Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hafið brennandi kærleika hver til annars“

„Hafið brennandi kærleika hver til annars“

17. kafli

„Hafið brennandi kærleika hver til annars“

1, 2. (a) Hvað vekur oft athygli nýrra á samkomum votta Jehóva? (b) Hvernig sjá þeir þennan eiginleika birtast á mótum okkar?

 ÞEGAR fólk kemur fyrst á safnaðarsamkomur votta Jehóva hefur kærleikurinn, sem þar er sýndur, oft mikil áhrif á það. Það veitir athygli hvernig hann birtist í hinu innilega bræðralagi þar og þeim hlýju móttökum sem það fær.

2 Þeir sem eru gestir á mótum okkar taka líka eftir að hegðun flestra viðstaddra er mjög til fyrirmyndar. Fréttaritari sagði einu sinni um slíkt mót: ‚Þar var enginn undir áhrifum fíkniefna eða áfengis. Þar voru engin hróp og köll, enginn ruðningur né troðningur. Þar heyrðist ekki blót né formælingar, klúrir brandarar eða sóðalegt tal. Loftið var ekki mettað tóbaksreyk. Þar var engu stolið. Enginn kastaði rusli í grasið. Þetta var mjög óvenjulegt.‘ Allt ber þetta merki um kærleika þeirrar tegundar sem ‚hegðar sér ekki ósaæmilega og leitar ekki síns eigin.‘ — 1. Kor. 13:4-8.

3. (a) Hvað ætti smám saman að gerast í sambandi við kærleika okkar? (b) Hvers konar kærleika þurfum við að rækta til að líkjast Kristi?

3 Kærleikur er eiginleiki sem einkennir sérhvern sannkristinn mann. (Jóh. 13:35) Eftir því sem við vöxum andlega ætti hann að birtast hjá okkur í ríkari mæli. Páll postuli bað þess að kærleikur bræðra hans mætti ‚aukast enn þá meir og meir.‘ (Fil. 1:9; 1. Þess. 3:12) Pétur hvatti líka kristna bræður sína til að láta kærleika sinn ná til ‚alls bræðrafélagsins.‘ (1. Pét. 2:17) Kærleikur okkar ætti að koma okkur til að gera meira en aðeins að sækja samkomur með fólki sem við reynum lítið að kynnast persónulega. Hann ætti að fá okkur til að gera meira en aðeins að bjóða vingjarnlega góðan daginn af og til. Jóhannes postuli benti á að hann ætti að vera fornfús. Hann skrifaði: „Af því þekkjum vér kærleikann, að Jesús lét lífið fyrir oss. Svo eigum vér og að láta lífið fyrir bræðurna.“ (1. Jóh. 3:16; Jóh. 15:12, 13) Við höfum enn ekki gert það. En værum við tilbúin að gefa líf okkar fyrir bræður okkar? Að hvaða marki leggjum við lykkju á leið okkar til að hjálpa þeim núna, jafnvel þegar það er óþægilegt fyrir okkur?

4. (a) Á hvaða annan veg er hugsanlegt að við getum sýnt kærleika í fyllri mæli? (b) Hvers vegna er brýnt að hafa brennandi kærleika hver til annars?

4 Samhliða verkum, sem endurspegla fórnfýsi, er þýðingarmikið að hafa ósviknar, hlýjar tilfinningar til bræðra okkar. Orð Guðs hvetur okkur: „Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð.“ (Rómv. 12:10) Við berum öll slíkar tilfinningar í garð sumra. Getum við látið þær ná til fleiri? Því meir sem nálgast endalok þessa gamla kerfis, þeim mun mikilvægara er að bindast kristnum bræðrum okkar nánum böndum. Biblían vekur athygli okkar á því og segir: „Endir allra hluta er í nánd . . . Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda.“ — 1. Pét. 4:7, 8.

