Árið 2006 var ný deildarskrifstofa vígð þar í landi og við það tækifæri sagði trúfastur vottur til margra ára: „Það er sama hvað Satan reynir, hann tapar alltaf og Jehóva sigrar alltaf.“

2 Þetta er sterk sönnun þess að Guð stendur við loforð sitt í Jesaja 54:17: „Engin vopn, sem smíðuð verða móti þér, skulu verða sigurvænleg, og allar tungur, sem upp rísa gegn þér til málaferla, skalt þú kveða niður.“ Sagan sýnir að ekkert sem heimur Satans gerir getur með nokkru móti komið í veg fyrir að vígðir þjónar Jehóva tilbiðji Guð sinn.

Árangurslausar tilraunir Satans

3, 4. (a) Hver eru vopn Satans meðal annars? (b) Hvernig hafa vopn Satans reynst máttlaus?

3 Vopnin, sem notuð hafa verið gegn þjónum Jehóva, eru til dæmis bönn, skrílsárásir, fangelsi og „tjón undir yfirskini réttarins“. (Sálmur 94:20) Einmitt núna, meðan þú ert að lesa þessa grein, er í ýmsum löndum verið að reyna ráðvendni þeirra gagnvart Guði. — Opinberunarbókin 2:10.

4 Til dæmis skýrði deildarskrifstofa Votta Jehóva í einu landi frá því að á aðeins einu ári hefðu átt sér stað 32 líkamsárásir á þjóna Guðs meðan þeir voru í boðunarstarfinu. Auk þess voru 59 dæmi um að lögreglan hefði handtekið votta í boðunarstarfinu — bæði unga og gamla, karla og konur. Tekin voru fingraför af sumum, þeir ljósmyndaðir og settir bak við lás og slá eins og glæpamenn. Aðrir hafa fengið hótanir um líkamsmeiðingar. Í öðru landi eru nú yfir 1.100 skjalfest dæmi um að vottar Jehóva hafi verið handteknir, sektaðir eða sætt ofbeldi. Meira en 200 þessara atvika áttu sér stað daginn sem þeir söfnuðust saman til að minnast dauða Jesú. Bæði í þessum löndum og annars staðar hefur Jehóva styrkt þjóna sína með heilögum anda svo að þeir geti staðist þótt þeir eigi við ofurefli að etja. (Sakaría 4:6) Heift óvinarins nær ekki að þagga niður í þeim sem lofa Jehóva. Já, við erum þess fullviss að engin vopn geta stöðvað fyrirætlanir Guðs.

Lygatungur kveðnar niður

5. Hvaða lygatungur risu upp gegn þjónum Jehóva á fyrstu öldinni?

5 Jesaja spáði því að fólk Guðs myndi kveða niður allar tungur sem myndu rísa gegn þeim. Á fyrstu öldinni voru kristnir menn oft bornir röngum sökum og sagt að þeir væru ódæðismenn. Orðin í Postulasögunni 16:20, 21 eru dæmigerð fyrir slíkar ásakanir: „Menn þessir gjöra mestu óspektir í borg vorri. Þeir . . . boða siði, sem oss, rómverskum mönnum, leyfist hvorki að þýðast né fylgja.“ Við annað tækifæri reyndu trúarlegir andstæðingar að snúa borgarstjórunum gegn fylgjendum Krists og sögðu: „Mennirnir, sem komið hafa allri heimsbyggðinni í uppnám, þeir eru nú komnir hingað . . . [og þeir] breyta gegn boðum keisarans.“ (Postulasagan 17:6, 7) Páll postuli var sagður vera „skaðræði“ og leiðtogi villuflokks sem kveikti ófrið „um víða veröld“. — Postulasagan 24:2-5.

6, 7. Nefndu dæmi um hvernig sannkristnir menn kveða niður lygar andstæðinga sinna.

