Frelsuð úr snörum fuglarans
Frelsuð úr snörum fuglarans
„[Drottinn] frelsar þig úr snöru fuglarans.“ — SÁLMUR 91:3.
1. Hver er ,fuglarinn‘ og hvers vegna er hann hættulegur?
ALLIR sannkristnir menn þurfa að kljást við óvin sem býr yfir ofurmannlegum vitsmunum og kænsku. Í Sálmi 91:3 er hann kallaður ,fuglarinn‘. Hver er þessi óvinur? Allt frá 1. júní 1883 hefur Varðturninn bent á að þetta sé enginn annar en Satan djöfullinn. Þessi öflugi óvinur reynir lævíslega að blekkja fólk Jehóva og leggja snörur fyrir það líkt og snörur eru lagðar fyrir fugla.
2. Hvers vegna er Satan líkt við fuglaveiðimann?
2 Til forna voru fuglar ýmist veiddir til matar eða fórna eða fangaðir vegna hins fagra söngs og litríkra fjaðra. En það er erfitt að veiða fugla því að þeir eru að eðlisfari styggir og varir um sig. Fuglaveiðimaður á biblíutímanum varð að kynna sér vel sérkenni og lifnaðarhætti fuglsins sem hann ætlaði að fanga. Síðan beitti hann kænskubrögðum til að veiða hann í gildru. Í Biblíunni er Satan líkt við fuglaveiðimann og það hjálpar okkur að skilja aðferðir hans betur. Satan fylgist vel með hverju og einu okkar. Hann tekur eftir venjum okkar og persónueinkennum og leggur leynilegar snörur fyrir okkur til að reyna að fanga okkur lifandi. (2. Tímóteusarbréf 2:26) Ef honum tekst það mun það skaða trú okkar og getur að lokum leitt til glötunar. Til að tryggja öryggi okkar þurfum við að bera kennsl á mismunandi vélabrögð „fuglarans“.
3, 4. Hvenær minna brögð Satans á árásir ljóna og hvenær á árásir höggorma?
3 Sálmaritarinn notar lifandi myndmál og líkir brögðum Satans við veiðiaðferðir ljóna og höggorma. (Sálmur 91:13) Satan gerir stundum beinar árásir eins og ljón, með ofsóknum eða lagalegum aðgerðum gegn fólki Jehóva. (Sálmur 94:20) Slíkar árásir fá ef til vill einhverja til að yfirgefa Jehóva. En oftast hefur þessi aðferð öfug áhrif og sameinar fólk Guðs. En hvað þá um lævísar árásir Satans sem minna á veiðiaðferðir höggorma?
4 Satan notar ofurmannlega vitsmuni sína og ræðst til atlögu með lævísum og banvænum árásum líkt og eitraður höggormur úr launsátri. Með þessum hætti hefur honum tekist að eitra hugi nokkurra þjóna Guðs og fengið þá til að gera vilja sinn frekar en vilja Guðs. Þetta hefur haft hörmulegar afleiðingar. En sem betur fer þekkjum við vélabrögð Satans. (2. Korintubréf 2:11) Lítum nánar á fjórar snörur sem ,fuglarinn‘ notar.
Ótti við menn
5. Af hverju er ótti við menn hættulegur?
5 ,Fuglarinn‘ veit að menn þrá viðurkenningu og velþóknun annarra. Kristnum mönnum stendur ekki á sama um álit fólks í kringum sig. Satan veit þetta og reynir að notfæra sér það. Til dæmis notar hann ,ótta við menn‘ til að koma sumum þjónum Guðs úr jafnvægi. (Orðskviðirnir 29:25) Ef ótti við menn fær þá til taka þátt í einhverju sem Jehóva bannar eða sleppa því að gera það sem orð hans býður hafa þeir fest sig í snöru „fuglarans“. — Esekíel 33:8; Jakobsbréfið 4:17.
6. Hvernig gæti unglingur fest sig í snöru „fuglarans“?
6 Tökum dæmi. Unglingur gæti látið undan þrýstingi frá skólafélögum og reykt eina sígarettu. Þegar hann lagði af stað í skólann um morguninn ætlaði hann sér kannski aldrei að reykja. En fyrr en varir er hann farinn að gera eitthvað sem er skaðlegt heilsunni og Guði vanþóknanlegt. (2. Korintubréf 7:1) Hvernig lét hann til leiðast? Kannski lenti hann í slæmum félagsskap og var hræddur um að falla í áliti innan hópsins. Unglingar, leyfið ,fuglaranum‘ aldrei að tæla ykkur og veiða í gildru. Varist hvers konar málamiðlanir til að hann veiði ykkur ekki lifandi. Fylgið aðvörun Biblíunnar og forðist slæman félagsskap. — 1. Korintubréf 15:33.