5. Hvers vegna megum við ekki vænta að engin vandamál komi upp milli meðlima safnaðarins?

5 Að sjálfsögðu gerum við stundum sitthvað sem móðgar eða særir aðra, svo lengi sem við erum ófullkomin. Aðrir syndga líka gegn okkur á ýmsa vegu. (1. Jóh. 1:8) Hvað ættir þú að gera ef slík staða kemur upp?

Hvað á að gera þegar vandamál koma upp?

6. (a) Hvers vegna fara ráð Biblíunnar og tilhneigingar okkar ekki alltaf saman? (b) Hver verður árangurinn ef við fylgjum ráðum Biblíunnar?

6 Ritningin gefur okkur þær leiðbeiningar sem þarf. Að vísu fara ráð hennar ekki alltaf saman við það sem við, ófullkomnir menn, höfum tilhneigingu til að gera, en samt sem áður mun það að reyna í einlægni að breyta eftir því bæði bera vitni um einlæga löngun okkar til að þóknast Jehóva og jafnframt auka að gæðum kærleika okkar til annarra. — Rómv. 7:21-23.

7. (a) Hvers vegna ættum við ekki að gjalda líku líkt ef einhver gerir á hlut okkar? (b) Hvers vegna ættum við ekki einfaldlega að forðast bróður sem hefur móðgað okkur?

7 Þegar fólk er móðgað eða sært leitar það oft færis að ná sér niðri á þeim sem því olli. En það gerir málið aðeins verra. Ef endurgjalds er þörf ættum við að láta Guð um að veita það. (Orðskv. 24:29; Rómv. 12:17-21) Sumir reyna að láta eins og sá sem gerði á hlut þeirra sé ekki til, forðast allt samneyti við hann. En við getum ekki gert það þegar trúbræður okkar eiga í hlut. Að tilbeiðsla okkar sé Jehóva þóknanleg er að nokkru leyti undir því komið að við elskum bræður okkar. (1. Jóh. 4:20) Getum við í hreinskilni sagt að við elskum einhvern ef við viljum ekki tala við hann eða okkur er ami að návist hans? Við erum tilneydd að takast á við vandamálið og leysa það. Hvernig?

8, 9. (a) Hvað er rétt að gera ef við höfum umkvörtunarefni gegn bróður okkar? (b) Hvað þá ef hann hefur syndgað oft gegn okkur? (c) Hvers vegna ættum við að bregðast þannig við og hvað hjálpar okkur að gera það?

8 Páll postuli skrifaði um þetta mál: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og [Jehóva] hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra.“ (Kól. 3:13) Getur þú gert það? Hvað nú ef einstaklingurinn syndgar margsinnis gegn þér á ýmsa vegu?

9 Pétur postuli spurði sömu spurningar og stakk upp á að hann ætti kannski að reyna að fyrirgefa bróður sínum allt að sjö sinnum. Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.“ En hvers vegna? Jesús skýrði það með dæmisögu sem undirstrikaði hina gríðarlegu skuld okkar við Guðs i samanburði við það sem annar maður getur skuldað okkur. (Matt. 18:21-35) Með ýmsum hætti syndgum við gegn Guði dag hvern — stundum með eigingjörnum verknaði, oft með því sem við segjum eða hugsum eða með því að gera ekki það sem ættum að gera. Í vanvisku okkar er okkur jafnvel ekki alltaf ljóst að sumt af því sem við gerum er rangt, eða þá að við hugsum ekki nógu alvarlega um málið í erli hversdagslífsins. Guð gæti krafist lífs okkar sem endurgjalds fyrir syndir okkar, en í staðinn hefur hann haldið áfram að sýna okkur miskunn. (Rómv. 6:23; Sálm. 103:10-14) Það er því alls ekki ósanngjarnt að hann skuli krefjast þess að við komum svipað fram hver við annan. (Matt. 6:14, 15; Ef. 4:1-3) Þegar við gerum það, í stað þess að láta gremju gerjast með okkur, er það merki þess að við höfum ræktað með okkur þann kærleika sem „er ekki langrækinn.“ — 1. Kor. 13:4, 5; 1. Pét. 3:8, 9.

