Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Ég geri við ykkur sáttmála um ríki‘

‚Ég geri við ykkur sáttmála um ríki‘

14. kafli

‚Ég geri við ykkur sáttmála um ríki‘

1. Hvaða framtíðarhorfur gaf Jesús postulum sínum kvöldið áður en hann dó?

 KVÖLDIÐ áður en Jesús var tekinn af lífi sagði hann trúföstum postulum sínum: ‚Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Ég fer burt til að búa ykkur stað til að þið getið verið þar sem ég er.‘ Hann sagði þeim líka: „Ég geri sáttmála við ykkur, eins og faðir minn hefur gert sáttmála við mig, um ríki.“ (Jóhannes 14:2, 3; Lúk 22:29, NW) Hann opnaði þeim stórkostlegt tækifæri!

2. Hve margir fá hlut með Kristi í himnesku ríki hans?

2 Jesús átti þó ekki við að þessir postular einir myndu stjórna með honum í hinu himneska ríki. Síðar var gert kunnugt að leystir yrðu frá jörðinni 144.000 einstaklingar sem fengju þessi miklu sérréttindi. (Opinb. 5:9, 10; 14:1, 4) Eru einhverjir núna að reyna að höndla þau?

Erfingjum ríkisins safnað

3. Hvaða tækifæri vakti Jesús athygli á í sinni opinberu þjónustu?

3 Eftir að Heródes Antípas fangelsaði Jóhannes skírara hóf Jesús mikla prédikunarherferð meðal almennings þar sem hann beindi athyglinni að „himnaríki.“ (Matt. 4:12, 17) Hann vakti athygli fólks á að menn myndu hafa tækifæri til að komast inn í þetta ríki, og lærisveinar hans lögðu sig kappsamlega fram um að hljóta þau laun. — Matt. 5:3, 10, 20; 7:21; 11:12.

4. (a) Hvenær voru fyrstu lærisveinar Jesú smurðir heilögum anda? (b) Hvað sýnir að athyglinni var þaðan í frá beint að því að safna erfingjum Guðsríkis?

4 Á hvítasunnunni árið 33 voru þeir fyrstu smurðir heilögum anda. (Post. 2:1-4; 2. Kor. 1:21, 22) Hjálpræðisráðstöfun Guðs til ódauðleika á himnum var gerð kunnug. Pétur notaði „lykla himnaríkis“ til að opna mönnum þessa þekkingu — fyrst Gyðingum, síðan Samverjum og að síðustu fólki af heiðnum þjóðum. (Matt. 16:19) Sérstakri athygli var beint að því að mynda stjórn sem skyldi fara með völd yfir mannkyninu í þúsund ár, og nálega öll hin innblásnu bréf kristnu Grísku ritninganna eru fyrst og fremst skrifuð þessum hópi erfingja Guðsríkis — „hinum heilögu,“ ‚hluttakendum himneskrar köllunar.‘ *

5. Voru þeir kallaðir til lífs á himnum út af því að þeir væru betri þjónar Guðs en þeir sem áður höfðu lifað?

5 Að þeir væru kallaðir til lífs á himnum þýddi ekki að þeir væru á einn eða annan hátt betri en allir þeir þjónar Guðs sem höfðu dáið fyrir hvítasunnuna árið 33. (Matt. 11:11) Jehóva var einfaldlega byrjaður núna að velja þá sem skyldu vera meðstjórnendur Jesú Krists. Í um það bil nítján aldir þaðan í frá var aðeins um að ræða þessa einu köllun, þá himnesku. Hún var óverðskulduð náð sem Guð hafði sýnt takmörkuðum hópi, til að viturlegur og ástríkur tilgangur hans næði fram að ganga. — Ef. 2:8-10.

6. (a) Hvers vegna hlaut sá tími að koma að hin himneska köllun tæki enda? (b) Hver myndi stýra málum svo að spádómurinn um ‚múginn mikla‘ rættist líka, og hvað hefur í reyndinni gerst?

6 Að því myndi koma að lokið yrði söfnun þessa fastákveðna fjölda, 144.000. Þá væri nálæg lokainnsiglun þessara andlegu Ísraelsmanna sem tákn velþóknunar Guðs. (Opinb. 7:1-8) Þá myndi Jehóva, í gegnum heilagan anda sinn og aukinn skilning sem hið sýnilega skipulag hans fengi á orði hans, haga málum svo að annar þáttur í tilgangi hans rættist, en honum er lýst í Opinberunarbókinni 7:9-17. Safnað yrði saman ‚miklum múgi‘ af öllum þjóðum, og hann ætti fyrir sér að lifa af þrenginguna miklu og hljóta eilíft líf og fullkomleika í jarðneskri paradís. Þegar við lítum um öxl yfir það sem þegar hefur átt sér stað, virðist ljóst að hinni himnesku köllun hafi almennt verið lokið um 1935 þegar menn fengu glöggan skilning á jarðneskri von hins ‚mikla múgs.‘ Síðan hafa þær tiltölulega fáu þúsundir, sem eftir eru af hinum himneska hópi, fengið í för með sér milljónir manna sem dýrka Jehóva og þrá í einlægni að lifa eilíflega hér á jörðinni.

