Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hlýddu ráðum, taktu umvöndun

Hlýddu ráðum, taktu umvöndun

16. kafli

Hlýddu ráðum, taktu umvöndun

1. (a) Er nokkur maður til sem ekki hefur þörf fyrir leiðbeiningar og aga? (b) Hvaða spurningar er viturlegt að íhuga?

 FLEST okkar fallast fúslega á að Biblían fari með rétt mál þegar hún segir: „Allir hrösum vér margvíslega.“ Ekki eru vandfundin dæmi um að okkur hafi mistekist að vera þess konar persónur sem orð Guðs hvetur okkur til að vera og við viljum vera. Við föllumst því á réttmæti þess sem Biblían hvetur til: „Hlýð þú ráðum og tak umvöndun, til þess að þú verðir vitur eftirleiðis.“ (Orðskv. 19:20) Við vitum að við þörfnumst slíkrar hjálpar. Vafalaust höfum við þurft að færa ýmislegt í lífi okkar til betri vegar, til að samræma það því sem við höfum lært af Biblíunni. En hver eru viðbrögð okkar ef kristinn meðbróðir okkar gefur okkur heilræði varðandi atriði þar sem höfum hegðað okkur óskynsamlega? Eða hvernig tökum við því ef hann kemur einfaldlega með uppástungu um hvernig við gætum bætt okkur í einhverju sem við gerum?

2. (a) Hvernig ættum við að sýna þakklæti fyrir ráð sem okkur eru gefin? (b) Hvernig ættum við ekki að bregðast við?

2 Þótt við höfum í fyrstu, vegna okkar ófullkomna eðlis tilhneigingu til að taka slíkt illa upp, ættum við í einlægni að þakka fyrir leiðbeiningarnar og reyna að fylgja þeim. Árangurinn getur verið mjög góður fyrir okkur. (Hebr. 12:11) En kannski höfum við samt reynt að réttlæta okkur, þegar okkur hafa verið gefin ráð, reynt að gera sem minnst úr alvöru málsins eða að koma sökinni á einhvern annan. Hefur þú einhvern tíma brugðist þannig við? Þegar þú hugsar til baka, finnur þú þá til gremju í garð þess sem ráðin gaf? Hefur þú tilhneigingu til að leita að göllum í fari hans eða gagnrýna hvernig hann leiðbeindi þér, rétt eins og það afsakaði á einhvern hátt veikleika þinn? Getur Biblían hjálpað okkur að yfirstíga slíkar tilhneigingar?

Fordæmi okkur til áminningar

3. (a) Hvað hefur Biblían að geyma sem getur hjálpað okkur að hafa rétt viðhorf til leiðbeininga og aga? (b) Notaðu spurningarnar hér að ofan til að brjóta til mergjar viðbrögð Sáls og Ússía við leiðbeiningum.

3 Auk þess að gefa í ríkum mæli beinar áminningar um þetta efni geymir orð Guðs frásagnir af einstaklingum sem þurftu að taka við leiðbeiningum. Oft voru ráðleggingarnar líka agi, því að sá sem ráðin fékk þurfti að breyta viðhorfum sínum eða hátterni. Þegar þú notar spruningarnar hér að neðan til að skoða sum af þessum dæmum, munt þú sjá að í þeim er fólgið margt sem við getum haft gagn af:

 SÁL KÍSSON: Hann hafði ekki hlýtt Jehóva fullkomlega, því að í stríði við Amalekíta hafði hann þyrmt konunginum og bestu skepnunum. (1. Sam. 15:1-11)

 Hvernig sýna viðbrögð Sáls við ávítum Samúels að hann reyndi að gera sem minnst úr sínu ranga verki? (v. 20) Á hvern reyndi hann að skella skuldinni? (v. 21) Hvaða afsökun bar hann fram þegar hann loks viðurkenndi hinn ranga verknað? (v. 24) Af hverju virtist hann samt hafa mestar áhyggjur þá? (v. 25, 30)

 ÚSSÍA: Hann gekk inn í musteri Jehóva til að brenna reykelsi, jafnvel þótt aðeins prestarnir hefðu leyfi til þess? (2. Kron. 26:16-20)

 Hvers vegna brást Ússía konungur reiður við þegar æðsti þresturinn reyndi að stöðva hann? (Samanber vers 16) Hverjar urðu afleiðingarnar? (v. 19-21)

4. (a) Hvers vegna áttu bæði Sál og Ússía erfitt með að taka við leiðbeiningum? (b) Hvers vegna er þetta líka alvarlegt vandamál núna?