6 Það kemur okkur því ekki á óvart að sannkristnir menn skuli vera ófrægðir og mega þola rógsherferðir gegn sér. Hvernig getum við kveðið niður lygar andstæðinga okkar? — Jesaja 54:17.

7 Vottar Jehóva kveða oft niður slíkar ásakanir og áróður með góðri hegðun sinni. (1. Pétursbréf 2:12) Þegar þeir reynast vera löghlýðnir og siðsamir borgarar, sem hafa einlægan áhuga á velferð náungans, sýnir það sig að ásakanirnar gegn þeim eru ósannar. Góð hegðun okkar talar sínu máli. Þegar fólk sér að við höldum áfram að ástunda hið góða finnur það sig oft knúið til að lofa himneskan föður okkar og viðurkenna að sú lífsstefna, sem þjónar hans hafa valið, sé framúrskarandi. — Jesaja 60:14; Matteus 5:14-16.

8. (a) Hvað getur stundum reynst nauðsynlegt til að verja biblíulega afstöðu okkar? (b) Hvernig kveðum við niður ásakanir annarra líkt og Jesús?

8 En auk þess að breyta vel getur stundum reynst nauðsynlegt að verja biblíulega afstöðu okkar með hugrekki og dirfsku. Öðru hverju er það gert með því að leita til yfirvalda og dómstóla um vernd. (Esterarbók 8:3; Postulasagan 22:25-29; 25:10-12) Þegar Jesús var hér á jörð hrakti hann stundum opinberlega rangar ásakanir andstæðinga sinna. (Matteus 12:34-37; 15:1-11) Við líkjum eftir Jesú og fögnum því að fá tækifæri til að útskýra trú okkar og sannfæringu fyrir öðrum. (1. Pétursbréf 3:15) Við skulum aldrei láta háðsglósur vinnufélaga, skólafélaga eða vantrúaðra ættingja verða til þess að við hættum að kunngera sannleikann í orði Guðs. — 2. Pétursbréf 3:3, 4.

Jerúsalem — ,aflraunasteinn‘

9. Hvaða Jerúsalem táknar ,aflraunasteinninn‘ í Sakaría 12:3 og hverjir eru fulltrúar hennar á jörðinni?

9 Spádómur Sakaría varpar ljósi á hvers vegna þjóðirnar standa gegn sannkristnum mönnum. Í Sakaría 12:3 segir: „Á þeim degi mun ég gjöra Jerúsalem að aflraunasteini fyrir allar þjóðir.“ Hvaða Jerúsalem er átt við í þessum spádómi? Hér er átt við hina „himnesku Jerúsalem“, ríkið á himnum sem andasmurðir kristnir menn hafa verið kallaðir til. (Hebreabréfið 12:22) Lítill hluti þessara erfingja að Messíasarríkinu er enn á jörðinni. Ásamt félögum sínum, ,öðrum sauðum‘, hvetja þeir fólk til að gerast þegnar Guðsríkis meðan enn er tími til. (Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 11:15) Hvernig hafa þjóðirnar brugðist við þessu boði? Og hvers konar stuðning veitir Jehóva sönnum tilbiðjendum sínum nú á dögum? Við skulum komast að því með því að skoða nánar 12. kaflann í Sakaría. Það mun styrkja þá sannfæringu okkar að ,engin vopn verði sigurvænleg‘ gegn andasmurðum þjónum Guðs og dyggum félögum þeirra.

10. (a) Hvers vegna verður fólk Guðs fyrir árásum? (b) Hvernig hefur þjóðunum gengið að ryðja ,aflraunasteininum‘ úr vegi?

