Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ertu viðbúinn degi Jehóva?

Ertu viðbúinn degi Jehóva?

Ertu viðbúinn degi Jehóva?

„Hinn mikli dagur Drottins er nálægur, hann er nálægur og hraðar sér mjög.“ — SEFANÍA 1:14.

1-3. (a) Hvað segir Biblían um dag Jehóva? (b) Hvaða dagur Jehóva er fram undan?

 DAGUR Jehóva er ekki aðeins einn sólarhringur. Hann er ákveðið tímabil þegar Guð fullnægir dómi sínum yfir hinum illu. Óguðlegir menn hafa ástæðu til að óttast þennan dag því að þetta er dagur myrkurs, heiftar, brennandi reiði, neyðar og eyðingar. (Jesaja 13:9; Amos 5:18-20; Sefanía 1:15) „Æ, sá dagur,“ segir í spádómi Jóels, „því að dagur Drottins er nálægur, og hann kemur sem eyðing frá hinum Almáttka.“ (Jóel 1:15) Á þessum mikla degi mun Guð hins vegar bjarga „hinum hjartahreinu“. — Sálmur 7:11.

2 Orðasambandið „dagur Drottins“ er notað um ákveðna tíma þegar Jehóva framfylgir dómum sínum. „Dagur Drottins“ kom til dæmis yfir íbúa Jerúsalem fyrir tilstilli Babýloníumanna árið 607 f.Kr. (Sefanía 1:4-7) Og árið 70 e.Kr. notaði Guð Rómverja til að fullnægja dómi sínum yfir Gyðingum sem höfðu hafnað syni hans. (Daníel 9:24-27; Jóhannes 19:15) Í Biblíunni er líka spáð um ákveðinn dag Jehóva þegar hann mun „berjast við [allar] þjóðir“. (Sakaría 14:1-3) Undir innblæstri tengdi Páll postuli þennan dag við nærveru Krists sem hófst þegar hann var krýndur sem konungur á himnum árið 1914. (2. Þessaloníkubréf 2:1, 2) Árstexti Votta Jehóva fyrir árið 2007 hefur verið sérstaklega viðeigandi nú þegar dagur Jehóva er á næsta leiti. Hann er byggður á Sefanía 1:14 og hljóðar svo: Hinn mikli dagur Jehóva er nálægur.

3 Nú er rétti tíminn til að vera viðbúinn þar sem hinn mikli dagur Guðs er nálægur. Hvernig geturðu búið þig undir þennan dag? Þarftu að gera einhverjar breytingar til að vera viðbúinn degi Jehóva?

Vertu viðbúinn

4. Hvaða miklu prófraun hafði Jesús búið sig undir?

4 Í spádómi sínum um endalok þessa heimskerfis sagði Jesús Kristur við postulana: „Verið þér og viðbúnir.“ (Matteus 24:44) Þegar Jesús lét þessi orð falla hafði hann sjálfur búið sig undir mikla prófraun — að gefa líf sitt til lausnargjalds. (Matteus 20:28) Hvað getum við lært af því hvernig Jesús undirbjó sig?

5, 6. (a) Hvernig hjálpar kærleikur til Guðs og manna okkur að vera undirbúin fyrir dag Jehóva? (b) Hvernig var Jesús okkur til fyrirmyndar með því að sýna náungakærleika?

5 Jesús elskaði Jehóva og réttlátar meginreglur hans af öllu hjarta. Í Hebreabréfinu 1:9 segir um Jesú: „Þú hefur elskað réttlæti og hatað ranglæti. Því hefur Guð, þinn Guð, smurt þig gleðinnar olíu fram yfir þína jafningja.“ Jesús sýndi himneskum föður sínum hollustu því að hann elskaði hann. Ef við elskum Guð og lifum í samræmi við kröfur hans mun hann vernda okkur. (Sálmur 31:24) Slíkur kærleikur og hlýðni hjálpar okkur að vera viðbúin hinum mikla degi Jehóva.

6 Kærleikur Jesú til manna var áberandi þáttur í persónuleika hans. „Hann [kenndi] í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ (Matteus 9:36) Þetta fékk hann til að segja fólki frá fagnaðarerindinu. Kærleikur knýr okkur á sama hátt til að boða fólki fagnaðarerindið um ríkið. Kærleikur til Guðs og náungans fær okkur til að vera virk í boðunarstarfinu og hjálpar okkur þannig að vera undirbúin fyrir hinn mikla dag Jehóva. — Matteus 22:37-39.

