Haltu fast við orð Guðs
3. kafli
Haltu fast við orð Guðs
1. (a) Hvernig fékk Forn-Ísrael að reyna sannsögli orðs Guðs? (b) Hvers vegna vekur það áhuga okkar?
„ÞÉR skuluð vita af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar, að ekkert hefur brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er [Jehóva] Guð yðar hefir gefið yður.“ Þannig áminnti Jósúa öldunga Ísraels eftir að þeir höfðu sest að í fyrirheitna landinu. En á árunum á eftir gættu þeir þess ekki að fylgja orði Guðs í einu og öllu. Hvaða afleiðingar hafði það? Biblían sýnir að Jehóva stóð við orð sín um afleiðingar óhlýðninnar, alveg eins og loforð hans um blessun höfðu reynst áreiðanleg. (Jós. 23:14-16) Þessi frásögn var, eins og allt annað í Biblíunni, geymd okkur til uppfræðingar — þannig að við „héldum von vorri“ og gerðum ekkert sem myndi hafa í för með sér að við yrðum svipt henni. — Rómv. 15:4.
2. (a) Í hvaða skilningi er Biblían „innblásin af Guði“? (b) Hvaða ábyrgð er þeirri vitneskju samfara?
2 Enda þótt um það bil 40 mennskir „ritarar“ hafi verið notaðir til að skrifa Biblíuna er Jehóva Guð sjálfur höfundur hennar. Merkir það að hann hafi beinlínis stjórnað ritun alls sem í henni er? Já. Páll postuli sagði réttilega: „Sérhver ritning er innblásin af Guði.“ Við erum sannfærðir um að svo sé og hvetjum fólk til að veita henni athygli og láta það sem hún segir móta líf sitt, alveg eins og við kappkostum að gera. — 2. Tím. 3:16; 1. Þess. 2:13.
Hvað hjálpar öðrum að meta hana að verðleikum?
3. Hver er besta leiðin til að hjálpa þeim sem ekki eru sannfærðir um að Biblían sé orð Guðs?
3 Að sjálfsögðu eru ekki allir, sem við tölum við, sannfærðir eins og við um að Biblían sé orð Guðs. Hvernig getum við hjálpað þeim? Oft er árangursríkast að opna Biblíuna og sýna þeim hvað í henni stendur. „Orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði . . . það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ (Hebr. 4:12) „Orð Guðs“ eru loforð hans skráð í Biblíunni. Þau eru ekki dauðar sagnir heldur lifandi orð sem óstöðvandi nálgast uppfyllingu. Þegar menn komast í snertingu við það kemur hið sanna hjartalag þeirra í ljós í því hvort þeir eru fúsir til að uppfylla þær kröfur sem það gerir. Áhrif þessara orða eru miklum mun öflugri en nokkuð sem við sjálf getum sagt.
4. Hvaða einfaldar skýringar á sannindum Biblíunnar hafa breytt viðhorfum sumra til hennar? Hvers vegna?
4 Það eitt að sjá nafn Guðs í Biblíunni hefur valdið straumhvörfum í lífi margra. Sumir hafa ákveðið að nema Biblíuna þegar þeim hefur verið sýnt hvað hún segir um tilgang lífsins, hvers vegna Guð leyfir vonskuna, um þýðingu atburða líðandi stundar eða um hina raunhæfu von byggða á ríki Guðs. Í löndum þar sem trúarathafnir hafa gert menn berskjaldaða fyrir ásókn illra anda hafa skýringar Biblíunnar á orsökum slíks og leiðum til að losna undan því vakið áhuga. Hvers vegna hafa þessi atriði svona mikil áhrif á fólk? Vegna þess að Biblían ein gefur áreiðanlegar upplýsingar um þessi þýðingarmiklu mál. — Sálm. 119:130.
5. Hver getur verið ástæðan fyrir því að sumir segjast ekki trúa Biblíunni? Hvernig getum við hjálpað þeim?
5 En hvað getur þú gert ef viðmælandi þinn segir berum orðum að hann trúi ekki Biblíunni? Ætti það að binda enda á samræðurnar? Ekki ef hann er fús til að rökræða málin. Við ættum að finna til þeirrar ábyrgðar að tala máli Biblíunnar af sannfæringarkrafti. Vera má að hann líti á Biblíuna sem bók kristna heimsins, og að neikvæð viðhorf hans til hennar megi rekja til hræsni kirknanna, stjórnmálavafsturs og stöðugrar fjáröflunar þeirra. Þú gætir spurt hann hvort orsökin sé sú. Kannski vaknar áhugi hans þegar hann heyrir hvernig Biblían fordæmir veraldarvafstur kristna heimsins, svo og hvílíkur munur er á kristna heiminum og sannri kristni. — Samanber Matteus 15:7-9; Jakobsbréfið 4:4; Míka 3:11, 12.
