Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Barátta við andaverur vonskunnar‘

‚Barátta við andaverur vonskunnar‘

8. kafli

‚Barátta við andaverur vonskunnar‘

1. Hvers vegna gefum við starfsemi illra anda sérstakan gaum?

 VERALDLEGA sinnað fólk gerir kannski gys að þeirri hugmynd að til séu illir andar. Það er þó ekkert til að henda gaman að. Hvort sem menn trúa því eða ekki eru allir menn undir þrýstingi vegna starfsemi illra anda. Dýrkendur Jehóva eru engin undantekning. Meira að segja eru þeir helsti skotspónn hinna illu afla. Páll postuli vekur athygli okkar á þessari baráttu og segir: „Baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin [sem eru ekki á tilverusviði holds og blóðs], við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum. (Ef. 6:12) Á okkar dögum er þetta álag þyngra en nokkru sinni fyrr, því að Satan hefur verið úthýst af himnum og hann er ævareiður, því að hann veit að hann hefur nauman tíma. — Opinb. 12:12.

2. Hvernig getum við sigrað í baráttunni við ofurmannleg öfl?

2 Hvernig getur nokkur maður hugsanlega sigrað í baráttu við ofurmannlegar andaverur? Einungis með því að reiða sig fullkomlega á Jehóva. Við verðum að hlusta á hann og hlýða orði hans. Ef við gerum það er okkur hlíft við því líkamlega, siðferðilega, tilfinningalega og hugarfarslega tjóni sem er hlutskipti þeirra er Satan ræður yfir. — Ef. 6:11; Jak. 4:7.

Heimsdrottnar í himingeimnum

3. Gegn hverju og hverjum berst Satan hatrammlega?

3 Jehóva lýsir á lifandi máli ástandinu í heiminum eins og hann sér það frá sinni háu sjónarhæð á himni. Hann gaf Jóhannesi postula sýn þar sem Satan birtist í gervi ‚mikils, rauðs dreka‘ sem var reiðubúinn, ef hann gæti, að svelgja í sig Messíasarríki Guðs jafnskjótt og það fæddist á himnum árið 1914. Þegar það mistókst skeytti Satan skapi sínu á sýnilegum fulltrúum þessa ríkis, viðbótarsæði ‚konu‘ Guðs, með flóðbylgju illskeyttrar andstöðu. — Opinb. 12:3, 4, 13, 17.

4. (a) Hvaðan segir Biblían vera komið vald hinna jarðneska stjórna? (b) Til hvers er nú verið að safna öllum pólitískum valdhöfum, og hver safnar þeim?

4 Í þessari opinberun var Jóhannesi líka sýnt hvaðan stjórnum manna er vald sitt komið. Honum var sýnt samsett villidýr með sjö höfuð og tíu horn, skepna sem fór með vald „yfir sérhverri kynkvísl og lýð, tungu og þjóð.“ Það táknar ekki aðeins einhverja eina stjorn heldur alheimsstjórnmálakerfið. Jóhannesi var sagt að „drekinn,“ Satan djöfullinn, hafi gefið því „mátt sinn og hásæti sitt og vald mikið.“ (Opinb. 13:1, 2, 7; samanber Lúkas 4:5, 6.) Þótt sumir hinna pólitísku valdhafa þykist trúaðir menn vill ekkert þeirra ríkja, sem myndar ‚dýrið,‘ beygja sig undir drottinvald Jehóva og skipaðan konung hans, Jesú Krist. Þau ríghalda öll í sitt eigið fullveldi. Eins og opinberunin sýnir eru nú ‚óhreinir andar‘ að safna þeim öllum saman „til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda“ við Harmagedón. (Opinb. 16:13, 14, 16) Eins og Páll postuli skrifaði eru ‚heimsdrottnarnir‘ ekki smáir menn heldur „andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ (Ef. 6:12) Allir sem vilja sýna sig sanna dýrkendur Jehóva verða að skilja til fullnustu hvað í þessu felst.

