Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað er fólgið í skírn þinni?

Hvað er fólgið í skírn þinni?

12. kafli

Hvað er fólgið í skírn þinni?

1, 2. (a) Hvers vegna ættum við öll að hafa áhuga á vatnsskírninni? (b) Hvernig svarar þú í stuttu máli spurningunum í 2. tölugrein?

 ÁRIÐ 29 lét Jesús skírast í Jórdanánni. Jehóva fylgdist sjálfur með og lét í ljós velþóknun sína. (Matt. 3:16, 17) Þrem og hálfu ári síðar, eftir upprisu sína, gaf Jesús lærisveinunum þessi fyrirmæli: „Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá.“ (Matt. 28:18, 19) Hefur þú látið skírast í samræmi við þessi fyrirmæli Jesú? Ert þú að búa þig undir það?

2 Glöggur skilningur á skírninni er þýðingarmikill, hvort heldur er. Við hæfi er að íhuga spurningar eins og þessar: Táknar skírn kristinna manna nú á dögum hið sama og skírn Jesú? Á allt sem Biblían segir um skírn við þig? Hvað felst í því að lifa samkvæmt því sem kristin skírn táknar?

Skírn af hendi Jóhannesar

3. Við hverja takmarkaðist skírn Jóhannesar?

3 Um sex mánuðum áður en Jesús lét skírast fór Jóhannes skírari út í óbyggðir Júdeu og tók að prédika: „Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.“ (Matt. 3:1, 2) Í öllu héraðinu heyrði fólk prédikun Jóhannesar, játaði opinskátt syndir sínar og lét hann skíra sig í Jórdan. Sú skírn var fyrir Gyðinga. — Post. 13:23, 24; Lúk. 1:13-16.

4. (a) Hvers vegna var svona brýnt að Gyðingar iðruðust? (b) Hvað þurftu þeir að gera til að komast hjá því að ‚skírast með eldi‘?

4 Brýn nauðsyn var á að þessir Gyðingar iðruðust. Árið 1513 f.o.t. höfðu forfeður þeirra gert þjóðarsáttmála við Jehóva Guð við rætur Sínaífjallsins. Þeir höfðu hins vegar ekki lifað í samræmi við þá ábyrgð sem var sáttmálanum samfara, og hann dæmdi þá því syndara. Aðstæður þeirra voru því alvarlegs eðlis. „Hinn mikli og ógurlegi dagur [Jehóva],“ sem Malaki hafði spáð um, var í nánd, og hann kom árið 70 og leiddi skjóta eyðingu yfir Jerúsalem. Jóhannes skírari var sendur á undan þeirri eyðingu, með sömu kostgæfni gagnvart sannri guðsdýrkun og Elía spámaður, til að „búa [Jehóva] altygjaðan lýð.“ Gyðingar þurftu að iðrast synda sinna gegn lagasáttmálanum og búa hugi sína og hjörtu undir að taka við syni Guðs sem Jehóva ætlaði að senda þeim. (Mal. 4:4-6; Lúk. 1:17; Post. 19:4) Eins og Jóhannes sagði myndi sonur Guðs skíra með heilögum anda (þá skírn fengu trúfastir lærisveinar fyrst að reyna á hvítasunnunni árið 33) og með eldi (sem kom í mynd eyðingar árið 70 yfir þá sem ekki iðruðust). (Lúk. 3:16) Til að hljóta ekki þessa ‚skírn mað eldi‘ urðu Gyðingar fyrstu aldar að láta skírast í vatni til tákns um iðrun sína, og þeir urðu að gerast lærisveinar Jesú Krists þegar það tækifæri opnaðist.

5. (a) Hvers vegna hreyfði Jóhannes andmælum þegar Jesús kom til að láta skírast? (b) Hvað táknaði skírn Jesú í vatni? (c) Hvernig leit Jesús á það að gera vilja Guðs?

5 Jesus sjálfur var einn þeirra sem kom til Jóhannesar til að láta skírast. En hvers vegna? Jóhannes vissi að Jesús hafði engar syndir að játa svo að hann sagði: „Mér er þörf að skírast af þér, og þú kemur til mín!“ En skírn Jesú átti að tákna eitthvað annað, svo að hann svaraði: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ (Matt. 3:13-15) Skírn Jesú gat ekki táknað að hann iðraðist synda, og ekki þurfti hann að vígja sig Guði því að hann tilheyrði þjóð sem var þegar vígð Jehóva. Skírn hans, sem átti sér stað þegar hann var þrítugur og gat talist fullorðinn í samfélagi Gyðinga, táknaði að hann bauð sig fram til að gera sérstakan vilja síns himneska föður. Vilji Guðs með ‚manninn Krist Jesú‘ fól í sér starf tengt Guðsríki, svo og að hann fórnaði fullkomnu mannslífi sínu sem lausnargjaldi er einnig yrði grundvöllur nýs sáttmála. (Lúk. 8:1; 17:20, 21; Hebr. 10:5-10; Matt. 20:28; 26:28; 1. Tím. 2:5, 6) Jesús tók mjög alvarlega það sem vatnsskírn hans táknaði. Hann leyfði sér ekki að láta önnur hugðarefni ná tökum á sér. Allt þar til jarðlífi hans lauk einbeitti hann sér að því að gera vilja Guðs. — Jóh. 4:34.

