Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Það sem Móselögin þýða fyrir þig

Það sem Móselögin þýða fyrir þig

19. kafli

Það sem Móselögin þýða fyrir þig

1. (a) Á hverju mátti sjá að óumskornir heiðingjar væru velþóknanlegir Jehóva sem kristnir menn frá og með árinu 36? (b) Hverju héldu sumir frumkristnir menn stíft fram?

 Á DÖGUM Páls postula var harkalega um það deilt hvort kristnir menn af heiðnu bergi brotnir væru skyldugir að halda Móselögmálið. Árið 36 hafði heilagur andi að vísu komið yfir óumskorna heiðingja, en sumir kristnir menn, sem verið höfðu gyðingatrúar, voru eindregið þeirrar skoðunar að lærisveinar af heiðnum uppruna ættu að umskerast og læra að halda lögmál Móse. Var nauðsynlegt fyrir þá að halda þetta lögmál, í heild eða að hluta? Um árið 49 var þessi spurning lögð fyrir hið stjórnandi ráð í Jerúsalem. — Post. 10:44-48; 15:1, 2, 5.

2. Hvers vegna er þessi spurning áhugaverð fyrir okkur?

2 Niðurstaðan er mjög áhugaverð fyrir okkur. Hvers vegna? Ekki aðeins vegna þess að stundum hittum við fólk sem heldur því fram að kristnir menn verði að halda vissar kröfur lögmálsins, svo sem hvíldardagsboðið, heldur líka vegna þess að Biblían segir sjálf að ‚lögmálið sé heilagt og boðorðið heilagt, réttlátt og gott.‘ (Rómv. 7:12) Þótt lögmál þetta sé kennt við Móse, vegna þess að hann miðlaði því, á það í raun uppruna sinn hjá Jehóva Guði. — 2. Mós. 24:3, 8.

Hver var tilgangurinn með lögmálinu?

3. Hvers vegna var lögmálið gefið Ísrael?

3 Viðhorf okkar til lögmálsins nú til dags mótast af því hvort við skiljum hvers vegna Jehóva gaf Ísrael lögmál. Ritningin segir: „Vegna afbrotanna var því bætt við [Abrahamssáttmálann], þangað til afkvæmið kæmi, sem fyrirheitið hljóðaði um. . . . Þannig hefur lögmálið orðið tyftari vor, þangað til Kristur kom, til þess að vér réttlættumst af trú.“ (Gal. 3:19, 24) Hvernig gerði lögmálið það?

4. (a) Í hvaða skilningi gerði lögmálið afbrotin augljós? (b) Hvernig leiddi það líka trúfasta menn til Krists?

4 Með því að setja fullkominn staðal um hin margvíslegustu svið lífsins sýndi það fram á að Gyðingarnir voru syndarar. Því var ljóst að þeir gátu ekki, þrátt fyrir góðan vilja og viðleitni, uppfyllt kröfur þess. Með því að nota Gyðingana sem úrtak úr hinu ófullkomna mannkyni afhjúpaði lögmálið allan heiminn, þar á meðal eitt og sérhvert okkar, sem syndara er verðskulduðu refsingu frá Guði. (Rómv. 3:19, 20) Það undirstrikaði því þörfina fyrir frelsara mannkynsins og leiddi trúfasta menn til hans, það er að segja Jesú Krists. Á hvaða hátt? Á þann hátt að það benti á að hann einn héldi lögmálið fullkomlega og væri því eini syndlausi maðurinn. Dýrafórnirnar undir lögmálinu höfðu aðeins takmarkað gildi, en sem fullkominn máður gat Jesús fært líf sitt að fórn sem í raun tæki burt syndina og opnaði þeim sem iðkuðu trú leið til eilífs lífs. — Jóh. 1:29; 3:16; 1. Pét. 1:18, 19.

5. Notaðu ritningargreinarnar að ofan til að svara spurningunum í þessari tölugrein.

5 Hvernig svarar þú eftirfarandi spurningum með hliðsjón af þessari vitneskju?

 Var Móselögunum nokkurn tíma ætlað að vera bindandi fyrir allt mannkynið? (Sálm. 147:19, 20; 2. Mós. 31:12, 13)

 Gaf Jehóva Ísrael í skyn að lagasáttmálinn myndi einhvern tíma falla úr gildi? (Jer. 31:31-33; Hebr. 8:13)

 Héldu boðorðin tíu, þar á meðal krafan um vikulegan hvíldardag, enn gildi eftir að lögmálið í heild féll úr gildi? (Kól. 2:13, 14, 16; 2. Kor. 3:7-11 [sem 2. Mósebók 34:28-30 varpar ljósi á]; Rómv. 7:6, 7.

