Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Standið stöðugir, og munuð þér sjá hjálpræði Drottins“

„Standið stöðugir, og munuð þér sjá hjálpræði Drottins“

„Standið stöðugir, og munuð þér sjá hjálpræði Drottins“

„Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?“ — SÁLMUR 118:6.

1. Hvaða ógnvænlegu atburðir eru í vændum fyrir mannkynið?

 NÚNA eru í vændum ógnvænlegustu atburðir sem mannkynið hefur nokkurn tíma upplifað. Í spádómi um okkar daga sagði Jesús við fylgjendur sína: „Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða. Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða.“ — Matteus 24:21, 22.

2. Hverjir halda aftur af þrengingunni miklu?

2 Ósýnilegar hersveitir á himnum halda nú aftur af þrengingunni miklu. Jóhannes postuli fékk að sjá ástæðuna fyrir því í opinberun sem Jesús veitti honum. Hinn aldraði postuli lýsti þessu þannig: „Ég [sá] fjóra engla, er stóðu á fjórum skautum jarðarinnar. Þeir héldu fjórum vindum jarðarinnar . . . Og ég sá annan engil stíga upp í austri. Hann hélt á innsigli lifanda Guðs og hrópaði hárri röddu til englanna fjögurra . . . ,Vinnið ekki jörðinni grand og ekki heldur hafinu né trjánum, þar til er vér höfum sett innsigli á enni þjóna Guðs vors.‘“ — Opinberunarbókin 7:1-3.

3. Hvað gerist fyrst eftir að þrengingin mikla skellur á?

3 Lokainnsiglun hinna andasmurðu „þjóna Guðs vors“ er næstum á enda. Englarnir fjórir eru tilbúnir til að sleppa takinu á eyðingarvindunum. En hvað er það fyrsta sem gerist eftir að þeir sleppa takinu? Engill svarar þeirri spurningu: „Svo voveiflega mun Babýlon kollvarpast, borgin mikla, svo að engar menjar skulu eftir verða.“ (Opinberunarbókin 18:21) Þegar þetta gerist verður mikill fögnuður á himnum því að heimsveldi falstrúarbragðanna hefur þá verið eytt. — Opinberunarbókin 19:1, 2.

4. Hvaða atburðir eru fram undan?

4 Allar þjóðir jarðar hafa þá snúist gegn þjónum Jehóva. Tekst þeim að útrýma þessum trúföstu kristnu mönnum? Það gæti litið þannig út. En himneskar hersveitir Jesú Krists sjá til þess að þessum þjóðum verði eytt. (Opinberunarbókin 19:19-21) Að lokum verður djöflinum og englum hans kastað í undirdjúpið þar sem þeir geta ekkert aðhafst. Þá geta þeir ekki lengur leitt menn afvega því að þeir verða bundnir um þúsund ár. Það verður mikill léttir fyrir þann mikla múg manna sem lifir af. — Opinberunarbókin 7:9, 10, 14; 20:1-3.

5. Hvaða gleði bíður þeirra sem eru Jehóva trúir?

5 Bráðum upplifum við þessa dásamlegu og tilkomumiklu atburði. Þeir eru allir þáttur í því að verja rétt Jehóva til að stjórna. Og hugsaðu þér, ef við erum Jehóva trúföst og styðjum drottinvald hans fáum við að taka þátt í því að helga nafn hans og vinna að því að fyrirætlun hans nái fram að ganga. Það mun veita okkur ómælda gleði.

6. Hvað ætlum við að skoða í ljósi þess sem er í vændum?

6 Erum við undirbúin fyrir þessa þýðingarmiklu atburði? Trúum við á björgunarmátt Jehóva? Treystum við því að hann hjálpi okkur á réttum tíma og á réttan hátt? Þegar við svörum þessum persónulegu spurningum skulum við hafa hugfast það sem Páll postuli sagði trúsystkinum sínum í Róm. „Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.“ (Rómverjabréfið 15:4) Meðal þess sem var ritað okkur til uppfræðingar og veitir okkur huggun og von er frásagan af því þegar Jehóva frelsaði Ísraelsmenn úr harðri ánauð Egypta. Núna þegar við horfum fram til þrengingarinnar miklu, sem nálgast óðfluga, er hvetjandi fyrir okkur að skoða vandlega þá spennandi atburðarás sem átti sér stað þegar Jehóva frelsaði Ísraelsmenn.

