Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna við verðum að þekkja nafn Guðs?

Hvers vegna við verðum að þekkja nafn Guðs?

Hvers vegna við verðum að þekkja nafn Guðs?

„HVER sem ákallar nafn [Jehóva], mun hólpinn verða.“ (Rómverjabréfið 10:13) Með þessum orðum undirstrikaði Páll postuli hvílík nauðsyn það væri okkur að þekkja nafn Guðs. Orð hans vekja okkur aftur til umhugsunar um spurninguna sem við bárum fram í upphafi: Hvers vegna lét Jesús það koma fyrst í fyrirmyndarbæn sinni að nafn Guðs skyldi ‚helgað,‘ á undan svo mörgum öðrum mikilvægum málum? Til að skilja það verðum við að átta okkur ögn betur á þýðingu tveggja lykilorða.

Í fyrsta lagi, hvað merkir í raun og veru orðið að ‚helga‘? Bókstaflega merkir það „að gera heilagt.“ En er ekki nafn Guðs nú þegar heilagt? Auðvitað. Þegar við helgum nafn Guðs gerum við það ekki heilagara en það er. Þess í stað viðurkennum við að það sé heilagt, gefum því sérstakan sess, höfum það í hávegum. Þegar við biðjum að nafn Guðs verði helgað höfum við í huga þann tíma þegar öll sköpunin mun viðurkenna heilagleika þess.

Í öðru lagi, hvað nákvæmlega felst í orðinu „nafn“? Við höfum séð að Guð hefur nafn, Jehóva, og að nafn hans stendur mörg þúsund sinnum í Biblíunni. Við höfum líka rætt hversu þýðingarmikið er að nafnið endurheimti sinn réttmæta sess í texta Biblíunnar. Ef nafnið ekki stendur þar, hvernig geta þá ræst orð sálmaritarans: „Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér, því að þú, [Jehóva], yfirgefur eigi þá, er þín leita.“—Sálmur 9:11.

En merkir það að ‚þekkja nafn Guðs‘ eingöngu huglæga vitneskju um að nafn Guðs er á hebresku JHVH og á íslensku Jehóva? Nei, meira er í því fólgið. Þegar Móse var á Sínaífjalli „steig [Jehóva] niður í skýi, en staðnæmdist þar hjá [Móse] og kallaði nafn [Jehóva].“ Hvað fól það í sér að kalla eða kunngera nafn Jehóva? Lýsingu á eiginleikum hans: „[Jehóva, Jehóva], miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.“ (2. Mósebók 34:5, 6) Skömmu fyrir dauða sinn sagði Móse við Ísraelsmenn: „Ég vil kunngjöra nafn [Jehóva].“ Hvað sagði Móse svo? Hann taldi upp nokkra af hinum stórfenglegu eiginleikum hans og rifjaði síðan upp hvað Guð hafði gert fyrir Ísrael sakir nafns síns. (5. Mósebók 32:3-43) Að þekkja nafn Guðs merkir því að vita hvað nafnið stendur fyrir og að dýrka þann Guð sem það ber.

Úr því að Jehóva hefur lagt nafn sitt við eiginleika sína, tilgang og verk getum við séð hvers vegna Biblían segir að nafn Guðs sé heilagt. (3. Mósebók 22:32) Það er tignarlegt, mikilfenglegt, ógnþrungið og óendanlega háleitt. (Sálmur 8:2; 99:3; 148:13) Já, nafn Guðs er meira en aðeins merkimiði. Það táknar hann sem persónu. Það var ekki bara bráðabirgðanafn sem skyldi notað um tíma og síðan víkja fyrir titli svo sem „Drottinn.“ Jehóva sagði sjálfur við Móse: „‚[Jehóva], . . . ‘ Þetta er nafn mitt um aldur, og þetta er heiti mitt frá kyni til kyns.“—2. Mósebók 3:15.

Hversu mjög sem maðurinn reynir mun honum aldrei takast að afmá nafn Guðs af jörðinni. „Frá upprás sólar allt til niðurgöngu hennar er nafn mitt mikið meðal þjóðanna, og alls staðar er nafni mínu fórnað reykelsi og hreinni matfórn, því að nafn mitt er mikið meðal þjóðanna—segir [Jehóva] allsherjar.“—Malakí 1:11; 2. Mósebók 9:16; Esekíel 36:23.

Að helga nafn Guðs er því langtum þýðingarmeira en nokkurt annað mál. Allur tilgangur Guðs er tengdur nafni hans. Vandamál mannkynsins hófust þegar Satan fyrst svívirti hið heilaga nafn Guðs með því að kalla hann í reyndinni lygara og óhæfan til að stjórna mannkyninu. (1. Mósebók 3:1-6; Jóhannes 8:44) Aðeins þegar nafn Guðs hefur verið hreinsað af allri smán mun mannkynið losna fullkomlega undan hinum hrikalegu afleiðingum af lygi Satans. Þess vegna biðja kristnir menn svona ákaft um að nafn Guðs helgist. En þeir geta líka gert ýmislegt til að helga það.

