Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hann sem allir spámennirnir báru vitni

Hann sem allir spámennirnir báru vitni

4. kafli

Hann sem allir spámennirnir báru vitni

1. Hvað sýna upplýsingar um fortilveru Jesú á himni um samband hans við Jehóva?

 JESÚS lýsti sínu nána sambandi við Jehóva þannig: „Faðirinn elskar soninn og sýnir honum allt, sem hann gjörir sjálfur.“ (Jóh,. 5:19, 20) Þetta nána samband byrjaði þegar hann var skapaður, óteljandi árþúsundum áður en hann fæddist sem maður. Hann var eingetinn sonur Guðs, sá eini sem Jehóva skapaði einn. Allt annað á himni og jörð var skapað með hjálp þessa heittelskaða, frumgetna sonar. Hann hafði einnig það hlutverk að vera orð eða talsmaður Guðs, hann sem sá um að vilja Guðs væri komið á framfæri við aðra. Þessi sonur, sem Guð hafði svo sérstakt dálæti á, varð maðurinn Jesús Kristur. — Kól. 1:15, 16; Jóh. 1:14; 12: 49, 50.

2. Í hvaða mæli vísa biblíuspádómarnir til Jesú?

2 Áður en hann fæddist með undraverðum hætti sem maður voru skráðir um hann tugir innblásinna spádóma. Pétur postuli bar vitni um það við Kornelíus: „Honum bera allir spámennirnir vitni.“ (Post. 10:43) Hlutverk Jesú í sambandi við hreina tilbeiðslu fær svo mikið rúm í Biblíunni að engill sagði Jóhannesi postula: „Tilbið þú Guð, því að vitnisburður um Jesú er andi spádómsins.“ (Opinb. 19:10, NW) Þessir spádómar sýna greinilega hver hann er og beina athyglinni að ýmsum þáttum tilgangs Guðs með hann sem eru mjög athyglisverðir fyrir okkur núna.

Það sem spádómarnir opinbera

3. (a) Hvern táknar „höggormurinn“ í spádóminum í 1. Mósebók 3:14, 15? Hvern táknar ‚konan‘ og ‚sæði höggormsins‘? (b) Hvers vegna myndi það hafa mikla þýðingu fyrir þjóna Jehóva að ‚höfuð höggormsins yrði marið‘?

3 Sá fyrsti af þessum mörgu spádómum var borinn fram eftir uppreisnina í Eden. Hann var fólginn í dómi Jehóva yfir höggorminum. Jehóva sagði: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt og þú skalt merja hæl þess.“ (1. Mós. 3:14, 15) Hvað merkti þetta? Í fyllingu tímans vörpuðu aðrir spádómar ljósi á það og bættu ýmsu við. Þar af leiðandi vitum við að sá sem talað var til, höggormurinn, er Satan djöfullinn. ‚Konan‘ er hið drottinholla himneska skipulag Jehóva sem er honum eins og trúföst eiginkona. ‚Sæði höggormsins‘ er bæði englar og menn sem láta í ljós anda djöfulsins, þeir sem standa á móti Jehóva og þjónum hans. Þegar haft er í huga hvernig djöfullinn notaði höggorminn í Eden mátti skilja að orð spádómsins um að ‚höfuð höggormsins yrði marið,‘ merktu að þessi uppreisnargjarni sonur Guðs, sem hafði rægt Jehóva og leitt miklar þjáningar yfir mannkynið, yrði afmáður einn góðan veðurdag. Um langa hrið var það hins vegar heilagur leyndardómur hvert yrði ‚sæðið‘ sem myndi merja hann. — Rómv. 16:25, 26.

4. Hvernig hjálpaði ætterni Jesú mönnum að þekkja hann sem hið fyrirheitna sæði?

4 Um það bil 2000 árum síðar gaf Jehóva nánari upplýsingar. Hann gaf til kynna að sæðið myndi koma fram í ætt Abrahams. (1. Mós. 22:15-18) Ættleggur sæðisins myndi þó ekki ráðast eingöngu af holdlegu ætterni heldur vali Guðs. Þrátt fyrir mikla ást Abrahams til sonarins Ísmaels, fæddur ambáttinni Hagar, sagði Jehóva opinskátt: „Minn sáttmála mun ég gjöra við Ísak, sem Sara mun fæða þér.“ (1. Mós. 17:18-21; 21:8-12) Síðar var þessi sáttmáli staðfestur, þó ekki við frumgetinn son Ísaks, Esaú, heldur Jakob, ættföður hinna tólf ættkvísla Ísraels. (1. Mós. 28:10-14) Er tímar liðu var opinberað að sæðið myndi fæðast í ættkvísl Júda og af ætt Davíðs. — 1. Mós. 49:10; 1. Kron. 17: 3, 4, 11-14.

