Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kristnir menn og nafnið

Kristnir menn og nafnið

Kristnir menn og nafnið

ENGINN getur sagt með vissu nákvæmlega hvenær rétttrúaðir Gyðingar hættu að segja nafn Guðs upphátt og tóku að segja í staðinn hebresku orðin sem merkja Guð og alvaldur Drottinn. Sumir álíta að nafn Guðs hafi horfið úr almennri notkun löngu fyrir daga Jesú. Sterk rök hníga þó að því að æðsti presturinn hafi nefnt nafnið við guðsþjónustur í musterinu—sér í lagi á friðþægingardeginum—allt fram til þess er musterið var jafnað við jörðu árið 70 að okkar tímatali. Þegar Jesús var á jörðinni var framburður nafnsins því þekktur þótt það hafi kannski ekki verið almennt notað.

Hvers vegna hættu Gyðingarnir að segja nafn Guðs? Sennilega var það, í það minnsta að hluta til, vegna þess að þeir mistúlkuðu orð þriðja boðorðsins: „Þú skalt ekki leggja nafn [Jehóva] Guðs þíns við hégóma.“ (2. Mósebók 20:7) Að sjálfsögðu bannaði þetta boðorð ekki að nafn Guðs væri notað. Hvernig hefðu þjónar Guðs til forna, svo sem Davíð, annars getað notað það svona mikið og þó notið blessunar Jehóva? Og hvers vegna bar Guð það fram fyrir Móse og sagði Móse að útskýra fyrir Ísraelsmönnum hver hefði sent hann?—Sálmur 18:2-4, 7, 14; 2. Mósebók 6:2-8.

Á dögum Jesú var samt sem áður sterk tilhneiging til að túlka skynsamleg boð Guðs gagnstætt heilbrigðri skynsemi. Til dæmis skyldaði fjórða boðorðið af þeim tíu Gyðinga til að halda sjöunda dag hverrar viku heilagan sem hvíldardag. (2. Mósebók 20:8-11) Strangtrúaðir Gyðingar teygðu og toguðu þetta boðorð með fáránlegum hætti og settu aragrúa reglna um smæstu athafnir sem mátti eða mátti ekki gera á hvíldardegi. Það var vafalaust í sama anda að þeir lögðu andstætt allri skynsemi út af skynsamlegu boðorði þess efnis að ekki mætti vanheiðra nafn Guðs, og sögðu að ekki mætti einu sinni segja nafnið. *

Jesús og nafnið

Skyldi Jesús hafa fylgt slíkum óbiblíulegum erfðavenjum? Tæplega! Hann veigraði sér vissulega ekki við að lækna á hvíldardegi, jafnvel þótt það þýddi að hann bryti mannaboðorð Gyðinganna og jafnvel hætti lífi sínu. (Matteus 12:9-14) Meira að segja fordæmdi Jesús faríseana sem hræsnara fyrir að ganga í erfðavenjum sínum lengra en innblásið orð Guðs bauð. (Matteus 15:1-9) Því er ólíklegt að hann hafi ekki nefnt Guð með nafni, einkum í ljósi þess að hans eigið nafn, Jesús, merkti „Jehóva er hjálpræði.“

Svo bar til einhverju sinni að Jesús stóð upp í samkunduhúsi og las upp úr bókrollu Jesaja. Hann las það sem við nú köllum Jesaja 61:1, 2 en þar kemur nafn Guðs oftar en einu sinni fyrir. (Lúkas 4:16-21) Skyldi hann hafa veigrað sér við að segja nafn Guðs upphátt þarna og sagt í staðinn „Drottinn“ eða „Guð“? Auðvitað ekki. Þá hefði hann verið að fylgja óbiblíulegri erfðavenju trúarleiðtoga Gyðinganna. Við lesum um kennslu hans: „Hann kenndi þeim eins og sá, er vald hefur, og ekki eins og fræðimenn þeirra.“—Matteus 7:29.

Eins og við höfum áður nefnt kenndi hann meira að segja fylgjendum sínum að biðja til Guðs: „Helgist þitt nafn.“ (Matteus 6:9) Og í bæn nóttina fyrir aftöku sína sagði hann við föður sinn: „Ég hef opinberað nafn þitt þeim mönnum, sem þú gafst mér úr heiminum . . . Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni, sem þú hefur gefið mér.“—Jóhannes 17:6, 11.

Bókin Der Name Gottes (Nafn Guðs) segir á blaðsíðu 76 um þessar tilvísanir Jesú til nafns Guðs: „Við verðum að viðurkenna þá staðreynd, þó að hún veki undrun okkar, að hinn hefðbundni skilningur Gamlatestamentisins á opinberun Guðs er sá að hún sé opinberun á nafni hans, og að því er haldið áfram allt til loka Gamlatestamentisins, já, og jafnvel til síðustu hluta Nýjatestamentisins þar sem við lesum til dæmis í Jóhannesi 17:6: ‚Ég hef opinberað nafn þitt.‘“

Já, það væri mjög vanhugsað að halda að Jesús hafi ekki notað nafn Guðs, einkum þegar hann vitnaði í þá hluta Hebresku ritninganna þar sem nafnið stóð.

