Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Frelsið sem dýrkendur Jehóva njóta

Frelsið sem dýrkendur Jehóva njóta

5. kafli

Frelsið sem dýrkendur Jehóva njóta

1, 2 (a) Hvers konar frelsi gaf Guð fyrstu mannlegu hjónunum? (b) Nefndu nokkur lög sem réðu hátterni þeirra.

 ÞEGAR Jehóva Guð skapaði fyrstu mannlegu hjónin nutu þau frelsis langt umfram það sem menn njóta nú á dögum. Heimili þeirra var paradís. Engir sjúkdómar vörpuðu skugga á tilveru þeirra. Dauðinn beið þeirra ekki. Virðing fyrir lögum Guðs var þó nauðsynleg til að þau gætu haldið áfram að njóta slíks frelsis.

2 Tæplega hafa öll þessi lög verið látin í ljós með orðum, en Adam og Eva voru þannig úr garði gerð að þeim var eðlilegt að hlýða þeim. Hungur var þeim merki um að þau þyrftu að matast; þorsti að þau þyrftu að drekka. Þegar sólin gekk til viðar var það þeim hvatning til að hvílast og sofa. Auk þessa talaði Jehóva við þau og fól þeim verk að vinna. Í reyndinni var þetta verkefni lagaboð því að það átti að ráða breytni þeirra og verkum. En þetta lagaboð var kærleiksríkt og gagnlegt! Það fól þeim verk að vinna sem myndi veita lífi þeirra fyllingu, opna þeim leið til að beita hæfileikum sínum til hins ýtrasta á heilnæma vegu. Þau áttu að eignast börn, ráða yfir dýrum jarðarinnar og smám saman færa út landamæri paradísar þar til hún næði yfir allan hnöttin. (1. Mós. 1:28; 2:15) Guð íþyngdi þeim ekki með óþörfum smáatriðum. Þau höfðu ágætis svigrúm til að taka sínar eigin ákvarðanir. Var hægt að fara fram á meira?

3. Hvernig hefði Adam getað lært að nota viturlega frelsi sitt til að taka ákvarðanir?

3 Frelsi Adams til að taka ákvarðanir þýddi auðvitað ekki að hver einasta ákvörðun, sem hann tæki, yrði til blessunar, óháð því hver hún væri. Ábyrgð var samfara frelsi hans til að taka ákvarðanir. Hann gat lært af því að hlusta á sinn himneska föður og virða fyrir sér verk hans, og Guð hafði gefið Adam vitsmuni til að nota það sem hann lærði. Með því að Adam var skapaður „eftir Guðs mynd“ var honum eðlilegt að endurspegla eiginleika Guðs þegar hann tæki ákvarðanir. Vissulega myndi hann gæta þess vandlega ef hann kynni í sannleika að meta það sem Guð hafði gert fyrir hann og vildi þóknast honum. — 1. Mós 1:26, 27; samanber Jóhannes 8:29.

4. (a) Rændi eina bannið, sem Guð setti, Adam frelsi sínu? (b) Hvers vegna var það viðeigandi?

4 Til að minna manninn á að hann væri háður skapara sínum og lífgjafa gaf Jehóva honum þetta boð: „Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild, en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ (1. Mós. 2:16, 17) Rændi þetta lagabóð manninn einhverju frelsi? Tvímælalaust ekki. Adam var frjáls til að hlýðnast eða óhlýðnast. Bannið var honum engin byrði. Hann hafði meira en nóg að borða þótt hann snerti ekki þetta eina tré. Hins vegar var það fyllilega við hæfi að hann viðurkenndi að jörðin, sem hann bjó á, tilheyrði Guði, og að Guð, skapari allra hluta, væri réttmætur stjórnandi sköpunarverks síns. — Sálm. 24:1, 10.

5. (a) Hvernig glötuðu Adam og Eva hinu dýrlega frelsi sem þau nutu? (b) Hvað kom í staðinn og hvernig hefur það haft áhrif á okkur?

