Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Deilan sem öll sköpunin er aðili að

Deilan sem öll sköpunin er aðili að

6. kafli

Deilan sem öll sköpunin er aðili að

1. (a) Hvaða deilu kveikti Satan í Eden? (b) Hvernig er sú deila gefin í skyn í því sem hann sagði?

 ÞEGAR uppreisnin braust út í Eden kom upp alvarleg deila sem varðar alla sköpunina. Satan kom að máli við Evu og gaf í skyn að henni og manni hennar, Adam, væri meinað um hluti sem þeim væru nauðsynlegir. Hann spurði: „Er það satt, að Guð hafi sagt: ‚Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum?‘“ Eva svaraði því til að Guð hefði einungis sagt um ávöxt eins trés að þau ‚mættu ekki eta og ekki snerta hann, ella myndu þau deyja.‘ Þá sakaði Satan Jehóva opinskátt um ósannindi, og sagði að líf hvorugs þeirra væri háð hlýðni við Guð. Hann fullyrti að Guð meinaði sköpunarverum sínum að njóta vissra gæða — hæfileikans til að setja sér sína eigin lífsstaðla. „Vissulega munuð þið ekki deyja!“ fullyrti Satan. „En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“ (1. Mós. 3:1-5) Satan fékk Evu til að trúa að hún yrði betur sett ef hún tæki sjálfstæðar ákvarðanir. Með því var hann í reynd að véfengja rétt Guðs til að stjórna og stjórnarhætti hans. Það deilumál, sem upp kom, snerist í rauninni um drottinvaldið yfir alheiminum.

2. Hvað hefði getað verndað fyrstu hjónin?

2 Kærleikur til Jehóva hefði getað verndað Evu. Virðing fyrir yfirvaldi eiginmannsins hefði líka getað haldið henni frá rangri breytni. En hún hugsaði einungis um það sem henni virtist hún geta grætt þegar í stað. Hið forboðna varð skyndilega eftirsóknarvert í augum hennar. Algerlega blekkt af röksemdum Satans braut hún lög Guðs. Síðan fékk hún Adam til að fylgja sér. Hann lét að vísu ekki blekkjast af lygum Satans en sýndi samt sem áður stórkostlega lítilsvirðingu fyrir kærleika Guðs. Hann virti að vettugi yfirvald Jehóva og kaus að ganga í lið með uppreisnargjarnri konu sinni. — 1. Mós. 3:6; 1. Tím. 2:13, 14.

3. (a) Hvað annað deilumál er nátengt árás Satans á drottinvald Jehóva? (b) Hverja snertir það?

3 Árás Satans á drottinvald Jehóva lauk ekki með atburðinum í Eden. Eftir að hafa náð að því er virtist góðum árangri þar lét hann kné fylgja kviði og dró í efa hollustu annarra við Jehóva. Þar með hleypti hann af stað öðru, nátengdu deilumáli. Ögranir hans teygðu sig þannig bæði til afkomenda Adams og allra andasona Guðs, jafnvel hins ástkæra, frumgetna sonar Jehóva. Á dögum Jobs hélt Satan því fram að menn þjónuðu Jehóva ekki af því að þeir elskuðu hann og stjórnarfar hans heldur af eigingjörnum hvötum. Hann fullyrti að menn myndu allir láta undan eigingjörnum löngunum ef á þá reyndi. Hafði hann rétt fyrir sér? — Job. 1:6-12; 2:1-6; Opinb. 12:10.

Viðbrögð þeirra

4. Hvers vegna hafa margir ekki stutt drottinvald Jehóva?

4 Jehóva útilokaði ekki þann möguleika að fleiri myndu ganga í lið með Satan í uppreisn hans. Þegar hann birti dóm sinn í Eden nefndi hann berum orðum þá sem verða myndu ‚sæði höggormsins.‘ (1. Mós. 3:15) Farísearnir, sem brugguðu Jesú banaráð, og Júdas Ískaríot, sem sveik hann, voru í þeim hópi. Þeim urðu ekki einfaldlega á óviljandi mistök. Þeir vissu hvað var rétt en snerust samt sem áður vísvitandi gegn Jehóva og þjónum hans. Óteljandi fjöldi manna hefur hins vegar sökum fáfræði ekki lifað eftir kröfum Jehóva. — Post. 17:29, 30.

5. (a) Hvernig hafa þeir sem hafa verið Jehóva drottinhollir litið á orð hans? (b) Hvernig sannaði Nói hollustu sína og hvernig getum við notið góðs af fordæmi hans?

