Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eining í tilbeiðslu — hvað ætti hún að þýða fyrir þig?

Eining í tilbeiðslu — hvað ætti hún að þýða fyrir þig?

1. kafli

Eining í tilbeiðslu — hvað ætti hún að þýða fyrir þig?

1, 2. (a) Á hvaða grundvelli næst sönn eining nú á dögum? (b) Hvernig lýsir Biblían því sem er að gerast?

 ÚT UM alla jörðina er nú einstæð hreyfing að verki. Fólk af öllum þjóðum, kynþáttum og tungum er að sameinast í einhuga tilbeiðslu. Sú sameining er ekki byggð á einhverri málamiðlun í trúarskoðunum. Hún er ekki fengin með því að láta vera að gagnrýna hátterni sem stríðir gegn orði Guðs. Á hverju byggist þá þessi eining? Á því að þetta fólk, óháð uppruna sínum, kynnist Jehóva sem hinum eina sanna Guði og er fúst til að færa líf sitt til samræmis við réttláta staðla hans. — Samanber Opinberunarbókina 15:3, 4.

2 Hér er um að ræða uppfyllingu spádóms sem spámaðurinn Míka færði í letur fyrir um það bil 2700 árum. Hann skrifaði um ‚hina síðustu daga‘: „Margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall [Jehóva] og til húss Jakóbs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.‘“ (Míka 4:1, 2) * Sérð þú þetta eiga sér stað núna?

3, 4. (a) Í hvaða skilningi eru „þjóðir“ að snúa sér til Jehóva? (b) Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?

3 Engar heilar „þjóðir“ streyma til hins andlega tilbeiðsluhúss Jehóva. Aftur á móti gera einstaklingar af öllum þjóðum það. Þegar þeir kynnast hinum ástríka tilgangi og aðlaðandi persónuleika Jehóva Guðs snertir það hjörtu þeirra. Auðmjúkir leggja þeir sig fram um að fá að vita hvers Guð krefst af þeim. Þeir biðja eins og Davið, maður trúar sem sagði: „Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð.“ — Sálm. 143:10.

4 Tilheyrir þú þeim mikla manngrúa sem dýrkar Jehóva? Bera viðbrögð þín við fenginni fræðslu vitni um að þú viðurkennir í hjarta þér að hún sé frá Jehóva komin? Að hvaða marki ‚gengur þú á hans stigum‘?

Hvernig næst einingin?

5. (a) Í hvaða mæli mun nást eining í tilbeiðslu? (b) Hvers vegna er áríðandi að verða núna tilbiðjandi Jehóva, og hvernig getum við hjálpað öðrum til þess?

5 Sá er tilgangur Jehóva að allar skynsemigæddar sköpunarverur hans séu sameinaðar í tilbeiðslu — að engin láti villast af fölskum kenningum, að eingin fálmi í myrkri um það hver sé hinn raunverulegi tilgangur lífsins. Við þráum heitt þann dag þegar allt sem lifir mun lofa hinn eina sanna Guð! (Sálm. 103:19-22) En áður en það getur orðið þarf Jehóva að hreinsa sköpunarverk sitt af þeim sem hafna meið lítilsvirðingu hinum ástríka konungdómi hans og heimta að fá að spilla lífinu fyrir öðrum. Í miskunn sinni aðvarar hann fyrirfram um hvað hann muni gera. Allir menn alls staðar hafa tækifæri til að breyta lífsstefnu sinni. Því hljómar núna út um alla jörðina þeissi áríðandi hvatning: „Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans. Tilbiðjið þann, sem gjört hefur himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna.“ (Opinb. 14: 6, 7) Hefur þú þegið þetta boð? Ef svo er hefur þú núna þau sérréttindi að vinna með skipulagi Jehóva til að hjálpa öðrum að þiggja það.

6. Á hvaða sviði ættum við að keppa að framförum eftir að hafa lært undirstöðukenningar Biblíunnar?

6 Guð ætlar ekki að leiða inn í skipulag sitt menn sem einfaldlega segjast trúa á Jehóva og að þeir vilji lifa í paradís, en halda samtímis áfram af eigingirni að sinna fyrst og fremst eigin hagsmunum. Hann vill að menn ‚fyllist þekkingu á vilja hans,‘ og sú þekking ætti að endurspeglast í lífi þeirra. (Kól. 1:9, 10) Þeir sem eru þakklátir fyrir að hafa kynnst undirstöðukenningum Biblíunnar vilja sækja fram til kristins þroska. Þeir þrá að kynnast Jehóva náið, að auka og dýpka skilning sinn á orði hans og fylgja því æ betur í lífi sínu. Þeir leitast við að líkjast himneskum föður sínum, endurspegla eiginleika hans og hafa sömu viðhorf og hann. Það fær þá til að leita færis á að taka sem fyllstan þátt í því verki sem hann lætur vinna á jöðinni núna. Gerir þú það? — Ef. 5:1; Hebr. 5:12-6:3; 1. Tím. 4:15.

