„Þeir heyra ekki heiminum til“
21. kafli
„Þeir heyra ekki heiminum til“
1. (a) Hvernig bað Jesús fyrir lærisveinum sínum kvöldið áður en hann dó? (b) Hvers vegna var svona þýðingarmikið að „heyra ekki heiminum til“?
KVÖLDIÐ áður en Jesús var staurfestur bað hann innilega fyrir lærisveinum sínum. Hann vissi að Satan myndi beita þá gífurlegum þrýstingi og sagði við föður sinn: „Ekki bið ég, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá illu. Þeir heyra ekki heiminum til, eins og ég heyri ekki heiminum til.“ (Jóh. 17:15, 16; Ísl. bi. 1912) Hvers vegna er svona mikilvægt að vera aðgreindur frá heiminum? Vegna þess að Satan er höfðingi hans. Þeir sem eru hluti af heiminum eru undir hans stjórn. (Jóh. 14:30; 1. Jóh. 5:19) Í ljósi þessa er áriðandi fyrir sérhvern kristinn mann að skilja hvað það merkir að „heyra ekki heiminum til.“ Hvað fól það í sér fyrir Jesú?
2. Á hvaða vegu ‚heyrðu Jesús ekki heiminum til‘?
2 Jesús einangraði sig ekki frá öðru fólki. Að hann ‚heyrði ekki heiminum til‘ fól ekki í sér að hann skorti kærleika til annarra. Þvert á móti fór hann borg úr borg og boðaði mönnum fagnaðarerindið um ríki Guðs. Hann læknaði sjúka, gaf blindum sýn, vakti upp dauða og gaf meira að segja líf sitt fyrir mannkynið. Hann elskaði hins vegar ekki hin óguðlegu viðhorf og illu verk manna sem voru fullir af anda heimsins. Hann varaði við siðlausum löngunum, efnishyggju og eigingjarni fíkn í stöðu og virðingu. (Matt. 5:27, 28; 6:19-21; Lúk. 12:15-21; 20:46, 47) Í stað þess að líkja eftir lífsháttum manna, sem voru fjarlægir Guði, gekk Jesús á vegum Jehóva. (Jóh. 8:28, 29) Hann tók ekki afstöðu til pólitískra deilumála Rómverja og Gyðinga, þótt sjálfur væri hann Gyðingur.
„Mitt ríki er ekki af þessum heimi“
3. (a) Um hvað sökuðu trúarleiðtogar Gyðinga Jesú fyrir Pílatusi og hvers vegna? (b) Hvað sýnir að Jesús hafði engan áhuga á að verða mennskur konungur?
3 Trúarleiðtogar Gyðinganna sökuðu Jesú hins vegar um að vinna gegn þjóðarheill. Þeir létu taka hann höndum og færa Pontíusi Pílatusi, rómverska landstjóranum. Í rauninni stafaði uppnám þeirra fyrst og fremst af því að kenning Jesú afhjúpaði hræsni þeirra. En til að fá landstjórann til að grípa til aðgerða ásökuðu þeir Jesú: „Vér höfum komist að raun um, að þessi maður leiðir þjóð vora afvega, hann bannar að gjalda keisaranum skatt og segist sjálfur vera Kristur, konungur.“ (Lúk. 23:2) Sannleikurinn var sá að ári áður, þegar fólk vildi gera Jesú að konungi, vék hann sér undan því. (Jóh. 6:15) Hann vissi líka að hann átti að vera himneskur konungur og að enn var ekki kominn tími hans til að taka konungdóm. Hann vissi líka að það var Jehóva Guð sem átti að krýna hann til konungs, ekki fólkið eða einhverjar lýðræðislegar aðgerðir.
4. Hvað sýna staðreyndir um viðhorf Jesú til þess að „gjalda keisaranum skatt“?
4 Hvað varðar greiðslu skatta höfðu farísearnir aðeins þrem dögum fyrir handtöku Jesú reynt að fá hann til að segja eitthvað saknæmt. En Jesús hafði svarað lævísri spurningu þeirra svo: „Sýnið mér denar [rómverskan pening]. Hvers mynd og yfirskrift er á honum?“ Þegar þeir svöruðu: „Keisarans,“ sagði hann: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“ — Lúk. 20:20-25.