5 Ólíkt þeim hafa líka verið til trúaðir karlar og konur sem hafa uppfrætt sig um skapara sinn og sýnt honum hollustu sem æðsta stjórnanda. Þetta fólk trúði Guði. Það vissi að líf þess var undir því komið að það hlustaði á hann og hlýddi. Nói var slíkur maður. Þegar því Guð sagði við Nóa: „Endir alls holds er kominn fyrir minni augsýn . . . Gjör þú þér örk,“ hlýddi hann fyrirmælum Jehóva. Samtíðarmenn Nóa létu sem vind um eyru þjóta þær aðvaranir sem þeir fengu og héldu áfram að lifa sínu daglega lífi eins og ekkert óvenjulegt væri í vændum. En Nói smíðaði rísastóra örk og var önnum kafinn að prédika réttláta vegu Jehóva fyrir öðrum. Frásagan segir: „Og Nói gjörði svo. Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.“ — 1. Mós. 6:13-22; sjá einnig Hebreabréfið 11:7 og 2. Pétursbréf 2:5.

6. (a) Hvað annað hefur einkennt ráðvanda menn? (b) Hvernig birtust þessir eiginleikar hjá Söru og á hvaða hátt getum við notið góðs af fordæmi hennar?

6 Djúp virðing fyrir yfirvaldi, ásamt innilegum kærleika til Jehóva, hefur líka verið áberandi meðal ráðvandra manna. Þeir hafa hvorki verið eins og Eva, sem hljóp á undan manni sínum í fljótræði, né Adam sem virti lög Jehóva að vettugi. Sara, kona Abrahams, hafði þessa góðu eiginleika til að bera. Hún kallaði Abraham „herra,“ ekki aðeins í orði heldur líka í hjarta sér. Auk þess elskaði hún Jehóva og var trúuð mjög. Ásamt Abraham vænti hún „þeirrar borgar [Guðsríkis], sem hefur traustan grunn, þeirrar sem Guð er smiður að og byggingarmeistari.“ — 1. Pét. 3:5, 6; Hebr. 11:10-16.

7. (a) Undir hvaða kringumstæðum hélt Móse drottinvaldi Jehóva á lofti? (b) Hvernig getur fordæmi hans verið okkur til gagns?

7 Um 430 árum eftir að Abraham yfirgaf heimaland sitt hélt Móse á lofti drottinvaldi Jehóva augliti til auglitis við Faraó Egyptalands. Ekki er svo að skilja að Móse hafi verið sjálfbirgingslegur; nei, hann efaðist um hæfni sína til að flytja málið nógu vel. En hann hlýddi Jehóva. Með stuðningi Jehóva og hjálp bróður síns, Arons, flutti hann Faraó orð Jehóva oftsinnis. Faraó var þrjóskur. Jafnvel sumir af sonum Ísraels gagnrýndu Móse harðlega. Þrátt fyrir það hélt Móse drottinhollur áfram að gera allt sem Jehóva bauð honum, og hann var notaður til að frelsa Ísrael úr Egyptalandi. — 2. Mós. 7:6; 12:50, 51.

8. (a) Hvað sýnir að hollusta við Jehóva felur í sér meira en að gera aðeins það sem hann hefur látið skrá á blað? (b) Hvernig getur slík hollusta hjálpað okkur að fylgja 1. Jóhannesarbréfi 2:15?

8 Þeir sem voru drottinhollir Jehóva voru ekki þeirrar skoðunar að þess eins væri krafist að fara eftir bókstaf laganna, hlýða aðeins því sem Guð hafði látið skrá á blað. Þegar kona Pótífars reyndi að tæla Jósef til að eiga við sig siðlaus mök var enn ekkert skriflegt lagaboð til frá Guði sem beinlínis bannaði hjúskaparbrot. Það sem Jósef vissi um hjónabandið og stofnun þess í Eden nægði honum þó til að vita að kynmök við konu annars manns væru Guði vanþóknanleg. Jósef hafði ekki áhuga á því að prófa hversu langt Guð leyfði honum að ganga í að líkjast Egyptum. Hann gekk vegu Jehóva með því að hugleiða samskipti Guðs við mannkynið, og fylgdi síðan samviskusamlega því sem hann skildi vera vilja Guðs. — 1. Mós. 39:7-12; samanber Sálm 77:12, 13.