Hvernig getum við helgað nafn Guðs?

Ein leið er sú að tala við aðra og benda á ríki hans í höndum Krists Jesú sem einu von mannkynsins. (Opinberunarbókin 12:10) Margir gera það og með því uppfyllast þessi orð í spádómi Jesaja: „Á þeim degi munuð þér segja: ‚Lofið [Jehóva], ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið í minnum, að háleitt er nafn hans. Lofsyngið [Jehóva], því að dásemdarverk hefir hann gjört. Þetta skal kunnugt verða um alla jörðina.‘“—Jesaja 12:4, 5.

Önnur leið er að hlýða lögum Guðs og boðum. Jehóva sagði Ísraelsþjóðinni: „Varðveitið því skipanir mínar og haldið þær. Ég er [Jehóva]. Og eigi skuluð þér vanhelga heilagt nafn mitt, svo að ég helgist meðal Ísraelsmanna. Ég er [Jehóva], sá er yður helgar.“—3. Mósebók 22:31, 32.

Hvernig helgaði það nafn Jehóva að Ísraelsmenn héldu lögmál hans? Lögmálið var gefið Ísraelsmönnum á grundvelli nafns hans. (2. Mósebók 20:2-17) Þegar þeir héldu lögmálið voru þeir þess vegna að sýna tilhlýðilega virðingu fyrir því nafni. Auk þess hvíldi nafn Jehóva yfir Ísraelsmönnum sem þjóð. (5. Mósebók 28:10; 2. Kroníkubók 7:14) Þegar þeir breyttu réttilega var það honum til lofs, alveg eins og barn, sem hegðar sér vel, er föður sínum til heiðurs.

Þegar Ísraelsmenn á hinn bóginn ekki héldu lögmál Guðs vanhelguðu þeir nafn hans. Syndum á borð við að færa skurðgoðum fórnir, sverja rangan eið, kúga hina fátæku og drýgja hór er því lýst svo í Biblíunni að verið sé að ‚vanhelga nafn Guðs.‘—3. Mósebók 18:21; 19:12; Jeremía 34:16; Esekíel 43:7.

Á svipaðan hátt hafa kristnum mönnum verið gefin boð í nafni Guðs. (Jóhannes 8:28) Þeir hafa líka samfélag við ‚fólk sem ber nafn Jehóva.‘ (Postulagsagan 15:14) Kristinn maður, sem biður í einlægni: „Helgist þitt nafn,“ mun því helga þetta nafn með lífi sínu með því að hlýða öllum boðum Guðs. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Það felur líka í sér að hlýða boðum sem gefin voru af syni Guðs, Jesú, sem gerði föður sinn alltaf dýrlegan.—Jóhannes 13:31, 34; Matteus 24:14; 28:19, 20.

Nóttina fyrir aftöku sína lagði Jesús áherslu á mikilvægi nafns Guðs fyrir kristna menn. Eftir að hafa sagt við föður sinn: „Ég hef kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra,“ sagði hann, „svo að kærleikur þinn, sem þú hefur auðsýnt mér, sé í þeim og ég sé í þeim.“ (Jóhannes 17:26) Að lærisveinarnir kynntust nafni Guðs fól í sér að þeir lærðu að þekkja kærleika Guðs. Jesús hafði gert þeim fært að kynnast Guði sem ástríkum föður.—Jóhannes 17:3.

Hvernig það snertir þig

Á fundi kristinna postula og öldunga í Jerúsalem á fyrstu öld sagði lærisveininn Jakob: „Símon hefur skýrt frá, hvernig Guð sá til þess í fyrstu, að hann eignaðist lýð meðal heiðinna þjóða, er bæri nafn hans.“ Getur þú talist til þeirra sem Guð velur til að vera ‚lýður er ber nafn hans‘ ef þú hvorki notar né berð það nafn?—Postulasagan 15:14.

Þótt margir séu hikandi við að nota nafn Jehóva og margir biblíuþýðendur láti það ekki standa í þýðingum sínum hafa milljónir manna út um allan hnöttinn þegið fagnandi þau sérréttindi að bera nafn Guðs, að nota það ekki aðeins í guðsdýrkun sinni heldur í daglegu tali og boða það öðrum. Ef einhver talaði við þig um Guð Biblíunnar og notaði nafnið Jehóva, hvaða trúarsamfélag myndir þú setja hann í samband við? Aðeins eitt trúfélag í heiminum notar nafn Guðs reglulega í guðsdýrkun sinni, eins og dýrkendur hans til forna gerðu. Það eru vottar Jehóva.