Skírn til dauða

6. Hvaða annarri skírn skírðist Jesús og hvenær átti hún sér stað?

6 Í samræmi við það sem skírn Jesú í vatni táknaði skírðist hann einnig annarri skírn. Hann vissi að það verkefni, sem Guð hafði gefið honum, fól í sér að hann færði mannslíf sitt að fórn, en að hann yrði reistur upp sem andi á þriðja degi. Hann talaði um það sem skírn. Þessi „skírn“ hófst árið 29 en lauk ekki fyrr en hann dó og var reistur upp frá dauðum. Þrem dögum eftir skírn sína í vatni gat hann því sagt. „Skírn á ég að skírast. Hversu þungt er mér, uns hún er fullnuð.“ — Lúk. 12:50.

7. (a) Hverjir aðrir skírast til dauða? (b) Hver skírir þessari skírn?

7 Þeir sem ríkja munu með Kristi í ríkinu á himnum verða líka að skírast til dauða. (Mark. 10:37-40; Kól. 2:12) Við dauða sinn afsala þeir sér að eilífu mannslífi sínu eins og Jesús. Við upprisu sína sameinast þeir honum á himnum þar sem þeir eiga að stjórna með honum. Þessi skírn er ekki gerð af mönnum heldur Guði í gegnum sinn himneska son.

8. Hvaðmerkir það að þeir ‚skírist til Krists Jesú‘?

8 Þeir sem skírast til dauða Jesú eru líka sagðir ‚skírðir til Krists Jesú.‘ Vegna hins heilaga anda, miðlað fyrir milligöngu Krists, sameinast þeir honum, höfðinu, sem limir hins andagetna safnaðar, „líkama“ hans. Með því að þessi andi gerir þeim kleift að endurspegla hinn háleita persónuleika Krists má segja að þeir séu „allir eitt í Kristi Jesú.“ — Rómv. 6:3-5; 1. Kor. 12:13; Gal. 3:27, 28; Post. 2:32, 33.

Vatnsskírn kristinna lærisveina

9. (a) Hvenær var fyrst farið að skíra eins og sagt er fyrir um í Matteusi 28:19? (b) Notaðu þær spurningar og ritningartilvísanir sem fylgja þessari tölugrein, til að brjóta til mergjar hvað skírnþegar verða að viðurkenna samkvæmt boði Jesú?

9 Fyrstu lærisveinar Jesú hlutu vatnsskírn hjá Jóhannesi og var síðan beint til Jesú sem væntanlegir meðlimir andlegrar brúðar hans. (Jóhannes 3:25-30) Undir stjórn Jesú skírðu þeir síðan ýmsa fleiri. Sú skírn hafði sömu þýðingu og skírn Jóhannesar. (Jóh. 4:1-3) Frá og með hvítasunninni árið 33 fóru þeir hins vegar að fylgja því boði að skíra „í nafni föður, sonar og heilags anda.“ (Matt. 28:19) Þú munt hafa mikið gagn af því að rifja upp hvað það merkir, í ljósi ritningarstaðanna sem fylgja eftirfarandi spurningum:

 Hvað þarf að viðurkenna í sambandi við föðurinn ti að skírast „í nafni föður“? (2. Kon. 19:15; Sálm. 3:9; 73:28; Jes. 6:3; Rómv. 15:6; Hebr. 12:9; Jak. 1:17)

 Hvað þarf að viðurkenna til að skírast ‚í nafni sonar‘? (Matt. 16:16, 24; Fil. 2:9-11; Hebr. 5:9, 10)

 Hverju þarf að trúa til að skírast í nafni „heilags anda“? (Lúk. 11:13; Jóh. 14:16, 17; Post. 1:8; 10:38; Gal. 5:22, 23; 2. Pét. 1:21)

10. (a) Hvað táknar hin kristna vatnsskírn núna? (b) Í hverju er hún ókík skírn Jesú? (c) Hvað verða menn við skírnina ef þeir uppfylla skilyrði Biblíunnar?

10 Þeir fyrstu, sem voru skírðir samkvæmt þessum fyrirmælum Jesú, voru Gyðingar (og menn sem höfðu tekið gyðingatrú), en Gyðingaþjóðin var þegar vígð Guði og naut sérstakrar velvildar hans allt fram til ársins 36. En þegar þau sérréttindi að verða lærisveinar Krists buðust Samverjum og heiðingjum urðu þeir, áður en þeir létu skírast, persónulega að vígja sig Jehóva skilyrðislaust til að þjóna honum sem lærisveinar sonar hans. Allt til þessa dags er þetta þýðing kristinnar vatnsskírnar fyrir alla, þeirra á meðal Gyðinga. Þessi ‚eina skírn‘ á við alla sem gerast sannkristnir menn. Þar með verða þeir kristnir vottar Jehóva, vígðir þjónar Guðs, þjónar orðsins. — Ef. 4:5; 2. Kor. 6:3, 4.