9. Hvernig hefur aftur og aftur verið sannað að ásakanir djöfulsins á dögum Jobs eru ósannar?

9 Þeir sem í sannleika þekkja Jehóva verða honum ekki fráhverfir jafnvel þótt þeir séu prófreyndir til hins ýtrasta. Satan staðhæfði að ef Job yrði rændur eigum sínum eða misþyrmt myndi jafnvel hann, sem Jehóva hafði farið svo lofsamlegum orðum um, snúa jafnvel þótt hann vissi ekki hvernig stæði á allri þeirri ógæfu sem steyptist yfir hann. (Job. 2:3, 9, 10) Satan var enn að reyna að sanna fullyrðingar sínar þegar hann kom ævareiðum konungi Babýlonar til að hóta þrem ungum Hebreum dauða í eldsofni ef þeir féllu ekki fram og tilbæðu líkneski sem hann hafði látið reisa. Þar eð þeir voru tilneyddir að velja milli skipunar konungs og laga Jehóva gegn skurðgoðadýrkun létu þeir skýrt og ákveðið í ljós að þeir þjónuðu Jehóva og að hann væri þeirra æðsti drottinvaldur. Trúfesti við Guð var þeim dýrmætari en lífið. — Dan. 3:14-18.

10. Hvernig getum við, ófullkomnir menn, sannað að við séum Jehóva drottinhollir?

10 Ber okkur að skilja þetta svo að sá sem vill vera drottinhollur Jehóva verði að vera fullkominn, og að sá sem verða á mistök hafi brugðist algerlega? Hvergi nærri! Biblían greinir sérstaklega frá nokkrum dæmum um að Móse hafi orðið á mistök. Þótt það ylli vanþóknun Jehóva var Móse ekki vísað á bug. Þótt postularnir væru til fyrirmyndar á marga vegu höfðu þeir sína veikleika. Hollusta útheimtir stefnufasta hlýðni sem á rætur sínar í hjartanu. Jehóva tekur samt sem áður tillit til hins meðfædda ófullkomleika okkar og hefur velþóknun á okkur ef við virðum ekki af ásetningi vilja hans að vettugi á nokkurn hátt. Ef einhver veikleiki kemur okkur til að gerast sek um ranga breytni er þýðingarmikið að iðrast í einlægni og taka ekki að iðka hið ranga. Með þeim hætti sýnum við að við elskum í raun og sannleika það sem Jehóva segir vera gott og hötum það sem hann segir illt. Vegna trúar á friðþægingarmátt fórnar Jesú getum við staðið hrein frammi fyrir Guði. — Amos 5:15; Post. 3:19; Hebr. 9:14.

11. (a) Hvaða maður súndi fullkomna hollustu og hvað sannaði það? (b) Hvernig er það sem hann gerði okkur til hjálpar?

11 Getur hugsast að fullkomin hollusta við Guð sé mönnum hreinlega ofviða? Um 4000 ára skeið var svarið við þeirri spurningu ‚heilagur leyndardómur.‘ (1. Tím. 3:16) Þótt Adam væri skapaður fullkominn gaf hann ekki fullkomið fordæmi um guðrækni og hollustu. Hver gat gert það? Vissulega enginn af syndugum afkomendum hans. Jesús Kristur var eini maðurinn sem gat það. Það sem Jesús gerði sannaði að Adam, sem bjó við hagstæðari skilyrði, hefði getað verið Guði fullkomlega ráðvandur ef hann hefði viljað. Sköpunarverk Guðs var ekki gallað. Jesús Kristur er því fordæmið sem við reynum að líkjast með því bæði að hlýða lögum Jehóva og sýna honum, drottinvaldi heimsins, persónulega hollustu.

Hvernig svörum við persónulega?

12. Hvers vegna verðum við stöðugt að gefa gætur að viðhorfum okkar til drottinvalds Jehóva?

12 Eitt og sérhvert okkar þarf að horfast í augu við hið mikla deilumál. Við getum ekki skotið okkur undan því. Ef við höfum opinberlega lýst yfir að við stöndum Jehóva megin verðum við um leið skotspónn Satans. Hann beitir okkur þrýstingi úr öllum áttum, og mun halda því áfram allt þar til þessi illa heimsskipan líður undir lok. Við megum aldrei slaka á verðinum. (1. Pét. 5:8) Breytni okkar sýnir hvorum megin við stöndum gagnvart deilumálinu mikla.