4 Hvers vegna áttu báðir þessir menn svona erfitt með að taka við nauðsynlegum ráðleggingum? Vandamál þeirra var fyrst og fremst stolt; þeir hugsuðu of hátt um sjálfa sig. Margir valda sjálfum sér miklum harmkvælum af þessari sömu ástæðu. Eftir að hafa komist til einhverra mannvirðinga, annaðhvort sökum aldurs eða stöðu, hætta þeir að vera móttækilegir fyrir persónulegum ráðleggingum. Þeim virðist finnast það bera vott um einhvern ófullkomleika hjá sér eða kasta rýrð á mannorð sitt. En hinn raunverulegi veikleiki er þeirra eigið dramb. Þótt þessi ágalli sé algengur er það engin afsökun. Dramb er snara sem Satan leggur til að slæva hugsun manns svo að hann spyrni á móti kærleiksríkri hjálp sem Jehóva veitir í gegnum orð sitt og sýnilega skipulag. Jehóva aðvarar: „Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall.“ — Orðskv. 16:18; sjá einnig Rómberjabréfið 12:3; Orðskviðina 16:5.

5. Notaðu spurningarnar í þessari tölugrein til að ganga úr skugga um hvaða lærdóm megi draga af frásögunum um Móse og Davíð?

5 Á hinn boginn hefur Biblían að geyma góð fordæmi um menn sem þágu ráð. Við getum dregið dýrmætan lærdóm af þeim líka:

 MÓSE: Tengdafaðir hans gaf honum skynsamleg ráð um það hvernig hann gæti risið undir sínu mikla vinnuálagi án þess að bíða tjón á heilsu sinni. Móse hlýddi á og fór strax að ráðum hans. (2. Mós. 18:13-24)

 Hvers vegna var Móse móttækilegur fyrir góðum ráðum annarra, enda þótt honum væri falið mikið vald? (Samanber 4. Mósebók 12:3) Hversu mikilvægur er sá eiginleiki okkur? (Sef. 2:3)

 DAVÍÐ: Hann var sekur um hjúskaparbrot og hafði síðan lagt á ráðin um að maður konunnar yrði drepinn til að hann gæti gengið að eiga hana og þar með breitt yfir siðlausan verknað sinn. Nokkrir mánuðir liðu áður en Jehóva sendi Natan til að ávita Davíð. (2. Sam. 11:2-12:12)

 Brást Davíð reiður við ávítunum, reyndi að gera lítið úr hinum ranga verknaði eða bera af sér sökina? (2. Sam. 12:12; Sálm. 51:1-5) Þýddi sú staðreynd að Guð tók iðrun Davíðs gilda að Davíð og heimili hans hafi sloppið við slæmar afleiðingar rangrar breytni hans? (2. Sam. 12:10, 11, 14; 2. Mós. 34:6, 7)

6. (a) Hvernig leit Davíð á þá sem réðu honum heilt? (b) Hvernig er það okkur til góðs ef við tökum fúslega við slíkum ráður? (c) Hverju ættum við ekki að gleyma ef við þurfum að fá alvarlega aga?

6 Davíð konungur vissi af reynslunni að það gat borgað sig að taka við góðum ráðum annarra, og við eitt tækifæri þakkaði hann Guði fyrir þann sem ráðin gaf. (1. Sam. 25:32-35; sjá einnig Orðskviðina 9:8) Erum við þannig? Ef svo er verndar það okkur fyrir því að segja og gera margt sem við gætum þurft að sjá eftir síðar. En ef við komumst í þær aðstæður að við þurfum að hljóta alvarlegan aga, eins og Davíð í tengslum við synd sína með Batsebu, megum við þá aldrei missa sjónar á þeirri staðreynd að aginn er tákn um kærleika Jehóva og veittur með eilífa velferð okkar í huga. — Orðskv. 3:11, 12; 4:13.

Dýrmætir eiginleikar sem okkur ber að rækta

7. Hvaða eiginleika hafði Jesús sem menn verða að hafa til að komast inn í ríkið?

7 Til að varðveita gott samband við Jehóva og kristna bræður okkar þurfum við að rækta með okkur vissa persónueiginleika. Jesús benti á einn þeirra þegar hann setti lítið barn mitt á meðal lærisveina sinna og sagði: „Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki. Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki.“ (Matt. 18:3, 4) Þessir lærisveinar þurftu að bæta sig. Þeir urðu að losa sig við stærilæti sitt og rækta með sér auðmykt.

8. (a) Frammi fyrir hverjum verðum við að vera auðmjúk og hvers vegna? (b) Hvernig munum við bregðast við ráðleggingum ef við erum það?

8 Pétur postuli skrifaði síðar kristnum bræðrum sínum: „Skrýðist allir lítillætinu hver gagnvart öðrum, því að ‚Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð.‘“ (1. Pét. 5:5) Við vitum að við þurfum að framganga í auðmýkt fyrir Guði, en þessi ritningargrein segir að við þurfum að vera auðmjúk, lítillát í samskiptum við trúbræður okkar. Ef við erum það munum við ekki gera þau flónskumistök að bregðast illa við góðum ráðum sem þeir gefa okkur. Við munum vera fús til að læra hvert af öðru. (Orðskv. 12:15) Og ef bræður okkar telja nauðsynlegt að leiðrétta okkur munum við hafa hugfast að Jehóva notar í kærleika sínum þessa aðferð til að móta okkur, og ekki hafna leiðréttingunni. — Sálm. 141:5.

9. (a) Hvaða mikilvægur eiginleiki er nátengdur auðmýkt? (b) Hvers vegna ætti okkur að vera umhugað um áhrif breytni okkar á aðra?