Nafnið vottar Jehóva, sem byggt er á Biblíunni, einkennir þessa kristnu menn sem ‚fólk er ber nafn Guðs.‘ Þeir eru stoltir að bera þetta nafn því að það er nafn sem Jehóva Guð gaf sjálfur sönnum dýrkendum sínum. Við lesum í Jesaja 43:10: „Þér eruð mínir vottar, segir [Jehóva], og minn þjónn, sem ég hefi útvalið.“ Hverja var Guð að tala um hér? Skoðum nokkur af versunum á undan.

Í 5. til 7. versi sama kafla segir Jesaja: „Óttast þú eigi, því ég er með þér. Ég kem með niðja þína úr austri og safna þér saman úr vestri. Ég segi við norðrið: ‚Lát fram!‘ og við suðrið: ‚Haltu þeim eigi! Flyt þú sonu mína úr fjarlægð og dætur mínar frá endimörkum jarðarinnar: sérhvern þann sem við nafn mitt er kenndur og ég hefi skapað mér til dýrðar, sérhvern þann, er ég hefi myndað og gjört!“ Á okkar dögum eiga þessi vers við þjóna Guðs sem hann hefur safnað saman úr öllum þjóðum til að lofsyngja sig og vera vottar sínir. Nafn Guðs auðkennir því ekki aðeins hann sjálfan, heldur hjálpar okkur að þekkja sanna þjóna hans á jörðinni núna.

Blessunin samfara því að þekkja nafn Guðs

Jehóva verndar þá sem elska nafn hans. Sálmaritarinn sagði: „Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt.“ (Sálmur 91:14) Hann man líka eftir þeim: „Þá mæltu þeir hver við annan, sem óttast [Jehóva], og [Jehóva] gaf gætur að því og heyrði það, og frammi fyrir augliti hans var rituð minnisbók fyrir þá, sem óttast [Jehóva] og virða hans nafn.“Malakí 3:16.

Blessunin samfara því að þekkja nafn Guðs og elska er því ekki bundin aðeins við þetta líf. Jehóva heitir hlýðnu mannkyni eilífu lífi í fullri hamingju í paradís á jörð. Davíð var blásið í brjóst að skrifa: „Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á [Jehóva], fá landið til eignar. En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“—Sálmur 37:9, 11.

Hvernig verður þetta mögulegt? Jesús gaf svarið við því. Í hinni sömu fyrirmyndarbæn, þar sem hann kenndi okkur að biðja: „Helgist þitt nafn,“ bætti hann við: „Komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:9, 10) Já, ríki Guðs í höndum Jesú Krists mun helga nafn Guðs og koma á góðu ástandi hér á jörð. Það mun þurrka út mannvonsku og stöðva styrjaldir, glæpi, hungur, sjúkdóma og dauða.—Sálmur 46:9, 10: Jesaja 11:9; 25:6; 33:24; Opinberunarbókin 21:3, 4.

Þú getur fengið að njóta eilífs lífs undir stjórn þessa ríkis. Hvernig? Með því að kynnast Guði. „En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Vottar Jehóva munu fúslega hjálpa þér að afla þér þeirrar lífsnauðsynlegu þekkingar.—Postulasagan 8:29-31.

Við vonum að efni þessa bæklings hafi sannfært þig um að skaparinn eigi sér einkanafn sem er honum mjög dýrmætt. Það ætti líka að vera þér dýrmætt. Megir þú gera þér grein fyrir mikilvægi þess að þekkja nafn hans og nota, einkum í tilbeiðslu þinni.

Megir þú vera staðráðinn í að segja hið sama og spámaðurinn Míka mælti svo djarflega fyrir mörgum öldum: „Allar þjóðirnar ganga hver í nafni síns guðs, en vér göngum í nafni [Jehóva], Guðs vors, æ og ævinlega.“—Míka 4:5.

[Innskot á blaðsíðu 28]

Að ‚þekkja nafn Guðs‘ felur í sér meira en aðeins að vita að nafn hans er Jehóva.

[Innskot á blaðsíðu 30]

Nafn Jehóva er ‚tignarlegt, mikilfenglegt, ógnþrungið og óendanlega háleitt.‘ Allur tilgangur Guðs er tengdur nafni hans.

[Rammagrein á blaðsíðu 29]

Í grein í Anglican Theological Review (október 1959) undirstrikaði dr. Walter Lowrie nauðsyn þess að þekkja nafn Guðs. Hann sagði: „Í mannlegum samskiptum er afar mikilvægt að þekkja einkanafn þess sem við elskum, þess sem við erum að tala við eða jafnvel þess sem við tölum um. Það er nákvæmlega eins í samskiptum mannsins við Guð. Maður sem þekkir ekki Guð með nafni þekkir hann raunverulega ekki sem persónu, er ekki málkunnugur honum (það er það sem er fólgið í bænasambandi) og hann getur ekki elskað hann ef hann þekkir hann aðeins sem ópersónulegt afl.“