5. Hvers vegna þurfum við að gæta okkar sérstaklega til að láta ekki tæla okkur til að styðja kerfi Satans?

5 Dag hvern verður líf okkar fyrir áhrifum af baráttu og deilum sem sá sundrung meðal manna. Algengt er að menn taki afstöðu, í orði eða á annan hátt, með þeirri þjóð, ættflokki, tungumálahópi eða þjóðfélagsstétt sem þeir tilheyra. Jafnvel þótt deilan nái ekki beint til þess hluta þjóðfélagsins, sem þeir tilheyra, standa þeir oft með öðrum aðila deilunnar. En óháð deiluefninu, óháð þeim manni eða málstað sem þeir aðhyllast, hvað eru þeir í rauninni að styðja? Biblían segir berlega að ‚allur heimurinn sé á valdi hins vonda.‘ (1. Jóh. 5:19) Hvernig er þá hægt að komast hjá því að láta afvegaleiða sig með mannkyninu í heild? Aðeins með því að styðja Guðsríki af öllum mætti og gæta fullkomins hlutleysis í deilum stríðandi afla í heiminum. — Jóh. 17: 15, 16.

Slæg vélabrögð hins vonda

6, 7. (a) Hver er, samkvæmt 2. Mósebók 9:15, 16, ástæðan fyrir því að Jehóva leyfir tilvist illskunnar um hríð? (b) Hvernig birtist máttur Jehóva og hvernig var nafn hans kunngert á dögum Faraós? (c) Hverjar verða því afleiðingarnar þegar hin núverandi vonda heimsskipan líður undir lok?

6 Á öllum tímum sögunnar hefur Satan beitt ofsóknum, sem birst hafa í orðum og ofbeldi, í því skyni að snúa mönnum burt frá sannri guðsdýrkun. En hann hefur líka beitt lævísari aðferðum og vélabrögðum.

7 Á hugvitsamlegan hátt hefur hann haldið stórum hluta mannkyns í myrkri falskra trúarbragða, og látið þá sem viljað hafa halda að þeir væru að þjóna Guði. Þeir sem ekki bera ósvikinn kærleika til sannleikans hrífast gjarnan af dulúðlegum trúarathöfnum þar sem spilað er á tilfinningar manna, eða máttarverkum sem unnin eru í nafni þeirrar trúar. (2. Þess. 2:9, 10) En við erum vöruð við því að jafnvel meðal þeirra sem hafa átt hlut í sannri guðsdýrkun „muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.“ (1. Tím. 4:1) Hvernig getur það gerst?

8. Hvað annað hvetur Páll okkur til að íhuga?

8 Með slægð höfðar djöfullin til veikleika hvers manns. Hefur ótti við menn enn tök á honum? Ef svo er gæti hann látið undan þrýstingi frá ættingjum eða nágrönnum til að taka þátt í athöfnum sem eiga sér uppruna í falstrúarbrögðum. Er hann stoltur? Þá gæti hann móðgast þegar honum eru gefnar leiðbeiningar eða aðrir fallast ekki á þær hugmyndir sem hann aðhyllist. (Orðskv. 29:25; 15:10; 1. Tím. 6:3, 4) Er þátttaka hans í þjónustunni á akrinum ekki sprottin af kærleika? Í stað þess að leiðrétta skoðanir sínar eftir fordæmi Krists getur honum hætt til að vilja hlusta á þá sem ‚kitla eyrun‘ með því að segja að nóg sé að lesa Biblíuna og vera „góð manneskja.“ (2. Tím. 4:3) Það skiptir Satan engu máli hvort hann gengur í annað trúfélag eða heldur sér við sinn eigin, sérstaka trárskilning, svo lengi sem hann tilbiður ekki Jehóva á þann hátt sem hann gefur fyrirmæli um í gegnum orð sitt og skipulag.

9. (a) Hver eru „ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar“? (b) Hvers vegna hefur Jehóva sýnt mikið langlyndi þrátt fyrir fjandskap þeirra, og hvernig mun það endanlega vera til góðs þeim sem elska hann?

9 Satan lokkar fólk einnig kænlega til að fullnægja eðlilegum löngunum á rangan hátt. Það hefur hann gert í sambandi við kynferðislegar langanir. Margt manna í heiminum hefur hafnað siðalögum Biblíunnar og lítur á kynlíf milli ógiftra einstaklinga sem lögmæta skemmtun eða leið til að sýna að þeir hafi náð fullum þroska. Og hvað um þá sem eru í hjónabandi? Þegar upp koma erfiðleikar í hjónabandi hjá veraldlegu fólki er ekki óvenjulegt að það fái skilnað og giftist á ný, eða hreinlega slíti samvistum og taki upp sambúð við einhvern annan. Þegar við horfum á þessa lífshætti, finnst okkur þá að við förum á mis við eitthvað, að hinn kristni lífsvegur sé of þröngur? Með slægð reynir Satan að fá fólk til að hugsa að Jehóva sé að meina því um eitthvað gott. Hann hvetur okkur til að hugsa um þá nautn sem við getum fengið núna — ekki um langtímaáhrif slíkrar breytni á sjálfa okkur og aðra, og allra síst á samband okkar við Jehóva og son hans. — Gal. 6:7, 8; 1. Kor. 6:9, 10.