7. Hvers vegna getum við verið glöð á meðan við bíðum dags Jehóva?

7 Jesús hafði yndi af því að gera vilja Jehóva. (Sálmur 40:9) Ef við tileinkum okkur sama hugarfar höfum við ánægju af því að veita Guði heilaga þjónustu. Við verðum, líkt og Jesús, óeigingjörn og fús til að gefa af tíma okkar og kröftum og það veitir okkur sanna hamingju. (Postulasagan 20:35) Já, „gleði Drottins er hlífiskjöldur“ okkar og hún hjálpar okkur að vera viðbúin hinum mikla degi hans. — Nehemíabók 8:10.

8. Hvers vegna ættum við að styrkja bænasamband okkar við Jehóva?

8 Innilegar bænir Jesú bjuggu hann undir trúarprófraunir. Hann var að biðja þegar Jóhannes skírði hann og hann var alla nóttina á bæn þegar hann valdi postulana. (Lúkas 6:12-16) Og hver sá sem les í Biblíunni hlýtur að verða hugfanginn af einlægum bænum Jesú síðustu nóttina sem hann lifði hér á jörð. (Markús 14:32-42; Jóhannes 17:1-26) Ert þú bænrækinn eins og Jesús var? Talaðu oft við Guð í bæn, gefðu þér góðan tíma til að biðja, leitaðu leiðsagnar heilags anda og vertu fljótur til að fara eftir leiðsögn hans þegar þú kemur auga á hana. Það er mjög mikilvægt að hafa sterkt samband við himneskan föður okkar á þessum erfiðu tímum þegar hinn mikli dagur hans nálgast óðfluga. Þess vegna skaltu fyrir alla muni halda áfram að styrkja bænasamband þitt við Jehóva. — Jakobsbréfið 4:8.

9. Hversu mikilvægt er að láta sér umhugað um að nafn Jehóva verði helgað?

9 Jesú var umhugað um að heilagt nafn Jehóva yrði helgað og það hjálpaði honum líka að vera viðbúinn þeim erfiðleikum sem hann mætti. Hann kenndi fylgjendum sínum jafnvel að biðja: „Helgist þitt nafn.“ (Matteus 6:9) Ef við þráum innilega að nafn Jehóva verði helgað gætum við þess að gera ekki neitt sem kastar rýrð á það. Þá verðum við betur undirbúin fyrir dag Jehóva.

Þarftu að gera einhverjar breytingar?

10. Hvers vegna er viðeigandi að gera sjálfsrannsókn?

10 Ef dagur Jehóva kemur á morgun ertu þá tilbúinn? Það er gott fyrir okkur hvert og eitt að gera sjálfsrannsókn og athuga hvort við þurfum að lagfæra hegðun okkar eða viðhorf að einhverju leyti. Í ljósi þess hve hverfult og óöruggt lífið er verðum við öll að vera andlega vakandi á hverjum degi. (Prédikarinn 9:11, 12; Jakobsbréfið 4:13-15) Við skulum því skoða nokkur atriði sem við gætum þurft að leggja meiri áherslu á.

11. Hvaða markmið hefurðu sett þér varðandi biblíulestur?

11 Eitt mjög mikilvægt atriði er að fylgja leiðbeiningum hins trúa þjóns um að lesa daglega í Biblíunni. (Matteus 24:45) Þú gætir sett þér það markmið að lesa Biblíuna frá 1. Mósebók til Opinberunarbókarinnar einu sinni á ári og hugleiða efnið vandlega. Með því að lesa um fjóra kafla á dag nærðu að lesa alla 1.189 kafla Biblíunnar á einu ári. Konungar Ísraels áttu að lesa lögmál Jehóva „alla ævidaga sína“. Jósúa gerði greinilega eitthvað svipað. (5. Mósebók 17:14-20; Jósúabók 1:7, 8) Það er sérstaklega mikilvægt að umsjónarmenn safnaðarins lesi daglega í orði Guðs því að það hjálpar þeim að miðla öðrum hinni „heilnæmu kenningu“. — Títusarbréfið 2:1.

12. Hvað ættir þú að vilja gera í ljósi þess að dagur Jehóva er nálægur?

12 Þar sem dagur Jehóva er svo nálægur ætti það að hvetja þig til að sækja safnaðarsamkomur að staðaldri og taka eins mikinn þátt í þeim og þú getur. (Hebreabréfið 10:24, 25) Það hjálpar þér að verða hæfari boðberi sem reynir að finna þá sem hneigjast til eilífs lífs og kenna þeim. (Postulasagan 13:48, NW) Kannski gætirðu líka verið virkari í safnaðarstarfinu á annan hátt eins og með því að aðstoða aldraða og hvetja unga fólkið. Allt þetta getur verið mjög gefandi.