5. (a) Hvaða lexíu kenndi Jesús lærisveinunum þegar hann var handtekinn? (b) Hvernig skýrði Jesús fyrir Pílatusi hvers vegna hann hefði breytt svo?
5 Meira að segja þegar Jesús var handtekinn átti sér stað atburður sem sýndi að hann var ekki að æsa til uppreisnar gegn Róm og vildi ekki að lærisveinar hans gerðu það. Rómverskir hermenn ásamt Gyðingum er báru sverð og barefli komu til að handtaka Jesú. (Jóh. 18:3, 12; Mark. 14:43) Þegar Pétur postuli sá það brá hann á loft sverði, hjó til eins af mönnunum og sneið af honum hægra eyrað. En Jesús ávítaði Pétur og sagði: „Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ (Matt. 26:51, 52) Næsta morgun skýrði Jesús fyrir Pílatusi þessa afstöðu sína: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ — Jóh. 18:36.
6. Hvernig fóru réttarhöldin?
6 Eftir að Pílatus hafði kynnt sér sönnunargögnin lýsti hann yfir að hann hefði ‚enga sök fundið‘ hjá Jesú. Samt sem áður lét hann undan kröfum mannfjöldans um að staurfesta Jesú. — Lúk. 23:13-15; Jóh. 19:12-16.
Lærisveinarnir fylgdu fordæmi meistarans
7. Hvernig sýndu frumkristnir menn að þeir fórðuðust anda heimsins en elskuðu fólk?
7 Saga frumkristninnar, bæði sú sem Biblían segir og önnur sagnfræðiverk, sýnir okkur að lærisveinar Jesú skildu hvers það krafðist af þeim að „heyra ekki heiminum til.“ Þeir leituðust við að forðast anda heimsins. Þar eð þeir sneiddu hjá ofbeldisfullri og siðlausri skemmtun rómverska leikvangsins og leikhússins voru þeir spottaðir og kallaðoir mannhatarar. Því fór þó fjarri að þeir hötuðu náunga sinn, því að þeir fórnuðu sér til að hjálpa öðrum að njóta góðs af hjálpræðisráðstöfun Guðs.
8. (a) Hvað máttu þessir fyrstu lærisveinar þola af því að þeir ‚heyrðu ekki heiminum til‘? (b) Hvernig litu þeir samt á pólitíska valdhafa og skattgreiðslu, og hvers vegna?
8 Eins og meistari þeirra máttu þeir þola ákafar ofsóknir, oft frá yfirvöldum sem fengið höfðu villandi upplýsingar. (Jóh. 15:18-20) En um árið 56 skrifaði Páll postuli kristnum bræðrum sínum í Róm til að undirstrika þau ráð sem Jesús hafði gefið. Páll hvatti þá til að ‚hlýða yfirvöldum,‘ hinum pólitísku valdhöfum, „því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði.“ Ekki ber svo að skilja að Jehóva hafi komið á fót hinum veraldlegu stjórnum heldur leyfir hann þeim að stjórna. Páll benti á að yfirvöldin séu „skipuð af Guði“ því að Guð sá fyrir og sagði fyrir í hvaða röð þau myndu koma. ‚Yfirvöldin‘ eru því „Guðs tilskipun“ sem stendur, þar til ríki Guðs í höndum Jesú Krists verður eina stjórnin sem fer með völd á jörðinni. Páll réð því kristnum mönnum að sýna veraldlegum embættismönnum tilhlýðilega viðingu og greiða þá skatta sem þeir krefðust. — Rómv. 13:1-7; Tít. 3:1, 2.
9. (a) Hverju má ekki gleyma þegar undirgefni við ‚yfirvöld‘ á í hlut? (b) Hvernig sýnir sagan að frumkristnir menn fylgdu fordæmi Jesú gaumgæfilega?
9 Páll sagði þeim þó ekki að sýna þeim algera undirgefni án tillits til Guðs, orðs hans eða kristinnar samvisku sinnar. Þeir vissu að Jesús hafði dýrkað aðeins Jehóva, að hann hafði ekki leyft fólkinu að gera sig að konungi og sagt Pétri að slíðra sverð sitt. Þeir fylgdu samviskusamir forystu meistara síns. Bókin On the Road to Civilization — A World History (eftir Heckel og Sigman, bls. 237, 238) segir: „Kristnir menn neituðu að taka þátt í vissum skyldum rómverskra borgara. Kristnir menn . . . álitu það stríða gegn trú sinni að gegna herþjónustu. Þeir gegndu ekki pólitískum embættum. Þeir tilbáðu ekki keisarann.“
10. (a) Hvers vegna breyttu kristnir menn í Jerúsalem sem raun bar vitni árið 66? (b) Á hvað hátt er það verðmætt fordæmi?