7. Hvernig gæti Satan fengið suma foreldra til að ganga of langt í að annast efnislegar þarfir fjölskyldunnar?
7 Kristnir foreldrar taka alvarlega leiðbeiningar Biblíunnar um að annast efnislegar þarfir fjölskyldunnar. (1. Tímóteusarbréf 5:8) Satan reynir hins vegar að fá kristna menn til að ganga of langt í þessum málum. Kannski missa þeir oft af samkomum vegna þess að þeir láta undan þegar yfirmenn reyna að fá þá til að vinna yfirvinnu. Og þeir eru ef til vill smeykir við að biðja um frí til að fara á umdæmismót og vera viðstaddir alla dagskrána. Besta leiðin til að varast þessa gildru er að treysta Jehóva. (Orðskviðirnir 3:5, 6) Það getur líka verið gott að muna eftir því að við erum öll hluti af fjölskyldu Jehóva og að hann hefur lofað að sjá um okkur. Foreldrar, eruð þið fullvissir um að Jehóva muni á einn eða annan hátt annast ykkur og fjölskylduna þegar þið gerið vilja hans? Eða mun djöfullinn veiða ykkur í gildru sína og fá ykkur til að gera vilja sinn vegna mannahræðslu? Við hvetjum ykkur til að hugleiða þessar spurningar í bænarhug.
Snara efnishyggjunnar
8. Hvernig notar Satan efnishyggju til að tæla fólk?
8 Satan notar líka efnishyggju til að tæla fólk í snöru sína. Viðskiptaheimurinn er sífellt að benda á leiðir til að afla skjótfengins gróða og fólk Guðs gæti látið ginnast af því. Stundum gæti einhver sagt við okkur: „Leggðu hart að þér. Þegar þú hefur öðlast fjárhagslegt öryggi geturðu tekið því rólega og notið lífsins. Þú gætir jafnvel orðið brautryðjandi.“ Þess konar ráð gætu komið frá þeim sem vilja hafa fjárhagslegan ávinning af bræðrum sínum og systrum í söfnuðinum. Hugsaðu vandlega um hvaða hvöt liggur þar að baki. Endurspeglar hún ekki hugsunarhátt ríka mannsins í dæmisögu Jesú? — Lúkas 12:16-21.
9. Hvernig gæti löngun í efnislega hluti verið snara fyrir suma kristna menn?
9 Satan stjórnar þessu illa heimskerfi og vegna áhrifa hans girnist fólk efnislega hluti. Þessi þrá getur að lokum haft skaðleg áhrif á líf kristins manns og kæft orðið þannig að það „ber engan ávöxt“. (Markús 4:19) Í Biblíunni erum við hvött til að láta okkur nægja fæði og klæði. (1. Tímóteusarbréf 6:8) Margir festast hins vegar í snöru „fuglarans“ vegna þess að þeir taka þessar leiðbeiningar ekki til sín. Gæti verið að þeir haldi í ákveðinn lífsstíl vegna stolts? Hvað um okkur sjálf? Ýtum við tilbeiðslunni til hliðar af því að við girnumst efnislega hluti? (Haggaí 1:2-8) Sumir hafa því miður fórnað sambandi sínu við Guð þegar hart er í ári til að viðhalda þeim lífsgæðum sem þeir hafa vanist. Slíkt viðhorf gleður ,fuglarann‘.
Skaðleg afþreying
10. Hvernig sjálfsrannsókn ætti hver og einn að gera?
10 Önnur aðferð „fuglarans“ er að sljóvga tilfinningu fólks fyrir því hvað sé rétt og rangt. Viðhorfið, sem var ríkjandi í Sódómu og Gómorru, svipar til þess viðhorfs sem hefur áhrif á skemmtanaiðnaðinn nú á dögum. Fréttapistlar í sjónvarpi og tímaritum beina jafnvel athyglinni að ofbeldi og ýta undir afbrigðilegan áhuga á kynlífi. Mikið af því afþreyingarefni, sem birtist í fjölmiðlum, sljóvgar fólk þannig að það á erfiðara með „að greina gott frá illu“. (Hebreabréfið 5:14) Við skulum muna eftir orðum Jehóva sem hann sagði fyrir milligöngu Jesaja spámanns: „Vei þeim, sem kalla hið illa gott og hið góða illt.“ (Jesaja 5:20) Hefur ,fuglarinn‘ haft lúmsk áhrif á hugsunarhátt þinn með skaðlegri afþreyingu? Það er nauðsynlegt að gera sjálfsrannsókn. — 2. Korintubréf 13:5.