Samband þitt við aðra

13. Hvaða spurninga gætum við spurt okkur í sambandi við það að íklæðast hinum nýja manni?

13 Í ljósi þess að dagur Jehóva er nálægur gæti verið að þú þurfir að leggja þig betur fram um að „íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans“. (Efesusbréfið 4:20-24) Þegar þú þroskar með þér eiginleika Guði að skapi eiga aðrir sennilega eftir að sjá að þú ,lifir í andanum‘ og sýnir ávöxt andans. (Galatabréfið 5:16, 22-25) Geturðu bent á eitthvað ákveðið sem sýnir að þú og fjölskylda þín hafið íklæðst hinum nýja manni? (Kólossubréfið 3:9, 10) Ertu til dæmis þekktur fyrir að vinna góðverk í þágu trúsystkina og annarra? (Galatabréfið 6:10) Ef þú lest og hugleiðir Biblíuna að staðaldri hjálpar það þér að þroska með þér eiginleika sem búa þig undir dag Jehóva.

14. Hvers vegna er viðeigandi að biðja um heilagan anda þegar unnið er að því að þroska með sér sjálfstjórn?

14 Hvað ef þú ert skapbráður og gerir þér grein fyrir að þú þurfir að sýna meiri sjálfstjórn? Sá eiginleiki er hluti af þeim ávexti sem heilagur andi Guðs getur hjálpað þér að þroska með þér. Þú skalt því biðja um heilagan anda í samræmi við orð Jesú: „Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. . . . Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ — Lúkas 11:9-13.

15. Hvað ættir þú að gera ef það er slæmt samband á milli þín og einhvers innan safnaðarins?

15 Segjum sem svo að það sé slæmt samband á milli þín og einhvers innan safnaðarins. Gerðu þá allt sem í þínu valdi stendur til að bæta samskiptin og stuðla þannig að friði og einingu safnaðarins. (Sálmur 133:1-3) Fylgdu leiðbeiningum Jesú í Matteusi 5:23, 24 eða Matteusi 18:15-17. Ef þú hefur leyft sólinni setjast á meðan þú ert enn reiður skaltu vera fljótur til að leiðrétta málin. Oft snýst þetta bara um að vera fús til að fyrirgefa. Páll skrifaði: „Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.“ — Efesusbréfið 4:25, 26, 32.

16. Hvers er nauðsynlegt að gæta í hjónabandinu?

16 Í hjónabandinu er líka nauðsynlegt að sýna hlýju og ástúð og vera fús til að fyrirgefa. Ef þú þarft að vinna að því að sýna maka þínum meiri ást og hlýhug skaltu gera það með hjálp Guðs og orðs hans. Þarft þú að leggja þig betur fram um að fylgja leiðbeiningunum í 1. Korintubréfi 7:1-5 til að draga úr streitu og koma í veg fyrir ótryggð? Á þessu sviði lífsins þurfa hjón vissulega að sýna hlýju og ástúð.

17. Hvað ætti sá að gera sem syndgar alvarlega?

17 Hvað ættirðu að gera ef þú hefur drýgt alvarlega synd? Gerðu ráðstafanir til að leiðrétta málið eins fljótt og hægt er. Leitaðu umfram allt aðstoðar safnaðaröldunganna. Bænir þeirra og leiðsögn geta hjálpað þér að eignast aftur gott samband við Jehóva. (Jakobsbréfið 5:13-16) Biddu til Jehóva í iðrunarhug. Ef þú gerir það ekki gætirðu fengið sektarkennd og slæma samvisku. Þannig leið Davíð en honum var mjög létt eftir að hafa játað synd sína fyrir Jehóva. Hann skrifaði: „Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin. Sæll er sá maður er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð, sá er eigi geymir svik í anda.“ (Sálmur 32:1-5) Jehóva fyrirgefur syndurum sem sýna einlæga iðrun. — Sálmur 103:8-14; Orðskviðirnir 28:13.