6. (a) Hvað sannfærir þig um að Biblían sé orð Guðs? (b) Hvaða aðrar röksemdir mætti nota til að hjálpa fólki að skilja að Biblían er frá Guði?
6 Í öðrum tilfellum getur reynst gott að ræða sannanir fyrir innblæstri Biblíunnar. Hvað sannar fyrir þér að Biblían er frá Guði? Er það það sem Biblían segir sjálf um uppruna sinn? (2. Tím. 3:16, 17; Opinb. 1:1) Eru það hinir fjölmörgu spádómar Biblíunnar sem lýsa nákvæmri vitneskju um framtíðina, spádómar sem hljóta því að eiga sér ofurmannlegan höfund? (2. Pét. 1:20, 21; Jes. 42:9) Er það kannski hið innra samræmi Biblíunnar, þrátt fyrir að hún hafi verið skrifuð á 1610 ára tímabili af fjölmörgum mönnum? Er það hin vísindalega nákvæmni hennar, gerólík öðrum samtíðarritum? Er það hreinskilni og einlægni ritaranna? Er það varðveisla hennar þrátt fyrir markvissa tilraunir til að eyðileggja hana? Þú getur notað það sem þér hefur þótt mest um vert til að hjálpa öðrum.
Biblíulestur okkar
7, 8. (a) Hvað ættum við sem einstaklingar að gera í sambandi við Biblían? (b) Hvað þurfum við að gera, auk þess að lesa Biblíuna sjálf, og hvernig sýnir Biblían fram á það? (c) Hvernig hefur þú sjálfur komist til skilnings á tilgangi Jehóva?
7 Auk þess að hjálpa öðrum að trúa Biblíunni purfum við að taka okkur tíma til að lesa reglulega í henni. Gerir þú það? Af öllum bókum, sem gerðar hafa verið, er hún sú þýðingamesta. Þar með er ekki sagt að við þurfum ekkert annað að lesa ef við lesum hana. Ritningin varar okkur við því að einangra okkur, halda að við getum fundið út alla hluti upp á eigin spytur. Bæði einkanám og regluleg samkomusókn er nauðsynleg ef við eigum að vera öfgalausir kristnir menn. — Orðskv. 18:1; NW; Hebr. 10:24, 25.
8 Okkur til gagns segir Biblían frá eþíópskum hirðmanni sem var að lesa í spádómsbók Jesaja. Engill leiddi kristna trúboðann Filippus til hans og hann spurði manninn: „Hvort skilur þú það, sem þú ert að lesa?“ Auðmjúkur í bragði svaraði Eþíópíumaðurinn: „Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér?“ Hann bað Filippus að skýra fyrir sér boðskap ritningargreinarinnar sem hann var að lesa. Filippus hafði ekki bara lesið Biblíuna einn síns liðs og gaf ekki sínar eigin skýringar á henni við þetta tækifæri. Frásagan sýnir að hann hafði varðveitt náin tengsl við postulana í söfnuðinum í Jerúsalem og tilheyrt sýnilegu skipulagi Jehóva. Hann gat því hjálpað Eþíópíumanninum að notfæra sér þá fræðslu sem Jehóva veitti í gegnum það skipulag. (Post. 6:5, 6; 8:5, 14, 15, 26-35) Eins er það nú á dögum. Hver okkar hefur af eigin rammleik fengið góðan og réttan skilning á tilgangi Jehóva? Við þurftum og þurfum enn að fá þá hjálp sem Jehóva veitir á kærleiksríkan hátt í gegnum sitt sýnilegt skipulag.