13. (a) Hver er uppruni lyga og þjófnaðar og hvernig ber okkur því að líta á slíkt? (b) Við lok þessarar greinar eru nokkrar spurningar um aðstæður sem freista fólks stundum til að stela. Svaraðu þessum spurningum lið fyrir lið.

13 Við getum ekki leyft okkur að líta á óhollustu sem lítilvægt mál, einfaldlega vegna þess að hún er algeng í heiminum. Það að varðveita ráðvendni útheimtir að við fylgjum réttlátum vegum Jehóva í sérhverju málefni lífsins. Íhugaðu eftirfarandi dæmi:

 (1) Satan beitti lygi til að koma fyrstu foreldrum okkar til að syndga. Hann varð „lyginnar faðir.“ (Jóh. 8:44)

 Undir hvaða kringumstæðum segja börn og unglingar foreldrum sínum stundum ósatt? Hvers vegna er þýðingarmikið fyrir kristið æskufólk að forðast það? (Orðskv. 6:16-19)

 Hvaða siðir viðskiptaheimsins gætu tengt mann ‚föður lyginnar‘ í stað Guði sannleikans? (Míka 6:11, 12)

 Er rangt af okkur að segja ósatt til að líta betur út í augum annarra, ef það skaðar ekki aðra? (Sálm. 119:163; samanber Postulasöguna 5:1-11.)

 Hvers vegna er þýðingarmikið, ef einhver hefur drýgt alvarlega sýnd, að reyna ekki að breiða yfir hana með því að grípa til ósanninda? (Orðskv. 28:13)

 (2) Þegar Eva og síðan Adam fóru eftir hvatningarorðum Satans um að ákveða sjálf hvað væri gott og illt, var þeirra fyrsta verk að taka það sem þau ekki áttu. Þáu stálu.

 Er þjófnaður réttlætanlegur í neyð eða ef sá sem stolið er frá á nógu mikið? (Orðskv. 6:30, 31; 1. Pét. 4:15)

 Er síður rangt að stela ef það er algengt þar sem við búum eða nógu litlu er stolið? (Rómv. 12:2; Ef. 4:28; Lúk. 16:10)

14, 15. (a) Hvaða prófraun þarf allt mannkynið að ganga í gegnum við lok þúsundáraríkis Krists? (b) Hvernig getur það sem við gerum núna haft áhrif á örlög okkar þá?

14 Í þúsundáraríki Krists verða Satan og illir andar hans fjötraðir í undirdjúpinu og ófærir um að hafa áhrif á mannkynið. Hvílíkur léttir verður það! Að þúsundáraríkinu loknu verður þeim hins vegar sleppt lausum um stuttan tíma. Satan og þeir sem fylgja honum munu beita þrýstingi ‚hina heilögu,‘ þann hluta hins endurreista mannkyns sem varðveitir ráðvendni sína. Hann mun ganga fram eins og í stríði gegn ‚borginni elskuðu,‘ hinni himnesku nýju Jerúsalem, með því að reyna að þurrka út það réttlæti sem komið hefur verið á hér á jörð. — Opinb. 20:7-10.

15 Mjög líklegt er að Satan muni, eins og fyrrum, beita lygum og blekkingum til að tæla menn til að sýna Jehóva óhollustu, svo og með því að höfða til stolts og eigingirni. Hver verða viðbrögð okkar ef við njótum þeirra sérréttinda að vera þá lífs? Hvar mun hjarta okkar vera gagnvart deilumálinu mikla? Þar eð allt mannkynið verður þá fullkomið mun sérhver óhollusta vera yfirveguð og hafa í för með sér eilífa tortímingu. Til að við getum reynst drottinholl þá er lífsnauðsynlegt að við temjum okkur núna að gera með fúsu og jákvæðu geði hvað sem Jehóva mælir fyrir um, annaðhvort í gegnum orð sitt eða skipulag! Ef við gerum það erum við að sýna honum ósvikna hollustu sem drottinvaldi alheimsins.

Til upprifjunar

• Hvert er hið mikla deilumál sem öll sköpunin þarf að taka afsöðu til? Hvers vegna snertir hún okkur líka?

• Á hvaða sérstakan hátt sýndi það fólk, sem nefnt er á bls. 49, ráðvendni sína við Jehóva?

• Hvers vegna er mikilvægt að við gætum þess að heiðra Jehóva dag hvern með breytni okkar?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 49]

Þau studdu drottinvald Jehóva

Nói

Sara

Móse

Jósef

Job

Hvað getum við lært af fordæmi þeirra?