Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hafðu dag Jehóva ofarlega í huga

Hafðu dag Jehóva ofarlega í huga

23. kafli

Hafðu dag Jehóva ofarlega í huga

1. (a) Hver voru viðbrögð þín þegar þú lærðir fyrst um að lausn undan vandamálum hins núverandi skipulags væri í nánd? (b) Hvaða spurningar þar að lútandi ættum við að hugleiða alvarlega?

 EITT af því fyrsta, sem þú lærðir af biblíunámi þínu, var vafalaust að mannkynið verði brátt leyst úr fjötrum þeirra vandamála sem fylgja núverandi heimskerfi. (Lúk. 21:28) Þú gerðir þér grein fyrir að tilgangur Guðs er sá að öll jörðin verði paradís. Glæpir, stríð, sjúkdómar og dauði munu heyra fortíðinni til, og jafnvel látnir ástvinir lifna á ný. Hvílíkar framtíðarhorfur! Nálægð alls þessa var undirstrikuð með sönnunargögnum fyrir því að ósýnileg nærvera Krists sem konungur hafi hafist árið 1914, og að við höfum síðan þá lifað síðustu daga þessa illa heims. Hefur þessi vitneskja breytt lífi þínu? Endurspeglar líf þitt þá sannfæringu að „dagur Jehóva“ sé nálægur?

2. (a) Hvenær kemur ‚dagur Jehóva‘? (b) Hvernig hefur það reynst gagnlegt að Jehóva skuli ekki hafa opinberað ‚daginn eða stundina‘?

2 Ritningin sýnir okkur greinilega að sú „kynslóð,“ sem sér upphaf nærveru Krists, eigi líka að sjá hinn ‚mikla dag Jehóva‘ þegar hann fullnægir dómi yfir öllum sem iðka ranglæti. (Matt. 24:34; Sef. 1:14-2:3) Sú „kynslóð“ er nú komin til ára sinna. En Biblían segir ekki nákvæmlega til um hvaða dag Jesús Kristur muni koma til að fullnægja dómi Jehóva yfir jarðnesku heimskerfi Satans. „Þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn,“ sagði Jesús. (Mark. 13:32) Það hefur reynst mjög gagnlegt. Á hvaða veg? Það hefur stuðlað að því að draga fram hvað býr í hjörtum manna. Ef einhver elskar ekki Jehóva í alvöru hefur hann tilhneigingu til að fresta í huga sér ‚degi‘ hans og beina kröftum sínum að því sem hjarta hans þráir. Jehóva viðurkennir sem þjóna sína aðeins þá sem elska hann í einlægni og sýna það með því að þjóna honum af allri sálu, óháð því hvenær hið illa heimskerfi líður undir lok. Velþóknun Guðs og sonar hans nær ekki til þeirra sem eru hálfvolgir eða hverflyndir. — Opinb. 3:16; Sálm. 37:4; 1. Jóh. 5:3.

3. Hvað sagði Jesús um þetta mál okkur til aðvörunar?

3 Jesús aðvaraði með þessum orðum þá sem elska Jehóva: „Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn.“ (Mark. 13:33-37) Hann hvetur okkur til að láta ekki mat og drykk eða „áhyggjur þessa lífs“ taka svo mikið af tíma okkar og athygli að við missum sjónar á því hversu alvarlegir tímar eru. — Lúk. 21:34-36; Matt. 24:37-42.

4. Hvað mun ‚dagur Jehóva‘ hafa í för með sér að sögn Péturs?

4 Síðar ráðlagði Pétur postuli öllum, sem hafa sanna trú, að ‚bíða og hafa ofarlega í huga návist dags Jehóva, þegar himnarnir loga og leysast upp og frumefnin bráðna í brennandi hita.‘ Návist ‚dags Jehóva‘ er staðreynd sem ekkert okkar ætti nokkurn tíma að gera lítið úr. Hinir sýnilegu stjórnarhimnar og hið illa mannfélag eiga brátt að víkja fyrir ‚nýjum himni og nýrri jörð‘ sem Guð skapar, og öll „frumefni,“ sem fylgja hinu núverandi veraldlega kerfi — sjálfstæð viðhorf þess, siðleysi og efnishyggja — munu farast í eyðingarhita ‚dags Jehóva.‘ (2. Pét. 3:10-13, NW) Við þurfum að vera glaðvakandi fyrir því að þessir stórviðburðir geti hafist hvenær sem er. — Matt. 24:44.

