Nafn Guðs og „Nýjatestamentið“
Nafn Guðs og „Nýjatestamentið“
NAFN Guðs á sér öruggan sess í Hebresku ritningunum, „Gamlatestamentinu.“ Þótt Gyðingar hafi með tíð og tíma hætt að bera nafnið fram kom trú þeirra í veg fyrir að þeir létu nafnið falla niður þegar þeir gerðu afrit af eldri handritum Biblíunnar. Þess vegna kemur nafn Guðs oftar fyrir en nokkurt annað nafn í Hebresku ritningunum.
Öðru máli gegnir um kristnu Grísku ritningarnar, „Nýjatestamentið.“ Handrit af Opinberunarbókinni (síðustu bók Biblíunnar) hafa að geyma nafn Guðs í styttri mynd, „Jah“ (í orðinu „hallelúja“). Að því undanskildu stendur nafn Guðs hvergi fullum stöfum í nokkru forngrísku handriti, sem nú er til, af Matteusi til og með Opinberunarbókinni. Merkir það að nafnið eigi ekki að standa þar? Það er harla ótrúlegt í ljósi þess að fylgjendur Jesú gerðu sér grein fyrir mikilvægi nafns Guðs og að Jesús kenndi okkur að biðja um að nafn Guðs yrði helgað. Hvað gerðist?
Til að skilja það skulum við hafa hugfast að þau handrit kristnu Grísku ritninganna, sem við höfum aðgang að núna, eru ekki frumrit. Bækurnar, sem Matteus, Lúkas og aðrir biblíuritarar skrifuðu, voru notaðar mikið og slitnuðu fljótt. Þess vegna voru gerð afrit, og þegar þau slitnuðu, voru gerð ný afrit af afritunum. Það var ofur eðlilegt því að afritin voru yfirleitt gerð til að nota þau, ekki geyma.
Nú eru til þúsundir afrita af kristnu Grísku ritningunum en flest voru þau gerð á fjórðu öld okkar tímatals eða eftir það. Það býður upp á möguleika sem vert er að skoða: Kom eitthvað fyrir texta kristnu Grísku ritninganna fyrir fjórðu öld sem varð til þess að nafn Guðs féll niður? Staðreyndir sýna að svo var.
Nafnið var þar
Við getum verið viss um að Matteus postuli notaði nafn Guðs í guðspjalli sínu. Hvers vegna? Vegna þess að hann skrifaði það upphaflega á hebresku. Á fjórðu öld sagði Híerónýmus sem gerði latnesku Vulgata-þýðinguna: „Matteus, einnig nefndur Leví, sem varð postuli eftir að hafa verið skattheimtumaður, samdi fyrst guðspjallið um Krist í Júdeu á hebreskri tungu . . . Hver síðar þýddi það yfir á grísku er ekki fullvíst. Auk þess er hebreski textinn sjálfur varðveittur til þessa dags í bókasafninu í Sesareu.“
Fyrst Matteus skrifaði á hebresku er óhugsandi að hann hafi ekki notað nafn Guðs, einkanlega þegar hann vitnaði í þá hluta „Gamlatestamentisins“ þar sem nafnið stóð. Aðrir, sem skrifuðu síðari hluta Biblíunnar, skrifuðu hins vegar fyrir menn allra þjóða á því alþjóðamáli sem talað var á þeim tíma, grísku. Þess vegna vitnuðu þeir ekki í hebresku frumritin heldur í hina grísku Sjötíumannaþýðingu. Og meira að segja guðspjall Matteusar var að síðustu þýtt á grísku. Skyldi nafn Guðs hafa staðið í þessum grísku ritum?