7. Í hvaða skilningi er sönn eining möguleg núna og hvernig næst hún?

7 Biblían sýnir fram á að þeir sem þjóna Jehóva eiga að vera sameinaðir. (Ef. 4:1-3) Þessi eining er ríkjandi núna, enda þótt við búum í sundruðum heimi og eigum enn í baráttu við ófullkomleika okkar. Jesús bað þess innilega að lærisvenar hans yrðu allir eitt, nytu ósvikinnar einingar. Hvað myndi það hafa í för með sér? Að þeir framar öðrum hefðu gott samband við Jehóva og son hans, svo og að þeir yrðu sameinaðir hver öðrum. (Jóh. 17:20, 21) Þeir hafa nú tileinkað sér þessa einingu með því að hlýða þeim fyrirmælum sem berast frá ‚húsi‘ Jehóva.

Hvað stuðlar að einingu?

8. (a) Hvað þroskum við þegar við notum Biblíuna til að finna svör við spurningum sem snerta okkur? (b) Brjóttu til mergjar þau atriði sem stuðla að kristinni einingu, með því að svara spurningunum hér að ofan.

8 Hér á eftir eru talin upp nokkur mikilvægustu atriðin sem stuðla að einingu. Þegar þú svarar spurningunum, sem fylgja þeim, skalt þú íhuga hvernig hin einstöku atriði hafa áhrif á samband þitt við Jehóva og kristna bræður þína. Að rökhugsa um þessi atriði í ljósi ritningargreinanna, sem vísað er til, mun hjálpa þér að þroska með þér hugsunarhátt og dómgreind Guði að skapi, en það eru eiginleikar sem við öll þurfum á að halda. (Orðskv. 5:1, 2; Fil. 1:9-11) Íhugaðu nú þessi atriði hvert af öðru:

 (1) Við tilbiðjum öll Jehóva og viðurkennum rétt hans til að setja staðla um gott og illt.

 Hvernig myndi Jehóva líta á það ef við af ásetningi virtum að vettugi leiðsögn hans í máli sem okkur virðist litlu skipta? (Lúk. 16:10; samanber Malakí 1:6-8.)

 Hefur það áhrif á aðra ef við hlýðum ekki alltaf boðum Jehóva? (Samanber Rómverjabréfið 5:12; Jósúa 7:20-26; 1. Konungabók 14:16.)

 (2) Hvar sem er í heiminum höfum við orð Guðs til leiðsagnar.

 Hvaða hætta er samfara því að gera einfaldlega það sem okkur „finnst“ rétt, þegar við tökum ákvarðanir? (Jer. 17:9; Orðskv. 14:12)

 Hvað ættum við að gera ef við vitum ekki hvað Biblían ráðleggur í vissu máli? (Orðskv. 2:3-5)

 (3) Við njótum öll góðs af sömu, andlegu fæðunni.

 Hvernig er ástatt meðal þeirra sem ekki kunna að meta ráðstafanir Jehóva til að miðla anlegri fæðu? (Samanber Jesaja 1:3; 9:16; 65:14.)

 (4) Við höfum engan mann sem leiðtoga heldur Jesú Krist, og fyrir hans milligöngu málgumst við Jehóva í tilbeiðslu.

 Hefur eitthvert okkar gilda ástæðu til að ætla að við sem persónur séum öðrum æðri? (Rómv. 3:23, 24; 12:3; Matt. 23:8-10)

 (5) Hvar sem við búum treystum við ríki Guðs sem einustu von mannkynsins.

 Hvernig verndar það okkur gegn sundrung? (Matt. 6:9, 10; Míka 4:3)

 (6) Heilagur andi kallar fram hjá dýrkendum Jehóva eiginleika sem eru nauðsynlegir kristinni einingu.

 Hvernig opnum við anda Guðs leið til að þroska ávöxt sinn með okkur? (Sálm. 1:2; Orðskv. 22:4; Opinb. 3:6; Post. 5:32)

 Hvernig hafa ávextir andans áhrif á samband okkar við Jehóva? Við bræður okkar? (Gal. 5:22, 23)

 (7) Við berum öll ábyrgð á að prédika fagnaðarerindið um ríki Guðs.

 Hvernig hefur ríkuleg þátttaka í þessari prédikun með kristnum bræðrum okkar áhrif á viðhorf okkar til þeirra? (Samanber Kólossubréfið 4:7, 11)

9. Hvaða áhrif hefur það þegar við lifum eftir þessum sannindum?

9 Það er eitt að viðurkenna þessar staðreyndir en annað að lifa samkvæmt þeim. Hið síðarnefnda gerir miklu meiri kröfur til okkar. En þegar við gerum það nálægjumst við Jehóva. Félagsskapur okkar við trúbræður okkar verður okkur líka til styrktar og hressingar. Sálmur 133:1 segir: „Sjá! Hversu gott og yndislegt er það þegar bræður búa saman í einingu!“ (NW) Hefur þú ekki sjálfur fundið fyrir því hversu hressandi það getur verið að komast burt frá heiminum og allri hans eigingirni um stund, og vera viðstaddur samkomur með öðrum sem elska Jehóva heitt?