 Hvernig nam Jehóva lagasáttmálann úr gildi? (Kól. 2:13-17; Matt. 5:17, 18; Rómv. 10:4)

6. Hvað er í reynd verið að gera með því að fullyrða að Móselögmálið sé enn í gildi?

6 Í ljósi alls þessa, hvað er fólgið í því að fyllyrða að Móselögmálið sé enn í gildi? Í reynd er verið að afneita trúnni á Jesú Krist. Hvernig þá? Á þann hátt að þar með er verið að afneita því að Jesús hafi uppfyllt lögmálið og rutt því brautina að Guð felldi það úr gildi. Páll postuli skrifaði þeim sem játuðu sig kristna en létu rök annarra fyrir því að halda lögmálið hafa áhrif á sig: „Þér eruð orðnir viðskila við Krist, þér sem ætlið að réttlætast með lögmáli. Þér eruð fallnir úr náðinni.“ — Gal. 5:4; sjá einnig Rómverjabréfið 10:2-4.

7. (a) Hvað gera þeir sér ekki fullljóst sem halda því fram að vissir þættir lögmálsins séu enn í gildi? (b) Hve þýðingarmikil eru kristin verk, og hvert er samband þeirra við það að hljóta þá gjöf sem eilíft líf er?

7 Þeir sem halda því fram að vissir hlutar lögmálsins séu enn í gildi skilja ekki til fullnustu að réttlát staða hjá Guði er ekki komin undir verkum samkvæmt lögmálinu heldur trú á gild fórnar Jesú. (Gal. 3:11, 12) Þeim finnst menn verða að sanna sig réttláta með slíkum verkum — nokkuð sem er ógerlegt fyrir synduga menn. Að sjálfsögðu er þýðingarmikið að vinna verk í hlýðni við boð Guðs og Krists sem eiga við kristna menn. (Jak. 2:15-17; Matt. 28:19, 20) Það er leið til að sýna kærleika okkar og trú, og vanti verkin ber það vitni um að trú okkar sé dauð. En við getum ekki áunnið okkur hjálpræði, hvað sem við leggjum á okkur til þess. Án fórnar Jesú Krists væri ekkert hjálpræði frá synd og dauða hugsanlegt. Eilíft líf er því gjöf frá Guði fyrir milligöngu Jesú Krists, tjáning óvenjulegrar, óverðskuldaðrar náðar en ekki endurgjald fyrir verk okkar. — Ef. 2:8, 9; Rómv. 3:23, 24; 6:23.

8. Hvernig úrskurðaði hið stjórnandi ráð fyrstu aldar um það hvort kristnum mönnum af heiðnum uppruna bæri að halda Móselögmálið?

8 Þegar deilan um það hvort kristnum mönnum af heiðnum uppruna bæri að halda Móselögin var lögð fyrir hið stjórnandi ráð í Jerúsalem á fyrstu öld, var úrskurður þess í samræmi við þessar staðreyndir. Ráðið gerði sér ljóst að Jehóva krafðist þess ekki að trúaðir menn af heiðnum þjóðum ynnu verk í hlýðni við Móselögin áður en heilögum anda yrði úthellt yfir þá. Í úrskurði hins stjórnandi ráðs voru nefnd sem ‚nauðsynleg‘ viss bönn sem voru í samræmi við lögmálið, en þau byggðust á frásögn Biblíunnar af atburðum fyrir daga lögmálsins. Þess var því ekki krafist af kristnum mönnum af heiðnum uppruna að þeir héldu Móselögmálið eða einhvern hluta þess, heldur voru staðfestir vissir staðlar sem voru virtir fyrir daga Móse. — Post. 15:28, 29; samanber 1. Mósebók 9:3, 4; 34:2-7; 35:2-5.

9. (a) Krefst Guð þess enn af Gyðingum að þeir hlýði Móselögunum? (b) Hvaða sérstök ráðstöfun fyrir þá var fólgin í því með hvaða hætti Kristur dó?

9 Eftir hvítasunnuna árið 33 krafðist Guð þess ekki lengur af Gyðingum að halda Móselögmálið. Þeim Gyðingum, sem iðkuðu trú, var það sérstakt gleðiefni. Hvers vegna? Enda þótt heiðingjarnir væru líka syndarar og þar með undirorpnir dauðanum, höfðu Gyðingar einir verið undir bölvun Guðs fyrir að brjóta lagasáttmálann. En með því að deyja sem raun bar vitni — negldur á staur sem fordæmdur glæpamaður — tók Kristur sæti þeirra Gyðinga sem áttu eftir að taka trú á hann og vietti þeim lausn undan þeirri refsingu sem þeir áttu skilið fyrir óhlýðni sína við lögmálið. (Gal. 3:10-13) Þar með aflaði hann þeim fyrirgefningar sem þeir hefðu aldrei getað hlotið undir Móselögunum. — Post. 13:38, 39.