Sumar mjög gamlar slitur Sjötíumannaþýðingarinnar, sem raunverulega voru til á dögum Jesú, hafa varðveist fram á okkar dag, og eftirtektarvert er að einkanafn Guðs stendur í þeim. Fræðiritið The New International Dictionary of New Testament Theology (2. bindi, bls. 512) segir: „Nýlegir textafundir vekja efasemdir um að sú hugmynd sé rétt að þýðendur LXX [Sjötíumannaþýðingarinnar] hafi umritað fjórstafanafnið JHVH með kyrios. Elsta handrit LXX (slitur), sem við höfum nú aðgang að, hefur fjórstafanafnið skrifað með hebreskum bókstöfum í gríska textanum. Gyðingar síðar á tímum, sem þýddu Gt [Gamlatestamentið] á fyrstu öldum okkar tímatals, fylgdu þessari venju.“ Jesús og postular hans hlutu því að rekast á nafn Guðs hvort sem þeir lásu Ritninguna á hebresku eða grísku.
Því gaf prófessor George Howard við University of Georgia í Bandaríkjunum þessa athugasemd: „Þegar Sjötíumannaþýðingin, sem kirkja Nýjatestamentisins notaði og vitnaði í, hafði að geyma nafn Guðs í hebreskri mynd létu ritarar Nýjatestamentisins fjórstafanafnið vafalaust standa í tilvitnunum sínum.“ (Biblical Archaeology Review, mars 1978, bls. 14) Hvaða leyfi hefðu þeir haft til að gera annað?
Nafn Guðs stóð í grískum þýðingum „Gamlatestamentisins“ enn um hríð. Á fyrri helmingi annarrar aldar okkar tímatals gerði Akvílas, sem hafði snúist til gyðingatrúar, nýja þýðingu á Hebresku ritningunum yfir á grísku, og í henni lét hann nafn Guðs standa sem fjórstafanafnið ritað með fornhebreskum bókstöfum. Á þriðju öld skrifaði Origenes: „Og í nákvæmustu handritunum stendur NAFNIÐ með hebreskum bókstöfum, þó ekki nútímalegum heldur þeim allra elstu.“
Jafnvel á fjórðu öld segir Híerónýmus í formálsorðum sínum að Samúelsbókum og Konungabókunum: „Og við finnum nafn Guðs, fjórstafanafnið [יהוה], skrifað enn þann dag í dag með fornum bókstöfum í vissum grískum bókum.“
Nafnið látið hverfa
Þegar hér var komið sögu var fráhvarfið frá trúnni, sem Jesús hafði sagt Matteus 13:24-30; Postulasagan 20:29, 30) Smám saman hætti hluti lesenda að skilja hvað þar stóð, og Híerónýmus greinir frá því að í hans tíð hafi ‚sumir fáfróðir tamið sér að lesa xxxx þegar þeir rákust á [fjórstafanafnið] í grískum bókum, sökum þess að stafirnir voru líkir.‘
fyrir um, búið að grafa um sig og nafnið var notað minna og minna þótt það stæði enn í handritunum. (Í síðari afritum Sjötíumannaþýðingarinnar var nafn Guðs fellt niður og orð svo sem „Guð“ (Theos) og „Drottinn“ (Kyrios) sett í staðinn. Við vitum núna að það gerðist vegna þess að við höfum undir höndum slitur af Sjötíumannaþýðingunni, þar sem nafn Guðs stóð, og síðari tíma afrit af sömu hlutum Sjötíumannaþýðingarinnar þar sem nafn Guðs hefur verið fellt niður.
Sömu sögu er að segja um „Nýjatestamentið,“ kristnu Grísku ritningarnar. Prófessor George Howard segir: „Þegar hin hebreska mynd nafns Guðs var látin víkja fyrir grískum auknefnum í Sjötíumannaþýðingunni var það líka látið niður falla í tilvitnunum Nýjatestamentisins í Sjötíumannaþýðinguna. . . . Áður en langt um leið var nafn Guðs glatað heiðingjakristnu kirkjunni nema þá að svo miklu leyti sem hægt var að ráða það af hinum samandregnu auknefnum eða fræðimenn minntust þess.“
Því fór svo að samtímis og Gyðingar neituðu að segja nafn Guðs upphátt tókst hinni fráföllnu kristnu kirkju að láta það hverfa algerlega úr handritum á grísku af báðum hlutum Biblíunnar, svo og úr þýðingum á önnur tungumál.