11. Hvaða aðvörun gaf Varðturninn um sápuóperur?
11 Fyrir tæpum aldarfjórðungi benti Varðturninn á hætturnar sem geta falist í því að horfa á sjónvarpsþætti. a Þar var sagt um lúmsk áhrif vinsælla sápuópera: „Það má réttlæta hvers konar hegðun í nafni ástarinnar. Til dæmis segir ógift barnshafandi stúlka við vinkonu sína: ,En ég elska Victor. Mér er alveg sama. . . . Það skiptir mig öllu máli að eignast barnið hans.‘ Hugljúf tónlist hljómar í bakgrunninum og manni finnst erfitt að fordæma hegðun hennar. Maður hrífst líka af Victor. Maður finnur til með stúlkunni. Maður ,skilur‘ hana. ,Það er ótrúlegt hversu auðvelt það er að réttlæta sjálfan sig,‘ segir einn áhorfandi sem seinna breytti um viðhorf. ,Við vitum að siðleysi er rangt. . . . En ég gerði mér grein fyrir að í huganum var ég farin að samþykkja siðlausa hegðun.‘“
12. Hvaða staðreyndir sýna að varnaðarorðin um sjónvarpsþætti eru enn í gildi?
12 Síðan þessar greinar voru birtar hefur úrvalið af spillandi sjónvarpsþáttum færst stöðugt í aukana. Á mörgum stöðum eru slíkir þættir sýndir allan sólahringinn. Karlar, konur og margir unglingar næra huga sinn og hjarta á þess konar skemmtiefni. En við megum ekki blekkja sjálf okkur með fölskum röksemdum. Það væri rangt að hugsa sem svo að siðspillt afþreying sé ekkert verri en það sem gerist í raunveruleikanum. Getur kristinn maður réttlætt fyrir sjálfum sér að velja afþreyingu þar sem hann fylgist með fólki sem honum myndi aldrei detta í hug að bjóða heim til sín?
13, 14. Hvernig hafa sumir notið góðs af viðvörunum um skaðlegt sjónvarpsefni?
13 Það var mörgum til góðs að taka til sín þessi varnaðarorð frá ,trúa og hyggna þjóninum‘. (Matteus 24:45-47) Eftir að hafa lesið þessi beinskeyttu ráð byggð á Biblíunni skrifuðu sumir bréf og sögðu frá því hvernig þessar greinar hefðu haft áhrif á sig. b Systir nokkur viðurkenndi: „Ég var sápuóperufíkill í 13 ár. Ég hélt að ég væri ekki í neinni hættu ef ég færi á samkomur og tæki annað slagið þátt í boðunarstarfinu. En ég smitaðist af því veraldlega viðhorfi að framhjáhald væri réttlætanlegt ef eiginmaðurinn kæmu illa fram við mig eða mér fyndist ég ekki elskuð — hann gæti bara sjálfum sér um kennt. Það varð til þess að ég tók þessa stefnu og syndgaði gegn Jehóva og eiginmanni mínum þegar mér fannst það ,réttlætanlegt‘.“ Þessari konu var vikið úr söfnuðinum. Að lokum sá hún að sér, iðraðist og var tekin aftur inn í söfnuðinn. Greinarnar um sápuóperur veittu henni styrk til að hætta að leita í afþreyingu sem Jehóva hatar. — Amos 5:14, 15.
14 Þessar greinar höfðu líka áhrif á annan lesanda sem sagði: „Ég grét þegar ég las greinarnar því að ég áttaði mig á því að ég þjónaði Jehóva ekki lengur af heilu hjarta. Ég lofaði honum að ég myndi ekki lengur verða þræll þessara sjónvarpsþátta.“ Kristin kona, sem skrifaði til að þakka fyrir þessar greinar, viðurkenndi að hún væri háð sápuóperum. Hún skrifaði: „Ég velti fyrir mér . . . hvort þetta gæti haft áhrif á samband mitt við Jehóva. Hvernig gæti ég haft ,þau‘ að vinum og líka verið vinur Jehóva?“ Fyrst sjónvarpsþættir höfðu spillandi áhrif á hjörtu manna fyrir 25 árum síðan, hvaða áhrif ætli þeir hafi nú á dögum? (2. Tímóteusarbréf 3:13) Við verðum að gera okkur grein fyrir því að skaðleg afþreying er ein af snörum Satans, hvort sem um er að ræða sápuóperur, ofbeldisfulla tölvuleiki eða siðlaus tónlistarmyndbönd.
Ágreiningur milli trúsystkina
15. Í hvaða snöru Satans festast sumir?
15 Satan vill að ágreiningur valdi sundurlyndi meðal fólks Jehóva. Við getum fallið í þessa gildru óháð verkefnum okkar innan safnaðarins. Sumir festast í snöru Satans því að þeir leyfa persónulegum ágreiningi að grafa undan friði og einingu safnaðarins og spilla andlegu paradísinni sem Jehóva hefur komið á. — Sálmur 133:1-3.