10. Hvernig átti afnám lögmálsins þátt í sameiginlegri tilbeiðslu?

10 Lögmálið hafði í reyndinni verið milliveggur milli Gyðinga og heiðingja. Lagðar voru kvaðir á Gyðinga, sem ekki náðu til heiðingja, og óumskornum heiðingjum var meinuð full hlutdeild með Gyðingum í guðsdýrkun þeirra. (Samanber 2. Mósebók 12:48; Postulasöguna 10:28.) Þegar lögmálið hafði þjónað tilgangi sínum og fallið úr gildi gátu Gyðingar og óumskornir heiðingjar sameinast Kristi í tilbeiðslu á hinum eina sanna Guði. — Ef. 2:11-18.

Þekking á lögmálinu er okkur til gagns

11. Hvernig hjálpar þekking á lögmálinu okkur að skilja kenningar Krists?

11 Enda þótt við séum ekki undir lögmálinu núna er okkur öllum mikill fengur í þekkingu á því. Á hvaða veg? Munum að móðir Jesú var Gyðingur og hann fæddist því undir lögmálinu. Sumt af því sem hann gerði er ekki hægt að skilja til fullnustu nema mið sé tekið af kröfum lögmálsins. (Gal. 4:4; sjá Lúkas 22:7, 8.) Hann innti líka þjónustu sína af hendi meðal fólks sem var undir því lögmáli. Kenningar hans byggðust á því oft á kringumstæðum sem tengdar voru lögmálinu. — Samanber Matteus 5:23, 24.

12. (a) Hvaða tengsl benti Jesús á að væru milli lífs síns og Móselögmálsins? (b) Hvernig gaf Páll postuli til kynna að þekking á lögmálinu væri verðmæt? (c) Hvað getur það haft í för með sér fyrir okkur að skilja andlega þýðingu ákvæða lögmálsins?

12 Eftir upprisu sína minnti Kristur lærisveinanna á að líf hans sem maður hefði uppfyllt það sem skrifað var um hann í lögmálinu, í spámönnunum og sálmunum. (Lúk. 24:44) Páll postuli vísaði líka til ýmissa atriða tengd lögmálinu sem væru þau ‚eftirmynd og skuggi hins himneska,‘ og sagði að ‚lögmálið geymdi aðeins skugga hins góða sem væri í vændum.‘ (Hebr. 8:4, 5; 10:1) Móselögin geyma furðuleg smaátriði sem uppfyllast í prestdómi Jesú Krists og fórninni sem hann færði. Að skilja þau getur auðgað til muna skilning okkar á gildi slíkra ráðstafana fyrir okkur. Meðal hinna spádómlegu fyrirmynda eru atriði em vísa til þess hvernig dýrka má Jehóva á velþóknanlegan hátt í hinu mikla andlega musteri hans nú á dögum. Samhliða vaxandi skilningi á þessum atriðum lærum við að meta betur hinn andasmurða söfnuð og hlutverk hans undir yfirstjórn Jesú Krists í tengslum við guðsdýrkun okkar.

13. Hvers vegna er gagnlegt að ígrunda hinar góðu meginreglur sem lögmálið endurspeglar?

13 Móselögmálið er lika hluti Ritningarinnar sem er „innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar.“ (2. Tím. 3:16) Þegar við leitum að og íhugum hinar ævarandi meginreglur, sem lögmálið er byggt á, er það okkur hjálp til að rækta innilega löngun til að gera það sem er Guði þóknanlegt. Ef við skiljum andann að baki lögmálinu og látum hann endurspeglast í lífi okkar er það til mikils gagns!

14. (a) Hvernig sýndi Jesús fram á gildi þess að skilja andann að baki ákvæða lögmálsins? (b) Vektu athygli á nokkrum hinna góðu meginreglna lögmálsins eins og frá þeim er greint á blaðsíðu 152. (c) Hvernig getur skilningur á þessum atriðum hjálpað okkur að þóknast Guði betur?