9 Annar eiginleiki, nátengdur auðmýkt, er ósvikin umhyggja fyrir velferð annarra. Við fáum ekki umflúið þá staðreynd að það sem við gerum hefur áhrif á aðra. Páll postuli ráðlagði frumkristnum mönnum í Korintu og Róm að taka tillit til samvisku annarra. Hann var ekki að segja að þeir yrðu að forðast allt sem þá sjálfa langaði til, heldur hvetja þá til að gera ekkert sem gæti komið öðrum til að gera eitthvað sem samviska þeirra segði þeim vera rangt, og þar með valda þeim andlegu tjóni. Páll orðaði hina almennu meginreglu þannig: „Enginn hyggi að eigin hag, heldur hag annarra. . . . Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar. Verið hvorki Gyðingum né Grikkjum né kirkju Guðs til ásteytningar.“ — 1. Kor. 10:24-33; 8:4-13; Rómv. 14:13-23.

10. Hvað getur gefið vísbendingu um hvort við temjum okkur að fylgja þessu ráði Biblíunnar?

10 Hefur þú tamið þér að taka velferð annarra fram yfir eigin langanir? Hægt er að gera það á marga vegu, en hugleiddu eitt dæmi: Almennt talað er klæðnaður og hárgreiðsla smekksatriði svo lengi sem hann er látlaus, snyrtilegur og hreinn. En ef þú kæmist að því að klæðnaður þinn eða snyrting hindraði aðra í að hlutsta á boðskapinn um Guðsríki, ef til vill vegna þess að þeir væru sprottnir úr öðrum jarðvegi en þú, myndir þú þá gera breytingu? Er líf annarra þýðingarmeira fyrir þig en að þóknast sjálfum þér?

11. Hvað sýnir að það er mikilvægt að rækta þessa eiginleika ef við viljum vera sannkristnir menn?

11 Þegar þeir eiginleikar, sem ræddir eru hér á undan, verða hluti af persónuleika okkar ber það vitni um að við séum byrjuð að tileinka okkur huga Krists. Jesús setti hið fullkomna fordæmi um auðmýkt. (Jóh. 13:12-15; Fil. 2:5-8) Með því að sýna öðrum umhyggju, í stað þess að þóknast bara sjálfum sér, setti hann okkur fordæmi. — Rómv. 15:2, 3.

Hafnaðu ekki aga Jehóva

12. (a) Hvaða breytingar þurfum við öll að gera til að persónuleiki okkar þóknist Guði? (b) Hvað hjálpar okkur til þess?

12 Með því að við erum öll syndarar er breytinga þörf á viðhorfum okkar, tali og hegðun til að við getum endurspeglað persónuleika Guðs okkar. Við þurfum að íklæðast hinum ‚nýja manni.‘ (Kól. 3:5-14; Tít. 2:11-14) Leiðbeiningar og agi hjálpa okkur að koma auga á hvar við þurfum að bæta okkur og gera það síðan.

13. (a) Hvar og hvernig hefur Jehóva gefið okkur öllum leiðbeiningar og aga? (b) Hvernig ber okkur að bregðast við þeim?

13 Aðaluppspretta þessara leiðbeininga er Biblían sjálf. (2. Tím. 3:16, 17) Í gegnum biblíurit og samkomur, sem skipulag Jehóva sér okkur fyrir, hjálpar hann okkur síðan að koma auga á hvernig við eigum að fara eftir þessum ráðum. Viðurkennum við í auðmýkt þörf okkar fyrir þessar leiðbeiningar — jafnvel þótt við höfum heyrt þær áður — og gerum við okkur stöðugt far um að bæta okkur?

14. Hvaða frekari hjálp gefur Jehóva okkur sem einstaklingum?

14 Jehóva lætur okkur ekki um að berjast ein við eitthvað sem kann að vera erfitt vandamál fyrir okkur. Í kærleika sínum sér hann um að við getum fengið persónulega hjálp. Milljónir manna hafa fengið slíka hjálp í gegnum persónulegt biblíunám. Foreldrar bera sérstaka ábyrgð á að aga börnin sín, til að vernda þau fyrir breytni sem gæti valdið þeim miklum erfiðleikum og sorg síðar á ævinni. (Orðskv. 6:20-35; 15:5) Innan safnaðarins bera þeir sem hafa andlega hæfileika ábyrgð á að hjálpa öðrum í hógværðar anda með leiðbeiningum frá Ritningunni, þegar þeir sjá þörf á. (Gal. 6:1, 2) Með þessum hætti leiðbeinir Jehóva okkur og agar til að við getum dýrkað hann sem sameinað fólk.

Til upprifjunar

• Hvernig hjálpar Jehóva okkur með kærleiksríkum hætti til að sjá hvar við þurfum að gera breytingar?

• Hvers vegna eiga margir erfitt með að þiggja ráð? Hversu alvarlegt er það?

• Hvaða dýrmætur eiginleiki hjálpar okkur að vera móttækileg fyrir leiðbeiningum? Hvernig gaf Jesús fordæmi í því efni?

[Spurningar]