10 Í Sakaría 12:3 kemur fram að þjóðirnar ,hrufli sig til blóðs‘. Hvernig gerist það? Guð hefur ákveðið að það eigi að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki. Vottar Jehóva taka þessa skyldu mjög alvarlega og boða að ríki Guðs sé eina von mannkyns. En þessi boðun hefur orðið eins og ,aflraunasteinn‘ fyrir þjóðirnar. Þær reyna að ryðja honum úr vegi með því að gera boðberum Guðsríkis erfitt fyrir. Með því að gera það hafa þjóðirnar ,hruflað sig til blóðs‘. Þær hafa jafnvel beðið álitshnekki því þeim hefur mistekist hrapallega. Þær geta ekki þaggað niður í sönnum tilbiðjendum Guðs sem meta mikils þann heiður að mega boða ,eilífan fagnaðarboðskap‘ um Messíasarríkið áður en þetta heimskerfi líður undir lok. (Opinberunarbókin 14:6) Þegar fangavörður í Afríkulandi horfði upp á ofbeldið sem vottar Jehóva máttu þola sagði hann efnislega: ,Þið erum að sóa kröftum ykkar með því að ofsækja þetta fólk. Það lætur aldrei undan. Því fjölgar bara.‘

11. Hvernig hefur Guð staðið við loforð sitt í Sakaría 12:4?

11 Lestu Sakaría 12:4. Jehóva lofar að blinda táknrænt alla sem vinna gegn hugrökkum boðberum Guðsríkis og „slá felmt“ á þá. Hann hefur staðið við orð sín. Tökum dæmi. Í einu landi, þar sem sönn tilbeiðsla var bönnuð, gátu andstæðingar ekki komið í veg fyrir að fólk Guðs fengi andlega fæðu. Dagblað hélt því meira að segja fram að vottar Jehóva notuðu loftbelgi til að koma biblíutengdu lesefni inn í landið. Loforð Guðs rættist: „Ég [vil] hafa vakandi auga, en slá alla hesta þjóðanna með blindu.“ Óvinir Guðsríkis eru blindaðir af heift og vita ekki hvaða stefnu þeir eiga að taka. En við erum þess fullviss að Jehóva varðveiti fólk sitt sem heild og annist það. — 2. Konungabók 6:15-19.

12. (a) Í hvaða skilningi kveikti Jesús eld þegar hann var hér á jörð? (b) Hvernig hafa hinir andasmurðu kveikt eld í andlegum skilningi og með hvaða afleiðingum?

12 Lestu Sakaría 12:5, 6. „Ætthöfðingjar Júda“ eru þeir sem gegna umsjónarstörfum meðal fólks Guðs. Jehóva gefur þeim brennandi áhuga á því að sinna hagsmunum Guðsríkis hér á jörð. Einu sinni sagði Jesús við lærisveina sína: „Ég er kominn að varpa eldi á jörðu.“ (Lúkas 12:49) Það má með sanni segja að hann hafi kveikt eld. Boðskapurinn um Guðsríki var í brennidepli þegar Jesús prédikaði meðal manna af miklu kappi. Boðun hans kveikti hatrammar deilur meðal Gyðinga. (Matteus 4:17, 25; 10:5-7, 17-20) Fylgjendur Jesú á okkar dögum eru sömuleiðis „eins og glóðarker í viðarkesti og sem brennandi blys í kerfum“. Þeir kveikja eld í andlegum skilningi. Árið 1917 var bókin The Finished Mystery a gefin út og hún fletti ofan af hræsni kristna heimsins. Prestastéttin brást ókvæða við. Fyrir skömmu kom út ritið Guðsríkisfréttir nr. 37, „Endalok falstrúarbragða eru í nánd“, og það hefur fengið marga til að taka afstöðu með Guðsríki eða snúast á móti því.

„Tjöld Júda“ frelsuð

13. Hvað er átt við með ,tjöldum Júda‘ og af hverju frelsar Jehóva þau?

13 Lestu Sakaría 12:7, 8. Tjöld voru algeng sjón í Ísrael til forna og voru stundum notuð af fjárhirðum og landbúnaðarverkamönnum. Ef óvinaþjóð réðist á Jerúsalem yrði þetta fólk fyrst fyrir barðinu á henni og þyrfti á vernd að halda. Með orðunum „tjöld Júda“ er gefið til kynna að þeir sem eftir eru af hinum andasmurðu nú á dögum séu eins og berskjalda á víðavangi en ekki í víggirtum borgum. Þar verja þeir hagsmuni Messíasarríkisins óttalaust. Jehóva hersveitanna mun fyrst „frelsa tjöld Júda“ vegna þess að þau eru skotmark Satans.