10 Lærisveinar Jesú höfðu varðveitt algert hlutleysi gagnvart pólitískum og hernaðarlegum deilumálum samtíðarinnar. Árið 66 gerðu Gyðingar í rómverska skatthéraðinu Júdeu uppreisn gegn keisaranum. Innan tíðar hafði rómverskur her umkringt Jerúsalem. Hvað gerðu kristnir menn í borginni? Þeir mundu eftir heilræðum Jesú um að halda sér hlutlausum og forða sér burt frá hinum stríðandi herjum. Þegar rómverski herinn dró sig í hlé um stundarsakir gripu kristnir menn tækifærið og flýðu yfir Jórdanána til fjallahéraðsins í grennd við Pella. (Lúk. 21:20-24) Með hlutleysi sínu og trúfesti gáfu þeir kristnum mönnum síðar á tímum fyrsta flokks fordæmi.
Hlutlausir kristnir menn á tímum endalokanna
11. (a) Hvaða starfi eru vottar Jehóva önnum kafnir af og hvers vegna? (b) Gagnvart hverju eru þeir hlutlausir?
11 Sýnir sagan að einhver hópur hafi nú á tímum endalokanna frá 1914 varðveitt kristið hlutleysi í líkingu við frumkristna menn? Já, vottar Jehóva hafa gert það. Um alla jörðina hafa þeir verið önnum kafnir við að prédika Guðsríki sem einu leiðina fyrir unnendur réttlætisins um allan heim til að hljóta frið, velsæld og varanlega hamingju. (Matt. 24:14) Gagnvart deilumálum þjóðanna hafa þeir hins vegar varðveitt ófrávíkjanlegt hlutleysi.
12. (a) Hvað er ólíkt með hlutleysi vottanna og afstöðu presta? (b) Hvað felur það í sér fyrir votta Jehóva að vera hlutlausir í stjórnmálum?
12 Því er öðruvísi farið með klerka kristna heimsins sem taka mjög mikinn þátt í stjórnmálum heimsins. Í sumum löndum taka þeir virkan þátt í kosningabaráttu með eða á móti frambjóðendum. Sumir klerkanna gegna pólitískum embættum. Aðrir beita stjórnmálamenn miklum þrýstingi til að fá þá til að beita sér fyrir málefnum sem klerkastéttin leggur blessun sína yfir. Annars staðar eru „íhaldssamir“ klerkar nánir bandamenn valdastéttarinnar en „framfarasinnaðir“ prestar stuðningsmenn skæruliðahreyfinga sem vilja kollvarpa stjórnvöldum. En vottar Jehóva koma ekki nálægt stjórnmálum, óháð því í hvaða landi þeir búa. Þeir blanda sér ekki í það hvað aðrir gera, hvort heldur um er að ræða aðild að stjórnmálaflokki, framboð til kosninga eða þátttöku í kosningum. En úr því að Jesús sagði að lærisveinar hans ættu ‚ekki að heyra heiminum til‘ taka vottar Jehóva alls engan þátt í stjórnmálastarfsemi.
13. Hvað sýna staðreyndir um afstöðu votta Jehóva til þátttöku í hernaði?
13 Eins og Jesús sagði fyrir hafa þjóðirnar, nú á tíma endalokanna, hvað eftir annað farið út í stríð, og meira að segja hafa klofningshópar innan einstakra þjóða gripið til vopna hver gegn öðrum. (Matt. 24:3, 6, 7) En hvaða afstöðu hafa vottar Jehóva tekið í gegnum allt þetta? Hlutleysi þeirra gagnvart slíkum deilum er alþekkt alls staðar um jörðina. Í samræmi við þá afstöðu, sem Jesús Kristur tók og fyrstu lærisveinar hans létu síðar í ljós, sagði Varðturninn (í enskri útgáfu) þann 1. nóvember 1939: „Allir sem eru Drottins megin munu vera hlutlausir gagnvart stríðandi þjóðum og styðja algerlega Guðvaldinn mikla [Jehóva] og konung hans [Jesú Krist].“ Staðreyndir sýna að vottar Jehóva hafa meðal allra þjóða og undir öllum kringumstæðum haldið sér við þessa afstöðu. Þeir hafa ekki leyft sundrandi stjórnmálum og styrjöldum að rjúfa sín alþjóðlegu bræðrabönd sem dýrkendur Jehóva. — Jes. 2:3, 4; samanber 2. Korintubréf 10:3, 4.