5. Hvaða atburðir snemma á jarðneskri þjónustutíð Jesú sýndu að hann væri Messías?

5 Með meira en 700 ára fyrirvara nafngreindi Biblían Betlehem sem fæðingarstað sæðisins, en tók jafnframt fram að það hefði þegar verið til „frá fortíðar dögum,“ síðan það hafði verið skapað á himnum. (Míka 5:1) Spámaðurinn Daníel sagði fyrir hvenær hinn smurði þjónn Jehóva, Messías, myndi birtast á jörðinni. (Dan. 9:24-26) Þegar hann var smurður heilögum anda heyrðist rödd af himni sem lýsti yfir hver hann væri. (Matt. 3:16, 17) Því gat Filippus sagt með sannfæringarkrafti eftir að hann hafði gerst fylgjandi Jesú: „Vér höfum fundið þann, sem Móse skrifar um í lögmálinu og spámennirnir, Jesú frá Nasaret, son [það er fósturson] Jósefs.“ — Jóh. 1:45.

6. (a) Hvað gerðu fylgjendur Jesú sér ljóst eftir dauða hans? (b) Hver er aðalsæði konunnar og hvað er átt við með því að hann merji höfuð höggormsins?

6 Eftir þetta varð fylgjendum Jesú ljóst að hreinlega tugum spádóma um hann var fléttað inn í frásögu hinna innblásnu ritninga. Eftir dauða sinn og upprisu „útlagði“ hann persónulega „fyrir þeim það, sem um hann er í öllum ritningunum.“ (Lúk. 24:27) Nú er ljóst að Jesús er aðalsæði konunnar, hann sem kremur höfuð ‚höggormsins‘ með slíkum hætti að Satan verður fullkomlega afmáður. Í Jesú verða öll fyrirheit Guðs við mannkynið, allt sem við þráum hvað heitast, uppfyllt. — 2. Kor. 1:20.

7. Hvað er gott að íhuga, auk þess að ganga úr skugga um hvern sé átt við í þessum spádómum?

7 Þegar þú last suma þessara spádóma í fyrsta sinn spurðir þú kannski eins og epíópski hirðmaðurinn: „Um hvern segir spámaðurinn þetta?“ En hirðmaðurinn lét það ekki gott heita að fá svar við spurningunni. Eftir að hafa hlýtt gaumgæfilega á skýringu Filippusar gerði hann sér ljóst að hann yrði að sýna í verki að hann skildi og kynni að meta hvernig Jesús uppfyllti spádómana — hann lét skírast. (Post. 8:32-38; Jes. 53:3-9) Eru viðbrögð okkar með svipuðum hætti? Stundum höfðar það sterkt til okkar hvernig spádómur er borinn fram, eða þá að þær ályktanir, sem eru dregnar í Biblíunni sjálfri þegar bent er á uppfyllinguna, snerta hjörtu okkar.

8. Hér eru nefndar fjórar spádómlegar fyrirmyndir um Jesú Krist. Notaðu spurningarnar og ritningarstaðina við þær til að sýna fram á hvernig þessir spádómar snerta okkur. Taktu eitt atriði í einu.

8 Veittu þessu athygli í sambandi við eftirfarandi spádóma, loforð og fyrirmyndir um Jesú Krist. Reyndu að svara spurningunum með hjálp tilgreindra ritningarstaða:

 (1) Hvernig hjálpar frásagan af því er Abraham reyndi að fórna Ísak okkur að skilja og meta að verðleikum það sem Jehóva gerði þegar hann greiddi lausnargjaldið í mynd sonar síns? (Jóh. 3:16; 1. Mós. 22:1-8 [taktu eftir hvernig Ísak er lýst í 2. versi.])