Jehóva bjargar þjóð sinni

7. Hvað gerðist í Egyptalandi árið 1513 f.Kr.?

7 Það er árið 1513 f.Kr. Jehóva hefur þegar látið níu plágur ganga yfir Egypta. Eftir níundu pláguna rekur faraó Móse burt með orðunum: „Haf þig á burt frá mér og varast að koma oftar fyrir mín augu, því að á þeim degi, sem þú kemur í augsýn mér, skaltu deyja.“ Móse svarar: „Rétt segir þú. Ég skal aldrei framar koma þér fyrir augu.“ — 2. Mósebók 10:28, 29.

8. Hvaða fyrirmæli fá Ísraelsmenn og hver er árangurinn?

8 Næst segir Jehóva Móse að hann muni láta eina plágu til viðbótar ganga yfir faraó og alla Egypta. Þetta verður síðasta plágan. Á 14. degi mánaðarins abíb (nísan) mun frumburður allra egypskra manna og dýra deyja. En Ísraelsmenn geta komist undan ef þeir fylgja vandlega leiðbeiningunum sem Guð gefur Móse. Þeir eiga að bera blóð úr hrútlambi á báða dyrastafina og dyratréð í húsi sínu og halda sig innandyra. Hvað gerist síðan um nóttina? Leyfum Móse sjálfum að segja okkur frá því: „Um miðnæturskeið laust Drottinn alla frumburði í Egyptalandi.“ Faraó bregst strax við. Hann kallar á Móse og Aron og segir: „Takið yður upp og farið burt frá minni þjóð . . . Farið og þjónið Drottni, eins og þið hafið um talað.“ Ísraelsmenn gera það. Þeir eru sennilega yfir þrjár milljónir og með þeim fer „mikill fjöldi af alls konar lýð“ sem er ekki ísraelskur. — 2. Mósebók 12:1-7, 29, 31, 37, 38.

9. Hvaða leið lætur Guð Ísraelsmenn fara út úr Egyptalandi og hvers vegna?

9 Stysta leiðin fyrir Ísraelsmenn er að ganga meðfram Miðjarðarhafi og í gegnum land Filista. En það er óvinaland. Líklega vill Jehóva koma í veg fyrir að fólk sitt þurfi að berjast og því leiðir hann það eyðimerkurveginn til Rauðahafsins. Þótt þetta séu milljónir manna á göngu er þetta ekki tvístraður hópur. Í frásögunni segir: „Fóru Ísraelsmenn vígbúnir [eða „í herfylkingu,“ NW] af Egyptalandi.“ — 2. Mósebók 13:17, 18.

„Sjá hjálpræði Drottins“

10. Hvers vegna segir Guð Ísraelsmönnum að setja búðir sínar fyrir framan Pí-Hakírót?

10 Næst á sér stað ótrúleg atburðarás. Jehóva segir við Móse: „Seg Ísraelsmönnum, að þeir snúi aftur og setji búðir sínar fyrir framan Pí-Hakírót, milli Migdóls og hafsins, gegnt Baal Sefón.“ Þegar mannfjöldinn fylgir þessum fyrirmælum kemst hann í sjálfheldu á milli fjallanna og Rauðahafsins. Það virðist ekki vera nein undankomuleið. En Jehóva veit hvað hann er að gera. Hann segir við Móse: „Ég vil herða hjarta Faraós, og hann skal veita þeim eftirför. Ég vil sýna dýrð mína á Faraó og öllum liðsafla hans, svo að Egyptar skulu vita, að ég er Drottinn.“ — 2. Mósebók 14:1-4.

11. (a) Hvað gerir faraó og hvernig bregðast Ísraelsmenn við? (b) Hvernig svarar Móse kvörtunum Ísraelsmanna?

11 Faraó sér eftir að hafa leyft Ísraelsmönnum að fara frá Egyptalandi. Hann ákveður því að veita þeim eftirför og tekur með sér 600 valda hervagna. Þegar Ísraelsmenn sjá egypska herinn nálgast verða þeir óttaslegnir og hrópa til Móse: „Tókst þú oss burt til þess að deyja hér á eyðimörk, af því að engar væru grafir til í Egyptalandi?“ En Móse treystir á björgunarmátt Jehóva og svarar: „Óttist ekki. Standið stöðugir, og munuð þér sjá hjálpræði Drottins, er hann í dag mun láta fram við yður koma . . . Drottinn mun berjast fyrir yður, en þér skuluð vera kyrrir.“ — 2. Mósebók 14:5-14.