14. (a) Hvað annað hafa vottar Jehóva neitað að gera vegna hlutleysis síns? (b) Hvernig skýra þeir það?
14 Séu sögulegar heimildir skoðaðar kemur í ljós að vottar Jehóva hafa ekki aðeins neitað að klæðast búningi hermanna og bera vopn, heldur hafa þeir líka síðastliðna hálfa öld eða lengur neitað að gegna innan hers störfum sem ekki krefjast þátttöku í bardögum eða að gegna einhverjum öðrum störfum sem koma áttu í stað herþjónustu. Hvers vegna? Vegna þess að þeir hafa rannsakað kröfur Guðs og síðan tekið persónulega ákvörðun í samræmi við samvisku sína. Enginn segir þeim hvað þeir eigi að gera. Þeir standa ekki heldur í vegi fyrir því sem aðrir kjósa að gera. Þegar vottar Jehóva hafa verið beðnir að skýra afstöðu sína hafa þeir hins vegar gert kunnugt að þeir hafi vígt sig Jehóva og sé skylt að nota líkama sinn í þjónustu hans. Þeir geti því ekki gefið hann á vald jarðneskum húsbændum sem breyta gegn tilgangi Guðs. — Rómv. 6:12-14; 12:1, 2; Míka 4:3.
15. (a) Hvað hafa vottar Jehóva mátt þola vegna þess að þeir halda sér aðgreindum frá heiminum? (b) Hvernig hafa kristnar meginreglur verið þeim til leiðsagnar, jafnvel í fangelsi?
15 Afleiðingin hefur orðið sú sem Jesús sagði: „Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum.“ (Jóh. 15:19) Margir vottar Jehóva hafa verið hnepptir í fangelsi fyrir að vilja ekki láta af kristnu hlutleysi sínu. Sumum hefur verið misþyrmt hrottalega, jafnvel svo að þeir hlutu bana af. Aðrir hafa varðveitt hlutleysi sitt í gegnum áralanga fangelsisvist. Bókin Values an Violence in Auschwitz (eftir Önnu Pawelczynska, bls. 89) segir: „Allir vissu að enginn vottur Jehóva [í fangabúðunum] myndi hlýða skipun sem bryti í bága við trúarskoðanir hans og sannfæringu, eða taka þátt í nokkrum verknaði er beindist gegn öðrum manni, jafnvel þótt sá maður væri morðingi og SS-foringi. Á hinn bóginn var hann fús til að vinna sérhvert annað starf, jafnvel hið allra ógeðfelldasta, eftir bestu getu, svo framarlega sem það var siðferðilega hlutlaust í hans augum.“
16. (a) Hvert eru allar þjóðir á hergöngu og hvað forðast vottar Jehóva því vandlega? (b) Hvers vegna er þá svona alvarlegt mál að vera aðgreindur frá heiminum?
16 Vottar Jehóva gera sér ljóst að allar þjóðir eru á hergöngu „til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hin alvalda“ við Harmagedón. Sem sameinuð þjóð hafa vottar Jehóva tekið afstöðu með Messíasarríki hans. Peir gæta þess því vandlega að láta ekki leiða sig út í andstöðu við það ríki. (Opinb. 16:14, 16; 19:11-21) Þeir gera sér ljóst hversu alvarleg eru orð Jesú um að sannir fylgjendur hans ‚heyri ekki heiminum til.‘ Þeir vita að þessi gamli heimur líður brátt undir lok og þeir einir sem í sannleika gera vilja Guðs standa að eilífu. — 1. Jóh. 2:15-17.
Til upprifjunar
• Hvernig sýndi Jesús hvað felst í að „heyra ekki heiminum til“?
• Hvað gefur til kynna viðhorf frumkristinna manna til (1) anda heimsins? (2) veraldlegra valdhafa og skattgreiðslu? (3) herþjónustu?
• Hvernig hafa vottar Jehóva nú á tímum látið hlutleysið sitt í ljós?
[Spurningar]