7. Er hugsanlegt að sumir geti jafnvel núna hlotið himneska köllun? Gefðu nánari skýringu.

7 Þýðir það að Guð kalli nú engan til lífs á himnum? Þar til lokainnsiglunin fer fram getur hugsast að fáeinir, sem hafa þá von, reynist ótrúir og velja þurfi aðra í þeirra stað. Rökrétt virðist þó að slíkt hljóti að vera sjaldgæft.

Andlegir synir — hvernig vita þeir það?

8. Hvernig vita þeir sem eru getnir með heilögum anda af köllun sinni, samkvæmt skýringum Páls?

8 Andi Guðs gefur skírðum kristnum mönnum, sem hlotið hafa himneska köllun, fulla vissu um andlega sonartöku sína. Páll postuli sýndi fram á það þegar hann skrifaði ‚heilögum‘ í Róm og lýsti því sem þá gilti um alla sannkristna menn. Hann sagði: „Allir þeir, sem leiðast af anda Guðs, þeir eru Guðs börn. En þér hafið ekki fengið anda, sem gjörir yður að þrælum að lifa aftur í hræðslu, heldur hafið þér fengið anda, sem gefur yður barnarétt. Í þeim anda köllum vér: ‚Abba, faðir!‘ Sjálfur andinn vitnar með vorum anda, að vér erum Guðs börn. En ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists, því að vér líðum með honum, til þess að vér einnig verðum vegsamlegir með honum.“ — Rómv. 1:7; 8:14-17.

9. Hvernig ‚ber sjálfur andinn vitni‘ með anda þeirra sem eru í sannleika synir Guðs?

9 Hér er vakin athygli okkar á tvíþættri notkun orðsins „andi“: „Sjálfur andinn“ og ‚vor andi.‘ Í fyrra tilvikinu er um að ræða ósýnilegan starfskraft Guðs. Hann innblæs andlegum börnum hans sannfæringu um að þau hafi verið kjörin frjáls börn Guðs. Sá andi ber líka vitni í gegnum innblásið orð Guðs, Biblíuna, sem er eins og einkabréf til andlegra barna hans. (1. Pét. 1:10-12) Þegar þeir sem hafa verið getnir af heilögum anda lesa það sem Ritningin segir andlegum sonum Guðs eru viðbrögð þeirra þessi: ‚Þetta á við mig.‘ Þannig ber starfskraftur Guðs á ýmsa vegu vitni með þeirra anda, hinu mótandi afli í huga þeirra og hjarta, um að þeir séu Guðs börn. Í samræmi við það sem andi Guðs gefur þannig til kynna beinist hugur þeirra og hjarta að því að vera samerfingjar Krists, og þeir taka þar með á sig þá ábyrgð að vera andleg börn Guðs. — Fil. 3:13, 14.

10. (a) Hvað er ekki sjálfkrafa sönnun um að einhver sé andasmurður? (b) Hvernig líta ‚hinir aðrir sauðir‘ á hlutverk sitt í tilgangi Guðs?

10 Á þetta við um þig? Ef svo er nýtur þú stórkostlegra sérréttinda. Rangt væri þó að ætla að sá hljóti sjálfkrafa að vera andasmurður kristinn maður sem metur mikils hin djúpu andlegu sannindi eða er kostgæfur í þjónustunni á akrinum eða elskar kristna bræður sína heitt og innilega. Þessir eiginleikar einkenna marga af hinum ‚öðrum sauðum.‘ Hjörtu þeirra eru líka snortin af því sem þeir lesa í Ritningunni um samerfingja Krists, en þeir voga sér ekki að halda fram að þeir hafi hlotið eitthvað sem Guð hefur ekki ætlað þeim. (Samanber 4. Mósebók 16:1-40.) Þeir skilja hver var upphaflegur tilgangur Guðs með jörðina og vinna þakklátir að því að fá hlut í honum.

Verðugleg þátttaka

11. Hverjir sækja hina árlegu minningarhátíð um dauða Jesú og hvers vegna?

11 Ár hvert, þann 14. nísan eftir sólsetur, minnast smurðir fylgjendur Jesú Krists alls staðar á jörðinni dauða hans í samræmi við fyrirmæli sem hann gaf postulum sínum. (Lúk. 22:19, 20) Hinir ‚aðrir sauðir‘ eru líka viðstaddir, þó ekki sem þátttakendur í brauðinu og víninu heldur sem hæverskir áhorfendur.

12. Hvernig sýndu sumir frumkristnir menn í Korintu að þeir höfðu ekki rétt sjónarmið til kvöldmáltíðar Drottins?

12 Þessi minningarhátið er engin innantóm helgiathöfn heldur þrungin merkingu. Páll postuli sendi frumkristnum mönnum í Korintu í Grikklandi, sem sumir hverjir sýndu þessum atburði ekki tilhlýðilega virðingu, alvarleg heilræði. Hann skrifaði: „Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins óverðuglega, verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins.“ Hvað gerði þá ‚óverðuga‘ þess að taka þátt í máltíðinni? Þeir undirbjuggu sig ekki tilhlýðilega í hjarta eða huga. Sundrung var í söfnuðinum. Auk þess átu sumir og drukku í óhófi fyrir samkomuna. Þeim stóð nokkurn veginn á sama um kvöldmáltíð Drottins. Þeir voru ekki færir um að koma auga á hina alvarlegu þýðingu brauðsins og vínsins. — 1. Kor. 11:17-34.