10. Með hvaða aðferðum reynir Satan að breyta viðhorfum okkar til ofbeldis?

10 Löngunin í skemmtun er önnur eðlileg þrá. Heilnæm skemmtun getur hresst okkur líkamlega, hugarfarslega og tilfinningalega. En hver eru viðbrögð okkar þegar Satan reynir með slægð að nota þær stundir, þegar við slökum á, til að gera hugsun okkar fjarlæga Guði? Við vitum til dæmis að Jehóva hatar þá sem elska ofbeldi. (Sálm. 11:5) En hvað gerum við þegar sýnt er ofbeldi í sjónvarpi eða kvikmyndum? Sitjum við aðgerðarlaus og látum mata okkur á því? Hvað gerum við þegar sýnt er ofbeldi í nafni íþrótta? Tökum við það þá gott og gilt, hrópum meira að segja hvatningarorð til þátttakenda? — Samanber 1. Mósebók 6:13.

11. Á hvaða hátt gæti sá sem þekkir sannleikann um spíritisma gengið í gildru ef hann gætir sín ekki?

11 Okkur er líka ljóst að þeir sem leggja stund á spíritisma í einhverri mynd — svo sem spásagnir, galdur eða reyna að hafa samband við hina dánu — eru ‚Jehóva andstyggilegir.‘ Við ættum ekki að láta okkur til hugar koma að leita til andamiðla, og myndum alls ekki bjóða þeim inn á heimili okkar til að stunda djöfladýrkun sína. En myndum við hlusta á þá og horfa hugfangin ef þeir birtust á sjónvarpsskánum? Sjálfsagt myndum við aldrei leita meðferðar hjá galdralækni, en gæti okkur komið til hugar að setja skeifu yfir dyr með það í huga að það geti á einhvern hátt verndað íbúa hússins? Eða vitandi það að Biblían fordæmir það að ‚binda aðra með gjörningum,‘ myndum við þá leyfa dávaldi að ná tökum á huga okkar, jafnvel um skamma stund? — 5. Mós. 18:10-12, NW; Gal. 5:19-21.

12. (a) Hvernig er tónlist notuð til að koma inn hjá okkur hugmyndum sem við vitum að eru rangar? (b) Hvernig gæti klæðnaður, hártíska eða talsmáti gefið til kynna aðdáun á þeim sem eru Jehóva vanþóknanlegir? (c) Hvers er krafist af okkur til að falla ekki fyrir klækjum Satans?

12 Við höfum lesið í Ritningunni að ‚frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd eigi ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal okkar.‘ (Ef. 5:3-5) En hvað gerum við ef slíkt er á snjallan hátt tengt fallegri laglínu eða grípandi og krefjandi takti? Gætum við þá, jafnvel óafvitandi, farið að endurtaka ljóðlínur sem lofsyngja kynlíf án hjónabands, neyslu fíkniefna og sitthvað fleira? Og þótt við vitum að við eigum ekki að líkja eftir lífsháttum þeirra sem stunda slíkt, höfum við þá samt tilhneigingu til að líkjast þeim í klæðaburði, hárgreiðslu eða tali? Satan er sannarlega slóttugur! Aðferðir hans til að tæla menn til að samlaga sig spilltri hugsun hans sjálfs eru svo sannarlega lævísar! (2. Kor. 4:3, 4) Við verðum að forðast að láta berast með straumnum, til að við verðum ekki fórnarlömb hinna kænlegu vélabragða hans. Við verðum að hafa í huga hverjir eru ‚heimsdrottnar þessa myrkurs‘ og berjast af þrótti gegn áhrifum þeirra. — Ef. 6:12; 1. Pét. 5:8.