9. Hvaða biblíulestaráætlun getum við öll notið góðs af?
9 Til að hjálpa okkur að nota og skilja Biblíuna gefur skipulag Jehóva út fyrsta flokks biblíuefni í tímaritinu Varðturninn og skyldum ritum. Auk þess er okkur sett fyrir regluleg biblíulestraráætlun í tengslum við Guðveldisskólann í söfnuðum votta Jehóva. Sumir votta Jehóva hafa sína eigin biblíulestraráætlun auk þeirrar. Sá tími, sem varið er til að rannsaka Heilaga ritningu, getur skilað miklu. (Sálm. 1:1-3; 19:8, 9) Hefur þú persónulega lesið alla Biblíuna út í gegn? Ef svo er ekki skalt þú gera sérstakt átak til þess. Jafnvel þótt þú skiljir ekki allt til fullnustu er mikils vert að hafa yfirlit yfir efni Biblíunnar í heild. Með því að lesa aðeins fjórar til fimm blaðsíður á dag getur þú lokið lestri Biblíunnar á hér um bil einu ári.
10. (a) Hvenær lest þú í Biblíunni? (b) Hvers vegna er reglufesta þýðingarmikil?
10 Hvenær getur þú sett þennan biblíulestur á dagskrá hjá þér? Þó að þú getir ekki tekið til þess nema tíu til fimmtán mínútur á dag mun það reynast mjög gagnlegt! Ef slíkt hentar ekki gætir þú að minnsta kosti tekið þér til þess ákveðinn tíma í hverri viku og haldið þér fast við þá áætlun. Biblíulestur ætti að vera föst venja út í gegnum lífið, rétt eins og það að matast. Eins og þú veist eru slæmar matarvenjur skaðlegar fyrir heilsuna. Eins er það með hinn andlega mann. Líf okkar er undir því komið að við nærum okkur reglulega á „hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.“ — Matt. 4:4.
11. Með hvaða markmiði ættum við að lesa Biblíuna?
11 Hvaða markmið ættum við að hafa með biblíulestri? Það væri misráðið að hafa einfaldlega sem markmið að lesa ákveðinn blaðsíðufjölda, eða jafnvel það eitt að hljóta eilíft líf. Til að hafa varanlegt gagn af verðum við að hafa æðra markmið — kærleika til Guðs, löngun til að kynnast honum betur, að skilja vilja hans, og tilbiðja hann á velþóknalegan hátt. (Jóh. 5:39-42) Við ættum að hafa sama viðhorf og biblíuritarinn sem sagði: „Vísa mér vegu þína, [Jehóva], kenn mér stigu þína.“ — Sálm. 25:4.
12. (a) Hvers vegna er nákvæm þekking nauðsynleg, og hvað getur þurft, samfara lestri, til að öðlast hana? (b) Frá hvaða sjónarhornum er gott að brjóta til mergjar það sem við lesum í Biblíunni, eins og sýnt er á bls. 27? (c) Sýndu fram á hvernig hægt er að gera það með því að svara spurningunum sem fylgja þessari tölugrein. Taktu eitt atriði í einu og notaðu Biblíuna.
12 Þegar við hljótum þessa kennslu ætti markmið okkar að vera ‚fullkominn þekking.‘ Hvernig getum við, án hennar, heimfært orð Guðs rétt á líf okkar eða útskýrt það rétt fyrir öðrum? (Kól. 3:10; 2. Tím. 2:15) Til að afla sér nákvæmrar þekkingar þarf að lesa gaumgæfilega, og ef einhver kafli er torskilinn gætum við þurft að lesa hann oftar en einu sinni til að ná merkingunni. Það mun líka vera gagnlegt að taka sér tíma til hugleiðingar, að íhuga efnið frá mismunandi sjónarhornum. Á blaðsíðu 27 hér í bókinni er getið fimm ólíkra sjónarhorna sem reynast munu gagnleg. Hægt er að brjóta til mergjar marga hluta Ritningarinnar með því að skoða þá frá einu eða fleiri af þessum sjónarhornum. Þú munt sjá það betur þegar þú svarar spurningunum sem fara hér á eftir.
(1) Það sem þú lest gefur oft einhverja vísbendingu um hvers konar persóna Jehóva er.
Hvernig getur það haft áhrif á viðhorf okkar til Jehóva að íhuga með þakklátum huga það sem Biblían segir okkur um sköpunarverk hans? (Sálm. 139:13, 14; gefðu sérstaklega gaum í 38. til 42. kafla Jobsbókar versunum 38:1, 2 og 40:2, 8 og síðan 42:1-6.)