5 En hvað gerðist? Eigingirni og metnaður kom engli til að blekkja Evu með því að birtast henni sem sannur leiðbeinandi, og fullvissa hana um nokkuð sem gekk þvert á vilja Guðs. Í stað þess að hlýða föður sínum gekk Adam í lið með Evu í yfirtroðslu hennar. Með því að seilast eftir því sem ekki tilheyrði þeim glötuðu Adam og Eva því dýrlega frelsi sem þau höfðu notið. Syndin varð húsbóndi þeirra og, eins og Guð hafði varað við, beið dauðinn þeirra. Og hvað gáfu þau afkomendum sínum í arf? Synd sem birtist í meðfæddri tilhneigingu til rangrar breytni, í veikleikum sem gera fólk næmt fyrir sjúkdómum og hægfara ellihrörnun. Og að síðustu biði þeirra dauðinn. Meðfædd tilhneiging til rangrar breytni, gerð ill verri vegna áhrifa Satans, hefur skapað samfélag þar sem lífið er ótryggt fyrir hvern sem er. Þetta er býsna ólíkt því frelsi sem Guð gaf mannkyninu í byrjun! — Rómv. 5:12; Job 14:1; Opinb. 12:9.

Þar sem frelsi er að finna

6. (a) Hvar er ósvikið frelsi að finna? (b) Hvers konar frelsi talaði Jesús um í Jóhannesi 8:31, 32?

6 Með hliðsjón af ástandi okkar tíma er engin furða að fólk þráir meira frelsi en það býr við. En hvar eða hvernig er hægt að finna ósvikið frelsi? Jesús Kristur sagði: „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ (Jóh. 8:31, 32) Þetta er ekki það takmarkaða frelsi sem menn vonast eftir þegar þeir hafna einum pólitískum stjórnanda eða stjórnarformi og kjósa sér annað. Hér er um að ræða frelsi sem grefst fyrir sjálfar rætur mannlegra vandamála. Jesús var að ræða um frelsi undan synd og þrælkun syndarinnar. (Sjá Jóhannes 8:24, 34-36) Að gerast sannur lærisveinn Jesú Krists hefur því í för með sér merkjanlegar breytingar í lífi manns, frelsun.

7. (a) Í hvaða skilningi getum við því verið frjáls undan syndinni núna? (b) Hvað verðum við að gera til að hafa það frelsi?

7 Það merkir þó ekki að sannkristnir menn finni ekki núna fyrir hinni meðfæddu tilhneigingu til syndugrar breytni. Nei, þeir eiga í baráttu hennar vegna. (Rómv. 7:21-25) Sá sem lifir í samræmi við kenningar Jesú er hins vegar ekki framar aumur þræll syndarinnar. Syndin er honum ekki framar eins og konungur sem gefur honum skipanir er hann hlýðir. Hann er ekki lengur í fjötrum lífshátta sem eru sneyddir tilgangi og hafa í för með sér órólega samvisku. Hann hefur hreina samvisku frammi fyrir Guði, því að honum hafa verið fyrirgefnar syndir fortíðarinnar vegna trúar hans á fórn Krists. Syndugar tilhneigingar geta látið finna fyrir sér, en þegar hann neitar að láta undan þeim, með því að minnast hinnar hreinnu kenningar Krists, er hann að sýna að syndin er ekki húsbóndi hans. — Rómv. 6:12-17.

8. (a) Hvaða annað frelsi veitir sönn kristni okkur? (b) Hvaða áhrif ætti það að hafa á viðhorf okkar til veraldlega valdhafa?

8 Sem kristnir menn njótum við mikils frelsis. Við höfum verið frelsaðir undan oki falskra kenninga, úr fjötrum hjátrúar og ánauðar syndarinnar. Hin stórfenglegu sannindi um ástand hinna dánu og upprisuna hafa frelsað okkur undan ástæðulausum ótta við voveiflegan dauða sem fær menn til að þagga niður í samvisku sinni. Sú vitneskja að ófullkomnar stjórnir manna muni víkja fyrir réttlátu ríki Guðs hefur frelsað okkur undan vonleysi. En slíkt frelsi réttlætir ekki að við brjótum lög eða sýnum embættismönnum stjórnvalda óvirðingu á þeim forsendum að hin gamla skipan eigi brátt að hverfa. — 1. Pét. 2:16, 17; Tít. 3:1, 2.

9. (a) Hvernig hjálpar Jehóva okkur á kærleiksríkan hátt til að njóta eins mikils frelsis og mönnum er mögulegt núna? (b) Hvernig getum við, þegar við tökum ákvarðanir, sýnt að við höfum góðan skilning á þeim afleiðingum sem það hafði fyrir Adam að misbeita frelsi sínu?