Vertu vakandi fyrir atburðum sem uppfylla táknið

5. (a) Í hvaða mæli átti svar Jesú við spurningunni í Matteusi 24:3 við endalok kerfis Gyðinga? (b) Hvaða hluti af svari hans beinir athygli okkar að atburðum frá og með 1914?

5 Einkum með hliðsjón af því á hvaða tímum við lifum ættum við að vera vel kunnug öllum smáatriðum hins samsetta tákns hinna ‚síðustu daga‘ eða ‚enda veraldar.‘ Til að lesa táknið rétt verðum við að hafa í huga að svar Jesú við spurningu lærisveinanna, sem skráð er í Matteusi 24:3, átti að hluta til við endalok Gyðingakerfisins á fyrstu öld, en aðaluppfyllingin er miklu víðtækari. Það sem hann lýsti í 4. til 22. versi uppfylltist í smáum mæli á árunum 33 til 70, en spádómurinn hlýtur aðaluppfyllingu sína á okkar dögum. Á því sést að tímabilið, sem hófst árið 1914, er tími ‚nærveru Krists og endaloka heimskerfisins.‘ (Sjá NW, einnig Markús 13:5-20 og Lúkas 21:8-24.) Matteus 24:23-28 segir okkur hvað gerast myndi frá og með árinu 70 fram til nærverutíma Krists. (Sjá einnig Markús 13:21-23.) Sú þróun, sem lýst er frá Matteusi 24:29 til loka 25. kafla, varðar tímabilið frá og með 1914. — Sjá einnig Markús 13:24-37 og Lúkas 21:25-36.

6. (a) Hvers vegna ættum við að vera vakandi fyrir því hvernig heimsatburðirinir uppfylla ‚táknið‘? (b) Svaraðu spurningunum við lok þessarar greinar til að skýra hvernig ‚táknið‘ hefur uppfyllst frá 1914.

6 Við ættum hvert og eitt að hafa vakandi athygli fyrir þeim atburðum sem uppfylla ‚táknið.‘ Að tengja þessa atburði spádómum Biblíunnar hjálpar okkur að ‚hafa dag Jehóva ofarlega í huga.‘ Það hjálpar okkur líka að tala af sannfæringu þegar við vörum aðra við nálægð ‚hefndardags Guðs vors.‘ (Jesaja 61:1, 2) Með þessi markmið í huga skulum við rifja upp eftirfarandi fleti ‚táknsins‘:

 Á hvaða sérstakan hátt uppfylltist spádómurinn um að ‚þjóð risi gegn þjóð og ríki gegn ríki‘ frá og með 1914? Hvað hefur gerst á síðustu mánuðum sem frekari uppfylling hans?

 Í hvaða mæli hefur matvælaskortur haft áhrif á heiminn þrátt fyrir tækni og vísindi 20. aldarinnar?

 Hefur í sannleika orðið einhver breyting á tíðni jarðskjálfta frá og með 1914?

 Hvaða drepsótt kostaði fleiri mannslíf árið 1918 en heimsstyrjöldin? Hvaða sjúkdómar eru enn sem farsóttir að umfangi, þrátt fyrir framfarir í læknavísindum?

 Hvaða merki sérð þú þess að menn gefi upp öndina af ótta eins og sagt er fyrir í Lúkasi 21:26?

 Hvað sannfærir þig um að lífið hafi ekki alltaf verið eins og lýst er í 2. Tím. 3:1-5, heldur hafi það sem þar er lýst magnast stórkostlega eftir því sem nálgast hefur lok hinna síðustu daga?

Fólk aðgreint

7. (a) Hvaða annan atburð, skráður í Matteusi 13:36-43, tengdi Jesús endalokum heimskerfisins? (b) Hvað merkir þessi líking?