 Hvaða trúartraust ætti þetta að gefa okkur? (Rómv. 8:32, 38, 39)

 Hvers er krafist af okkur? (1. Mós. 22:18; Jóh 3:36)

 (2) Hvaða alvarlega ábyrgð minnir Biblían okkur á þegar hún bendir okkur á Jesú sem spámanninn meiri en Móse? (Post. 3:22, 23; 5. Mós. 18:15-19)

 Nefndu sumt af því sem Jesús hefur sagt okkur. Hvers vegna er það tímabært núna? (Matt. 28:18-20; 19:4-9; 18:3-6)

 (3) Hvaða aðlaðandi eiginleika hjá Jesú sem æðsta presti bendir Biblían á þegar hún skýrir hvað prestdómur Arons var fyrirmynd um? (Hebr. 4:15-5:3; 7:26-28)

 Hvað ættum við að láta okkur finnast um að nálgast Guð í bæn fyrir milligöngu Krists, til að fá hjálp til að sigrast á veikleikum okkar?

 (4) Hvers vegna ættum við, í ljósi þess að fórn Jesú var miklum mun betri en fórnir færðar undir lögmálinu og kom í stað þeirra, að gæta þess mjög vandlega að venja okkur ekki á að gera neitt sem við vitum að er vanþóknanlegt Guði? (Hebr. 10:26, 27)

 Hvað munum við gera kappsamlega ef við metum að verðleikum lífsvonina sem fórn Jesú opnar okkur? (Hebr. 10:19-25)

Hvernig getum við sýnt trú okkar á Krist?

9. Hvers vegna er ekkert hjálpræði í öðrum en Jesú Krist?

9 Eftir að hafa bent hæstarétti Gyðinganna í Jerúsalem á hvernig spádómarnir hefðu uppfyllst á Jesú lauk Pétur postuli máli sínu með þessum áhrifamiklu orðum: „Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss.“ (Post. 4:11, 12; Sálm. 118:22) Allir afkomendur Adams eru syndarar, og dauði þeirra kemur því sem fordæming syndarinnar og hefur ekkert verðgildi sem verið geti lausnargjald fyrir einhvern annan. Jesús var hins vegar fullkominn og það að hann afsalaði sér lífi sínu hefur fórnargildi. (Sálm. 49:7-10; Hebr. 2:9) Hann færði Guði lausnargjald sem samsvaraði nákvæmlega að verðmæti því sem Adam hafði fyrirgert fyrir afkomendur sína. Hvernig hefur það gagnað okkur? — 1. Tím. 2:5, 6, NW.

10. Útskýrðu hvernig fórn Jesú er okkur til mikils gagns á einn veg.

10 Fórn hans hefur gert okkur kleift að hafa hreina samvisku því að syndir okkar hafa verið fyrirgefnar. Það er langtum meira en Ísraelsmenn gátu nokkurn tíma gert með dýrafórnunum undir Móselögmálinu. (Post. 13:38, 38; Hebr. 9:13, 14) Það hefur auðvitað í för með sér að við séum heiðarleg við sjálfa okkur og höfum ósvikna trú á Jesú Krist. Gerum við okkur fyllilega ljóst hversu brýna þörf við höfum fyrir fórn Krists? „Ef vér segjum: ‚Vér höfum ekki synd,‘ þá svíkjum vér sjálfa oss og sannleikurinn er ekki í oss. Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti.“ — 1. Jóh. 1:8, 9.

11. Hvers vegna er skírn í vatni þýðingarmikið skref til að hljóta góða samvisku gagnvart Guði?

11 Að sjálfsögðu getur verið að sumir, sem segjast vita að þeir séu syndarar og játa trú á Krist, og taka jafnvel einhvern þátt í að segja öðrum frá ríki Guðs eins og Jesús, sýni samt sem áður ekki fulla trú á Jesú. Hvernig þá? Hvernig létu menn opinberlega í ljós á fyrstu öldinni að þeir höfðu tekið trú? Þeir létu skírast. Hvers vegna? Vegna þess að Jesús hafði boðið að fylgjendur hans skyldu láta skírast. (Matt. 28:19, 20; Post. 8:12; 18:8) Þegar hin kærleiksríka ráðstöfun Jehóva, sem birtist í Jesú Kristi, snertir hjarta einhvers manns heldur hann ekki að sér höndum. Hann gerir þær breytingar í lífi sínu sem nauðsynlegar eru, vígir sig Guði og gefur tákn um vígsluna með því að skírast í vatni. Eins og Biblían sýnir er hann að ‚biðja Guð um góða samvisku‘ með því að láta trú sína birtast með þessum hætti. — 1. Pét. 3:21.

