Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Nafn Guðs — merking þess og framburður

Nafn Guðs — merking þess og framburður

Nafn Guðs — merking þess og framburður

EINN af biblíuriturunum spurði: „Hver hefir safnað vindinum í greipar sínar? Hver hefir bundið vatnið í skikkju sína? Hver hefir reist öll endimörk jarðar? Hvað heitir hann og hvað heitir sonur hans—fyrst þú veist það?“ (Orðskviðirnir 30:4) Hvernig getum við fundið út hvað Guð heitir? Það er mikilvæg spurning. Sköpunarverkið er óyggjandi sönnun um að Guð hljóti að vera til en það segir okkur ekki hvað hann heitir. (Rómverjabréfið 1:20) Reyndar gætum við aldrei vitað hvað Guð heitir nema skaparinn sjálfur segði okkur það. Það hefur hann gert í sinni eigin bók, Heilagri Biblíu.

Sá atburður er kunnur þegar Guð nefndi sitt eigið nafn og endurtók í áheyrn Móse. Móse skráði atburðinn og frásaga hans hefur varðveist í Biblíunni fram á okkar dag. (2. Mósebók 34:5, Ísl. heimilisútgáfan, 1908) Guð skrifaði jafnvel nafn sitt með eigin „fingri.“ Þegar hann hafði gefið Móse það sem við núna köllum boðorðin tíu ritaði hann þau á steintöflur með undraverðum hætti. Frásagan segir: „Þegar Drottinn hafði lokið viðræðunum við Móse á Sínaífjalli, fékk hann honum tvær sáttmálstöflur, steintöflur, ritaðar með fingri Guðs.“ (2. Mósebók 31:18) Nafn Guðs birtist átta sinnum í hinum upprunalegu tíu boðorðum. (2. Mósebók 20:1-17, Ísl. heimilisútgáfan, 1908) Þannig opinberaði Guð sjálfur manninum nafn sitt, bæði munnlega og skriflega. Hvert er þá nafn Guðs?

Á hebreskri tungu er það ritað יהוה. Þessir fjórir bókstafir, nefndir fjórstafanafnið, eru lesnir frá hægri til vinstri á hebresku og má á mörgum nútímamálum umrita sem JHVH eða YHWH. Nafn Guðs, táknað með þessum fjórum samhljóðum, stendur næstum sjö þúsund sinnum í frumtexta „Gamlatestamentisins“ eða Hebresku ritninganna.

Nafnið er myndað af hebresku sagnorði, havah (הוה), sem merkir „að verða.“ Nafn Guðs merkir því „hann lætur verða.“ * Nafn Guðs lýsir honum því svo að hann uppfylli fyrirheit sín skref fyrir skref og láti tilgang sinn örugglega ná fram að ganga. Aðeins hinn sanni Guð getur borið nafn sem er þrungið slíkri merkingu.

Manst þú eftir hinum ýmsu útgáfum af nafni Guðs í Sálmi 83:19 (vers 18 í erlendum útgáfum) sem sýndar voru í kaflanum á undan (bls. 5)? Í tveim þessara biblíuþýðinga voru aðeins notaðir titlar („Drottinn,“ og „Hinn eilífi“) í staðinn fyrir nafn Guðs. Í tveim þeirra stendur hins vegar Jahve og Jehóva og í báðum útgáfum nafnsins finnur þú hina fjóra bókstafi, sem nafn Guðs var skrifað með á hebresku, að undanskildu síðara h-inu sem er fallið brott í íslenskunni. Framburðurinn er þó mismunandi. Hvers vegna?

Hvernig er nafn Guðs borið fram?

Sannleikurinn er sá að enginn veit með vissu hvernig nafn Guðs var upphaflega borið fram. Hvers vegna? Fyrsta tungumálið, sem notað var við ritun Biblíunnar, var hebreska og hebreskan var rituð aðeins með samhljóðum—án sérhljóða. Þegar hinir innblásnu ritarar skrifuðu nafn Guðs fóru þeir að sjálfsögðu eins að og skrifuðu aðeins samhljóðana.

Svo lengi sem forn-hebreska var daglegt talmál gerði þetta ekkert til. Ísraelsmenn kunnu að bera nafnið fram og þegar þeir sáu það í riti bættu þeir sérhljóðunum við í upplestri án umhugsunar (alveg eins og Íslendingur myndi lesa „Rkvk“ sem „Reykjavík“).

Tvennt varð til að breyta þessu. Fyrst kom upp sú hjátrú meðal Gyðinga að rangt væri að segja nafn Guðs upphátt; þegar þeir því rákust á það í lestri Biblíunnar sögðu þeir í staðinn hebreska orðið Adhonai („Alvaldur Drottinn“). Í öðru lagi hvarf forn-hebreska sem daglegt talmál þegar tímar liðu, og þannig gleymdist að lokum hvernig nafn Guðs hefði verið borið fram á frumhebresku.