14. Hvernig verndar Jehóva og styrkir þá sem eru í ,tjöldum Júda‘?

14 Það er augljóst af sögunni að Jehóva verndar andasmurða erindreka Guðsríkis í ,tjöldum‘ þeirra úti á víðavangi. b Hann styrkir þá með því að veita þeim kraft og hugrekki eins og hann veitti stríðskonunginum Davíð.

15. Hvers vegna leitast Jehóva við að „eyða öllum þjóðunum“ og hvenær gerir hann það?

15 Lestu Sakaría 12:9. Hvers vegna leitast Jehóva við að „eyða öllum þjóðunum“? Vegna þess að þær halda áfram að vinna á móti Messíasarríkinu. Þær hljóta dóm fyrir að áreita og ofsækja fólk Guðs. Innan skamms munu handbendi Satans hér á jörð gera lokaárás á sanna tilbiðjendur Guðs. Það er undanfari að því ástandi í heiminum sem Biblían kallar Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:13-16) Dómarinn mikli mun svara árásinni með því að verja tilbiðjendur sína og helga nafn sitt meðal þjóðanna. — Esekíel 38:14-18, 22, 23.

16, 17. (a) Hvert er „hlutskipti þjóna Drottins“? (b) Hvað sönnum við með því að vera þolgóð þegar Satan ræðst á okkur?

16 Satan á engin vopn sem geta veikt eða slökkt eldmóð þjóna Guðs. Við vitum að Jehóva bjargar okkur þannig að við búum við frið sem er „hlutskipti þjóna Drottins“. (Jesaja 54:17) Enginn getur tekið frá okkur þennan frið og þá andlegu velsæld sem við búum við. (Sálmur 118:6) Satan heldur áfram að æsa til andstöðu og valda okkur þrengingum. Með því að vera trúföst og þolgóð þegar við erum smánuð sönnum við að andi Guðs hvílir yfir okkur. (1. Pétursbréf 4:14) Fagnaðarerindið um stofnsett ríki Jehóva er boðað um allan heim. Reynt er að slá okkur út af laginu með því að skjóta að okkur táknrænum ,slöngvusteinum‘ í mynd ýmiss konar andstöðu. En þjónar Jehóva fá kraft frá honum til að verjast þessum steinum og gera áhrif þeirra að engu. (Sakaría 9:15) Þeir sem eftir eru af hinum andasmurðu og dyggir félagar þeirra láta ekki stöðva sig.

17 Við hlökkum til þess að verða algerlega laus við árásir Satans. Það er ákaflega hughreystandi að vita með vissu að ,engin vopn, sem smíðuð verða móti okkur, verða sigurvænleg og allar tungur, sem upp rísa gegn okkur til málaferla, verða kveðnar niður‘.

[Neðanmáls]

a Gefin út af Vottum Jehóva en ekki fáanleg lengur.

b Nánari upplýsingar er að finna í bókinni Jehovah’s Witnesses — Proclaimers of God’s Kingdom, bls. 675-76. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

Hvert er svarið?

• Hvað sýnir að vopn Satans hafa ekki reynst sigurvænleg?

• Hvernig er hin himneska Jerúsalem eins og ,aflraunasteinn‘?

• Hvernig frelsar Jehóva „tjöld Júda“?

• Hverju treystum við þótt Harmagedón nálgist?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 18]

Þjónar Jehóva í Albaníu voru trúfastir þrátt fyrir árásir Satans.

[Mynd á bls. 20]

Jesús hrakti rangar ásakanir.

[Mynd á bls. 21]

Engin vopn, sem beitt er gegn boðberum fagnaðarerindisins, verða sigurvænleg.