12. Hvernig bjargar Jehóva fólki sínu?

12 Móse hafði sagt að Jehóva myndi berjast fyrir Ísraelsmenn og það rætist. Ofurmannlegur máttur tekur nú við. Engill Jehóva færir skýstólpann, sem hefur leitt Ísraelsmenn, aftur fyrir þá. Skýstólpinn veldur myrkri hjá Egyptum en veitir Ísraelsmönnum ljós. (2. Mósebók 13:21, 22; 14:19, 20) Næst gefur Guð Móse fyrirmæli um að rétta út höndina. Frásagan heldur áfram: „Drottinn lét hvassan austanvind blása alla nóttina . . . og Ísraelsmenn gengu á þurru mitt í gegnum hafið, og vötnin stóðu eins og veggur til hægri og vinstri handar þeim.“ Egyptar fara á eftir þeim en Jehóva stendur með fólki sínu. Hann veldur ringulreið meðal Egypta og segir síðan við Móse: „Rétt út hönd þína yfir hafið, og skulu þá vötnin aftur falla yfir Egypta, yfir vagna þeirra og riddara.“ Eyðing hersveita faraós er svo alger að ekki einn einasti hermaður kemst lífs af. — 2. Mósebók 14:21-28; Sálmur 136:15.

Lærum af frelsun Ísraelsmanna

13. Hvernig brugðust Ísraelsmenn við eftir að Jehóva hafði bjargað þeim?

13 Hvaða áhrif hafði þessi yfirnáttúrulega frelsun á þá sem lifðu af? Móse og Ísraelsmenn fundu strax hjá sér hvöt til að lofsyngja Jehóva. Þeir sungu: „Ég vil lofsyngja Drottni, því að hann hefir sig dýrlegan gjört . . . Drottinn skal ríkja um aldur og að eilífu!“ (2. Mósebók 15:1, 18) Já, það fyrsta sem kom þeim í hug var að lofa Guð. Við þessar aðstæður hafði drottinvald Jehóva birst með skýrum hætti.

14. (a) Hvað getum við lært um Jehóva af frásögunni um Ísraelsmenn? (b) Hver er árstextinn 2008?

14 Hvernig eru þessir spennandi atburðir okkur til uppfræðingar og hvernig veita þeir okkur huggun og von? Við sjáum greinilega að Jehóva er viðbúinn hvaða erfiðleikum sem þjónar hans mæta. Honum er ekkert ofviða. Rauðahafið var engin hindrun fyrir Ísraelsmenn þegar Jehóva lét hvassan austanvind blása. Og hann gat látið þetta sama haf verða að votri gröf fyrir hersveitir faraós. Þegar við hugleiðum þetta getum við tekið undir orð sálmaritarans sem sagði: „Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?“ (Sálmur 118:6) Orð Páls í Rómverjabréfinu 8:31 geta líka verið okkur til huggunar: „Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss?“ Þessi innblásnu orð veita okkur mikið öryggi. Þau þagga niður í öllum áhyggjum og efasemdum sem við gætum haft og veita okkur von. Það er því viðeigandi að árstextinn 2008 sé: Standið stöðugir og sjáið hjálpræði Jehóva. — 2. Mósebók 14:13.

15. Hve mikilvægt var fyrir Ísraelsmenn að sýna hlýðni þegar þeir voru frelsaðir út úr Egyptalandi og hve mikilvægt er það núna?

15 Hvað fleira getum við lært af brottför Ísraelsmanna úr Egyptalandi? Við lærum að við verðum að hlýða Jehóva sama hvað hann biður okkur um. Ísraelsmenn voru hlýðnir og undirbjuggu brottförina alveg eins og Jehóva gaf þeim fyrirmæli um. Þeir hlýddu boðinu um að halda sig innandyra nóttina 14. nísan. Og þegar þeir yfirgáfu loks Egyptaland þurftu þeir að vera „í herfylkingu“. (2. Mósebók 13:18, NW) Nú á dögum er mjög mikilvægt að fylgja þeim leiðbeiningum sem við fáum frá ,trúa og hyggna þjóninum‘. (Matteus 24:45) Ef við víkjum „til hægri handar eða vinstri“ verðum við að hlýða vandlega á orðin sem Guð kallar á eftir okkur: „Hér er vegurinn! Farið hann!“ (Jesaja 30:21) Þegar við færumst nær þrengingunni miklu gæti vel verið að við fengjum einhverjar nýjar leiðbeiningar. Ef við viljum komast í gegnum þessa erfiðu tíma verðum við að vera samstíga öðrum trúum þjónum Jehóva.