Búnir til sigurs

13. Hvernig getur sérhvert okkar sigrað þann heim sem Satan stjórnar, þrátt fyrir ófullkomleika okkar?

13 Fyrir dauða sinn sagði Jesús við postula sína: „Verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ Þeir gætu því líka gengið með sigur af hólmi; og liðlega sex áratugum síðar skrifaði Jóhannes postuli: „Hver er sá, sem sigrar heiminn, nema sá sem trúir, að Jesús sé sonur Guðs?“ (Jóh. 16:33; 1. Jóh. 5:5) Slík trú birtist í því að við hlýðum boðum Jesú og reiðum okkur á orð Guðs eins og hann gerði. Hvað annað er nauðsynlegt? Að við höldum nánum tengslum við söfnuðinn sem hann er höfuð yfir. Þegar okkur verða á mistök verðum við í einlægni að iðrast og leita fyrirgefningar Guðs á grundvelli fórnar Jesú. Á þann hátt getum við líka gengið með sigur af hólmi, þrátt fyrir ófullkomleika okkar.

14. (a) Lestu Efesusbréfið 6:13-18. (b) Ræddu kosti einstakra hluta hins andlega herklæðnaðar með því að nota spurningarnar og ritningarstaðina?

14 Til að vera sigursæl þurfum við að klæðast „alvæpni Guðs“ og ekki láta neitt vanta. Flettu upp í Efesusbréfinu 6:13-18 í Biblíunni og lestu lýsinguna á þessu alvæpni. Síðan skalt þú, með því að svara spurningunum hér á eftir, íhuga hvernig þú getur notið góðs af þeirri vernd sem hin ýmsu vopn og verjur veita.

 „Gyrtir sannleika um lendar yðar.“

 Enda þótt við þekkjum sannleikann, hvernig getur það verndað okkur að nema reglulega, hugleiða sannindi Biblíunnar og sækja samkomur? (Fil. 3:1; 4:8, 9; 1. Kor. 10:12, 13; 2. Kor. 13:5; 1. Pét. 1:13; Kingdom Interlinear)

 ‚Brynja réttlætisins.‘

 Mælikvarða hvers á réttlæti er um að ræða? (Opinb. 15:3)

 Sýndu fram á með dæmi hvernig mikið andlegt tjón getur hlotist af því að óhlýðnast boðum Jehóva af þeim orsökum að vantað hefur að rækta ást á vegum hans. (Sjá 1. Samúelsbók 15:22, 23; 5. Mós. 7:3, 4.)

 „Skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins.“

 Hvernig er það vernd að halda fótum okkar uppteknum af að bera okkur til manna sem við getum talað við um friðarráðstöfun Guðs? (Rómv. 10:15; Sálm. 73:2, 3; 1. Tím. 5:13)

 ‚Skjöldur trúarinnar.‘

 Ef trú okkar á sér traustan grunn, hvernig munum við þá bregðast við ef reynt er að fá okkur til að efast eða óttast? (Samanber 2. Tímóteusarbréf 1:12; 2. Konungabók 6:15-17.)

 ‚Hjálmur hjálpræðisins.‘

 Hvernig hjálpar vonin um hjálpræði okkur að forðast óþarfar áhyggjur af efnislegum eigum? (1. Tím. 6:7-10, 19)

 ‚Sverð andans‘

 Hvað ættum við alltaf að treysta á til að berjast gegn árásum á andlegt hugarfar okkar eða annarra? (Sálm. 119:98; Orðskv. 3:5, 6; samanber Matteus 4:3, 4.)

 Hvað annað, sem getið er í Efesusbréfinu 6:18, 19, er nauðsynlegt til að vel gangi í andlegum hernaði okkar? Hve oft á að beita því? Í þágu hverra?

15. (a) Er það einungis persónulegur, andlegur hernaður sem við öll heyjum? (b) Hvernig getum við sótt á í baráttunni?

15 Sem kristnir hermenn erum við hluti af stórum her sem heyr andlegan hernað. Ef við erum árvökul og notum til hins ýtrasta alvæpni Guðs munum við ekki falla í valinn. Þess í stað munum við vera styrkur og hjálp samþjónum okkar. Við munum vera reiðubúin og óðfús að leggja til atlögu, að útbreiða fagnaðarerindið um Messíasarríki Guðs, stjórnina sem Satan berst gegn af svo miklum ofsa.

Til upprifjunar

• Hvers vegna leitast vottar Jehóva við að halda sér algerlega hlutlausum gagnvart deilum þjóða eða hópa þessa heims?

• Nefndu dæmi um hin slægu vélabrögð sem Satan beitir til að fella kristinn mann?

• Hvernig vernda herklæðin frá Guði okkur í þýðingarmiklum atriðum í þessum andlega hernaði?

[Spurningar]