16. Hvaða lævísu aðferðum beitir Satan til að reyna að spilla einingu safnaðarins?
16 Í fyrri heimsstyrjöldinni reyndi Satan að eyðileggja jarðneskan söfnuð Jehóva með beinum árásum en það tókst ekki. (Opinberunarbókin 11:7-13) Þaðan í frá hefur hann beitt lævísum aðferðum til að reyna að spilla einingu safnaðarins. Þegar við látum persónulegan ágreining valda sundrungu höfum við leyft ,fuglaranum‘ að ná tökum á okkur. Þannig gætum við komið í veg fyrir að heilagur andi starfaði í lífi okkar eða innan safnaðarins. Ef það gerðist yrði Satan ánægður vegna þess að þegar friði og einingu safnaðarins er raskað hefur það áhrif á boðunarstarfið. — Efesusbréfið 4:27, 30-32.
17. Hvað getur hjálpað fólki að leysa persónuleg ágreiningsmál?
17 Hvað geturðu gert ef ósætti kemur upp á milli þín og einhvers annars innan safnaðarins? Að sjálfsögðu eru engin tvö mál eins. Vandamál geta komið upp af ýmsum ástæðum en það er ástæðulaust að leysa þau ekki. (Matteus 5:23, 24; 18:15-17) Leiðbeiningarnar í orði Guðs eru innblásnar og fullkomnar. Meginreglur Biblíunnar bregðast aldrei. Þær virka alltaf þegar farið er eftir þeim.
18. Hvers vegna er mikilvægt að líkja eftir Jehóva þegar við leysum persónuleg ágreiningsmál?
18 Jehóva er „fús til að fyrirgefa“ og „hjá [honum] er fyrirgefning“. (Sálmur 86:5; 130:4) Við sýnum að við erum elskuð börn hans með því að líkja eftir honum. (Efesusbréfið 5:1) Við erum öll syndug og þörfnumst sárlega fyrirgefningar hans. Við þurfum því að gæta okkar ef við finnum að okkur langar ekki til að fyrirgefa einhverjum. Við gætum orðið eins og þjóninn í dæmisögu Jesú. Hann vildi ekki gefa samþjóni sínum upp skuld sem var ósköp lítil í samanburði við skuldina sem hann hafði sjálfur fengið gefna upp hjá húsbónda sínum. Þegar húsbóndinn heyrði af þessu lét hann varpa miskunnarlausa þjóninum í fangelsi. Jesús lauk dæmisögunni með orðunum: „Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður, nema hver og einn yðar fyrirgefi af hjarta bróður sínum.“ (Matteus 18:21-35) Það er mjög gott að hugleiða þessa dæmisögu og minnast þess hve oft Jehóva hefur verið fús til að fyrirgefa okkur. Það hjálpar okkur þegar við reynum að leysa úr ágreiningi við trúsystkini. — Sálmur 19:15.
Örugg „í skjóli Hins hæsta“
19, 20. Hvernig ættum við að líta á „skjól“ Jehóva og „skugga“ á þessum hættutímum?
19 Við lifum á hættutímum. Satan myndi eyða okkur öllum ef Jehóva verndaði okkur ekki í kærleika sínum. Til að festast ekki í snöru „fuglarans“ verðum við því að dvelja á táknrænum griðastað Jehóva, sitja „í skjóli Hins hæsta“ og gista „í skugga Hins almáttka“. — Sálmur 91:1.
20 Lítum alltaf á áminningar Jehóva og leiðsögn sem vernd en ekki hömlur. Við þurfum öll að kljást við óvin sem býr yfir ofurmannlegum vitsmunum. Enginn kemst undan án kærleiksríkrar aðstoðar Jehóva. (Sálmur 124:7, 8) Biðjum þess að Jehóva frelsi okkur frá snörum „fuglarans“. — Matteus 6:13.
[Neðanmáls]
a Varðturninn (ensk útgáfa) 1. desember 1982, bls. 3-7.
b Varðturninn (ensk útgáfa) 1. desember 1983, bls. 23.
Manstu?
• Hvers vegna er „ótti við menn“ lífshættuleg gildra?
• Hvernig notar Satan efnishyggju til að tæla fólk?
• Hvernig hefur Satan notað skaðlega afþreyingu til að veiða suma í snöru sína?
• Hvernig reynir Satan að spilla einingu safnaðarins?
[Spurningar]
[Mynd á bls. 5]
Sumir hafa látið ,ótta við menn‘ leiða sig í snöru.
[Mynd á bls. 6]
Leitar þú í afþreyingu sem Jehóva hatar?
[Mynd á bls. 7]
Hvað geturðu gert til að leysa persónuleg ágreiningsmál við trúsystkini?