12. Hvað ættum við að gera og hvers vegna ef okkur verður ljóst að við höfum framið synd?

12 En jafnvel eftir þetta munu syndugar tilhneigingar koma í ljós. Hvað gerist þá? „Þetta skrifa ég yður til þess að þér skuluð ekki syndga,“ sagði Jóhannes postuli. Við ættum því ekki að gera lítið úr synd okkar, hvort sem hún birtist í verki, tali eða viðhorfum. „En ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta. Hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.“ (1. Jóh. 2:1, 2) Þýðir þetta að allt verði í besta lagi, óháð því hvað við gerum, ef við biðjum Guð einfaldlega að fyrirgefa okkur syndir okkar? Nei. Sönn iðrun er forsenda fyrirgefningar. Einnig getur verið nauðsynlegt að leita hjálpar öldunga í kristna söfnuðinum. Við verðum að viðurkenna að það sem við gerðum var rangt og finna til ósvikinnar iðrunar svo að við leggjum okkur einlæglega fram um að forðast að endurtaka það. (Post. 3:19; Jak. 5:13-16) Ef við gerum það megum við treysta á hjálp Jesú. Með því að trúa á friðþægingarmátt fórnar hans getum við endurheimt hylli Jehóva, og það er nauðsynlegt ef tilbeiðsla okkar á að vera honum þóknanleg.

13. (a) Útskýrðu hvernig fórn Jesú hefur gagnað okkur með öðrum hætti. (b) Hvers vegna getum við ekki áunnið okkur þessi laun með þjónustu við Guð? (c) Hvað munum við samt gera ef við höfum ósvikna trú?

13 Fórn Jesú hefur líka opnað okkur möguleika á eilífu lífi — á himnum fyrir ‚litla hjörð‘ og á jörð sem verður paradís fyrir milljarða annarra manna. (Lúk. 12:32; Opinb. 20:11, 12; 21:3, 4) Þetta eru þó ekki laun sem við ávinnum okkur. Hvað sem við gerum mikið fyrir Jehóva getum við aldrei veitt honum slíka þjónustu að hann skuldi okkur lífið. Eilíft líf er „náðargjöf Guðs . . . í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ (Rómv. 6:23; Ef. 2:8-10) Ef við höfum trú á þessa fórn og erum þakklát fyrir það hvernig hún var gerð möguleg mun það samt sem áður sýna sig í verki. Þegar við skiljum hvernig Jehóva hefur á stórkostlegan hátt notað Jesú til að gera vilja sinn og hversu lífsnauðsynlegt það er að feta nákvæmlega í fótspor þýðingarmesta í lífi okkar. Trú okkar mun birtast í sannfæringarkrafti okkar þegar við segjum öðrum frá þessari miklu gjöf Guðs. — Samanber Postulasöguna 20:24.

14. Hvernig stuðlar slík trú á Jesú Krist að einingu?

14 Slík tru býr yfir miklu sameiningarafli! Hennar vegna nálægjumst við Jehóva, son hans og hvert annað innan kristna safnaðarins. (1. Jóh. 3:23, 24) Hún fær okkur til að fagna því að Jehóva skuli af gæsku sinni hafa gefið syni sínum „nafnið, sem hverju nafni er æðra [nema nafni Guðs], til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottin.“ — Fil. 2:9-11.

Til upprifjunar

• Hvers vegna var Messías auðþekktur þeim sem í sannleika trúðu orði Guðs, þegar hann kom fram?

• Hvernig ættu hinar spádómlegu fyrirmyndir, lýst á blaðsíðu 34, að hafa áhrif á okkur?

• Á hvaða vegu hefur fórn Jesú þegar verið okkur til gagns? Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta hana?

[Spurningar]

[Rammi/myndir á blaðsíðu 34]

Spádómlegar fyrirmyndir um Jesú — hvernig ættu þær að snerta þig?

Abraham fórnaði Ísak.

Móse sem talsmaður Guðs.

Aron sem æðsti prestur.

Dýrafórnir