11. (a) Hverju samsvarar hin kristna vatnsskírn og hvernig? (b) Frá hverju er kristinn maður þar með frelsaður?

11 Slík skírn er mikils virði í augum Guðs. Pétur postuli bendir á það eftir að hafa nefnt hvernig Nói smíðaði örk sem bjargaði honum og fjölskyldu hans í gegnum flóðið. Hann skrifaði: „Með því var skírnin fyrirmynduð, sem nú einnig frelsar yður, hún sem ekki er hreinsun óhreininda á líkamanum, heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists.“ (1. Pét. 3:21) Örkin var ápreifanlegur vitnisburður þess að Nói hefði vígt sig því að gera vilja Guðs, og hefði síðan trúfastur unnið það verk sem Guð fól honum. Það varð honum til björgunar. Á samsvarandi hátt er þeim sem vígja sig Jehóva á grundvelli trúar á hinn upprisna Krist, láta skírast til tákns um það og gera þaðan í frá vilja Guðs með þjóna sína nú, bjargað frá hinum illa heimi. (Gal. 1:3, 4) Þeir eiga ekki lengur tortímingu í vændum með heiminum. Þeir eru frelsaðir undan því og Guð hefur gefið þeim góða samvisku.

Lifað í samræmi við ábyrgð okkar

12. Hvers vegna er skírn í sjálfri sér ekki trygging fyrir hjálpræði?

12 Það væru mistök að ætla að skírnin sem slík væri trygging fyrir hjálpræði. Hún hefur gildi því aðeins að einstaklingurinn hafi í sannleika vígst Jehóva fyrir milligöngu Jesú Krists og geri síðan vilja Guðs, trúfastur allt til enda. — Matt. 24:13.

13. (a) Hvernig vill Guð að skírður kristinn maður noti líf sitt? (b) Hvaða þýðingu ætti það að vera kristinn lærisveinn að hafa fyrir okkur?

13 Vilji Guðs með Jesú fól í sér hvernig hann notaði líf sitt sem maður. Hann átti að leggja það í sölurnar sem fórn. Við eigum líka að bjóða Guði líkama okkar til að lifa fórnfúsu lífi. Við eigum að nota hann einungis til að gera vilja Guðs. (Rómv. 12:1, 2) Við værum vissulega ekki að gera það ef við, jafnvel aðeins stöku sinnum, hegðuðum okkur að yfirlögðu ráði eins og heimurinn í kringum okkur, eða létum líf okkar snúast um eigingjörn hugðarefni en þjónuðum Guði aðeins til málamynda. (1. Pét. 4:1-3; 1. Jóh. 2:15-17) Þegar Gyðingur nókkur spurði hvað hann yrði að gera til að hljóta eilíft líf minnti Jesús hann á nauðsyn þess að vera siðferðilega hreinlífur, og síðan benti hann á nauðsyn þess að láta það vera þýðingarmest í lífinu að vera kristinn lærisveinn, fylgjandi Jesú. Það ætti ekki að vera í öðru sæti, á eftir því að sækjast eftir efnislegum hlutum. — Matt. 19:16-21.

14. (a) Hvaða ábyrgð tengd Guðsríki hafa allir kristnir menn? (b) Á hvaða vegu er hægt að vinna þetta verk með góðum árangri, eins og lýst er á blaðsíðu 101? (c) Hvað erum við að láta í ljós ef við tökum af heilu hjarta þátt í slíku starfi?

14 Við ættum einnig að muna að vilji Guðs með Jesú fól í sér þýðingarmikið starf í þágu Guðsríkis. Jesús var sjálfur smurður sem konungur, en meðan hann var á jörðinni bar hann líka kostgæfilega vitni um það ríki. Við höfum sams konar vitnisburðarstarf að vinna og ærið tilefni til að taka þátt í því af heilu hjarta. Með því að gera það sýnum við að við metum drottinvald Jehóva mikils og elskum náunga okkar. Við sýnum einnig með því að við séum sameinaðir trúbræðrum okkar um allan heim, sem eru allir vottar Guðsríkis, í því að keppa að því marki sem er eilíft líf undir stjórn þessa ríkis.

Til upprifjunar

• Hvað er líkt og hvað ólíkt með skírn Jesú og vatnsskírninni núna?

• Hverjum var skírn Jóhannesar ætluð? Hverjir skírast til dauða? Hverjir „skírast til Krists Jesú“?

• Hvað er fólgið í því að lifa samkvæmt þeirri ábyrgð sem fylgir kristinni vatnsskírn?

[Spurningar]

[Rammi/myndir á blaðsíðu 101]

Hús úr húsi

Með því að heimsækja aftur áhugasama

Með því að stjórna biblíunámi

Á götunni

Í skólanum

Í vinnunni