9 Jehóva hefur ekki eftirlátið okkur að læra í hörðum skóla reynslunnar hvernig best sé að lifa. Hann veit hvernig við erum sköpuð, hvað veitir okkur sanna lífsfyllingu og sæmdartilfinningu og varanlegast gagn. Hann þekkir tímaáætlun sína, hvenær hinir ýmsu þættir í tilgangi hans eiga að ná fram að ganga og þar með hvaða verkum er best fyrir okkur að vera upptekin af. Hann veit líka hvaða hugsanir og hegðun geta auvirt mann eða spillt sambandi hans við aðra, jafnvel meinað honum að hljóta þá blessun sem Guðsríki mun færa. Í kærleika sínum upplýsir hann okkur um þetta með hjálp Biblíunnar og síns sýnilega skipulags. (Gal. 5:19-23; Mark. 13:10; samanber 1. Tímóteusarbréf 1:12, 13.) Síðan er það undir okkur komið að beita hinum frjálsa vilja, sem Guð hefur gefið okkur, til að ákveða hver viðbrögð okkar verða. Ef við höfum tekið til okkar það sem Biblían kennir um það hvernig Adam glataði frelsinu, sem mannkyninu var gefið í upphafi, þá munum við taka viturlegar ákvarðanir. Við munum sýna að gott samband við Jehóva er fremsta hugðarefni okkar.

Löngunin í annars konar frelsi

10. Hvers konar frelsis hafa sumir, sem hafa játað sig kristna, sóst eftir?

10 Stundum vaknar þrá eftir annars konar frelsi hjá ungu fólki, alið upp sem vottar Jehóva, svo og öðrum sem ekki eru ungmenni lengur. Því getur fundist heimurinn lokkandi, og því meira sem það hugsar um hann, þeim mun sterkari verður löngun þess til að gera það sem fólk heimsins gerir. Það ætlar sér kannski ekki að komast í eiturlyfjavímu, drekka of mikið eða gerast sekt um saurlifnað. En smám saman fer það að eyða tímanum eftir skóla eða vinnu með veraldlegum félögum. Að sjálfsögðu vill það njóta viðurkenningar sinna nýju félaga og fer því að líkja eftir þeim í tali og hátterni. — 3. Jóh. 11.

11. Hvaðan kemur stundum freistingin í þá átt?

11 Stundum kemur freistingin til að hegða sér eins og heimurinn frá öðrum einstaklingi sem segist þjóna Jehóva. Það var það sem gerðist í Edengarðinum þegar Satan tældi Evu, og síðan þegar Eva hvatti Adam til að fylgja sér. Svo var einnig meðal frumkristinna manna, og hið sama gerist nú á dögum. Slíkt fólk er oft sólgið í það sem virðist spennandi og girnist að njóta lystisemda lífsins út í ystu æsar. Það hvetur aðra til að „skemmta sér svolítið.“ Það ‚heitir öðrum frelsi þótt það sé sjálft þrælar spillingarinnar.‘ — 2. Pét. 2:18, 19.

12. (a) Nefndu nokkrar sorglegar afleiðingar veraldlegs hátternis. (b) Hvers vegna gerir fólk slíkt þótt það viti hverjar afleiðingarnar verða?

12 Ávöxturinn er ekkert unaðslegur. Óleyfilegt kynlíf hefur í för með sér tilfinningaleg vandamál. Það getur líka haft í för með sér sjúkdóma, óæskilega þungun og hugsanlega hjúskaparslit. (Orðskv. 6:32-35; 1. Kor. 6:18; 1. Þess. 4:3-8) Neysla fíkniefna getur valdið skapstyggð, óskyrum framburði, sjóntruflunum, svima, öndunarerfiðleikum, skynvillum og dauða. (Samanber Orðskviðina 23:29-35.) Hún getur valdið fíkniánauð og leitt neytandann út í afbrot til að fjármagna fíkniefnakaup. Þeir sem fara út á þá braut vita oftast hverjar afleiðingarnar geta orðið, en fíkn þeirra í spenning og holdlega nautn kemur þeim til að loka augunum fyrir afleiðingunum. Þeir segja við sjálfa sig að þetta sé frelsi, en uppgötva um seinan að þeir eru orðnir þrælar syndarinnar. Þeir komast líka að raun um hversu grimmur húsbóndi syndin er! Það að hugleiða málin skynsamlega núna getur verndað okkur fyrir slíkri lífsreynslu. — Gal. 6:7, 8.