Til að tryggja að framburður hebreskrar tungu í heild glataðist ekki fundu fræðimenn Gyðinga á síðari helmingi fyrstu árþúsundar okkar tímatals upp punktakerfi til að tákna sérhljóðin sem vantaði, og þeir settu þá í kringum samhljóðana í hebresku biblíunni. Þannig voru bæði sérhljóðar og samhljóðar skrifaðir og framburðurinn, eins og hann var þá, varðveittist.

Þegar nafn Guðs átti í hlut settu þeir þó ekki rétt sérhljóðatákn við samhljóðana heldur oftast önnur sérhljóðatákn til að minna lesandann á að hann ætti að segja Adhonai. Við það varð til stafsetningin Iehouah, og að síðustu varð Jehóva viðurkenndur framburður á nafni Guðs á mörgum tungumálum, meðal annars íslensku. Það geymir aðalatriði nafns Guðs á hebreska frummálinu.

Hvaða framburðarmynd munt þú nota?

En hvernig er framburðarmyndin Jahve og líkar myndir tilkomnar? Þetta eru framburðarmyndir sem nútímafræðimenn hafa stungið upp á sem tilraun til að ná fram frumframburði nafns Guðs. Sumir—þó ekki allir—telja að Ísraelsmenn fyrir daga Jesú hafi líklega borið nafn Guðs fram sem Jahve. En enginn getur sagt til um það með vissu. Kannski var það borið þannig fram, kannski ekki.

Margir taka eigi að síður framburðarmyndina Jehóva fram yfir. Hvers vegna? Vegna þess að hún er útbreiddari og þekktari en Jahve. En væri ekki betra að nota framburðarmynd sem stendur nær upprunalegum framburði? Svo þarf ekki að vera því að sá háttur er ekki hafður í sambandi við biblíunöfn.

Við skulum taka gleggsta dæmið um það: nafn Jesú. Veist þú hvernig fjölskylda Jesú og vinir ávörpuðu hann dags daglega á uppvaxtarárum hans í Nasaret? Sannleikurinn er sá að enginn veit það með vissu þótt vera megi að nafn hans hafi verið borið fram í líkingu við Jeshúa (eða kannski Jehoshúa). Víst er að það var ekki borið fram Jesús.

Þegar frásagnirnar af ævi hans voru skrifaðar á grískri tungu reyndu hinir innblásnu biblíuritarar samt sem áður ekki að varðveita hinn frumhebreska framburð. Þess í stað skrifuðu þeir nafn hans á grísku Iesous. Núna er það stafað og borið fram á mismunandi vegu á mismunandi tungumálum. Lesendur Biblíunnar á spænsku rekast á nafnið Jesús (borið fram Hessús). Ítalir stafa það Gesù (borið fram djesú). Og enskumælandi menn stafa það Jesus (borið fram dsísus).

Verðum við að hætta að nota nafn Jesú fyrst fæst okkar, ef nokkurt, þekkir upprunalegan framburð þess? Enn sem komið er hefur engum biblíuþýðanda dottið það í hug. Við viljum nota nafnið því það er nafn hins ástkæra sonar Guðs, Jesú Krists, sem gaf lífsblóð sitt fyrir okkur. Værum við að sýna Jesú virðingu með því að strika nafn hans út úr Biblíunni og setja titla svo sem „Kennari“ eða „Meðalgangari“ í staðinn? Auðvitað ekki! Við getum tengst Jesú þegar við notum nafn hans eins og það er almennt borið fram á okkar tungu.

Svipaða sögu mætti segja um öll þau nöfn sem við rekumst á í Biblíunni. Við berum þau fram á okkar eigin tungu og reynum ekki að líkja eftir upprunalegum framburði þeirra. Því segjum við „Jeremía,“ ekki Yirmeyahú. Við segjum líka „Jesaja“ þótt þessi spámaður hafi líklega verið þekktur sem Jeshayahú. Jafnvel fræðimenn, sem er kunnugt um upprunalegan framburð þessara nafna, nota nútímaframburðinn, ekki hinn forna, þegar þeir tala um þau.

Hið sama er að segja um nafnið Jehóva. Jafnvel þótt nútímaframburðurinn Jehóva sé ekki nákvæmlega eins og hinn upprunalegi dregur það ekki úr mikilvægi nafnsins. Það aukennir skaparann, hinn lifandi Guð, Hinn hæsta sem Jesús sagði við: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“—Matteus 6:9.