7 Jesús tengdi aðra þýðingarmikla atburði endalokatíma heimskerfisins. Einn þeirra er aðgreining ‚barna (sona) ríkisins‘ frá ‚börnum (sonum) hins vonda.‘ Jesús talaði um þetta í dæmisögu sinni um hveitiakurinn sem óvinur sáði illgresi í. ‚Hveitið‘ í dæmisögu hans táknar sanna, smurða kristna menn. ‚Illgresið‘ er gervikristnir menn. Við endalok heimskerfisins er ‚illgresið‘ — þeir sem játa sig kristna en eru í reynd „börn hins vonda“ þar eð þeir halda sér fast við þann heim sem djöfullin stjórnar — aðgreint frá ‚börnum Guðsríkis‘ og safnað til eyðingar. (Matt. 13:36-43) Hefur þetta í raun gerst?

8. (a) Í hvaða hópa var öllum, sem sögðust kristnir, skipt eftir fyrri heimsstyrjöldina? (b) Hvernig sýndu hinir sönnu, smurðu kristnu menn að þeir væru í raun ‚börn ríkisins‘?

8 Eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar skiptust allir sem sögðust kristnir í tvo aðgreinda hópa. Í öðrum hópnum voru klerkar kristna heimsins og fylgjendur þeirra sem studdu eindregið Þjóðabandalagið (nú Sameinuðu þjóðirnar) en héldu um leið fast í þjóðernishyggju sína. Hinn hópinn mynduðu þeir tiltölulega fáu sannkristnu menn sem studdu Messíasarríki Guðs af öllum mætti. Með opinberum stuðningu við stjórnir heimsins sem einu leiðina til að koma á friði og öryggi, tók fyrri hópurinn af öll tvímæli um að hann var ekki sannkristinn. (Jóh. 17:16) Ólíkt honum bentu þjónar Jehóva réttilega á að Þjóðabandalagið væri hin nútímalega „viðurstyggð eyðingarinnar“ sem um er getið í Matteusi 24:15. Þeir sýndu sig sönn ‚börn Guðsríkis‘ með því að takast á hendur að prédika „þetta fagnaðarerindi um ríkið . . . um alla heimsbyggðina.“ (Matt. 24:14) Með hvaða árangri?

9. Hver var fyrsti árangur þessarar prédikunar um Guðsríki?

9 Í fyrstu var safnað saman leifum hinna „útvöldu,“ andasmurðum kristnum mönnum. Þótt þeir væru mjög dreifðir meðal þjóðanna, ‚um áttirnar fjórar,‘ var þeim undir forystu engla safnað til skipulagslegrar einingar. — Matt. 24:31.

10. (a) Hvaða önnur aðgreining hefur átt sér stað og í samræmi við hvaða spádóm? (b) Hvað vitnar uppfylling þessara spádóma um?

10 Þá, eins og Jesús sagði fyrir, tók hann að aðgreina fólk af öllum þjóðum „eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.“ Þetta verk, sem Kristur stjórnar af himnesku hásæti sínu, er enn í fullum gangi og snertir þig persónulega. Þorri mannkyns hafnar fyrirlitlega ríki Guðs og andasmurðum ‚sonum‘ þess og á því ‚eilífa refsingu,‘ eilífan dauða í vændum. Öðrum býður Drottinn að erfa jarðneskt yfirráðasvæði ríkisins með eilíft líf í vandum. Slíkir sauðumlíkir menn hafa gengið í félag með hinum smurðu ‚börnum ríkisins‘ jafnvel þótt þau séu ofsótt grimmilega. (Matt. 25:31-46) Drottinhollir hjálpa þeir þeim að boða hinn lífsnauðsynlega boðskap um ríkið. Mikill múgur, sem telur milljónir, tekur þátt í þessu verki. Boðskapurinn um Guðsríki heyrist til endimarka jarðar. Hvað tákna þessir atburðir? Að við stöndum mjög nærri lokum hinna ‚síðustu daga‘ og að ‚dagur Jehóva‘ er mjög nálægur.

Hvað er framundan?