Hvað getum við ályktað í sambandi við Jehóva af atburðum eins og þeim sem sagt er frá í Lúkasi 5:12, 13, með hliðsjón af orðum Jesú í Jóhannesi 14:9, 10?
(2) Hugleiddu hvaða hlutverki frásagan gegnir í mótun heildarstefs Biblíunnar, það er að segja því að upphefja nafn Jehóva fyrir tilverknað Guðsríkis í höndum Jesú Krists, hins fyrirheitna sæðis.
Hvernig eru plágurnar í Egyptalandi tengdar þessu stefi? (Sjá 2. Mósebók 5:2; 9:16; 12:12.)
Hvaða hlutverki gegnir hin hrífandi frásaga af Rut hinni móabísku? (Rut. 4:13-17; Matt. 1:1, 5)
Hvernig fellur tilkynning Gabríels til Maríu um væntanlega fæðingu Jesú inn í myndina? (Lúk. 1:26-33)
Hvers vegna var það veigamikið atriði er lærisveinar Jesú voru smurðir með heilögum anda á hvítasunninni? (Post. 2:1-4; 1. Pét. 2:4, 5, 9; 2. Pét. 1:10, 11)
(3) Samhengið varpar oft ljósi á merkingu ritningargreina.
Hverjir eru ávarpaðir í Rómverjabréfinu 5:1 og 8:16?
Gefur samhengið til kynna að 1. Korintubréf 2:9 fjalli um lífið á jörðinni í nýrri skipan Guðs? Hverra augu og eyru skildu ekki, samkvæmt 6.-8. versi, það sem Páll skrifaði um?
(4) Spyrðu sjálfan þig hvernig þú getir heimfært á sjálfan þig það sem þú lest.
Er frásagan af því þegar Kain drap Abel einungis sögulegur fróðleikur, eða flytur hún okkur einhvern lærdóm? (1. Mós. 4:3-12; 1. Jóh. 3:10-15; Hebr. 11:4)
Þegar við lesum (í 2. Mósebók til 5. Mósebókar) um það sem henti Ísraelsmenn í eyðimörkinni, hvernig getum við heimfært það á sjálfa okkur? (1. Kor. 10:6-11)
Eiga heilræði um hegðun, rituð smurðum kristnum mönnum, erindi til þeirra sem hafa von um eilíft líf á jörðinni? (Samanber 4. Mósebók 15:16; Jóhannes 10:16)
Er tilefni til að íhuga hvernig við getum betur fylgt þeim heilræðum Biblíunnar, sem við þekkjum, jafnvel þótt við séum í góðu álíti í kristna söfnuðinum? (2. Kor. 13:5; 1. Þess. 4:1)
(5) Hugleiddu hvernig þú gætir notað það sem þú lest til að hjálpa öðrum.
Hverjum gæti frásagan af upprisu dóttur Jaírusar hjálpað? (Lúk. 8:41, 42, 49-56)
13. Hvaða árangurs getum við vænst af því að halda áfram að lesa Biblíuna og nema með skipulagi Jehóva?
13 Sé Biblían lesin með þessum hætti hefur það mikil laun í för með sér! Vissulega er biblíulestur verkefni sem kallar á framtak og aðgerðir — og við getum unnið að því alla ævina okkur til gagns. Þegar við gerum það munum við styrkjast andlega. Það mun tengja okkur hinum elskuríka föður okkar, Jehóva, nánari böndum, svo og kristnum bræðrum okkar. Það mun hjálpa okkur að fylgja því ráði að ‚halda fast við orð lífsins.‘ — Fil. 2:16.
Til upprifjunar
• Hvers vegna var Biblían skrifuð og varðveitt fram á okkar dag?
• Hvernig getum við hjálpað öðrum að meta hana að verðleikum?
• Hvaða gagn er af reglulegum biblíulestri? Frá hvaða fimm sjónarhornum getum við brotið til mergjar það sem við lesum?
[Spurningar]
[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 27]
Hugleiddu, þegar þú lest í biblíunni . . .
Hvað hver kafli segir þér um Jehóva sem persónu.
Hvernig hann tengist heildarstefi Biblíunnar.
Hvernig merkingin skilst af samhenginu.
Hvernig það ætti að hafa áhrif á lif þitt.
Hvernig þú getur notað það til að hjálpa öðrum.