10. Hvað ættum við að gera ef bróðir hefur eitthvað á móti okkur?

10 Fyrir getur komið að við finnum að bróðir okkar hefur eitthvað á móti okkur, enda þótt við berum engar slíkar tilfinningar til hans. Hvað ættum við þá að gera? Við ættum þá án tafar að tala við hann til að reyna að koma aftur á góðu sambandi. Biblían hvetur okkur til að taka frumkvæðið. (Matt. 5:23, 24) Það getur verið erfitt. Það krefst kærleika og auðmýktar. Eru þessir eiginleikar nógu sterkir hjá þér til að þú gerir það sem Biblían ráðleggur? Það er mikilvægt markmið að vinna að.

11. Hvernig ber okkur að taka því ef bróðir gerir eitthvað sem kemur okkur úr jafnvægi?

11 Svo getur líka farið að einhver geri eitthvað sem kemur þér — og hugsanlega öðrum — úr jafnvægi. Væri þá ekki gott að einhver talaði við hann? Ef til vill. Ef þú sjálfur skýrir málið vingjarnlega fyrir honum getur það skilað góðum árangri. En fyrst ættir þú að spyrja þig: ‚Er það í raun óbiblíulegt sem hann gerir, eða má aðallega rekja vandann til þess að við erum sprottnir úr ólíkum jarðvegi og höfum fengið ólíkt uppeldi?‘ Ef svo er skalt þú gæta þess að setja ekki upp þína eigin staðla og dæma síðan eftir þeim. (Jak. 4:11, 12) Jehóva tekur hlutdrægnislaust við fólki af alls konar uppruna og er þolinmóður við það meðan það er að vaxa andlega.

12. (a) Hverjir láta málið til sín taka ef einhver í söfnuðinum gerist sekur um grófa rangsleitni? (b) Undir hvaða kringumstæðum á sá sem syndgað var gegn að tala fyrst við syndarann? Í hvaða augnamiði?

12 Ef einhver í söfnuðinum gerist sekur um alvarlega rangsleitni þarf hins vegar að taka skjótlega á því. En hverjir eiga að gera það? Í flestum tilfellum öldungarnir. Ef aftur á móti er um að ræða viðskipti milli bræðra eða þá slíka misnotkun tungunnar að einhver annar hafi orðið fyrir alvarlegu tjóni, þá ætti sá sem syndin var drýgð gegn fyrst að reyna að hjálpa syndaranum einn síns liðs. Sumum getur þótt það erfitt, en það er það sem Jesús ráðlagði í Matteusi 18:15-17. Kærleikur til bróðurins og einlæg löngun til að hjálpa honum að vera áfram bróðir gerir okkur fært að fara þannig að því, að við náum til hjarta hins villuráfandi, ef það á annað borð er mögulegt. — Orðskv. 16:23.

13. Hvað hjálpar okkur að hafa rétt viðhorf ef upp kemur vandamál milli okkar og annars bróður?

13 Þegar upp koma vandamál, smá eða stór, er okkur hjálp í því að reyna að skilja hvaða augum Jehóva lítur málið. Hann hefur ekki velþóknun á synd í nokkurri mynd, og þó finnur hann hana hjá okkur öllum. Hann sér um að iðrunarlausir syndarar séu upprættir úr skipulagi hans þegar það er tímabært. En hvað um okkur hin? Við fáum öll að njóta langlyndis hans og miskunnar, og með því setur hann okkur fordæmi sem okkur ber að líkja eftir. Þegar við gerum það erum við að endurspegla kærleika hans. — Ef. 5:1, 2.

Reynum að auka umfang kærleikans

14. (a) Hvers vegna hvatti Páll Korintumenn til að ‚láta verða rúmt í hjörtum sér‘? (b) Hvernig sýna ritningargreinarnar, sem hér er vitnað í, að við ættum öll að hugsa um það?