Forðastu sundrandi áhrif

10. Hvers vegna verðum við að forðast anda sjálfstæðisins?

10 Til að spilla ekki þessari dýrmætu einingu verðum við að forðast hvaðeina sem valdið getur sundrungu. Eitthvert sterkasta sundrungaraflið er andi sjálfstæðisins. Jehóva hjálpar okkur að forðast hann með því að afhjúpa frumkvöðul hans, Satan djöfulinn. Það var hann sem lokkaði Evu til að halda að hún myndi bæta hlutskipti sitt með því að virða að vettugi það sem Guð hafði sagt og taka sínar eigin ákvarðanir. Adam fylgdi henni í þeirri uppreisn. Af því hlaust mikil ógæfa fyrir þau og okkur. (1. Mós. 2:16, 17; 3:1-6, 17-19) Við búum í heimi sem er gagnsýrður þessum sjálfstæðisanda, þannig að okkur ætti ekki að undra að við skulum þurfa að berjast gegn áhrifum hans. Í kærleika sínum hjálpar Jehóva okkur till þess með leiðsögn sem við fáum um það í gegnum skipulag hans.

11. Á hverju má sjá hvort við erum í einlægni að búa okkur undir að lifa í réttlátri, nýrri skipan Guðs?

11 Í gegnum þetta skipulag höfum við lært um hinn stórfenglega tilgang Jehóva að láta hina núverandi skipan víkja fyrir nýjum himnum og nýrri jörð þar sem ‚réttlæti skal búa.‘ (2. Pét. 3:13) Okkur hlýnar um hjartaræturnar þegar við hugsum til þess að brátt muni þessi illi heimur verða horfinn og jörðinni breytt í paradís. En ber lífsmynstur okkar því vitni að við séum í einlægni að búa okkur undir að lifa í heimi þar sem réttlæti mun ríkja? Biblían segir okkur berlega: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins.“ (1. Jóh. 2:15) Að vísu er margt í heiminum sem engu okkar líkar, en mislíkar okkur aðallega það sem stangast á við að við getum notið lífsins þá stundina? Vísum við líka á bug anda heimsins — sjálfstæði hans, óhóflegri umhyggju hans fyrir sjálfum sér? Temjum við okkur í reynd að hlusta á Jehóva og hlýða honum af öllu hjarta, þrátt fyrir að tilhneigingar holdsins geti verið á annan veg? Lífsbreytni okkar öll — óháð því hvar við erum, óháð þvi hvað við gerum — ætti að bera þess merki að hugsanir okkar og hvatir samræmist vilja Guðs. — Orðskv. 3:5, 6.

12. (a) Hvers vegna er mikilvægt að grípa núna tækifærið til að kynnast vegum Jehóva og fylgja þeim í lífi okkar? (b) Hvað þýða þær ritningargreinar, sem vitnað er í hér að ofan, fyrir okkur persónulega?

12 Þegar upp rennur tilsettur tími Jehóva til að eyða þessu illa kerfi og öllum sem elska vegi þess, verður hann ekki seinn á sér. Hann mun ekki draga þá eyðingu á langinn né breyta stöðlum sínum til að rúm sé fyrir þá sem enn halda sig við heiminn, þá sem læra um og stunda vilja Guðs aðeins af hálfu hjarta. Núna þarf að láta hendur standa fram úr ermum! (Lúk. 13:23, 24; 17:32; 21:34-36) Það er því mjög gleðilegt að sjá hinn ‚mikla múg‘ manna sem grípur þetta einstæða tækifæri, leitar með ákefð þeirrar fræðslu sem Jehóva veitir í gegnum hið ástríka skipulag sitt og gengur síðan sameinaður á vegum hans!

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Allar biblíutilvitnanir eru í íslenska útgáfu Biblíunnar frá 1981 nema annað sé tekið fram. Nafn Guðs, Jehóva, er sett inn í texta hennar innan hornklofa þar sem það á að standa samkvæmt frummálunum. Stafirnir NW á eftir biblíutilvísun standa fyrir New World Translation of the Holy Scriptures frá 1984.

TIL UPPRIFJUNAR

Hver er tilgangur Jehóva varðandi tilbeiðslu?

Hvaða framförum ættum við að leitast við að taka eftir að hafa kynnst undirstöðukenningum Biblíunnar?

Hvað getur hver og einn gert til að hin sameinandi atriði, sem við höfum rætt, hafi tilætluð áhrif á líf hans?

[Spurningar]

[Heilsíðumynd á bls.  4]