Vertu ekki hluti af heiminum

18. Hvernig ættirðu að líta á heiminn?

18 Þú hlakkar örugglega til þess að fá að lifa í þeim dásamlega nýja heimi sem faðir okkar á himnum hefur lofað. En hvernig líturðu þá á þennan rangláta heim sem er fjarlægur Guði? Satan, „höfðingi heimsins“, átti ekkert í Jesú. (Jóhannes 12:31; 14:30) Þú vilt auðvitað ekki að Satan og heimur hans eigi neitt í þér. Taktu því til þín orð Jóhannesar postula: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru.“ Það er mjög viturlegt því að „heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu“. — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

19. Hvers konar markmið er ungt fólk hvatt til að setja sér?

19 Hjálpar þú börnunum þínum að ,varðveita sig óflekkuð af heiminum‘? (Jakobsbréfið 1:27) Satan myndi vilja draga börnin þín til sín eins og veiðimaður dregur inn fisk. Ýmsir klúbbar og önnur samtök eru sniðin að því að láta unga fólkið samlagast heimi Satans. En þjónar Jehóva tilheyra nú þegar einu samtökunum sem munu lifa af endalok þessa illa heimskerfis. Það þarf því að hvetja ungt fólk í söfnuðinum til að vera ,síauðugt í verki Drottins‘. (1. Korintubréf 15:58) Foreldrar verða að hjálpa börnunum að setja sér markmið sem veita þeim ánægjulegt og gefandi líf sem er Guði til heiðurs og býr þau undir dag hans.

Horfðu til framtíðar

20. Af hverju ættum við að hafa eilíft líf fyrir augum?

20 Þú getur beðið dags Jehóva með rósömu hjarta ef þú hefur eilíft líf fyrir augum. (Júdasarbréfið 20, 21) Þú hlakkar til þess að lifa að eilífu í paradís og átt von um að endurheimta æsku og líkamshreysti og hafa ótakmarkaðan tíma til að vinna að uppbyggilegum markmiðum og læra meira um Jehóva. Já, þú getur fræðst eilíflega um Guð því að núna þekkja mennirnir aðeins „ystu takmörk vega hans“. (Jobsbók 26:14) Finnst þér þetta ekki spennandi framtíðarhorfur?

21, 22. Hvernig eigum við eftir að skiptast á upplýsingum við hina upprisnu?

21 Þegar jörðin verður orðin að paradís geta hinir upprisnu sagt okkur nánar frá því sem gerðist í fortíðinni. Enok verður þar og getur útskýrt hvernig hann fékk hugrekki til að boða óguðlegum dóm Jehóva. (Júdasarbréfið 14, 15) Nói getur sagt okkur hvernig gekk að smíða örkina. Abraham og Sara geta upplýst okkur um það hvernig þeim fannst að yfirgefa þægindin í Úr og búa í tjöldum. Sjáðu Ester fyrir þér segja okkur í smáatriðum hvernig hún varði þjóð sína og eyðilagði ráðabrugg Hamans gegn henni. (Esterarbók 7:1-6) Og hugsaðu þér að hlusta á Jónas segja frá dögunum þrem í kviði stórfisksins eða heyra hvernig Jóhannesi skírara leið þegar hann skírði Jesú. (Lúkas 3:21, 22; 7:28) Já, það er svo margt áhugavert sem við eigum eftir að fræðast um.

22 Í þúsundáraríki Krists getur þú fengið að hjálpa hinum upprisnu að „öðlast þekking á Guði“. (Orðskviðirnir 2:1-6) Núna er einstaklega ánægjulegt að fylgjast með því þegar fólk fær þekkingu á Jehóva og breytir í samræmi við hana. En ímyndaðu þér þá gleði sem þú getur öðlast í framtíðinni þegar Jehóva blessar viðleitni þína til að kenna fólki úr fortíðinni og það tekur þakklátt við kennslunni.

23. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?

23 Blessanirnar, sem Jehóva veitir okkur núna, eru fleiri en svo að við, ófullkomnir menn, fáum tölu á komið eða getum metið til fulls. (Sálmur 40:6) Við erum sérstaklega þakklát fyrir andlegar gjafir Guðs. (Jesaja 48:17, 18) Verum staðráðin í því að þjóna Jehóva af öllu hjarta óháð aðsæðum okkar á meðan við bíðum hins mikla dags Jehóva.

Hvert er svarið?

• Hvað er „dagur Drottins“?

• Hvernig geturðu búið þig undir dag Jehóva?

• Hvaða breytingar gætum við þurft að gera núna þegar dagur Guðs er svona nálægur?

• Hvers hlakkar þú til þegar dagur Jehóva er afstaðinn?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 9]

Jesús var viðbúinn prófraunum.

[Mynd á bls. 12]

Það verður einstakt að fá að hjálpa hinum upprisnu að fá þekkingu á Jehóva.