14 Jesús lýsti þessu mjög vel í fjallræði sinni. Hann talaði þar til fólks sem var undir lögmálinu, og sýndi fram á að í stað þess einungis að forðast að fremja morð yrðu menn að uppræta sérhverja tilhneigingu til langvinnrar reiði og varast að nota tungu sína til að tala illa um bræður sína. Í stað þess að vera ánægður yfir því að hafa aldrei framið hjúskaparbrot yrðu þeir að varast einu sinni að horfa á konum með girndarhug. Á sama hátt ættum við líka að leitast við að nota alla limi líkamans í samræmi við réttláta vegu Jehóva. (Matt. 5:21, 22, 27-30; sjá einnig Rómverjabréfið 13:8-10.) Ef við gerum það sýnum við að við skiljum líka merkingu æðsta boðorðs í lögmálinu: „Elska skalt þú [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ (Matt. 22:36, 37) Víst er að þetta mun tengja okkur Jehóva Guði nánari böndum. Þótt við séum ekki undir Móselögunum er okkur tvímælalaust til gagns að kunna glögg skil á þeim meginreglum, sem þau byggjast á, og spádómlegum fyrirmyndum sem þau geyma.

Til upprifjunar

• Hvers vegna eru þeir í reynd að hafna Kristi sem halda því fram að hlýða beri Móselögunum?

• Hvernig hjálpar þekking á lögmálinu okkur að skilja hlutverk Jesú í tilgangi Jehóva?

• Hvað getum við lært af því að rannsaka lögmálið enda þótt það sé fallið úr gildi?

[Spurningar]

[Rammi á blaðlsíðu 152]

Nokkrar af grundvallarreglum Móselögmálsins

Ábyrgð gagnvart Guði

Dýrkaðu aðeins Jehóva 2. Mós 20:3; 22:20

Sýndu nafni hans virðingu 2. Mós. 20:7; 3. Mós.24:16

Elskaðu hann og þjónaðu af 5. Mós. 6:5; 10:12; 30:16

öllu hjarta, sálu og mætti

Óttastu að brjóta boð hans; 5. Mós. 5:29; 6:24

berðu lotningu fyrir honum

Nálgastu hann aðeins á 3. Mós. 1:1-5; 4. Mós.

þann veg sem hann viðurkennir 16:1-50; 5. Mós. 12:5-14

Gefðu honum þitt besta; 2. Mós. 23:19; 34:26

þú hefur fengið það frá honum

Dýrkendur hans verða að hafa 2. Mós. 19:10, 11; 30:20

hreinan líkama

Heilög mál mega ekki víkja 2. Mós. 20:8-10; 34:21;

fyrir veraldlegum hugðarefnum 4. Mós. 15:32-36

Trúarathafnir sem eru bannaðar

Skurðgoðadýrkun 2. Mós. 20:4-6; 5. Mós.

7:25

Mök við önnur trúarbrögð 2. Mós. 23:13; 34:12-15;

5. Mós. 6:14, 15; 13:1-5

Spíritismi, galdur, spásagnir, 2. Mós. 22:18; 3. Mós.

fjölkynngi, gjörningar 20:27; 5. Mós. 18:10-12

Hjónaband og fjölskyldulíf

Bann við hjúskaparbroti 2. Mós. 20:14; 3. Mós.

20:10

Hjúskapur bannaður við þann sem 5. Mós. 7:1-4

ekki þjónar Jehóva

Bann við sifjaspelli 3. Mós. 18:6-16; 20:11

Forðast ber óeðlilegar kynlífsathafnir 3. Mós. 18:23; 20:13

Virðing fyrir lífi ófæddra barna 2. Mós. 21:22, 23, NW

Heiðraðu foreldra þína 2. Mós. 20:12; 21:15, 17;

5. Mós. 21:18-21

Kenndu börnum þínum vegu Jehóva 5. Mós. 6:4-9; 11:18-21

Skyldur gagnvart öðrum

Mannslífið virt sem heilagt 2. Mós. 20:13; 4. Mós.

35:9-34

Elskaðu náungann; forðastu óvild 3. Mós. 19:17, 18

Tillitssemi við aldraða 3. Mós. 19:32

Kærleiksrík umhyggja fyrir 3. Mós. 25:35-37;

fátækum, munaðarlausum, ekkjum 5. Mós. 15:7-11; 24:19-21

Bannað að fara illa með 3. Mós. 19:14; 5. Mós.

blinda og heyrnarlausa 27:18

Vertu heiðarlegur í viðskiptum 3. Mós. 19:35, 36; 25:14

Virtu eignarrétt 2. Mós. 20:15; 22:1, 6;

23:4; 5. Mós. 22:1-3

Girnstu ekki eignir annarra 2. Mós. 20:17

Afhjúpa ber grófa synd 3. Mós. 5:1; 5. Mós.

13:6-11

Vertu sannsögull; berðu ekki ljúgvitni 2. Mós.20:16; 23:1, 2

Vertu ekki hlutdrægur 2. Mós. 23:3, 6; 3. Mós.

19:15