Þörfin fyrir nafnið
Eins og við höfum áður séð endurheimti nafnið sinn fyrri sess með tíð og tíma í mörgum þýðingum Hebresku
ritninganna. En hvað um Grísku ritningarnar? Nú, biblíuþýðendum og nemendum varð ljóst að án nafns Guðs væru sumir hlutar kristnu Grísku ritninganna mjög torskildir. Að taka nafnið aftur upp í textann er mikil hjálp til að gera þennan hluta hinnar innblásnu Biblíu skýran og skiljanlegan.Tökum sem dæmi orð Páls til Rómverjanna eins og þau standa í íslensku biblíunni frá 1981: „Því að ‚hver sem ákallar nafn Drottins, mun hólpinn verða.‘“ (Rómverjabréfið 10:13) Hvers nafn verðum við að ákalla til að hljóta hjálpræði? Úr því að oft er talað um Jesú sem „Drottin“ og ein ritningargrein segir jafnvel: „Trú þú á Drottin Jesú, og þú munt verða hólpinn,“ eigum við þá að álíta að Páll hafi hér verið að tala um Jesú?—Postulasagan 16:31.
Nei, svo er ekki. Neðanmálstilvísun við Rómverjabréfið 10:13 í íslensku biblíunni frá 1981 vísar í Jóel 3:5 í Hebresku ritningunum. Ef þú flettir þar upp kemst þú að raun um að Páll var í reyndinni að vitna í orð Jóels í bréfi sínu til Rómverjanna; og Jóel sagði á frum-hebreskunni: „Hver sem ákallar nafn Jehóva mun komast óhultur undan.“ (Nýheimsþýðingin) Já, Páll átti hér við að við ættum að ákalla nafn Jehóva. Þótt okkur beri að trúa á Jesú er hjálpræði okkar þess vegna nátengt því að meta nafn Guðs að verðleikum.
Þetta dæmi sýnir glöggt hvernig það að láta nafn Guðs hverfa úr Grísku ritningunum stuðlaði að því að margir rugluðu Jesú og Jehóva saman. Vafalaust átti það verulegan þátt í tilurð þrenningarkenningarinnar!
Ætti að taka nafnið upp aftur?
Hefur þýðandinn nokkurn rétt til að taka nafnið upp aftur í ljósi þess að nafnið stendur ekki í þeim handritum sem nú eru til? Já, hann hefur rétt til þess. Flestar grískar orðabækur viðurkenna að oft eigi orðið „Drottinn“ í Biblíunni við Jehóva. Til dæmis segir í kaflanum undir gríska orðinu Kyrios („Drottinn“) í orðabókinni A Greek and English Lexicon of the New Testament eftir Robinson (prentuð árið 1859) að það merki „Guð sem alvaldan Drottin og drottinvald alheimsins, stendur venjulega í Sjötíumannaþýðingunni fyrir hebreskuna [יהוה] Jehóva.“ Því hefur þýðandinn rétt, á þeim stöðum þar sem ritarar kristnu Grísku ritninganna vitna í hinar eldri Hebresku ritningar, til að þýða orðið Kyrios sem „Jehóva“ hvar sem nafn Guðs stóð í hebresku frumritunum.
Margir biblíuþýðendur hafa gert það. Ekki síðar en á 14. öld var byrjað að gera margar hebreskar þýðingar af kristnu Grísku ritningunum. Hvað gerðu þýðendurnir þegar þeir komu að tilvitnunum í „Gamlatestamentið“ þar sem nafn Guðs stóð? Oft fannst þeim þeir tilneyddir að taka nafn Guðs aftur upp í textann. Margar þýðingar kristnu Grísku ritninganna í heild eða að hluta á hebresku hafa að geyma nafn Guðs.