Frumkristnir menn

Notuðu fylgjendur Jesú á fyrstu öld nafn Guðs? Jesús hafði boðið þeim að gera menn af öllum þjóðum að lærisveinum. (Matteus 28:19, 20) Margir af þeim sem þeir prédikuðu fyrir höfðu enga hugmynd um þann Guð sem hafði opinberað sig Gyðingum undir nafninu Jehóva. Hvernig áttu kristnir menn að geta auðkennt hinn sanna Guð fyrir þeim? Væri nóg að kalla hann Guð eða Drottin? Nei. Þjóðirnar höfðu sína eigin guði og drottna. (1. Korintubréf 8:5) Hvernig gátu kristnir menn gert skýran greinarmun á hinum sanna Guði og hinum fölsku? Aðeins með því að nota nafn hins sanna Guðs.

Lærisveinninn Jakob sagði því á ráðstefnu öldunganna í Jerúsalem: „Símon hefur skýrt frá, hvernig Guð sá til þess í fyrstu, að hann eignaðist lýð meðal heiðinna þjóða, er bæri nafn hans. Í samræmi við þetta eru orð spámannanna.“ (Postulasagan 15:14, 15) Í sinni kunnu ræðu á hvítasunnunni benti Pétur postuli á veigamikinn þátt hins kristna boðskapar þegar hann vitnaði í orð spámannsins Jóels: „Hver sá, sem ákallar nafn [Jehóva], mun frelsast.“—Jóel 3:5; Postulasagan 2:21.

Páll postuli tekur af öll tvímæli um það hversu þýðingarmikið nafn Guðs var honum. Í bréfi sínu til Rómverja vitnar hann í þessi sömu orð spámannsins Jóels og hvetur síðan kristna bræður sína til að sýna trú á þessi orð með því að fara út og prédika fyrir öðrum um nafn Guðs til að þeir geti líka bjargast. (Rómverjabréfið 10:13-15) Síðar sagði hann í bréfi sínu til Tímóteusar: „Hver sá, sem nefnir nafn [Jehóva], haldi sér frá ranglæti.“ (2. Tímóteusarbréf 2:19) Undir lok fyrstu aldar notaði Jóhannes postuli nafn Guðs í ritum sínum. Orðið „hallelúja,“ sem merkir „lofið Jah,“ kemur mörgum sinnum fyrir í Opinberunarbók hans.—Opinberunarbókin 19:1, 3, 4, 6.

En Jesús og fylgjendur hans höfðu spáð að fráhvarf frá trúnni myndi verða í kristna söfnuðinum. Pétur postuli hafði skrifað: „Eins munu falskennendur líka verða á meðal yðar.“ (2. Pétursbréf 2:1; sjá einnig Matteus 13:36-43; Postulasöguna 20:29, 30; 2. Þessaloníkubréf 2:3; 1. Jóhannesarbréf 2:18, 19.) Svo fór sem þeir höfðu aðvarað. Ein afleiðingin var sú að nafn Guðs hvarf í skuggann. Það var jafnvel fellt niður í afritum og þýðingum Biblíunnar! Við skulum athuga hvernig það gerðist.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Sumir hafa stungið upp á annarri skýringu: Gyðingar kunna að hafa orðið fyrir áhrifum grískrar heimspeki. Til dæmis var Fílon, Gyðingur og heimspekingur í Alexandríu sem var hér um bil samtíða Jesú, undir miklum áhrifum frá gríska heimspekingnum Platon sem hann áleit vera innblásinn af Guði. Í Lexikon des Judentums (Fjölfræðiorðabók um Gyðingdóminn) segir undir flettiorðinu „Fílon“ að Fílon hafi „sameinað tungutak og hugmyndir grískrar heimspeki (Platon) við opinberaða trú Gyðinga“ og að í byrjun hafi hann haft „merkjanleg áhrif á kristnu kirkjufeðurna.“ Fílon kenndi að Guð yrði ekki skilgreindur og yrði því ekki nefndur neinu nafni.

[Mynd á blaðsíðu 14]

Þessa mynd af æðsta presti Gyðinga er að finna í Páfagarði. Á vefjarhetti hans er áletrun á hebresku sem merkir „Heilagleiki tilheyrir Jehóva.“

[Mynd á blaðsíðu 15]

Eins og þessi þýska þýðing Biblíunnar frá 1805 ber með sér sagði Jesús nafn Guðs upphátt þegar hann las úr bókrollu Jesaja í samkunduhúsinu.—Lúkas 4:18, 19.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Pétur og Páll notuðu nafn Guðs þegar þeir vitnuðu í spádóm Jóels.—Postulasagan 2:21; Rómverjabréfið 10:13.