16. Hvað getum við lært af því hvernig Guð stýrði málum þegar hann frelsaði Ísraelsmenn?

16 Mundu líka að Jehóva leiddi Ísraelsmenn á stað þar sem þeir virtust vera í sjálfheldu á milli fjallanna og Rauðahafsins. Þetta leit ekki út fyrir að vera rétt ákvörðun. En Jehóva vissi hvað hann var að gera og allt gekk að óskum, honum til lofs og fólki hans til björgunar. Nú á dögum skiljum við kannski ekki til fulls af hverju tekið er á vissum skipulagsmálum eins og raun ber vitni en við höfum fulla ástæðu til að treysta á þá leiðsögn sem Jehóva veitir fyrir milligöngu hins trúa og hyggna þjóns. Stundum gætu óvinir okkar virst vera með yfirhöndina. Við höfum takmarkaða yfirsýn og sjáum því kannski ekki heildarmyndina. En Jehóva getur stýrt málum á réttu augnabliki alveg eins og hann gerði forðum fyrir Ísraelsmenn. — Orðskviðirnir 3:5.

Treystu á Jehóva

17. Hvers vegna getum við haft fullt traust til þess að Guð leiðbeini okkur?

17 Geturðu ímyndað þér hvað það hlýtur að hafa veitt Ísraelsmönnum mikið öryggi að minnast skýstólpans sem var með þeim á daginn og eldstólpans á nóttunni? Hann var sönnun þess að „engill Guðs“ væri að vísa þeim veginn. (2. Mósebók 13:21, 22; 14:19) Núna getum við verið þess fullviss að Jehóva er með fólki sínu og leiðir það, verndar og frelsar. Við getum treyst loforðinu: „[Drottinn] yfirgefur ekki sína trúuðu. Þeir verða eilíflega varðveittir.“ (Sálmur 37:28) Gleymum aldrei öflugu englahersveitunum sem styðja þjóna Guðs nú á dögum. Með aðstoð þeirra getum við staðið stöðug og séð hjálpræði Jehóva. — 2. Mósebók 14:13.

18. Af hverju þurfum við að klæðast „alvæpni Guðs“?

18 Hvað getur gert okkur kleift að standa stöðug í sannleikanum? Við þurfum að klæðast andlegu herklæðunum sem Páll lýsti í bréfi sínu til Efesusmanna. Taktu eftir því að postulinn hvetur okkur til að klæðast „alvæpni Guðs“. Nýtum við okkur öll andlegu herklæðin? Á næsta ári væri gott fyrir hvert og eitt okkar að gera sjálfsrannsókn til að ganga úr skugga um að öll herklæðin séu á réttum stað og passi vel. Óvinur okkar, Satan djöfullinn, þekkir veikleika okkar og reynir að ráðast á okkur þegar við erum ekki á varðbergi eða finna viðkvæman blett á okkur. Við eigum í baráttu við andaverur vonskunnar. En með stuðningi Jehóva getum við farið með sigur af hólmi. — Efesusbréfið 6:11-18; Orðskviðirnir 27:11.

19. Hvað fáum við að upplifa ef við sýnum þrautseigju?

19 Jesús sagði við fylgjendur sína: „Verið þrautseigir og þér munuð ávinna sálir yðar.“ (Lúkas 21:19) Við skulum vera meðal þeirra sem sýna þrautseigju í prófraunum og fá vegna óverðskuldaðrar gæsku Guðs að ,standa stöðugir og sjá hjálpræði Jehóva‘.

Hvert er svarið?

• Hvaða spennandi atburðir eru í vændum?

• Hvernig sýndi Jehóva björgunarmátt sinn árið 1513 f.Kr.?

• Hvað ert þú staðráðinn í að gera?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 14]

„Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar.“

[Mynd á bls. 15]

Hörmungar gengu yfir Egyptaland vegna þrjósku faraós.

[Mynd á bls. 16]

Ísraelsmenn komust lífs af þegar þeir gerðu allt eins og Jehóva hafði boðið þeim.

[Mynd á bls. 17]

Árstextinn 2008 verður: Standið stöðugir og sjáið hjálpræði Jehóva. — 2. Mósebók 14:13.