11. Er enn meira prédikunarstarf ógert áður en ‚dagur Jehóva‘ rennur upp?

11 Eru enn óuppfylltir einhverjir spádómar áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Jehóva gengur í garð? Já! Aðgreiningu manna í tengslum við deiluna um Guðsríki er enn ekki lokið. Sums staðar, þar sem var kröftug andstaða um langt árabil, streyma nú inn nýir lærisveinar. Og jafnvel þar sem fólk hafnar fagnaðarerindinu heldur vitnisburður okkar á lofti réttvísi og miskunn Jehóva. Höldum verkinu því áfram! Jesús fullvissar okkur um að þegar því sé lokið ‚muni endirinn koma.‘ — Matt. 24:14.

12. (a) Hvaða eftirtektarverður atburður á eftir að gerast samkvæmt 1. Þessaloníkubréfi 5:2, 3? (b) Hvað mun hann þýða fyrir okkur?

12 Annar mjög þýðingarmikill biblíuspádómur hljóðar svo: „Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta,‘ þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.“ (1. Þess. 5:2, 3) Tíminn verður að leiða í ljós hvaða mynd þessi yfirlýsing um frið og öryggi mun taka á sig. En víst er að hún mun ekki þýða að leiðtogar veraldar hafi nú loksins leyst vandamál mannkynsins. Þeir sem hafa dag Jehóva „ofarlega í huga“ munu ekki láta þá yfirlýsingu villa sér sýn. Þeir vita að strax á eftir kemur ‚snöggleg tortíming.‘

13. Hvaða atburðir munu verða strax eftir yfirlýsinguna um frið og öryggi, og í hvaða röð?

13 Eins og Ritningin sýnir munu hinir pólitísku valdhafar um allan heim snúast gegn Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða, og gereyða henni. (Opinb. 17:15, 16) Eftirtektarvert er að nú þegar eru farin að sýna sig fjandsamleg viðhorf, einkanlega gagnvart trúfélögum kristna heimsins. Ríkisstjórnir með mjög andtrúarlega stjórnarstefnu eru nú þegar mjög valdamiklar hjá Sameinuðu þjóðunum, og almenningur í þeim löndum, þar sem trúarbrögð hafa gegnt stóru hlutverki í lífi manna, er nú að snúa baki við trú feðra sinna í stórum stíl. Hvað merkir allt þetta? Að eyðing allra falskra trúarbragða sé nálæg. Þar á eftir, þegar þjóðirnar snúa ögrandi öllu sínu afli gegn þeim sem styðja drottinvald Jehóva, verður reiði Guðs sleppt lausri gegn þessum stjórnum og stuðningsmönnum þeirra sem hafa mun í för með sér gereyðingu þeirra allra. Að síðustu verður Satan sjálfum og illum öndum hans kastað í undirdjup þar sem komið er með öllu í veg fyrir að þeir geti haft áhrif á mannkynið. Þetta verður svo sannarlega ‚dagur Jehóva,‘ sá dagur þegar nafni hans verður haldið hátt á lofti. — Esek. 38:18, 22, 23; Opinb. 19:11-20:3.

14. Hvers vegna væri óhyggilegt að hugsa með sér að dagur Jehóva sé enn víðs fjarri?

14 Þessi dagur mun renna upp nákvæmlega á þeim tíma sem Guð hefur áformað. Honum mun ekki seinka. (Hab. 2:3) Munum að eyðing Jerúsalem árið 70 kom mjög skjótlega, þegar Gyðingar bjuggust ekki við henni, þegar þeir héldu að hættan væri liðin hjá. Og hvað um Forn-Babýlon? Hún var voldug, taldi sig örygga umgyrt sterkum múrum. Hún féll á einni nóttu. Eins mun ‚snöggleg tortíming‘ koma yfir hið núverandi illa heimskerfi. Megum við, þegar hún kemur, vera sameinuð í sannri guðsdýrkun, með því að hafa haft dag Jehóva stöðugt í huga.

Til upprifjunar

Hvers vegna er brýnt að hafa dag Jehóva „ofarlega í huga“? Hvernig getum við gert það?

● Hvernig snertir sú aðgreining manna, sem nú fer fram, okkur persónulega?

● Hvað á enn eftir að gerast áður en dagur Jehóva rennur upp? Hvað ættum við því að gera núna?

[Spurningar]