„Ekkert getur leyst það af hólmi“

Þótt margir biblíuþýðendur aðhyllist framburðarmyndina Jahve notar New World Translation (Nýheimsþýðingin), svo og fjölmargar aðrar þýðingar, myndina Jehóva því að hún hefur verið kunn manna á meðal um aldaraðir. Auk þess varðveitir hún, til jafns við aðrar útgáfur nafnsins, hina fjóra bókstafi fjórstafanafnsins, JHVH eða YHWH. *

Áður hafði þýski prófessorinn Gustav Friedrich Oehler komist að svipaðri niðurstöðu af mikið til sömu ástæðu. Eftir að hafa rætt um mismunandi framburðarmyndir sagði hann: „Héðan í frá nota ég orðið Jehóva því að það hefur í reyndinni öðlast fastari sess í orðaforða okkar og ekkert getur leyst það af hólmi.“—Theologie des Alten Testaments (Guðfræði Gamlatestamentisins), önnur útgáfa 1882, bls. 143.

Jesúítinn og fræðimaðurinn Paul Joüon tekur í svipaðan streng í riti sínu Grammaire de l’hébreu biblique (Málfræði biblíulegrar hebresku), útg. 1923. Í neðanmálsathugasemd á bls. 49 segir hann: „Í þýðingu okkar höfum við, í stað myndarinnar Jahve (sem byggð er á tilgátu), notað myndina Jehóva . . . sem er hin venjulega bókmenntalega mynd í frönsku.“ Á mörgum öðrum tungumálum nota biblíuþýðendur svipaða mynd orðsins eins og sýnt er í töflunni á blaðsíðu 8.

Er þá rangt að nota framburðarmyndir svo sem Jahve? Alls ekki. Það eru einfaldlega meiri líkur á að lesandinn þekki myndina Jehóva betur því að hún hefur öðlast fastan sess í flestum tungumálum. Aðalatriðið er að nota nafnið og gera öðrum það kunnugt. „Lofið [Jehóva], * ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið í minnum að háleitt er nafn hans.“—Jesaja 12:4.

Við skulum sjá hvernig þjónar Guðs hafa í aldanna rás breytt samkvæmt þessu boði.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Sjá viðauka 1A í New World Translation of the Holy Scriptures, útg. 1984.

^ gr. 22 Sjá viðauka 1A í New World Translation of the Holy Scriptures, útg. 1984.

^ gr. 25 Hér eftir verður nafn Guðs, Jehóva, sett innan hornklofa inn í texta íslensku biblíunnar frá 1981 þar sem það á að standa samkvæmt frummálunum.

[Rammagrein á blaðsíðu 7]

Hinir ýmsu fræðimenn hafa ólíkar skoðanir á því hvernig nafnið JHVH hafi upphaflega verið borið fram.

Í ritinu The Mysterious Name of Y.H.W.H., bls. 74, sagði dr. M. Reisel að ‚sérhljóðatáknun fjórstafanafnsins hljóti upphaflega hafa verið YeHuaH eða YaHuaH.“

Dómkirkjupresturinn D. D. Williams í Cambridge fullyrti: „Öll rök hníga að, meira að segja næstum sanna að Jahve er ekki réttur framburður fjórstafanafnsins . . . Nafnið sjálft var sennilega JĀHÔH.“—Zeitschrift für die alttestamentliche Wissenschaft (Tímarit um Gamlatestamentisvísindi, 1936, 54. árgangur, bls. 269.

Í orðaskýringum við endurskoðaða útgáfu Segond-þýðingarinnar á frönsku, 9. bls., er að finna eftirfarandi athugasemd: „Framburðurinn Jahve, notaður í sumum nýlegum þýðingum, er byggður á fáeinum fornum vitnum, en þau eru ekki óyggjandi. Ef tekið er mið af sérnöfnum, sem fela í sér nafn Guðs, svo sem hebreskt nafn spámannsins Elía (Eliyahou), gæti framburðurinn alveg eins verið Jaho eða Jahou.“

Árið 1749 sagði þýski biblíufræðimaðurinn Teller frá nokkrum mismunandi framburðarmyndum af nafni Guðs sem hann hafði séð: „Díódórus frá Sikiley, Makrobíus, Klemens Alexandrínus, Heilagur Híerónímus, og Órígenes skrifuðu Jao; Samverjar, Epífaníus og Þeódóretus Jahe eða Jave; Ludwig Cappel stafar það Javoh; Drúsíus Jahve; Hottinger Jehva; Mercerus Jehovah; Castellio Jovah; og le Clerc Jawoh eða Javoh.“

Það er því ljóst að upprunalegur framburður nafns Guðs er ekki lengur þekktur. Það skiptir ekki heldur öllu máli. Ef svo hefði verið hefði Guð sjálfur séð um að réttur framburður varðveittist. Það sem máli skiptir er að nota nafn Guðs eins og það er venjulega borið fram á okkar eigin tungu.