Þar sem vandamálin byrja

13. (a) Hvað vekur oft þær girndir sem eru undanfari þessara vandamála? (b) Hvers sjónarmið þurfum við að hafa til að skilja hvað „slæmur félagsskapur“ er? (c) Leggðu áherslu á sjónarmið Jehóva þegar þú svarar spurningunum við lok greinarinnar. Taktu fyrir eitt atriði í einu.

13 Hugleiddu stundarkorn hvernig slík vandamál koma oft upp. Biblían segir: „Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðar er orðin þunguð, elur hún synd, og þegar syndin er orðin fullþroskuð, fæðir hún dauða.“ (Jak. 1:14, 15) En hvers vegna kviknar þessi girnd? Vegna þess sem fer inn í hugann, og oft er það afleiðing félagsskapar við fólk sem ekki fylgir meginreglum Biblíunnar. Við vitum að sjálfsögðu öll að við eigum að forðast ‚slæman félagsskap.‘ En spurningin er: Hvað er slæmur félagsskapur? Hvernig lítur Jehóva á málið? Hugleiðum eftirfarandi spurningar og ritningarstaði. Það ætti að hjálpa okkur að komast að réttum niðurstöðum.

 Er sjálfgefið að þeir sem virðast heiðvirðir séu góðir félagar? (Samanber 1. Mósebók 34:1, 2, 18, 19.)

 Getur tal þeirra og ef til vill fyndni gefið vísbendingu um hvort þeir séu heppilegur félagsskapur? (Ef. 5:3, 4)

 Er einhver ástæða til að vera á verði ef þeir hafa ekki sama skilning og við á tilgangi Guðs? (Samanber 1. Korintubréf 15:12, 32, 33.)

 Hvað myndi Jehóva finnast um það ef við veldum okkur að félögum fólk sem elskar hann ekki? (Samanber 2. Kroníkubók 19:1, 2.)

 Hvernig getum við sýnt að við leitum ekki félagsskapar þeirra sem ekki eru í trúnni, þótt við vinnum eða göngum í skóla með þeim? (1. Pét. 4:3, 4)

 Hægt er að hafa vissan félagsskap við aðra með því að horfa á sjónvarp og lesa bækur, tímarit og dagblöð. Hvers konar efni er sérstök þörf á að varast nú á dögum? (Orðskv. 3:31; Jes. 8:19; Ef. 4:17-19)

 Hvernig segir val okkar á félögum Jehóva hvers konar persónur við erum? (Sálm. 26:1, 4, 5; 97:10)

14. Hvers konar dýrðarfrelsi bíður þeirra sem fylgja núna trúfastir leiðbeiningunum í orði Guðs?

14 Hin nýja skipan Guðs er rétt framundan. Í gegnum ríki hans verður mannkynið frelsað undan áhrifavaldi Satans og hins illa heimskerfis hans. Smám saman verður mannkynið losað við öll áhrif syndarinnar, og eilíft líf í paradís blasir við. Að síðustu mun allt sköpunarverkið njóta frelsis sem er í fullu samræmi við ‚anda Jehóva.‘ (2. Kor. 3:17) Er nokkurt vit í því að hætta á að glata öllu þessu með því að láta sér í léttu rúmi liggja leiðbeiningarnar í orði Guðs? Við getum öll látið skýrt í ljós hvort við í raun og sannleika þráum ‚dýrðarfrelsi Guðs barna,‘ með því hvernig við beitum hinu kristna frelsi okkar núna. — Rómv. 8:21.

Til upprifjunar

• Hvers konar frelsis nutu fyrstu mannlegu hjónin? Hvernig er það í samanburði við ástand mannkynskins núna?

• Hvaða frelsis njóta sannkristnir menn, ólíkt heiminum? Hvernig er það mögulegt?

• Hvaða verð þurfa menn að greiða ef þeir sækjast eftir því frelsi sem heimurinn hefur?

• Hvers vegna er svona mikilvægt að forðast ‚slæman félagsskap‘? Hvaða mælikvarða á gott og illt viðurkennum við, ólíkt Adam?

[Spurningar]