Í þýðingum á nútímamál, einkum þeim sem notaðar eru af trúboðum, hefur þessu fordæmi verið fylgt. Því nota margar þýðingar Grísku ritninganna á afríkumál, asíumál, amerísk mál og mál Kyrrahafseyjanna nafnið Jehóva víða, til að lesendurnir sjái greinilega muninn á hinum sanna Guði og fölskum. Nafnið hefur einnig birst í þýðingum á evrópumál.
Ein þýðing, sem stígur það djarfa skref að taka nafn Guðs upp aftur og hefur til þess góðar heimildir, er Nýheimsþýðing kristnu Grísku ritninganna. Þessi þýðing, nú til á 11 nútímamálum, hefur tekið nafn Guðs upp aftur á öllum þeim stöðum þar sem Grísku ritningarnar vitna í þær hebresku og nafnið stendur á frummálinu. Alls stendur nafnið 237 sinnum í þeirri þýðingu Grísku ritninganna.
Andstaða gegn nafninu
Þrátt fyrir tilraunir margra þýðenda til að taka nafn Guðs upp að nýju í Biblíunni hefur alltaf verið trúarleg andstaða gegn því. Þótt Gyðingar létu það standa í biblíum sínum neituðu þeir að segja það upphátt. Fráhverfir kristnir menn á annarri og þriðju öld felldu það niður þegar þeir gerðu afrit af grískum biblíuhandritum og felldu það niður þegar þeir gerðu þýðingar af Biblíunni. Þýðendur nú á tímum hafa fellt það niður, jafnvel þótt þeir hafi byggt þýðingar sínar á frum-hebreskunni þar sem nafnið stendur næstum 7000 sinnum. (Það stendur 6973 sinnum í hinum hebreska hluta Nýheimsþýðingar Heilagrar ritningar, útgáfunni frá 1984.)
Hvernig lítur Jehóva á þá sem fella nafn hans niður úr Biblíunni? Ef þú værir rithöfundur, hvað myndi þér finnast um það ef einhver leggði sig í líma við að láta nafn þitt hverfa úr bókinni sem þú skrifaðir? Líkja mætti biblíuþýðendum, sem eru á móti nafninu vegna þess að réttur framburður er ekki þekktur eða vegna erfðavenja Gyðinganna, við þá sem Jesús sagði ‚sía mýfluguna en svelgja úlfaldann!‘ (Matteus 23:24) Þeir hnjóta um þessi smávægilegu vandamál en búa sjálfir til annað miklu stærra með því að fella niður nafn Guðs, æðstu tignarpersónu alheimsins, úr bókinni sem hann innblés.
Sálmaritarinn sagði: „Hversu lengi, ó Guð, á fjandmaðurinn að hæða, á óvinurinn að spotta nafn þitt um aldur?“—Sálmur 74:10.
[Rammagrein á blaðsíðu 25]
„DROTTINN“ — jafngildi „Jehóva“?
Sé hið auðkennandi einkanafn Guðs látið hverfa úr Biblíunni og í stað þess settir titlar svo sem „Drottinn“ eða „Guð“ verður textinn við það óskýr og ófullkominn á marga vegu. Til dæmis getur það leitt til merkingarlausra orðasamsetninga. Í formálsorðum sínum segir The Jerusalem Bible: „Að segja ‚Drottinn er Guð‘ er vissulega tvítekning [óþörf eða marklaus endurtekning] en að segja ‚Jahve er Guð‘ er það ekki.“
Slík skipti á orðum geta líka valdið klaufalegu orðalagi. Því hljómar Sálmur 8:10 svo í íslensku biblíunni frá 1912: „Drottinn, herra vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.“ Hversu miklu betri verður ekki textinn þegar nafnið Jehóva er látið halda sér í honum! Sama vers hljóðar svona í Heimilisútgáfu íslensku biblíunnar frá 1908: „Jahve, Drottinn vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.“
Sé nafnið fellt niður getur það líka valdið ruglingi. Sálmur 110:1 hljóðar svo: „Svo segir Drottinn við herra minn: ‚Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér.‘“ (Íslenska biblían frá 1981) Hver er að tala við hvern? Hversu miklu betra er ekki: „Svo segir Jahve við herra minn: Sezt þú mér til hægri handar, þá mun eg leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér.“—Heimilisútgáfan frá 1908.