[Rammi á blaðsíðu 8]

Nafn Guðs á mismunandi tungumálum sem sýnir að myndin Jehóva nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar.

Avabakal – Yehóa

Búgotú – Jihova

Danska – Jehova

Efík – Jehovah

Enska – Jehovah

Fídiska – Jiova

Finnska – Jehova

Franska – Jéhovah

Fútúna – Ihova

Hollenska – Jehovah

Igbó – Jehova

Íslenska – Jehóva

Ítalska – Geova

Japanska – Ehoba

Jórúba – Jehofah

Kantonska – Yehwowah

Maoríska – Ihowa

Mótú – Iehova

Narrirjeri – Jehovah

Nembe – Jihova

Petats – Jihouva

Pólska – Jehowa

Portúgalska – Jeová

Rúmenska – Iehova

Samóska – Ieova

Sóþó – Jehova

Spænska – Jehová

Súlúíska – uJehova

Svahílska – Yehova

Sænska – Jehova

Tahítíska – Iehova

Tagalog – Jehova

Tongan – Jihova

Ungverska – Jehova

Venda – Yehova

Xhósa – uYehova

Þýska – Jehova

[Rammagrein á blaðsíðu 11]

„Jehóva“ er alþekkt sem nafn Guðs, jafnvel í skáldverkum og á hlutum óskyldum Biblíunni.

Nafnið Jehóva kemur tvisvar fyrir í söngljóði sem Franz Schubert samdi tónlist við, einnig í síðasta þætti óperunnar „Nabucco“ eftir Verdi, óratoríunni „Davíð konungur“ eftir franska tónskáldið Arthur Honegger, og í meira en 30 af verkum Victors Hugos. Bæði hann og Lamartine ortu ljóð sem hétu „Jehóva.“

Jón Trausti notar nafið Jehóva í ljóðinu „Lögmálið“ árið 1902, og til er gamall íslenskur sálmur sem ber heitið „Guð Jehóva, þig göfgum vér.“

Í bókinni Deutsche Taler (Þýski silfurpeningurinn), gefin út árið 1967 af Deutsche Bundesbank, er mynd af einum elsta peningnum sem ber nafnið „Jehóva,“ en það er svonefndur „Reichstaler“ frá árinu 1634 frá hertogadæminu Slesíu. Um myndina á bakhlið peningsins segir bókin: „Undir hinu geislandi nafni JEHÓVA, sem rís úr skýjunum, er krýndur skjöldur með skjaldarmerki Slesíu.“

Í safni í Rudolstadt í Austur-Þýskalandi er geymdur kragi af herklæðum sem Gustaf II Adolf, konungur Svía á 17. öld, notaði, með áletruninni JEHÓVA með upphafsstöfum.

„Jehóva“ hefur því um aldaraðir verið alþjóðlega viðurkenndur framburður á nafni Guðs, og þeir sem heyra það vita þegar í stað hvern verið er að tala um. Það er eins og prófessor Oehler komst að orði: ‚Þetta nafn hefur í reyndinni öðlast fastan sess í orðaforða okkar og ekkert getur leyst það af hólmi.‘—Theologie des Alten Testaments (Guðfræði Gamlatestamentisins).

[Mynd á blaðsíðu 6]

Hluti engils sem á er ritað nafn Guðs, fundinn á gröf Klements XIII páfa í Péturskirkjunni í Páfagarði.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Margir peningar voru slegnir sem báru nafn Guðs. Þessi, ársettur 1661, er frá Nürnberg í Þýskalandi. Áletrunin, sem er á latínu, þýðir: „Undir skugga vængja þinna.“

[Myndir á blaðsíðu 9]

Áður fyrr var nafn Guðs, fjórstafanafnið, oft hluti af skreytingu trúarlegra bygginga eða muna. Kirkjumunirnir að ofan eru í Þjóðminjasafni Íslands.

Altaristafla frá Urðum í Svarfaðardal.

Minningartafla frá Hólum.

Minningartafla frá Ketilstaðakirkju á Völlum.

Kirkja í Digne í Suður-Frakklandi.

Kirkja í São Paulo í Brasilíu.

Dómkirkjan í Strasbourg í Frakklandi.

Markúsardómkirkjan í Feneyjum á Ítalíu.

[Myndir á blaðsíðu 10]

Nafn Jehóva í klaustri í Bordesholm í Þýskalandi;

á þýskum peningi frá 1635;

yfir kirkjudyrum í Fehmarn í Þýskalandi

og á legsteini frá 1845 í Harmannschlag í Austurríki.