13. Hvað táknar brauðið og vínið sem borið er fram á minningarhátíð?

13 Hvaða þýðing er það? Hún er ekki fólgin í því að brauðið og vínið umbreytist á yfirnáttúrlegan hátt. Kristi er ekki í nokkrum skilningi fórnað á ný á hverri minningarhátíð. Ritningin segir að Kristi hafi verið „fórnfært í eitt skipti til þess að bera syndir margra.“ (Hebr. 9:28; 10:10; Rómv. 6:9) Ósýrða brauðið og rauða vínið eru einfaldlega tákn þess bókstaflega líkama sem Jesús fórnaði, og þess bókstaflega blóðs sem hann úthellti. En vissulega er það sem hann fórnfærði dýrmætt! Syndlaus mannslíkami Jesú var gefinn til að mannkynið gæti fengið tækifæri til að lifa eilíflega. (Jóh. 6:51) Úthellt blóð hans þjónar tvíþættum tilgangi — að hreinsa af synd þá menn sem iðka trú á það, og að fullgilda nýja sáttmálann milli Guðs og safnaðar hins andlega Ísraels, myndaður af andasmurðum kristnum mönnum. (1. Jóh. 1:7; 1. Kor. 11:25; Gal. 6:14-16) Það eru þessar dýrmætu gjafir sem gera Guði mögulegt að lýsa þá sem mynda ‚litlu hjörðina‘ réttláta bókstaflega, að eigna þeim mannlegan fullkomleika. (Lúk. 12:32) Það er gert til að hægt sé að geta þá með heilögum anda sem syni Guðs, í því augnamiði að þeir fái hlut með Kristi í himnesku ríki hans. Þegar þeir neyta af brauðinu og víninu á minningarhátiðinni ár hvert eru þeir því að bera vitni um himneska von sína, og þeir minna sjálfa sig á hversu verðmætt sé að eiga aðild að ‚nýja sáttmálanum‘ sem Kristur miðlaði. — Hebr. 8:6-12.

„Vér viljum fara með yður“

14. (a) Hvers vegna neyta ‚hinir aðrir sauðir‘ ekki brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni, en til hvers hlakka þeir mjög? (b) Hvernig líta þeir á samfélag sitt við leifar ríkiserfingjanna?

14 ‚Hinir aðrir sauðir‘ gera sér ljóst hvernig Jehóva hefur komið fram við hina smurðu, og þeir hafa slegist í för með þeim og sagt: „Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.“ (Sak. 8:20-23) Ekki aðeins koma þeir saman heldur vinna líka saman að því að kunngera fagnaðarerindið um ríkið um alla jörðina. ‚Hinir aðrir sauðir‘ eiga hins vegar ekki aðild að ‚nýja sáttmálanum‘ með hinum andlega Ísrael, og ekki heldur að ‚sáttmálanum um ríki‘ sem Jesús gerði við þá sem eru útvaldir til að lifa með honum á himnum. Þeir neyta því ekki af brauðinu og víninu á minningarhátiðinni. (Lúk. 22:20, 29) En samhliða því að ‚nýi sáttmálinn‘ nær tilgangi sínum, og safnað er saman síðustu meðlimum ‚litlu hjarðarinnar‘ í ríkinu á himnum, gera ‚hinir aðrir sauðir‘ sér ljóst að það gefur til kynna að blessunin, sem þeir munu hljóta á jörðinni fyrir atbeina ríkisins, er nálæg. Þeir telja það sérréttindi að geta þjónað sem einn maður með hinum drottinhollu leifum ríkiserfingjanna á hinum ‚síðustu dögum.‘

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Sjá fyrstu versin í Rómverjabréfinu, 1. og 2. Korintubréfi, Efesusbréfinu, Filippíbréfinu, Kólossubréfinu, Títusarbréfinu, 1. og 2. Pétursbréfi, einnig Galatabréfið 3:26-29, 1. Þessaloníkubréf 2:12, 2. Þessaloníkubréf 2:14, 2. Tímóteusarbréf 4:8, Hebreabréfið 3:1, Jakobsbréfið 1:18, 1. Jóhannesarbréf 3:1, 2 og Júdasarbréfið 1.

Til upprifjunar

• Hvers vegna beinir svo stór hluti kristnu Grísku ritninganna athygli að hinni himnesku von?

• Hvernig vita menn að þeir hafa verið getnir sem synir Guðs? Hvaða þýðingu hefur brauðið og vínið sem þeir neyta á minningarhátíðinni?

• Hvernig sýna ‚hinir aðrir sauðir‘ að þeir séu í sannleika sameinaðir ‚litlu hjörðinni‘?

[Spurningar]