Því má bæta við að sé „Drottinn“ sett í stað „Jehóva“ rænir það Biblíuna nokkru sem er eins og þungamiðja í henni: einkanafni Guðs. The Illustrated Bible Dictionary (1. bindi, bls. 572) segir: „Strangt til tekið er Jahve hið eina ‚nafn‘ Guðs.“
The Imperial Bible Dictionary (1. bindi, bls. 856) lýsir muninum á „Guði“ (Elohim) og „Jehóva“ með þessum orðum: „[Jehóva] er alls staðar sérnafn sem notað er um hinn persónubundna Guð og hann einan; Elohim hefur hins vegar eðli venjulegs nafnorðs sem er vissulega oftast notað um hinn almáttka þótt það sé ekki sjálfgefið né algilt.“
J. A. Motyer, rektor við Trinity College á Englandi, bætir við: „Mikið glatast í biblíulestri ef við gleymum að líta bak við auknefnið [Drottinn eða Guð] á hið persónulega einkanafn Guðs sjálfs. Með því að segja fólki sínu nafn sitt ætlaði Guð að opinbera því sitt innsta eðli.“—Eerdmans’ Handbook to the Bible, bls. 157.
Nei, ekki er hægt að þýða einkennandi sérnafn með titli. Titill getur aldrei komið til skila þeirri merkingu sem fólgin er í einkanafni Guðs.
[Rammi/Myndir á blaðsíðu 26]
Þessar slitur Sjötíumannaþýðingarinnar (til hægri), frá fyrstu öld okkar tímatals og nú geymdar í ísraelska safninu í Jerúsalem, hafa að geyma Sakaría 8:19-21 og 8:23–9:4. Nafn Guðs kemur fyrir þar fjórum sinnum, þar af eru þrír staðir sýndir hér. Í Alexandríska handritinu (til vinstri), afriti af Sjötíumannaþýðingunni 400 árum yngra, hefur nafn Guðs verið látið víkja í þessum sömu versum fyrir KY og KC sem eru skammstafanir gríska orðsins Kyrios („Drottinn“).
[Rammi á blaðsíðu 27]
John W. Davis, trúboði í Kína á 19. öld, gerði einu sinni grein fyrir því hvers vegna hann áliti að nafn Guðs ætti að standa í Biblíunni: „Ef heilagur andi segir Jehóva á einhverjum ákveðnum stað í hebreskunni, hvers vegna segir þýðandinn þá ekki Jehóva á ensku eða kínversku? Hvaða rétt hefur hann til að segja: ‚Ég læt Jehóva standa hérna og set annað orð í staðinn þarna‘? . . . Ef einhver segir að sums staðar væri rangt að nota nafnið Jehóva skulum við láta hann færa sönnur á það; onus probandi [sönnunarbyrðin] hvílir á honum. Honum mun reynast það erfitt verk því að hann verður að svara þessari einföldu spurningu: Ef það er rangt að nota Jehóva á einhverjum tilteknum stað í þýðingu, hvers vegna notaði hinn innblásni ritari það þá í frumritinu?“—The Chinese Recorder and Missionary Journal, 7. bindi, útgefið í Shanghai árið 1876.
[Mynd á blaðsíðu 23]
Nýheimsþýðing kristnu grísku ritninganna notar með réttu nafn Guðs 237 sinnum. Hér er sýnd dönsk þýðing hennar.
[Myndir á blaðsíðu 24]
Nafn Guðs á kirkju á Minorca á Spáni;
á styttu í grennd við París í Frakklandi
og á Chiesa di San Lorenzo í Parma á Ítalíu.