14 Páll postuli hafði notað marga mánuði til að byggja upp söfnuðinn í Korintu í Grikklandi. Hann hafði stritað við að hjálpa bræðrunum þar og elskaði þá. En sumir þeirra endurguldu ekki hlýjar tilfinningar hans og voru mjög gagnrýnir á hann. Hann hvatti þá til að ‚láta verða rúmgott‘ í hjörtum sér, sýna ástúð. (2. Kor. 6:11-13; 12:15) Vel fer á því að við hugleiðum öll í hve miklum mæli við sýnum öðrum kærleika og leitum leiða til að auka umfang hans. — 1. Jóh. 3:14; 1. Kor. 13:3.

15. Hvað getur hjálpað okkur að vaxa í kærleika til þeirra sem við höfum ekki laðast að fram til þessa?

15 Eru einhverjir í söfnuðinum sem okkur finnst erfitt að eiga gott samband við? Ef við leggjum okkur fram um að breiða yfir sérhvern smágalla í fari þeirra, alveg eins og við viljum að þeir geri gagnvart okkur, þá getur það stuðlað að nánara sambandi okkar í milli. (Orðskv. 17:9; 19:11) Tilfinningar okkar í þeirra garð geta líka orðið hlýrri ef við leitumst við að koma auga á mannkosti þeirra og einbeitum okkur að þeim. Höfum við í sannleika veitt athygli hvernig Jehóva notar þessa bræður? Það eflir tvímælalaust kærleika okkar til þeirra. — Lúk. 6:32, 33, 36.

16. Hvernig er hægt á raunhæfan hátt að ‚láta verða rúmt‘ hjá okkur í að sýna öðrum í söfnuðinum kærleika?

16 Að sjálfsögðu eru því takmörk sett sem við getum gert fyrir aðra. Óvíst er að við getum heilsað öllum á hverri einustu samkomu. Þegar við bjóðum vinum til máltíðar getum við tæpast boðið þeim öllum. Við eigum öll nokkra nána vini og félaga sem við verjum meiri tíma með en öðrum. En getum við látið kærleika okkar aukast að umfangi? Getum við notað fáeinar mínútur í hverri viku til að kynnast betur einhverjum í söfnuði okkar sem hefur ekki fram til þessa verið náinn vinur okkar? Getum við af og til boðið einhverjum slíkum með okkur út í þjónustuna á akrinum? Ef við höfum brennandi kærleika hver til annars hljótum við að finna leiðir til að sýna hann.

17. Hvernig getum við sýnt að við berum líka brennandi kærleika til bræðra sem við höfum aldrei hitt áður?

17 Kristin mót eru kjörin tækifæri til að ‚láta verða rúmgott‘ í hjörtum okkar. Á sumum þeirra koma saman þúsundir manna og við getum hegðað okkur þannig að augljóst sé að við tökum velferð þeirra fram yfir eigin þægindi, jafnvel þótt við höfum aldrei hitt þá fyrr. Og við getum sýnt þeim áhuga í dagskrárhléum með því að eiga frumkvæðið að því að kynnast þeim sem sitja eða standa í kringum okkur. Sá dagur kemur að allir búendur jarðar verða bræður og systur, sameinaðir í tilbeiðslu á Guði og föður okkar allra. Hvílík gleði verður það ekki að kynnast þeim öllum með sínum mörgu og fjölbreyttu eiginlekum! Brennandi kærleikur til þeirra mun koma okkur til að langa til þess. Hvers vegna ekki að byrja núna?

Til upprifjunar

• Hvernig ætti að leysa vandamál sem upp koma milli bræðra og systra? Hvers vegna?

• Á hvaða vegu ætti kærleikur okkar að vaxa samhliða andlegum vexti okkar?

• Hvernig er hægt að sýna öðrum en nánustu vinum brennandi kærleika?

[Spurningar]